3.5.2016 | 12:41
Tyrkland, sem "færzt hefur nær alræðisstjórn", virðist ætla að fá sínu framgengt um frjálsan aðgang Tyrkja um Schengen-lönd
... og það án vegabréfsáritunar! Er þetta hluti af samningi um að Tyrkir taki aftur við flótta- og farandfólki sem hefur farið þaðan til Grikklands. Skilyrði fyrir samkomulaginu virðast af léttúðarástæðum ætla að hafa lítið vægi, "Realpolitik" látin ráða. Þar með fá 79 og hálf milljón Tyrkja þennan aðgang að Íslandi og Noregi rétt eins og að flestum ESB-löndum (þó ekki Bretlandi og Írlandi). Allstórt hlutfall tyrkneskra borgara er hlynnt hryðjuverkahreyfingum, og þar að auki er líklegt, að slíkir aðilar meðal Sýrlendinga og Íraka geti aflað sér falskra vegabréfa og komist þannig inn í Tyrkland og síðan um allt Schengen-svæðið.
Óháð afstöðu Ísendinga til Evrópusambandsins eru mörg gild rök gegn því, að við höldum áfram að vera aðilar að Schengen-samkomulaginu. Varnarhagsmunir Íslands og Norðurlanda ættu að vera hér augljóst umhugsunarefni. Meintri vörn í Schengen-kerfinu er nú þegar að stórum hluta kastað fyrir róða með því að fella niður kröfur þess kerfis um vegabréfaeftirlit, en Þýzkaland og Austurríki voru einmitt fyrir nokkrum dögum að leggja áherzlu á framlengingu undanþágna sinna frá því að framfylgja Schengen-skyldum sínum.
Evrópusambandið óttast, að án vegabréfasamkomulagsins muni Tyrkland ekki koma böndum á straum fólks inn í álfuna, segir í frétt BBC um málið. En það, hversu auðveldlega Tyrklandi hefur gengið þetta á allra síðustu vikum (um 80% árangur náðst við að stöðva fólk í för þess til Grikklands), hafa menn einmitt séð sem merki þess, að fram að því hafi stjórn Erdogans í raun verið að beita Evrópusambandið þumalskrúfu (að stoppa ekki flóttamenn af, sem vel var hægt) til þess að fá sínum kröfum framgengt í samningum, en þær kröfur Erdogan-stjórnarinnar ganga einkum út á þrennt: inntöku Tyrklands í Evrópusambandið (þ.e.a.s. að þeirra rykföllnu umsókn verði flýtt), sex milljarða evra greiðslu frá Brussel til Ankara (840 milljarða ísl. króna - og áframhald næstu ár!) og í 3. lagi, að tyrkneskir borgarar fái að leika lausum hala á Schengen-svæðinu!
Sjaldan hafa Evrópuríki gert jafnmikla undanláts- og uppgjafarsamninga sem þá, sem hér um ræðir, og minnir þetta óneitanlega á Münchenar-samkomulag Chamberlans og Daladiers við Hitler 1938!
Í frétt BBC er bent á, að Evrópuþingið og aðildarríki ESB þurfi að samþykkja þessa ráðstöfun, áður en Tyrkir geti byrjað að ferðast vegabréfslaust um Schengen-svæðið. Þá geri ESB ýmsar kröfur til ríkja: að þau standist kröfur um m.a. tjáningarfrelsi, sanngjörn réttarhöld og endurskoðun hryðjuverkalöggjafar til að tryggja réttindi minnihlutahópa, áður en það aflétti kvöðum um vegabréfsáritanir. Hætt er þó við, að í þeirri þýzku Realpolitik (hugtakið frá tíma Bismarcks) sem hér er greinilega á döfinni, verði svona "aukaatriði" annaðhvort sniðgengin eða beitt yfirborðslegum kattarþvotti til að láta líta svo út, sem Tyrkland sé farið að "standa sig betur". En Tyrkjastjórn er þarna í þeim mun sterkari málamiðlunarstöðu sem hún hefur á síðustu mánuðum fjölgað mjög handtökum blaðamanna og lögsóknum gegn þúsundum manna vegna meintra móðgana við forsetann Erdogan.
Uggvænleg er því hin sennilega niðurstaða þessa máls, sbr. niðurlag fréttar Mbl.is af málinu:
- Í umfjöllun BBC segir að ef framkvæmdastjórn ESB leggur til að Tyrkir fái að ferðast frjálsir innan Evrópu verði það með miklum trega. Erfitt sé að halda því fram að Tyrkland standist þessar kröfur, en stjórnvöld hafa fært sig nær alræðisstjórn síðustu misserin. Nauðsyn vegna flóttamannastraumsins til Evrópu knýi hins vegar á um að þetta verði látið eftir tyrkneskum stjórnvöldum.
En íslenzkum stjórnvöldum er frjálst að segja upp Schengen-samkomulaginu. Og nú þegar þessar fréttir allar eru í hámæli, m.a. fyrir stundu í hádegisfréttum Rúv, þar sem Þorvaldur Friðriksson fréttamaður var með afar upplýsandi frétt og fréttarskýringu í málinu, þá getur ríkisstjórn okkar naumast skotið sér undan því að svara spurningum fréttamanna um hvort við séum ekki nauðbeygð, þessara breytinga vegna, til að segja upp Schengen-samningnum.
Jón Valur Jensson.
Tyrkir ferðast frjálsir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Hermál, varnarmál, Trúmál og siðferði, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.