1.12.2013 | 23:04
1. desember - nauðsyn heitstrengingar við sjálfstæði okkar og vel heppnaður fullveldisfagnaður sjálfstæðishreyfinga
Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki fyrir 95 árum, 1. desember 1918. Að því stefndi þróun og þroski þjóðarinnar, sjálfsvitund, atorka og áræði. Úrtölumenn urðu undan að láta. En nú heyrast aftur hjáróma raddir þeirra sem efast um gagnsemi þess, að við stöndum áfram sjálfstæð og fullvalda, og eru þær eigindir þó öflugustu varnir smárra þjóða.
Sjálfstæðið hefur einnig reynzt okkur sívirk auðlind, veitt okkur fjögurra, tólf, fimmtíu og tvö hundruð mílna fiskveiðilögsögu og stutt að varðveizlu sérstöðu okkar meðal þjóða og eflt okkur í atvinnuefnum. Það er því fráleitt þegar nokkrir Íslendingar láta sér detta í hug að afhenda æðstu fullveldisréttindi yfir þessu elskaða landi okkar í hendur meginlandsmanna á ný.
Hjá Heimssýn, í nýrri miðstöð félagsins að Hafnarstræti 20 (steinhúsinu við Lækjartorg, 2. hæð), var í dag haldið upp á fullveldisdaginn, á fundi sem á 2. hundrað manns mun hafa sótt, en þar voru ekki aðeins félagsmenn úr Heimssýn, heldur einnig félaganna Ísafoldar, Herjans og Nei við ESB. Ræðumenn voru Jón Bjarnason, fv. ráðherra, Jóhanna María Sigmundsdóttir, yngsta alþingiskonan, og Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar. Inga Bachmann söng einsöng við harmonikkuleik, falleg íslenzk lög, Bjarki Karlsson, verðlaunahafinn úr ljóðakeppni kenndri við Tómas Guðmundsson flutti langan og góðan brag úr verðlaunabók sinni, Árleysi alda, og endað var með öflugum og áhrifamiklum fjöldasöng.
Mætti gera meira úr 1. desember | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.12.2013 kl. 00:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.