Nýjustu yfirskinsrök ESB-inntökusinnans

Kænn skriffinnur Fréttablaðs, Andrés Pétursson, hefur predikað árum, ef ekki áratugum saman, það sem í reynd er innlimun í ESB, þar sem við réðum jafn-miklu og heimiliskötturinn í húsi okkar. Vitaskuld liggur sá áhugi hans að baki þessari útsmognu grein hans í Fréttablaði dagsins: að vilja halda umsóknar­málinu opnu á næstu árum fyrir tilkippilega landsölu­flokka á Alþingi, en hér undir því yfir­skini, að við þurfum á þessu að halda gagnvart Norðmönnum!

Innlimunarhugsjón hans er að sjálfsögðu frágangssök gagnvart því að taka mark á slíkum málsvara stórveldis, sem ítekað hefur reynzt fjandsamlegt okkur, var það eindregið í Icesave-málinu með alls kyns þrýstingi (líka í EFTA-réttinum, þar sem þessir ranglætismenn þó töpuðu!) og felldi meira að segja einhuga sinn prívat-áfellisdóm yfir okkur í því máli í "gerðardómi" síðla hausts 2008, þar sem fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB, Seðlabanka (ESB)Evrópu og ESB-dómstólsins áttu sína fulltrúa, en Árni Mathiesen, ráðherra okkar, hafði vit á að skipa EKKI Íslending í þann stórhættulega "gerðardóm".

Eins hefur ESB beitt sér af hörku gegn okkur í makrílmálinu, og við hefðum ekki haft okkar yfir 100 milljarða tekjur af þeim fiskveiðum, ef við hefðum verið í þessu stórveldabandalagi.

Og þá er það þessi óþurftar-EES-samningur, sem gaf ævintýramönnum færi á útrásinni og var í raun það helzta sem olli okkar bankahruni. Undirritaður er fjarri því að vera einn um að vilja að við segjum upp þeim samningi, en í þessari útsmognu grein Andrésar, þar sem hann uppteiknar "samninga­viðræður" við Evrópusambandið sem björgunarhring fyrir okkur til að þurfa ekki að lúffa fyrir Norðmönnum vegna greiðslna til fátækra ESB-landa, þar ber hann því þó sjálfur vitni, að það er þetta sama Evrópu­sam­band sem er SJÁLFT að krefjast 6 og hálfs milljarðs króna af okkur í þessa hít í Austur-Evrópu, sem kemur okkur hreint ekkert við! 

Aldrei hefur sézt nein reikningsúttekt á meintum hag okkar af EES-samn­ingn­um, og ljóst er reyndar að í tengslum við bóluárin og hrunið og afleið­ingar þess töpuðum við GÍGANTÍSKT á honum. Því segja nú margir ekki aðeins: Niður með ESB-umsóknina, heldur einnig: Burt með EES-samninginn, og skoðum svo Schengen-samninginn líka! (sbr. frétt af ummælum Frosta Sigurjónssonar o.fl nú í vikunni).

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband