Skúli Magnússon lögspekingur fer með fleipur um "almenna samstöðu" um heimild til framsals ríkisvalds

Hann á undarlega grein í Fréttablaðinu í dag hann Skúli, lagadósent við HÍ, héraðsdómari og nefndarmaður í nýrri stjórnarskrárnefnd -- undarlega fyrst og fremst fyrir tilhæfulaus orð hans um meinta almenna samstöðu til setningar stjórnarskrárákvæðis sem heimili "framsal ríkisvalds í þágu alþjóðlegrar og evrópskrar samvinnu".

ALDREI hefur farið fram nein atkvæðagreiðsla meðal almennings um slíkt ákvæði.

Um eða yfir 70% Íslendinga eru andvíg því að landið gangi í Evrópusambandið. Þeir, sem átta sig á þessu ákvæði, sem Skúli ræðir hér um, myndu flestir hafna því.

Hið ólöglega til stofnaða "stjórnlagaráð" lagði til heila nýja stjórnarskrá í 114 greinum. Grein 111 nefndist 'Framsal ríkisvalds' og er í takt við það sem Skúli gat um í grein sinni (þó er ekkert minnzt á "evrópska samvinnu" í 111. greininni).

Ekki var við það komandi hjá vinstri flokkunum að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um þá 111. grein, þeir tvífelldu tillögu um það frá stjórnarandstöðunni, þannig að hvergi liggur fyrir, hvernig fólk hefði tekið á því ákvæði. Og hér má ekki gleyma því, að 1) mjög fáir munu hafa lesið allar stjórnarskrártillögurnar út í gegn, 2) þær -- og ekki sízt þessi grein -- fengu alls ófullnægjandi kynningu og umræðu í fjölmiðlum og 3) rúmur helmingur fólks með kosningarétt mætti ekki á kjörstað, og er vitað, að margir þar á meðal voru með því að tjá andstöðu sína við þessi frumvarpsdrög öll.

Þar að auki var 111. greinin samin, eins og vænta mátti af mörgum olnbogafrekum Evrópusambandssinnum í "ráðinu", á lymskulegan veg og jafnvel með áróðurskenndum hætti:

  • "Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu ..." (feitletrun hér).

Þarna er strax verið að auglýsa fyrir fram meint ágæti nefnds framsals! Með slíku fororði er í greininni lagt til, að stofna megi til þjóðaratkvæðagreiðslu um slíkan þjóðréttarsamning um framsal ríkisvalds, þannig að allur umbúnaður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrði þá þegar með áróðursblæ sem af sjálfum sér myndi mæla með framsalinu! Það er erfitt fyrir menn að hugsa: Ég er á móti friði og samvinnu! -- en málið snýst bara hreint ekki um það!

Svo yrði einfaldur meirihluti látinn ráða um útkomuna, í stað þess, að aukinn meirihluti kjósenda yrði látinn ráða, eins og ákvæði eru um í norskum lögum varðandi þingmeðferð slíks máls og í okkar eigin Sambandslagasáttmála frá 1. desember 1918 um uppsögn þess samnings (þar vargerð krafa til 75% kosningaþátttöku og 75% meirihluta atkvæða).

Þannig gætum við þá setið uppi með tvískipta þjóð, naumur meirihluti þeirra, sem mæta myndu á kjörstað (einna sízt aldraðir), fengi að ráða, en hinir engu og það um alla framtíð nánast! Og þetta gæti gerzt, jafnvel þó að vitað sé, að þeir, sem eru MJÖG andvígir inntöku landsins í Evrópusambandið, eru miklu stærra hlutfall slíkra andstæðinga heldur en hlutfall hina, sem eru MJÖG HLYNNTIR inngöngu í ESB, hefur reynzt vera meðal slíkra ESB-sinna. Ekki væri þetta uppskrift að mikilli þjóðarsátt og "samvinnu" þessara ólíku hópa!

Það er ennfremur fráleitt að kjósa að uppteikna inngöngu í Evrópusambandið sem fyrst og fremst eitthvað "í þágu friðar og efnahagssamvinnu." Evrópusambandið hefur nú þegar staðið fyrir stríðsaðgerðum í Norður-Afríku og á eftir að gera það víðar. "Efnahagssamvinnan" er heldur ekki svo að öllum þjóðum sambandsins líki.

