Hráskinnaleikur VG-forystunnar árið 2009 og áfram

Greinin Afturköllum umsóknina um aðild að ESB eftir Jón Bjarnason, fv. ráðherra, og Atla Gíslason, fv. þingmann, í Mbl. 25. þ.m. er náma ýmissa upplýsinga, skoðið t.d. þennan part:

  • Reiptog um ESB vorið 2009
  • Okkur er minnistæð ESB-umræðan innan þingflokks VG við ríkisstjórnarmyndunina vorið 2009. Hún miðaði að stórum hluta að því að snúa niður þann hóp sem fylgdi hugsjónum, kosningaloforðum og grunnstefnu flokksins og neitaði að styðja aðildarumsókn að ESB. Lítið fór fyrir efnislegri umræðu innan þingflokksins um hvað umsóknin fæli í sér. Vísað var til þess að Norðmenn hefðu fellt aðildarsamning án þess að þurfa að breyta neinu hjá sér í samningsferlinu. Enginn nefndi að slíkt var ekki lengur í boði af hálfu ESB. Samþykktum ESB þar að lútandi hafði verið breytt eftir að Norðmenn felldu samninginn. Ýmsir reyndu að sannfæra sjálfa sig og aðra um að hægt væri að sækja um í þykjustunni, hringja dyrabjöllunni og hlaupa svo fyrir horn þegar húsráðandi opnaði. Aðrir töluðu digurbarkalega og sögðust ætla að sýna ESB í tvo heimana, setja fram hörð skilyrði, fyrirvara og tímasetningar sem sambandið yrði að samþykkja áður en gengið væri til samninga. Aumust voru þó rök þeirra sem sögðust verða að samþykkja umsóknina, leika sér að fullveldinu til þess eins að samþykkja kröfur Samfylkingarinnar. Þessu reiptogi innan þingflokksins lauk með því að fimm þingmenn undir forystu Atla Gíslasonar lögðu fram bókun sem kvað á um að umsókn um aðild að ESB yrði ekki studd. Síðar kom í ljós að margir í þingliði VG voru í raun stuðningsmenn aðildar að ESB.
  • Þá var horfið frá því að umsókn að ESB væri „ ríkisstjórnarmál“, heldur yrði hún einskonar þingmannamál og réði meirihluti Alþingis örlögum slíkrar tillögu. Var fallist á að hverjum þingmanni væri frjálst að tala fyrir sinni skoðun í ESB-málum og greiða um þau atkvæði í samræmi við hana. Sú yfirlýsing rataði inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Síðar var reynt að virða þá samþykkt að vettugi.  

Já, greinilega var það ekki andskotalaust að vera heiðarlegur, fullveldissinnaður þingmaður VG á þessum árum, eins og þessir tveir geta vitnað um.

 

 

En hafi Steingrímur J. og Katrín Jakobs iðkað þarna hráskinnaleik vorið 2009 og áfram með hörmulegum "árangri", þá er nú bara eins gott að Bjarni Benediktsson falli ekki líka í það sama fúafen með eigin flokk, sem hann virðist strax frá sl. vori vera farinn að meðhöndla sem þinglýsta eign sína og berlega gegn samþykktum landsfundar í marz 2009. Þetta gerði hann bæði með munnlegum yfirlýsingum, sem hafa dregið slóða á eftir sér, og með tilkynningu á vef flokks síns sem er á ská og skjön við æðstu valdastofnun hans, landsfundinn! Mál er að linni, Bjarni, enda sleppurðu annars aldrei við stöðuga gagnrýni víða að og hvatningar um, að flokksmenn steypi þér að öðrum kosti á næsta landsfundi. Hélztu í alvöru, að þú gætir leikið sama ískalda leikinn tvisvar og jafnvel þrisvar? 

 

Jón Valur Jensson. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband