23.9.2014 | 15:32
Fjarlægjumst ESB frekar eins og Bretar heldur en hitt
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gefur lítið fyrir, að innan ESB sé "skjól og stöðugleiki", og segir réttilega enga þörf fyrir Ísland að ganga í þetta ríkjasamband.
- Bjarni sagðist ekki vita hvort sá stöðugleiki sem væri til staðar innan sambandsins væri endilega það sem Íslendingar sæktust eftir. Ekki væri eftirsóknarvert að búa við stöðnun. (Mbl.is)
Þetta kom fram í viðtali ráðherrans við bandarísku sjónvarpsstöðina CNBC í morgun. Þarna vísar ráðherrann til þess, að mikil stöðnun ríkir nú í efnahagslífi stórs hluta Evrópusambandsins.
Hvað varðar það, hvort kostir byðust innan þessa Evrópusambands, sagði Bjarni, að "Íslendingar nytu þegar helztu kosta þess að vera í ESB með aðild Íslands að innri markaði sambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Hins vegar stæði þjóðin fyrir utan aðra hluti ESB sem hentuðu hagsmunum hennar ekki líkt og sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins."
Svo mætti reyndar fara í ýtarlega rannsókn á því, hvort Íslendingar hafi í raun nokkuð grætt á því að vera á Evrópska efnahagssvæðinu. Fortakslaust jákvætt svar við því blasir hreint ekki við. Hvor með sínum hætti gerðu dr. Hannes Jónsson sendiherra og Ragnar Arnalds, fv. fjármálaráðherra, athugun á þeim málum í bókum sínum undir lok 10. áratugar 20. aldar og fengu þar ekki út neinn heildar-ágóða Íslands af EES-samningnum (þótt vitaskuld hafi sumir grætt á honum, en þá á eftir að draga frá margvíslegan kostnað landsins). Síðan fengum við bankakreppuna undir lok næsta áratugar, og mikið af skaða okkar þá kom einmitt til af "fjórfrelsinu" á EES-svæðinu sem útrásarvíkingar hagnýttu sér til mikils tjóns fyrir land og lýð. En allt þetta lét Bjarni ógert að minnast á í sjónvarpsviðtalinu.
- Bjarni var ennfremur spurður að því hvort hann teldi að ef Bretum stæði til boða sama staða og Íslendingar hefðu gagnvart ESB, hvort þeir myndu vilja hana. Hann svaraði því til að honum virtist þeir vera meira eða minna að óska eftir því sama. Vísaði hann þar til þess að bresk stjórnvöld hafa viljað endurheimta vald yfir ýmsum málum frá sambandinu. (Mbl.is)
Athyglisvert! Þarna er stefna stórs hluta stjórnmálastéttar og meirihluta þjóðar í næsta stóra ríki í landsuðri frá Íslandi að hverfa frá samrunaþróuninni í hinu nýja Brussel-stórveldi og vill helzt endurheimta tapað vald sitt. Ætti sú afstaða, byggð á reynslu, ekki að segja Íslendingum sitthvað?
Jón Valur Jensson.
Bjarni: Þurfum ekki aðild að ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fiskveiðar, sjávarútvegur, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.