Og svo er alls ekki minnzt á hitt, um hvað Evrópusambandið snýst að öðru leyti og í hve mörgum og alvarlegum atriðum þetta framsal ríkisvalds yrði, ef þjóðréttarsamningurinn yrði sá, sem fæli í sér inngöngu í þetta Evrópusamband. Hvergi er þarna minnzt á, að við yrðum þar með, strax við inntökusáttmálann ("aðildarsamninginn"), að afsala okkur æðstu og ráðandi löggjafarréttindum í hendur löggjafarsamkunda Evrópusambandsins, þ.e. ráðherraráðsins í Brussel, ESB-þingsins í Strassborg og Brussel og jafnvel framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (sem ein hefur rétt til að bera fram frumvörp í ESB-þinginu). Það stendur skýrum stöfum í hverjum slíkum "aðildarsamningi" (sem er reyndar rangnefni), að þegar lög einstakra svæða í Evrópusambandinu (þ.e. landslög) brjóti í bága við lög ESB, þá skuli lög ESB ein ráða, auk þess sem túlkunarvald í öllum ágreiningi, sem orðið gæti um þetta, er falið ESB-dómstólnum í Lúxemborg einum saman, en t.d. ekki gerðardómi viðkomandi lands og Evrópusambandsins. Þetta er að gera íslenzk lög að hornreku, þeim yrði kastað út í viðkomandi atriðum, um leið og Evrópusambandið setti lög um viðkomandi mál, þ.e.a.s. þar sem þetta tvennt rækist á. Æðsta löggjafarvaldið yfir okkur væri komið í hendur Brusselmanna. Í ráðherraráðinu, sem tekur sér meðal annars löggjafarvald yfir sjávarútvegsmálum, hefðum við 0,06% atkvæðavægi -- harla veika "rödd" til að standa gegn ásókn Breta, Spánverja og annarra í okkar fiskimið og útgerðir.

Og hér er aðeins verið að fjalla um löggjafarvaldið. En framkvæmdavaldið yrði líka æðst hjá Evrópusambandinu í mörgum málum, m.a. okkar eigin sjávarútvegsmálum, þ.m.t. um gerð veiðarfæra, lokun svæða, friðun fiskistofna o.fl.! Og dómsvaldið yrði æðst hjá áðurnefndum ESB-dómstóli, og hann er svo sannarlega enginn EFTA-dómstóll !

Allt þetta sniðgengur Skúli Magnússon að minnast á í grein sinni. Þetta gengur ekki, hr. lögspekingur! 

Eftirmáli.  Eins og við var að búast, var Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri hins ESB-sinnaða Fréttablaðs, ekki lengi að taka við sér og vitna til ummæla Skúla dósents Magnússonar, orðar þetta reyndar þannig í leiðara sínum í dag, fimmtud. 21. nóv.: 

  • "Þá séu flestir sammála um að bæta við ákvæði sem heimili framsal valds í þágu alþjóðasamvinnu."

Nú skal enginn efast um, að þetta er einhver heitasta ósk Ólafs ritstjóra, en það er óskhyggja einber hjá honum, að flestir séu sammála um þetta.

Í leiðaranum ('Já, það er hægt að breyta stjórnarskrá') kemur hins vegar fram viðurkenning á því, sem undirritaður hefur margítrekað bent á, um ólögmæti stjórnarráðskosningarinnar. Ólafur segir (feitletrun JVJ): 

  • "Endurskoðuninni sem stefnt var að á síðasta kjörtímabili var klúðrað af ýmsum orsökum. Mistök við framkvæmd stjórnlagaþingskosninganna leiddu til þess að Hæstiréttur ógilti þær. Þá voru gerð þau mistök að endurtaka ekki kosningarnar, sem var eina tæka leiðin, heldur skipa þá sem höfðu fengið flest atkvæði í stjórnlagaráð. Strax þá var búið að veikja umboð ráðsins. [Umboðið var raunar aðeins frá 30 þingmönnum, sem þar með brutu þágildandi lög um stjórnlagaþing; innskot JVJ.]
  • Stjórnlagaráðið reyndist síðan ekki vandanum vaxið. Í stað þess að gera stjórnarskrána skýrari og reyna að tryggja betur festu í stjórnarfari gerði það tillögur um alltof víðtækar breytingar, sem sumar hverjar hefðu getað haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og búið til alls konar stjórnskipulega óvissu. Tillögurnar fengu margvíslega gagnrýni, bæði frá innlendum og erlendum sérfræðingum.
  • Þjóðaratkvæðagreiðslan var síðan líka gölluð; þar var spurt spurninga um sum mikilvæg atriði stjórnlaganna en ekki önnur, þannig að hún veitti heldur takmarkaða leiðsögn.
  • Eftir þennan skelfilega málatilbúnað var gjörsamlega útilokað að ná samkomulagi um afgreiðslu breyttrar stjórnarskrár á Alþingi fyrir kosningar, enda er stjórnarskrá ekki plagg sem á að afgreiða í bullandi pólitískum ágreiningi."

Tilvitnun lýkur í leiðaraskrif Fréttablaðsins þennan fimmtudag. 

Jón Valur Jensson. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband