Tyrkland, sem "færzt hefur nær alræðis­stjórn", virðist ætla að fá sínu framgengt um frjálsan aðgang Tyrkja um Schengen-lönd

... og það án vega­bréfs­árit­un­ar! Er þetta hluti af samn­ingi um að Tyrk­ir taki aft­ur við flótta- og far­and­fólki sem hef­ur farið þaðan til Grikk­lands. Skil­yrði fyrir sam­komu­laginu virð­ast af létt­úðar­ástæð­um ætla að hafa lítið vægi, "Realpolitik" látin ráða. Þar með fá 79 og hálf milljón Tyrkja þennan aðgang að Íslandi og Noregi rétt eins og að flestum ESB-löndum (þó ekki Bretlandi og Írlandi). Allstórt hlutfall tyrkneskra borgara er hlynnt hryðjuverka­hreyfingum, og þar að auki er líklegt, að slíkir aðilar meðal Sýrlendinga og Íraka geti aflað sér falskra vegabréfa og komist þannig inn í Tyrkland og síðan um allt Schengen-svæðið.

Óháð afstöðu Ísendinga til Evrópu­sambandsins eru mörg gild rök gegn því, að við höldum áfram að vera aðilar að Schengen-samkomulaginu. Varnar­hags­munir Íslands og Norðurlanda ættu að vera hér augljóst umhugsunarefni. Meintri vörn í Schengen-kerfinu er nú þegar að stórum hluta kastað fyrir róða með því að fella niður kröfur þess kerfis um vegabréfa­eftirlit, en Þýzkaland og Austurríki voru einmitt fyrir nokkrum dögum að leggja áherzlu á fram­lengingu undan­þágna sinna frá því að fram­fylgja Schengen-skyldum sínum.

Evr­ópu­sam­bandið ótt­ast, að án vega­bréfa­sam­komu­lags­ins muni Tyrk­land ekki koma bönd­um á straum fólks inn í álf­una, segir í frétt BBC um málið. En það, hversu auðveldlega Tyrklandi hefur gengið þetta á allra síðustu vikum (um 80% árangur náðst við að stöðva fólk í för þess til Grikklands), hafa menn einmitt séð sem merki þess, að fram að því hafi stjórn Erdogans í raun verið að beita Evrópusambandið þumalskrúfu (að stoppa ekki flóttamenn af, sem vel var hægt) til þess að fá sínum kröfum framgengt í samningum, en þær kröfur Erdogan-stjórnarinnar ganga einkum út á þrennt: inntöku Tyrklands í Evrópusambandið (þ.e.a.s. að þeirra rykföllnu umsókn verði flýtt), sex milljarða evra greiðslu frá Brussel til Ankara (840 milljarða ísl. króna - og áframhald næstu ár!) og í 3. lagi, að tyrkneskir borgarar fái að leika lausum hala á Schengen-svæðinu!

Sjaldan hafa Evrópuríki gert jafnmikla undanláts- og uppgjafarsamninga sem þá, sem hér um ræðir, og minnir þetta óneitanlega á Münchenar-samkomulag Chamberlans og Daladiers við Hitler 1938!

Í frétt BBC er bent á, að Evr­ópuþingið og aðild­ar­ríki ESB þurfi að samþykkja þessa ráðstöf­un, áður en Tyrk­ir geti byrjað að ferðast vega­bréfs­laust um Schengen-svæðið. Þá geri ESB ýmsar kröf­ur til ríkja: að þau stand­ist kröf­ur um m.a. tján­ing­ar­frelsi, sann­gjörn rétt­ar­höld og end­ur­skoðun hryðju­verka­lög­gjaf­ar til að tryggja rétt­indi minni­hluta­hópa, áður en það aflétt­i kvöðum um vega­bréfs­árit­an­ir. Hætt er þó við, að í þeirri þýzku Realpolitik (hugtakið frá tíma Bismarcks) sem hér er greinilega á döfinni, verði svona "aukaatriði" annað­hvort snið­gengin eða beitt yfirborðs­legum kattarþvotti til að láta líta svo út, sem Tyrkland sé farið að "standa sig betur". En Tyrkjastjórn er þarna í þeim mun sterkari málamiðl­unar­stöðu sem hún hefur á síðustu mánuðum fjölgað mjög hand­tökum blaða­manna og lögsóknum gegn þúsundum manna vegna meintra móðgana við forsetann Erdogan.

Uggvænleg er því hin sennilega niðurstaða þessa máls, sbr. niðurlag fréttar Mbl.is af málinu:

  • Í um­fjöll­un BBC seg­ir að ef fram­kvæmda­stjórn ESB legg­ur til að Tyrk­ir fái að ferðast frjáls­ir inn­an Evr­ópu verði það með mikl­um trega. Erfitt sé að halda því fram að Tyrk­land stand­ist þess­ar kröf­ur, en stjórn­völd hafa fært sig nær alræðis­stjórn síðustu miss­er­in. Nauðsyn vegna flótta­manna­straums­ins til Evr­ópu knýi hins veg­ar á um að þetta verði látið eft­ir tyrk­nesk­um stjórn­völd­um.

En íslenzkum stjórnvöldum er frjálst að segja upp Schengen-samkomu­laginu. Og nú þegar þessar fréttir allar eru í hámæli, m.a. fyrir stundu í hádegisfréttum Rúv, þar sem Þorvaldur Friðriksson fréttamaður var með afar upplýsandi frétt og fréttarskýringu í málinu, þá getur ríkisstjórn okkar naumast skotið sér undan því að svara spurningum fréttamanna um hvort við séum ekki nauð­beygð, þessara breytinga vegna, til að segja upp Schengen-samningnum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tyrkir ferðast frjálsir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband