24.6.2016 | 10:02
Glæsilegur sigur brezkra sjálfstæðissinna: 52% fylgjandi úrsögn úr ESB
Baráttan var æsispennandi fram undir morgun, en er ótvíræð eftir talningu í nær öllum héruðum landsins. Cameron hefur boðað afsögn sína innan þriggja mánaða. Donald Trump fagnar úrslitunum.
16,8 milljónir kusu að segja skilið við ESB, en 15,7 milljónir vildu tilheyra sambandinu áfram. Skotar og Lundúnabúar kusu ESB-aðildina áfram, en landsbyggðarmenn, m.a. íbúar Wales og héraða á Suður-Englandi, vildu slíta á sambandið.
Nigel Farage, formaður UKIP, sem sl. 20 ár hefur barist fyrir útgöngu Breta úr ESB, sagði á fundi með stuðningsmönnum þetta vera sigur fyrir venjulegt fólk, fyrir almennilegt fólk.
Hann hvatti David Cameron forsætisráðherra til að segja af sér, en AFP fréttastofan hefur eftir Philip Hammond utanríkisráðherra Bretlands að Cameron muni áfram gegna embætti forsætisráðherra. Bæði Boris Johnson, fyrrum borgarstjóri Lundúna, og Michael Gove sem tilheyra þeim armi Íhaldsflokksins sem vill segja skilið við ESB, hafa undirritað stuðningsyfirlýsingu við Cameron þar sem hann er hvattur til að sitja áfram. (Mbl.is)
En með morgninum kom tilkynning frá Cameron, að hann hygðist segja af sér. Íhaldsflokkurinn er í augljósri kreppu.
Skotland er hér í erfiðri aðstöðu:
Forsætisráherra Skota, Nicola Sturgeon, hefur sagt að úrslit kosninga sýni það skýrt að Skotar telji framtíð sinni best borgið innan ESB, en ESB aðild var ofan í öllum 32 héruðum Skotlands. (Mbl.is)
Að frátöldu Grænlandi, sem sérstaklega var ástatt um og valdi úrsögn úr Evrópusambandinu 1985, verður Bretland "fyrsta aðildarríkið í 60 ára sögu ESB til að yfirgefa sambandið. Það mun þó ekki gerast samstundis, en að sögn BBC mun úrsagnarferlið taka að lágmarki tvö ár. Stuðningsmenn úrsagnar úr ESB hafa sagt að ekki ætti að ljúka ferlinu fyrr en 2020, þegar þingkosningar fara næst fram í Bretlandi." (Mbl.is)
Formlega mun forsætisráðherra Bretlands "þurfa að ákveða hvenær hann eigi að virkja fimmtugustu grein Lissabon-sáttmálans, sem mun veita Bretum tvö ár til að semja um úrsögn úr sambandinu. Þegar búið er að virkja 50. grein sáttmálans þá getur Bretland ekki gengið í ESB að nýju án samþykkis allra aðildarríkja." (Mbl.is)
Og þetta hafði Cameron sagzt mundu gera, virkja greinina án tafar, ef kosningarnar færu á þennan veg, "en þeir Boris Johnson og Michael Gove, sem hafa verið áberandi í kosningabaráttu Brexit-liða hafa hvatt hann til að ana að engu. Þeir hafa þó einnig sagt að þeir vilji að vissar breytingar verði strax gerðar m.a. að vald dómara Evrópusambandsins gagnvart Bretum verði takmarkað og að frjálsu flæði verkafólks til landsins verði settar hömlur." (Mbl.is)
Hlutabréfavísitölur hafa fallið umtalsvert, einkum í brezkum bönkum. Stjórnandi Englandsbanka, Mark Carney, reynir í yfirlýsingu sinni að róa markaðinn, segir Englandsbanka "ekki hika við" að koma á stöðugleika markaða, og í því skyni verða 250 milljarðar punda lagðir til bankanna frá Englandsbanka (Guardian).
Jón Valur Jensson.
Bretar kjósa að ganga úr ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.