1.12.2014 | 01:06
Hylling 1. desember, í ljóði eftir Jón frá Ljárskógum
F U L L V E L D I Ð T V Í T U G T
Hann gnæfir úr daganna fábreyttu fylking
fullur af gleði, bjartur af sól
1. desember –– fagnaðardagur
fátækrar þjóðar við norðurpól.
Í dag er bjart yfir byggðum Íslands.
Hver barmur svellur af djarfri þrá,
og vonanna glæstu svanir svífa
á sólgeislavængjum um loftin blá.
Hann er heiður á svip, þessi hátíðisdagur,
svo að hugirnir fyllast af sumaryl,
hann ljómar sem viti í skammdegisskugga,
hann skín eins og leiftur í vetrarins byl,
hann er ráðning á fólksins fegursta draumi
um framtíðargiftu þjóðar og lands,
hann er langþreyð fullnæging frelsisþránni,
sem felst í brjósti hvers íslenzks manns.
Í dag er horft yfir sögunnar síður:
þar sviptast um völdin húm og skin
og ýmist leikur þar æðandi stórhríð
eða angandi vorblær um frónskan hlyn.
Þar skiptast á glaðir og tregandi töfrar
hins talaða orðs og hins slungna ljóðs
og þar eru líka letraðir kaflar
logandi feiknstöfum elds og blóðs.
Þar lítum vér baráttu lítillar þjóðar
við lífskjör, sem oft voru döpur og ströng
í styrjöld við eldgos, hafís og hríðar,
hungur og klæðleysi, nauðir og þröng,
–– fólk, sem í barnslegri fávizku seldi
frelsis síns dýrgrip erlendri hönd,
fólk, sem örmagna í fjötrum stundi,
en fékk ekki slitið harðstjórans bönd.
Í dag er hún hyllt, hin frækna fylking,
svo framgjörn, svo djörf, svo íturglæst,
sem undir frelsisins merkjum mættist,
og menningu Íslands lyfti hæst.
Þessi heiðríki dagur geislandi gleði,
sem gaf oss hin liðna tíð í arf,
er helgaður þessum hetjum Íslands
í hljóðri þökk fyrir unnið starf.
–– –– ––
Hann gnæfir úr daganna fábreyttu fylking
fullur af gleði, bjartur af sól
1. desember –– fagnaðardagur
fátækrar þjóðar við norðurpól. ––
–– Þá sameinast reynslunnar alda-arfur
við æskunnar stoltu fyrirheit
og kynslóðir mætast í handtaki hlýju
frá hafi til hafs –– í borg og sveit.
Jón Jónsson frá Ljárskógum var fæddur 28. marz 1914 og lézt aðeins 31 árs að aldri á Vífilsstöðum 7. október 1945. Ljóð þetta er úr bók hans Gamlar syndir og nýjar, Reykjavík: Helgafell, 1947, en fyrri bók hans var Syngið strengir, Rvík 1941. Þjóðkunnur var hann ekki aðeins af ljóðum sínum, heldur og af söng sínum í MA-kvartettinum ástsæla, en stúdent var hann frá Menntaskólanum á Akureyri (1934), var um tíma við nám í guðfræðideild Háskóla Íslands og kennari við gagnfræðaskólann á Ísafirði einn vetur, en varð að lúta í lægra haldi fyrir berklaveikinni. Aldarafmælis hans var minnzt í Búðardal í marz síðastliðnum. –– Kona hans var Jónína Kristín Kristjánsdóttir frá Ísafirði og sonur þeirra Hilmar Bragi meistarakokkur. Þetta ljóð er birt hér með góðfúslegu leyfi hans, og er okkur á Fullveldisvaktinni mikill heiður að því. –JVJ.
Athugasemdir
Já, 1. desember er vissulega fagnaðardagur. Takk fyrir sendinguna.
Ragnhildur Kolka, 1.12.2014 kl. 13:30
Fullveldi einstaklinga er meðfætt frelsi hér á þessari jörð. Það er mín sérviskulega og óumbreytanlega skoðun. 1.Desember mætti svo sannarlega bera þess merki á einhvern hátt. En gerir það ekki í þeim raunheimum sem við upplifum flest.
Undarlegt að það skuli þurfa baráttu til að virkja meðfætt fullveldi til lífs, allra þessara frjálst borinna einstaklinga víðsvegar um jörðina? Og sama gildir um friðsamlegt trúfrelsi víðsvegar um jörðina? Hvers vegna þarf baráttu um friðsamlegt kærleikstrúfrelsi frjálst borinna og friðsamlegra einstaklinga?
Dengsi (Hilmar Bragi) getur svo sannarlega verið stoltur af pappa sínum fyrir hans fjölmörgu og hjartans góðu hæfileika.
En stoltastur getur Dengsi,(Hilmar Bragi Jónsson), verið af því, að pabbi hans hætti námi í guðfræði, vegna þess að honum leist ekkert á það sem í guðfræðinni var kennt. Ég er líka stolt af honum frænda mínum, fyrir þann sanna og heiðarlega kærleiksanda sem hann hefur skilið eftir sig hér á eyjunni veglausu og villuráfandi. Hann var of kærleikstrúfastur til að láta glepjast að prestsnáminu :)
Hann hefur gert vart við sig, og beðið fyrir kæra kveðju. Því er hér með komið til skila :)
Með bestu kveðju :)
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.12.2014 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.