Eru ESB-andstæðingar síðasta von aðildarsinna?

Glögg og snjöll grein eftir Ásmund Einar Daðason alþm. í Bændablaðinu 23. þ.m. (fyrirsögnin hér ofar er hans):

  Í Kastljósviðtali á mánudagskvöldið fór Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra vel yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu. Að undanförnu hefur verið reynt að teikna upp þá mynd að utanríkisráðherra sé einn á báti í þessu máli og þar með sé hann stærsti vandi aðildarsinna. Það að telja málum þannig háttað er auðvitað mikið pólitískt ólæsi. Það er hins vegar furðulegt, og til marks um mikla örvæntingu, að heyra aðildarsinna ítrekað kalla eftir því að helstu ESB- andstæðingar landsins haldi áfram aðildarsamningum við ESB.

Ef aðildarsinnum yrði að ósk sinni og aðildarsamningum yrði haldið áfram myndi utanríkisráðherra án vafa tryggja að skoðanabræður hans væru í meirihluta í nefndum og ráðum líkt og fyrri ríkisstjórn gerði. Vandi aðildarsinna er hins vegar sá að skoðanabræður utanríkisráðherra eru á móti ESB. Það yrði aðildarsinnum líklega mjög til framdráttar ef hörðustu ESB-andstæðingar landsins mættu til Brussel í þeim tilgangi að semja um hvernig aðlögun næstu ára yrði háttað. Ef utan ríkisráðherra er ekki tilbúinn að setja undirritaðan í forystu fyrir þessari sveit er ekki ólíklegt að t.d. Jón Bjarnason, Guðni Ágústsson eða Styrmir Gunnarsson yrðu fyrir valinu. Það gæti orðið enn fróðlegra að fylgjast með því þegar einstök atriði er varða ESB-samningana verða rædd í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem Birgir Ármannsson, einn öflugasti ESB-andstæðingur þingsins, gegnir for mennsku og undirritaður vara formennsku. IPA- og Taiex-aðlögunarstyrkirnir fá eflaust flýtimeðferð hjá fjárlaganefnd þar sem Vigdís Hauksdóttir, formaður Heimssýnar, ræður ríkjum og varaformaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson mun eflaust berjast ötullega fyrir málinu. Forseti Alþingis mun örugglega halda okkur öllum við efnið enda „mikill“ áhugamaður um aðild Íslands að ESB.

Það kom vel fram á síðasta kjörtímabili að ógjörningur er að semja um ESB-aðild nema að einhugur sé um málið í ríkisstjórn og starfandi stjórnarmeirihluta. Svo langt gekk þetta að ómögulegt var að vera með ESB-andstæðinga í ríkisstjórn né í utanríkismálanefnd Alþingis. Samþykkt stefna beggja stjórnarflokkanna er skýr og á þeirri stefnu byggir stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar. Það er því hámark bjartsýninnar (og í raun dálítið hlægilegt) að halda að ríkisstjórn þar sem báðir stjórnarflokkarnir eru á móti ESB-aðild geti haldið áfram aðildarsamningum. Því er það svo að þrátt fyrir ótrúlegan áhuga aðildarsinna mun furðuleg ósk þeirra um að ESB-andstæðingar dragi vagninn til Brussel ekki verða að veruleika.

Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður.

 

Bændablaðinu er dreift ókeypis víða, m.a. í stórmörkuðum og á sundstöðum. Hér er vefslóð á vef blaðsins:

http://www.bondi.is –– og http://www.bondi.is/Pages/671


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband