Þrátt fyrir barlóm og ósjálfstæði vinstri flokka er tryggur meirihluti gegn "ESB-aðild"

Aðildin sú er í raun hægfara innlimun í stórveldi (þ.m.t. sem herveldi). Merkilegt að vinstri menn séu hlynntir slíku, en það sýnir ný Capacent-könnun og hitt þó umfram allt, að meirihluti þjóðarinnar hafnar Evrópusambands-"aðild", þ.e. 54,7%, en 45,3% að þeir myndu styðja hana. 

  • Greint var frá niður­stöðum skoðana­könn­un­ar­inn­ar á aðal­fundi Já Ísland sem fram fór í dag. Sam­kvæmt henni er meiri­hluti kjós­enda Fram­sókn­ar­flokks­ins (92%) og Sjálf­stæðis­flokks­ins (83%) and­víg­ur aðild að ESB en meiri­hluti kjós­enda Sam­fylk­ing­ar­inn­ar (89%), Bjartr­ar framtíðar (81%), Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs (55%) og Pírata (55%) hlynnt­ir henni. (Mbl.is)

Þetta eru merkilega skýrar línur milli mið- og hægri flokka annars vegar og vinstri flokka hins vegar. Þó eru greinilegar vomur á VG-fólki og Pírötum, því að enn eru þar ýmsir sem óttast erlenda auðhringa. Hitt hefur samt fylgt vinstri flokkum lengi að (1) hafa aðhyllzt útópíur, og það á við um ýmsa gamla VG-harðjaxla, sem trúðu í lengstu lög á sovézka "óskalandið", "verkalýðsríkið" sem reyndist spillt og grimmt niður í rót og í flestum sínum útöngum, auk þess að stunda blóðuga útþenslustefnu, oft undir fölsku yfirvarpi stuðnings við þjóðfrelsishreyfingar (!), og (2) að hafa fælzt allt, sem amerískt er, á svo afgerandi hátt, að "Evrópa" (með sín gömlu og grimmu nýlenduveldi!) fór að líta út eins og himnasending í stjörfum augum þeirra í staðinn.

Forsjárhyggjan, sem löngum tröllríður vinstri flokkum, sbr. skatta- og eyðslustefnu þeirra, bætir hér ekki úr skák, og fylgir þessu pólitíska liði einnig hvað varðar umhugsun þeirra um stöðu Íslands meðal annarra landa, því að Samfylkingarmenn sérstaklega virðast hafa tröllatrú á því, að forsjá Evrópusambandsins með okkar efnahag og löggjöf, dóms- og framkvæmdavaldi sé önnur og betri "lausn" en sú leið sem Jón Sigurðsson og aðrir baráttumenn fyrir sjálfstæði Íslands mörkuðu á 19. og 20. öld. Engu virðist það skipta þessa draumhuga Samfylkingar og "Bjartrar framtíðar", að spilling hefur grafið svo um sig í þessu óska-stórveldi þeirra, sjálfri Stóru-Mömmu á meginlandinu, að ekki þolir lengur dagsins ljós, og endurskoðendur hafa því ekki treyst sér til að votta endurskoðun reikninga þessa Brussel-bandalags í 14 ár samfleytt.

Svo tala menn um að "ganga í" þetta valdfreka bákn, af því að HÉR ríki spilling! - og það jafnvel haft á orði um dómstóla okkar, eins og ýmsir barlóms- og niðrunarpennar eru sérstaklega farnir að tíðka upp á síðkastið. En hver var það annar en sjálfur ESB-dómstóllinn sem tók þátt í því, með sínum fulltrúa í ómarktækum "gerðardómi" um Icesave-málið haustið 2008, að dæma ríkissjóð Íslands greiðsluskyldan að fullu um allar Icesave-kröfur Bretlands og Hollands?! Og hverjar stofnanir ESB tóku einnig þátt í þessu dóms(m)orði gerðardómsins aðrar en sjálf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (e.k. yfirríkisstjórn þess) og Seðlabanki Evrópu?!

Og þessum stofnunum, eins og öðrum í Evrópusambandinu, eiga menn nú að treysta! 

Þetta síðastnefnda hefur lengi verið leynd og ljós stefna Fréttablaðsins, en þakkarvert, að Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur kallað eftir því, að það blað gefi út skýra yfirlýsingu um að það sé með inngöngu í Evrópusambandið sem grundvallarstefnu sína, með öðrum orðum að það sé ESB-málgagn. En brestur ekki útgefendur blaðsins þor til að játa það fullum fetum, að það vill inntöku landsins í stórveldi og þar með beita sér gegn vilja meirihluta þjóðariunnar og svíkja Lýðveldið Ísland?

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Meirihluti andvígur aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

En er ekki svolítið furðulegt í 1500 manna úrtaki skuli enginn vera óákveðinn???

Jóhann Elíasson, 5.9.2014 kl. 08:43

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jú, ekki fæ ég betur séð, Jóhann! Meiri háttar undarlegt!

Jón Valur Jensson, 5.9.2014 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband