25.1.2014 | 14:24
Tvennt ólíkt: "aðildarsamningur" við ESB, alfarið á járnhörðum forsendum þess, og fríverzlunarsamningur við Kína, mótaður frá upphafi á okkar forsendum
Stundum liggur mikið á og hafa þarf hraðar hendur. Kosturinn við íslenskt stjórnkerfi getur stundum verið smæð þess, segir Bergdís Ellertsdóttir sendiherra í grein á nýjum, athyglisverðum bloggvef utanríkisráðuneytisins. Þar ræðir hún á fróðlegan hátt um fríverzlunarviðræðurnar við Kína sem lauk með undirritun fríverzlunarsamnings í apríl 2013, en það liggur nú fyrir á Alþingi að samþykkja þann samning.
Ljóst er, að ekki er 95 ára fullveldi Íslands neinn dragbítur fyrir samskipti við önnur lönd, heldur þvert á móti grundvöllur mikils reynslusjóðs sem kemur okkur vel í nýjum samningum. Við höfum, svo að vitnað sé í Bergdísi, "meira en fjörutíu ára reynslu í viðræðum um fríverslun, og að verja hagsmuni okkar út á við kom sér vel, og þar höfðu við töluvert forskot á Kínverja sem tóku sín fyrstu skref út í hið alþjóðlega viðskiptakerfi með aðild að alþjóðaviðskiptastofnuninni 2002 og gerðu fyrsta fríverslunarsamninginn árið 2004 og þá við sjálfsstjórnarsvæði Hong Kong og Makáa. (Leturbr. jvj.)
Þetta eru ekki innantóm orð, því að þrátt fyrir ofurstærð Kína (meira en 4000 sinnum fjölmennara) miðað við Ísland var fyrirkomulag samninganna EKKI að geðþótta stórveldisins, m.a.s. langt frá því, eins og hér sést ljóslega:
- Bergdís ræðir í pistlinum þá mynd sem margir kunni að hafa ímyndað sér að íslensku samningamennirnir væru að eiga við ofjarla sína í ljósi þess hversu mikill stærðarmunur sé á Íslandi og Kína einkum hvað fólksfjölda varðar. Það hafi hins vegar alls ekki verið raunin. Í viðræðunum við Kína kom það í hlut Íslands að leggja til texta að samningi og var þá stuðst við þá samninga sem við höfðum þegar gert í samfloti við önnur EFTA-ríki, og því voru það við sem þekktum betur orðalag, ástæður og bakgrunn þeirra texta sem unnið var með, sem var svo sannarlega kostur. (Mbl.is, leturbr. jvj.)
Þetta er þveröfugt við s.k. "aðildarsamninga" við Evrópusambandið. Þar er allt eftir höfði Brusselvaldsins, nýja meðlimaríkinu einfaldlega ætlað að gleypa allt 100.000 blaðsíðna laga- og regluverk stórveldisins.
- Samningurinn [við Kína] var ræddur á Alþingi síðastliðinn fimmtudag, en gert er ráð fyrir að greidd verði atkvæði um hann í þinginu í næstu viku og að hann taki formlega gildi í sumar, verði hann samþykktur, sem allar líkur verða að teljast á að verði niðurstaðan. (Mbl.is)
Ættu Íslendingar ekki að leita áfram eftir enn fleiri fríverzlunarsamningum eftir eigin höfði eða a.m.k. með sanngjarnri samningsaðstöðu og eðlilegri gagnkvæmni í stað þess að láta sig dreyma um að lúta forsjá annarra ríkja eða ríkjabandalaga um inntakið, eins og gert er í ESB-ferlinu, og jafnvel afsala þangað æðstu löggjafarrréttindum okkar, auk dóms- og framkvæmdavalds?!
Með EFTA-aðildinni fáum við betri viðskiptasamninga við hvert ríkið á eftir öðru, m.a. við Kanada, og leita ber eftir fríverzlun eða hagstæðum tollasamningum við Bandaríkin, sem gera engar þær kröfur til afsals valds af okkar hálfur, sem ráðríkt Evrópusambandið gerir.
Hér er áðurnefndur bloggvefur utanríkisráðuneytisins, merkileg nýjung sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur komið í framkvæmd. Og honum skulu hér þökkuð þau einörðu orð sem hann lét falla á Alþingi um daginn, þegar hann lýsti algerri andstöðu sinni við, að Ísland fari inn í Evrópusambandið.
Jón Valur Jensson.
Ræddu ekki við kenjótta ofjarla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.