3.10.2014 | 17:28
Hanna Birna Kristjánsdóttir vill að ESB-umsóknin verði dregin til baka
Hanna Birna, sem hefur áður lýst því yfir, að hún teldi rétt að slíta viðræðum við Evrópusambandið,* hefur nú ítrekað það, að hún telji rétt að draga umsóknina til baka, á fundi hennar með Sambandi eldri sjálfstæðismanna, þar sem hún hélt ræðu.
Þetta eru ánægjuleg tíðindi af innanríkisráðfrúnni og verða vonandi til að hreyfa málum í stjórnarflokkunum og ganga endanlega frá jarðarför Össurarumsóknarinar ólögmætu frá árinu 2009.
Ágætur maður, Karl Jónatansson, átti stutt, en gott bréf í Mbl. í gær:
- Efndir óskast
- Ég er einn þeirra sjálfstæðismanna sem gáfu flokknum atkvæði sitt í síðustu kosningum gegn því að hann stæði við loforð sitt um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að ESB. Nú eru liðin rúm tvö ár og ennþá bólar ekki á neinu framtaki hjá þessari ríkisstjórn okkar til að gera hreint fyrir okkar dyrum gagnvart ESB. Ég hreinlega trúi ekki að þessir gömlu bandamenn (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn), sem hafa frá stofnun barist fyrir sjálfstæði Íslands, ætli að horfa upp á baráttu forfeðra sinn, frelsi okkar og sjálfstæði kæft í klónum á ESB á vakt Bjarna Ben hins yngri.
- Heiðraða ríkisstjórn: Það er kominn tími til að standa við stóru orðin og að hætta að draga lappirnar af ótta við að missa atkvæði í framtíðarkosningum. Tilkynnið ESB ákvörðun Íslendinga um áframhaldandi sjálfstæði með því að draga til baka umsókn Íslands að ESB með formlegum hætti!
- Karl Jónatansson.
Undir þetta er okkur í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísand ljúft og skylt að taka.
JVJ.
* M.a. í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgunni í nóvember 2012, fyrir síðustu alþingiskosningar (eins og Fréttablaðið greinir frá í dag).
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 5.10.2014 kl. 15:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.