10.2.2015 | 16:44
Maðurinn, sem margbraut stjórnarskrána, kastar grímunni, boðar "eld og brennistein"!
ÖSSUR þverbraut 16.19. gr. stjórnarskrár* um að þingsályktunartillögu um mikilvægt stjórnarmálefni skuli bera upp fyrir forseta í ríkisráði. Í staðinn rauk Össur út með hana og tvíafhenti Evrópusambandinu í ofurkátínu sinni.
Samt segir skýrum stöfum í 19. gr. stjórnarskrárinnar: "Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum." Þetta hefur Össur Skarphéðinsson ekki þorað að leggja út í, að bera tillöguna undir forsetann, enda hefði hann verið líklegur til að vilja fyrst leita álits þjóðarinnar um málið, ólíkt ráðherrum Jóhönnustjórnar, sem felldu tillögur um slíkt. En vegna þessarar stjórnarskrár-óhlýðni ráðherrans og vinstri stjórnarinnar hefur forsetinn aldrei undirritað þingsályktunartilöguna um að sækja um inngöngu í ESB. Hún hefur sem sé, samkvæmt 19. greininni, EKKI gildi.
Nú hótar Össur "eldi og brennisteini", ef eða þegar væntanleg tillaga um að slíta formlega þessu ferli öllu verður lögð fram af ríkisstjórninni!
Esb-Fréttablaðið segir í dag á forsíðu með augljósri velþókknan frá þessum hótunum Össurar um að mæta tillögunni með eldi og brennisteini nú skal það, sem hingað til hefur verið stundað með lymskunni á mörgum sviðum (rammhlutdrægum síbylju-gervifréttaflutningi, m.a. á sjálfri fréttastofu Ríkisútvarpsins, og með herkvaðningu til Samfylkingarmanna að mæta á sífellt fámennari útifundi), verða framkvæmt grímulaust og með hávaðalátum sem vel fjármögnuð árásarstefna ein getur megnað. Þjóðin sjálf vill hins vegar ekki fara inn í þetta Evrópusamband og hefur aldrei viljað síðan Össur laumaðist út með sína ógildu þingsályktunartillögu árið 2009! Það sýna allar skoðanakannanir síðan þá; sbr. og hér neðar.
Fréttablaðið, sem var í stjórnarSAMstöðu með afleitlega vanhæfri ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu, er nú í bullandi stjórnarandstöðu. Eftir því er allur málflutningur blaðsins í dag, vitnað t.d. í ónafngreinda "heimildarmenn innan Sjálfstæðisflokksins" sem "hafa sumir hverjir talið litla þörf á framlagningu" tillögunnar, sem vænzt er frá Gunnari Braga utanríkisráðherra; sést lítilvægið í "rökum" Fréttablaðsins t.d. í þessari framhaldssetningu: "Ljóst sé að hún muni taka tíma frá öðrum málum á Alþingi og tíminn til þingfrestunar naumur"! En hingað til hefur öllu verið borið við til að tefja það að þessi langþráða tillaga komi fram frá utanríkisráðherra og ríkisstjórn, alls kyns smámál og nú síðast kjarasamningar sem þó fóru ekki fram á Alþingi!
Hér á þjóðin ekki í höggi við einhverja stjórnarandstöðu, sem þekkir sín takmörk og virðir þingræðið, heldur við þá sem bíta í skjaldarrendur og hóta eldi og brennisteini, ef þeirra óskhyggja og kröfufrekja nær ekki fram að ganga.
Ný skoðanakönnun. Af þeim, sem tóku afstöðu í nýrri könnun MMR, eru (að frátöldum hlutlausum og óákveðnum) 59,3% andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið, en 40,7% hlynnt því að Ísland gangi í sambandið.
* 16.19. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands hljóða þannig:
- 16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
- Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
- 17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.
- 18. gr. Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
- 19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.
Jón Valur Jensson.
Færri andvígir inngöngu í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er kannski svolítið poteitó/pótató komment, en mér skilst að forseti undirriti ekki þingsályktunartillögur og þurfi ekkert að gera það. Hins vegar var ákvörðun um umsókn að aðild að Evrópusambandinu tekin í ríkisstjórn að undangenginni þingsályktun. Svona umsókn er að mínu mati hins vegar svo mikilvæg stjórnarráðstöfun að hana hefði átt að bera upp í ríkissráði, sbr. 2.mgr. 16.gr. stjórnarskrár, því það er forsetinn, sem gerir samninga við önnur ríki samkvæmt 21.gr., en ekki ráðherrar eða ríkisstjórnin ein og sér. Ráðherrar framkvæma einungis það vald sem forseti hefur. Samt eru einungis nöfn Jóhönnu og Össurar á umsókninni. Man þó ekki til þess að ÓRG hafi gert athugasemd um þetta vinnulag til þessa, og hefur hann þó haft skoðun á ýmsu sem forseti skipti sér ekki af opinberlega fyrr en hann tók við.
Einnig væri fróðlegt væri að sjá sambærileg skjöl vegna umsóknar um aðild að SÞ og og stofnaðild að Atantshafsbandalaginu, hvort þau beri undiritun þáverandi forseta.
Erlingur Alfreð Jónsson, 10.2.2015 kl. 18:44
Þakka þér þitt álit, Erlingur.
Það eru einungis þær þingsályktunartillögur, sem teljast EKKI "mikilvægar stjórnarráðstafanir" (16. gr.) eða eru EKKI "mikilvæg stjórnarmálefni" (17. gr.), sem ekki þarf að bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
Þingsályktunartillagan um umsókn um aðild að Evrópusambandinu (inngöngu í það stórveldi) er greinilega í "mikilvæga" flokkinum, og um það bar Árni Páll Árnason, núv. formaður Samfylkingarinnar, skýrt vitni í orðum sínum, sem HÉR eru tíunduð.
Jón Valur Jensson, 10.2.2015 kl. 20:22
Í tenglinum hér á undan ("HÉR") var vísað til þess, að í Fréttablaðinu 20.8. 2013 hafði Árni Páll Árnason m.a. spurt: "Telur utanríkisráðherra ekki að aðildarviðræður við Evrópusambandið séu mikilvægt stjórnarmálefni í skilningi 17. greinar stjórnarskrár?"
Þarna gengur Árni Páll út frá sannleika þeirra orða, að þetta teljist mikilvægt stjórnarmálefni samkvæmt stjórnarskrá. En einmitt þess vegna ætti Árni Páll að sjá, að það var stjórnarskrárbrot að bera ekki þetta mikilvæga stjórnarmálefni undir forseta Íslands í ríkisráðinu og leita eftir undirskrift hans.
Þingsályktunartillagan var með þessu gerð harla ómerk, að skorta þessa formlegu, síðustu staðfestingu á gjörð hennar.
Raunar var málið allt eitt af fleiri málum þáverandi ríkisstjórnar (sem sumir kalla "Skjaldborgarleikhúsið") þar sem á skorti um að fulls lögmætis væri gætt og farið að reglum.
Já, það er undarlegt, ef Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ætlar að standa að því með Össuri stjórnarskrárbrjóti að að bregða með öllum ráðum fæti fyrir það, að hin ólögmæta Össurar-umsókn um "aðild" að Evrópusambandinu verði dregin til baka.
Augljóst er, að Árni Páll er í veikri aðstöðu til að standa að málþófi um varnir fyrir hina til stofnuðu Össurartillögu, sem allt frá upphafi hefur verið sundrungarefni fyrir þjóðina. Heilnæmt verður að losna við hana með því að draga hana formlega til baka og tilkynna það suður í Brussel.
Jón Valur Jensson, 11.2.2015 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.