30.1.2016 | 14:08
Nær fimm sinnum fleiri andvígir framsali hluta íslenzks ríkisvalds en hlynntir - og samt er hrikaleg tillaga nú í spilunum!
Í skoðanakönnun MMR sl. vor var spurt hvort kjósendur vildu láta breyta stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslenzks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Niðurstaðan var sú, að 14% voru því hlynntir, en 69% andvígir, þ.e.a.s. rétt tæplega fimm sinnum fleiri voru slíku framsali andvígir. Andríki kostaði þessa skoðanakönnun, sem birtist m.a. í Staksteinum Mbl. 22. maí 2015.
Af þessu er fullljóst, að tillaga Bjarna Benediktssonar, sem skömmu áður mælti með vissu framsali fullveldisheimilda, nýtur engrar almannahylli.
Pistill þessi frá 22.5. 2015 var endurbirtur hér efnislega óbreyttur.
En nú er það að gerast með aðkomu allra þingflokka, að s.k. stjórnarskrárnefnd þeirra er einmitt með slík áform um fullveldisframsal á verkefnalistanum og það með blessun leiðandi ráðherra í ríkisstjórninni!
Hve lengi á þessi þjóð að þurfa að þola réttarbrotin gegn þjóðarhagsmunum og sjálfum grunni lýðveldisins? Umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið var beint stjórnarskrárbrot gegn ákvæðum 16.-19. greinar um stjórnarráðstafanir eins og þingsályktanir um mikilvæg stjórnarmálefni (eins og skýr rök hafa verið leidd hér að í fyrri greinum og jafnvel Árni Páll Árnason viðurkenndi opinberlega 20.8. 2013 og minnti þar með óvart á að ESB-umsókn Össurar og hans eigin flokks var ólögmæt!).
Og nú er gerð atlaga að fullveldi okkar í málefnum ríkisins með því að leggja fram tillögu, sem yrði auðvelt sóknarfæri fyrir ESB-innlimunarsinna á Alþingi til að skella okkur nánast fyrirvaralaust inn í þetta stórveldasamband!
Og með hvaða hætti? Þjóðaratkvæðagreiðslu? Nei, heldur með samþykkt 2/3 hluta þingmanna! Já, þetta er í alvöru uppi á borðum hjá þessari þingskipuðu stjórnarskrárnefnd! Og höfum þá í huga, að sama Alþingi samþykkti með 70% atkvæða Buchheit-samningana um Icesave, í frumvarpi sem svipt hefði landið möguleikanum til að sýna fram á sakleysi þjóðarinnar í Icesave-málinu, eins og gerðist svo fyrir EFTA-dómstólnum í janúar 2013 og varð ekki sízt til þess að fella Jóhönnustjórnina.
Heimild mín fyrir þessu um 2/3 þingmanna kemur frá manni sem kunnugur er starfi nefndarinnar. Þar mun jafnvel vera á borðum tillaga í annarri grein, sem kveður á um, að í "eðlisskyldum málum" (hugtak sem á sér enga lagahefð) skuli ekki þurfa nema hreinan meirihluta þingsins til að bæta slíkum samþykktum við hina fyrri (þá sem þurfti 2/3 stuðning við)! Þar nægi sem sé að merja fram rúm 50%!
Sjálft mannvalið (ef orða má það svo) í þessa stjórnarskárnefnd er reyndar ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þar er t.d. ESB-innlimunarsinninn Valgerður Bjarnadóttir, einnig Jón Kristjánsson, fyrrv. ráðherra, fyrir Framsóknarflokk, en hann er alger Evrópusambandssinni og er meðal ýmissa annarra úr stjórnarflokkunum eins og Valgerðar Sverrisdóttur og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur í Evrópusamtökunum. Frá VG er fulltrúi í stjórnarskrárnefnd Katrín Jakobsdóttir, sem í einu og öllu stóð með Össurargenginu í ESB-umsókninni (sbr. hér: Vanhagar okkur um ESB-umsóknarkonu á Bessastaði? Katrín Jakobsdóttir snuðaði þjóðina og sveik kosningaloforð í ESB-máli).
Skásti maður stjórnarskrárnefndar er líklega Birgir Ármannsson, en auk hans mun vera þarna í nefndinni fyrrverandi þingkona sama flokks, hússtjórnarskólastjóri að bakgrunni. Fyrir Pírata er framkvæmdastjóri þeirra fulltrúi þar, kona sem talin er ESB-sinnuð. Nýjasti þingmaður Pírata (kona) mun einnig vera ESB-sinni, þótt hún láti það lítt uppi nú í seinni tíð. Það er því engum flokki að treysta í þessum Evrópusambandsmálum og tími til kominn að varnarmenn lýðveldisins geri sig klára í þá rökræðu og þau skrif í blöð og á netið, sem þörf verður á, þegar tillögur stjórnarskrárnefndar koma formlega fram.
Það er enginn fullveldisflokkur starfandi í landinu, en nauðsyn hans kannski aldrei verið brýnni!
Það, sem gerir áform stjórnarskrárnefndar enn alvarlegri, er hin fulla vitneskja um, að í tillögu hennar um "málskotsrétt þjóðarinnar" --- þ.e.a.s. að 15% þjóðarnnar (um 40.000 manns), með tryggri undirskriftasöfnun (ekki einberri netsöfnun), geti, innan fjögurra vikna marka, krafizt þjóðaratkvæðis um samþykkt lagafumvarp --- þá yrðu ekki aðeins fjárlögin undanþegin, heldur einnig lagafrumvörp um þjóðréttarsamninga. (sbr. hliðstæðu þessa í 67. gr. tillagna hins ólöglega skipaða "stjórnlagaráðs"). Þjóðin fengi því EKKI rétt til að krefjast þjóðaratkvæðis um Evrópusambands-inngöngu, ekki frekar en til þess að krefjast úrsagnar úr Evrópusambandinu!
Fullveldissinnar hafa ekki frekar en þjóðin sjálf efni á því að fljóta sofandi að feigðarósi í þessu máli, er það ekki nokkuð ljóst?
Jón Valur Jensson.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.