21.9.2016 | 12:14
Fljóta þingmenn sofandi að feigðarósi gagnvart EES-máli sem stefnir í fullveldisframsalsbrot gagnvart stjórnarskrá?
Menn ættu að lesa stóralvarlega frétt um þingsályktunartillögu á Alþingi um að Ísland gangist undir yfirþjóðlegt fjármálaeftirlit ESB gegnum Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Þetta fæli í sér framsal á framkvæmdarvaldi og dómsvaldi að einhverju leyti, segir Björg Thorarensen, og "íþyngjandi ákvarðanir ... gagnvart lögaðilum og einstaklingum hér á landi, sem teknar yrðu af sérhæfðum eftirlitsstofnunum ESB á fjármálamarkaði."
Framsal samkvæmt EES-samningnum hafi upphaflega einkum snúist um eitt svið, þ.e. sektavald á sviði samkeppnismála, en síðan hafi fleiri og óskyld svið bæst við (Mbl.is),
og hér er það enn að gerast -- skref í þá átt í þessari óafgreiddu, stórhættulegu þingsályktunartillögu, en þingmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis virðast fljóta þar sofandi að feigðarósi.
Upphaflegur flutningsmaður þingsályktunartillögunnar var Gunnar Bragi Sveinsson, þáv. utanríkisráðherra!
Grein Hjartar J. Guðmundssonar um málið á Mbl.is er afar skýr og öflug að efni til og rekur vel öll helztu málsatriði, og þar er viðtal hans við Björgu Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands og sérfræðing í stjórnskipunarrétti, þungamiðjan, og rennur fullveldissinnum nánast kalt vatn milli skinns og hörunds að lesa það sem fram kemur í máli hennar. Og HÉR er sú afar fróðlega grein og ekkert of löng fyrir neinn að lesa.
Hér er hins vegar eldri frétt um málið: Stenst ekki stjórnarskrána.
Hér er trúlega eitt þeirra tímavillumála, þar sem alþingismenn fylgjast ekki með þróun mála og láta kerfiskarla í Brussel komast upp með að tala sig til að draga okkur enn meira undir sitt áhrifasvið til að fjötra okkur í sína valdrænandi skriffinnsku. Þegar sjálfur Þorbjörn Þórðarson, vel hæfur, upplýstur viðskiptablaðamaður Fréttablaðsins og Stöðvar 2, er farinn að skrifa tvívegis nýlega leiðara í Fréttablaðið, þar sem hann varar við tvíbentum ávinningi og jafnvel skaðsamlegum áhrifum EES-samningsins, þá ættu alþingismenn að taka við sér og einsetja sér að flana ekki að neinu í þessu alvörumáli sem hér var um rætt.
Umfram allt má ekki afgreiða þetta mál í bráðræði á lokadögum þessa þings, heldur leggjast aftur vel yfir allt málið og leita umsagna um þingsályktunartillöguna hjá færum stofnunum, samtökum og einstaklingum utan þings, en fram kemur á þessari vefsíðu Alþingis, að einungis var send umsagnarbeiðni um málið til EINS aðila! ("Allar umsagnabeiðnir (1).")
Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð Alþingis í stórmáli!
Jón Valur Jensson.
Verður ekki lengra komist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:07 | Facebook
Athugasemdir
Við þörfnumst eftirliðsaðila hverja einustu mínútu með þessari löggjafarsamkundu. Við værum löngu étin upp til agna,án þessara tryggu ættjarðarvina. Mútur mega sín einskis á móti kraftmiklum ættjarðarvinum.
Helga Kristjánsdóttir, 22.9.2016 kl. 05:47
Vel og skörulega mælt, Helga!
Heilar þakkir fyrir þína hjálp jafnan.
Jón Valur Jensson, 22.9.2016 kl. 06:19
Allmikið var fjallað um þetta málefni í hádegisfréttum Rúv í dag, enda mikið deilt um það á þingfundi í morgun.
Merkilegt þótti mér hve linur hinn annars ágæti Birgir Ármannsson er í málinu, en jafnvel Katrín Jakobsdóttir, form. VG, var mun skörulegri í orðum um að það sé mjög alvarlegt mál, ef hér sé gengið hart að fullveldisréttindum landsins.
Jón Valur Jensson, 22.9.2016 kl. 12:40
Jafnvel fv utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, segir að í þessari þingsályktunartillögu felist meira fullveldisframsal en dæmi séu um.
Hans "lausn" er hins vegar ekki skömminni skárri en hans alræmda ESB-auðsveipni fram til þessa: hann vill að við gerum þetta valdaframsal bara auðvelt með því að heimila það með stjórnarskrárbreytingu!!
Jón Valur Jensson, 22.9.2016 kl. 12:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.