Aðildarumsóknin að ESB og stjórnarskrámálið eru sama málið


Árni Páll Árna­son sagði í bréfi sem hann sendi flokks­meðlim­um í Sam­fylk­ing­unni 11. febrúar sl.: „Við byggðum aðild­ar­um­sókn að ESB á flóknu baktjalda­sam­komu­lagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðild­ar­viðræður, sem hefði bundið alla flokka við um­sókn­ar­ferlið.“ En þarna játar Árni að umsóknarferlið hafi verið ein stór mistök.

Helgi Hjörvar þing­flokks­for­maður, sem fýsir að verða for­maður, tekur í svipaðan streng í yf­ir­lýs­ingu sem hann sendi fjölmiðlum í kjöl­far þess að hann til­kynnti fram­boð til for­mennsku í flokkn­um; „Það dug­ar ekki að bíða eft­ir evr­unni, held­ur þarf Sam­fylk­ing­in skýra stefnu­breyt­ingu.” - Sem er í sjálfu sér allt í lagi, en hann heldur áfram: “Við eig­um að halda aðild­ar­um­sókn­inni að ESB á lofti, en hætta að segja að allt sé ósann­gjarnt og verði áfram óhóf­lega dýrt á meðan við höf­um okk­ar veik­b­urða gjald­miðil.“ -Takið eftir, að hann segir að halda eigi aðildarumsókninni á lofti og viðurkennir þar með að hún hafi ekki verið dregin til baka og segir að krónan sé “veikburða gjaldmiðill.” Og hann sagði enn­frem­ur í yf­ir­lýs­ingu sinni: „Við meg­um ekki fresta því að breyta kerf­inu þangað til við fáum al­vöru gjald­miðil.“ Þessar yfirlýsingar Helga gefa okkur nasasjón af því hvernig hann myndi beita sér í Evrópusambands-aðildarmálinu, yrði hann formaður Samfylkingarinnar - væri hann vís til að gera allt til þess að liðka fyrir sem sneggstri innlimun í ESB.

En förum nú aftur í yfirlýsingar Árna Páls þar sem hann talar um flókið bak­tjaldamakk í tengslum við ESB "aðildar­viðræðurnar". Árið 2009 átti að ganga í sambandið að undan­gengnum breytingum á stjórnarskrá. Leitað var til Feneyja­nefndarinnar um álit á því hverju þyrfti helst að breyta og var það álit tilbúið 2010. Til að hægt væri að opna kafla er vörðuðu framsal valds og að gera okkur gjaldgeng til inngöngu þurfti að breyta ákvæðum í stjórnarskrá hvað þetta varðaði. Þá var á endanum skipað stjórnlagaráð sem síðar kom með tillögur að breytingum, sem áttu að vera samkvæmt forskrift Feneyja­nefnd­arinnar. (Það má taka fram að við skipun stjórnlagaráðs var litið framhjá úrskurði hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings). Þessi drög voru send Feneyja­nefndinni til yfirferðar og skilaði hún áliti sínu á þeim 2013 sem í stuttu máli sagði drögin ómöguleg þar sem of margir fyrirvarar væru á framsals­ákvæðum. Meðan svo var, var ekki hægt að opna kafla er vörðuðu framsalið og því sigldu aðlögunarviðræðurnar í strand. Þetta var aldrei viðurkennt og aðeins rætt um hlé á aðildarviðræðum. Reynt var að telja fólki trú um að aðildar­viðræðurnar svonefndu og stjórnar­skrár­málið væru tvö aðskilin mál sem þau voru að sjálfsögðu ekki. Enn er verið að vinna í stjórnarkrármálinu, því án valda­framsals í stjórnarskrá er ekki hægt að halda "aðlögunarviðræðum" – réttu nafni: aðildarferlinu – áfram.

Með því að rýna í gegnum þennan vef blekkinga og baktjaldamakks má sjá að ESB-umsóknin og stjórnarskrármálið eru sama málið.

Svonefndar rýniskýrslur voru gerðar af ESB, en mönnum var ekki mikið í mun að þær kæmu fyrir almenningssjónir. Er ástæðan eflaust sú að þar hefði komið fram á hverju steytti, nefnilega framsali valds í stjórnarskrá. Öll gögn um aðild­arumsóknina á að vera hægt að finna á vef utanríkis­ráðuneytisins, framvindu­skýrslur, álit stjórnarskrár­nefndar og ESB-Feneyja­nefndarinnar 2010 og 2013. En þar vantar þó enn rýniskýrslurnar. Þær hefur Össur séð ásamt fleirum, en þær eru of eldfimar til opinberar birtingar því að þær tengja þessi tvö mál saman svo ekki verður um villst.

Stjórnarskrárnefnd heldur áfram undirbúningsvinnu fyrir aðild að ESB án þess að fólk almennt átti sig á því. Ekki tókst að ná fram sáttum um framsals­ákvæðin í síðustu atrennu, en það má búast við því að það verði reynt áfram, því það er lykillinn að því að taka upp viðræður við ESB, sem strönduðu einmitt á þessum ákvæðum.

Það er mikil herkænska af Samfylkingunni að slaka á kröfunni um inngöngu í Evrópusambandið þegar vitað er að aðildarferlið er stopp og mun hvergi komast af stað fyrr en búið er að liða sundur stjórnarskrána til að gera okkur hæf til inngöngu og opna á kafla sem varðar framsal. Nú eru þeir komnir með forgangsröðina. Nú mun áherslan lögð á stjórnarskrárbreytingar til að greiða götuna. Ég vil hvetja fólk til þess að vera vel á verði og fylgjast vel með fréttum af stjórnarskráviðræðum. Sjáum hvort framsalsákvæðið komi aftur til umræðu. Skrifum og látum í okkur heyra og mótmælum ef troða á í gegn þessu ákvæði um skilyrðislaust framsal valds í stjórnarskrá lýðveldis okkar.

Steindór Sigursteinsson. Steindór er hér gestapenni samtakanna. Með þakklæti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki rímar þetta við það sem sífellt hefur verið kyrjað, að greinin í frumvarpi stjórnlagaráðs eins og það hljóðaði, hefði átt að vera notuð til að ganga ESB.

Hér er þvert á móti sagt að greinin hafi ekki leyft framsal valdheimilda í þeim mæli, sem ESB-sinnar hafi viljað.

Því er líka alveg sleppt að í 2009 gerði Framsóknarflokkurinn það að skilyrði fyrir að verja minnihlutastjórn Jóhönnnu falli, að farið yrði í að gera nýja stjórnarskrá, og að hugmyndin um Þjóðfund kom úr þingflokki Sjálfstæðismanna.

Ómar Ragnarsson, 26.2.2016 kl. 18:45

2 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

Svokallað "stjórnlagaráð" var mjög ótrútt hugmyndum Þjóðfundarins, Ómar, það áttu að vita. Ólíkt stjórnlagaráði, með sína allt of mörgu ESB-innlimunarsinna og aðra meðvirka, lagði Þjóðfundurinn mikla áherzlu á varðveizlu fullveldis landsins.

Lagahyggjumenn í Feneyjanefndinni hafa án efa séð formlega hrökra á því, að 111. gr. stjórnlagaráðs væri nægilega afgerandi laus við fyrirvara til að nota mætti hana með sæmilegum hætti sem leið til að koma Íslandi í Evrópusambandið; en þeir hafa kannski ekki vitað af þeirri gerræðishefð, sem viðgengizt hefur á Íslandi gagnvart lögum og rétti og jafnvel sjálfri stjórnarskránni (ítrekað braut t.d. Jóhönnustjórn og flokkar hennar stjórnarskrána, dæmi: 20. og 48. gr., en alvarlegast 16.-19. gr., eins og fjallað hefur verið um hér á síðunni). Og það er vegna þessarar veiku laga- eða löghlýðni-hefðar hér á Íslandi sem ákvæði 111. greinar tillagna ykkar í "ráðinu" voru í raun stórhættuleg, því að óbilgjörn, ófyrirleitin stjórn, sem lætur tilganginn helga meðalið, eins og einmitt Jóhönnustjórnin var og öðrum fremur utanríkisráðherrann Össur, skirrist sízt við að koma sínu fram jafnvel á grunni heimilda sem ættu ekki að nægja henni til þess 100%. Össur fór jafnvel þvert gegn ákvæðum 16.-19. gr. stjórnarskrárinnar, þegar hann sniðgekk vald forseta Íslands til að fjalla um þingsályktunartillöguna um umsókn um inngöngu í Evrópusambandið. Þeim mun fremur hefði þetta landlausa lið notfært sér 111. greinina ykkar. Og þau slógu reyndar skjaldborg um hana (þótt þau þættust hins vegar ekki hafa efni á að slá skjaldborg um skuldugt alþýðufólk) og gerðu það í því formi þess, að Valgerður Bjarnadóttir og samherjar hennar í stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd Alþingis beittu atkvæðavaldi gegn þeirri tillögu, að fullveldisframsalsheimild 11. greinarinnar yrði meðal þeirra tillagna eða atriða (spurninganna í þjóðaratkvæði 20. okt. 2012) sem þjóðin fengi að greiða atkvæði um.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 26.2.2016 kl. 21:01

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svarið til Ómars var mitt.

Jón Valur Jensson, 26.2.2016 kl. 21:03

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lestu betur Ómar.

Stórlagaráð var greinilega það heilaþvegið af því að um óskyld mál væru að ræða að það setti kyrfilega fyrirvara á framsalsákvæðin. Það varð til þess að Feneyjanefndin gaf drögunum falleinkun m.a. Og því sigldu bæði málin í strand samhliða.

Farðu svo rétt með söguna. Það var ekki framsóknarflokkurinn sem hafði frumkvæði að stjórnarskrármálinu. Bráðabirgðastjórnin ætlaði að ráðast í þetta með ofbeldi og keyra í gegn á sex til átta mánuðum, en þá setti framsókn það skilyrði fyrir stuðningi við stjórnina að málið yrði lagt undir Stjórnlagaþing. Það var fyrst og fremst til að tefja málið og koma því úr þeim farvegi sem til stóð og kaupa tíma. Þeir vissu eins og allir aðrir í upphafi að markmiðið var að ryðja evrópusambandsinngöngu braut.

Það átti að nota panikkið til að koma okkur með hraði í sambandið og það varð ekki gert nema með grundvallarbreytingum á stjórnarskrá. Það var meira segja biðlað til Feneyjanefndarinnar um greinargerð 2009 um það hverju þyrfti að breyta. Bæði þessa greinargerð og útektin á drögunum 2013 má finna á vef utanríkisráðuneytisins og ég skal glaður gefa þér hlekk á bæði plöggin ef þú finnur þau ekki.

Hér er frétt frá byrjun árs 2009 sem ætti að vera göð upprifjun fyrir þig:

http://www.visir.is/stjornarskra-breytt-fyrir-esb-adild/article/200938564492

Jón Steinar Ragnarsson, 26.2.2016 kl. 21:49

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lög um Stórnlagaþing voru samþykkt í júní 2010.

http://www.althingi.is/altext/stjt/2010.090.html

Þar eru talin upp átta atriði sem uppskrift að breytingum eftir tilsögn Feneyjanefndarinnar.

Atriðin sjö telur til framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð ríkisstofnana. Svo mikil varn nú grasrótarvinnan. 

Sett var á svið leikrit þar sem fólki far smalað inn í íþróttahús til að gera hópeflisæfingar og koma með stikkorð eins og Heiðarleiki, gagnsæi etc. Nokkuð sem kom þessari vinnu ekki að nokkru gagni.

sjöundi liðurinn er og var alltaf og er aðalatriðið og helsta hindrun inngöngu í ESB. Allt annað var skraut og ryk í augu múgsins.

Svo kom skoðanakönnunin sem fólki var talin trú um að væri þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá. Þar var spurt sex spurninga. Engin þeirra varðaði þetta grundvallaratriði. Það var aldrei nefnt á nafn.

Spurningarnar voru þessar:

1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

2 Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

3. Vilt þú aðí nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju.

4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til alþingis heimilað í meira mæli en nú er.

5. Vilt þú að í nýrii stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda allstaðar að af landinu vegi jafnt.

6. Vilt þú að í nýrri stjornarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjöðaratkvæðagreiðslu.

Það virðist trú margra að hrunið hafi orðið vegna ágalla í stjórnarskrá og það sé orsök þess ákafa að breyta þessum grundvallarlögum landsins. Sprenguronn var svo mikill að ekki var linnt látum fyrr en búið var að setja inn bráðabirgðarákvæði í stjórnarskránna sjálfa sem hleypi breytingum í gegn án þess að tvö þing fjalli um og þjöðaratkvæði komi í staðinn. Þetta var eitt af því fyrsta sem í raun var ákveðið að gera 2009 en var lagt á ís þegar framsókn setti skilyrðin fyrir stuðningi við stjórnina og stjórnlagaþing varð til. Þessu var svo síðar ýtt í gegn með látum og pólitískum hrossakaupum í bakherbergjum þegar samfylkingin sá að hún var brunnin út á tíma.

Hvað það er í þessum spurningum sem hugsanlega benti til þess að verið væri að taka á afleiðingum hrunsins mega menn spyrja sig áfram og reyna að finna tengingu, en ég get lofað því að hún er engin.

Evrópusambandsumsóknin og stjórnarskrármálið eru og voru alltaf sama málið. 

Offorsið við að keyra þetta í gegn nú og vonbrigðin með að ekki skyldi tekið á framsalsákvæðum markast fyrst og frems af því að tveggja þinga ákvæðið er óvirkt samkvæmt bráðabirgðargrein til júní 2017.  Menn ötla sér að hafa hraðar hendur áður en þjóðin fær minnið aftur og tengir málin tvö saman að nýju.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.2.2016 kl. 22:30

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Öll gögn um umsoknarferlið og vinnuna eru opinber og má finna á vef utanrikisruneytisins. Öll nema rýnisskýrslurnar er snúa að þeim köflum sem ekki var hægt að opna vegna fyrirstöðu um framsal í stjórnarskrá.

Nú er spurning um hver hefur frumkvæðið um þessa leynd. Af hverju opinbert ferli verður allt í einu hjúpað leynd. Skyldi frumkvæðið vera hjá sambandinu eða frá samfylkingunni. Það er ekki gott að vita og í mínum augum jafn líklegt.

Allavega er það frumskilyrði að opinbera þessar skýrslur áður en menn velta þessu frekar fyrir sér. Maður er þó bölsýnn á að það gerist vegna þess að þá verður lýðum ljóst á hverju steytti og órjúfanlega tenging stjórnarskrármálsins og Evrópusambandsumsóknarinnar verður loksins lýðum ljós.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.2.2016 kl. 22:43

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það hlýtur nú að fría okkur öll af samfélagslegri ábyrgð og kostnaði, ef við getum komið ábyrgðinni yfir á eitthvað sem kallað er EES/ESB og svo frv. ?

Eða hvað?

Er það virkilega skilningur tjáningarfrjálsra einstaklinga, í lýðræðisríki, að framsal á tjáningarfrelsi og lýðræði sé lausnin á öllum fyrri mistökum okkar sem búum á Íslandi?

Ég verð að viðurkenna mína vanvitans fávisku, þegar kemur að svona afsali á öllum mikilvægustu mannréttindabaráttumálum íslendinga?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 26.2.2016 kl. 23:50

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ómar, þú hlýtur að sjá það, að þú hefur ekki roð við honum Jóni Steinari. Hann hefur kynnt sér þessi mál í bak og fyrir og er t.d. með allt aðrar og traustari upplýsingar um aðkomu Framsóknarflokksins að málinu en þú í þinni einfölduðu mynd.

Eitt vil ég gera athugasemd við hjá honum, varðandi Þjóðfundinn 6. nóv. 2010. Fjarri fór því vitaskuld, að sá slembifundur stæði undir því nafni (eftir Þjóðfundinum fræga 1851) með þessum stikkorðum sínum, sem naumast áttu neitt erindi inn í skýra stjórnarskrá -- nema þó í einu atriði: að þessi seinni Þjóðfundur lagði réttilega mikla og ítrekaða áherzlu á fullveldi Íslands eða þjóðarinnar.

Þegar því hið ólögmæta "stjórnlagaráð" (og t.d. Þorvaldur Gylfason) víaði til Þjóðfundar þessa sem veitandi sér leiðsögn og nánast umboð til stjórnarskrárgjörðar, þá var það hámark hræsninnar, því að svo illa voru fullveldisákvæði gildandi stjórnarskrár leikin af þessu ólöglega stofnaða "stjórnlagaráði". (Nánar seinna.) Þar að auki hafði Þjóðfundurinn aldrei ætlazt til allsherjar-uppstokkunar á allri stjórnarskrá lýðveldisins, heldur aðeins breytinga á vissum málefnum þar. (Frh. seinna.)

Jón Valur Jensson, 27.2.2016 kl. 13:33

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

"... vísaði til Þjóðfundar þessa ..." átti vitaskuld að standa hér.

Vitja síðunnar heldur seinna.

Jón Valur Jensson, 28.2.2016 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband