ESB-útþensluráðherrann Stefan Füle gerir hosur sínar grænar fyrir Íslendinga

Hann er í ítrekaðri sjálfsmótsögn. Nú segir hann að Evrópusambandið setji Íslandi "ekki nein ákveðin tímamörk," en "í júní í sumar sagði Füle við blaðamenn að æskilegt væri að það lægi fyrir sem fyrst hvað íslensk stjórnvöld ætluðu að gera varðandi umsóknarferlið." Það var sem sé bara verið að pressa á íslenzk stjórnvöld í júní-yfirlýsingunni og ekki meira að marka hana en svo, að nú er allt í einu í lagi að hafa málið endalaust opið!!!

Í a.m.k. einu öðru atriði er hann ennfremur í augljósri sjálfsmótsögn. Nú gengur hann fram af fláttskap gagnvart okkur með þessari ísmeygilegu yfirlýsingu:

  • „Ég held að við höfum ekki verið það langt frá því að leggja fyrir Íslendinga samning sem hefði tekið tillit til sérstöðu Íslands en um leið grundvallarreglna Evrópusambandsins og allra reglna leiksins. Við höfum burði til þess. Við erum enn þeirrar skoðunar að það hefði verið Íslendingum í hag og sambandinu.“

En sjálfur hefur hann áður lýst þvi yfir, að engar varanlegar undanþágur eru veittar frá lögum ESB! -- og í sömu átt hafa fallið orð Olla Rehn, fyrrv. stækkunarstjóra (útþenslumálaráðherra) ESB, og Emmu Bonino, fv. framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála ESB.

Stefan Füler er einfaldlega að reyna að spila á trúgirni sumra Íslendinga, í trausti þess, að þeir muni ekki áður fram komnar staðreyndir. 

Maðurinn er bersýnilega refur, enda lærði hann ugglaust til þess í KGB-tengda diplómataskólanum í Moskvu.

Sumt í heimspólitíkinni fer fram með stríðsógnum og vopnaðri íhlutun. Við megum þó ekki horfa fram hjá því, að stór hluti af valdapólitík stórvelda fer fram með refsskap, klækjum og blekkingum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is ESB setur engin tímamörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vona innilega að við losnum sem fyrst við þennan endalausa falsáróður um ESB.  Nóg komið takk.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.10.2013 kl. 17:01

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Tek hér undir orð Ásthildar Cesil.   

Evrópusambandið er slæmt, það hefur nútíma saga sannað. 

Evran er versta afkvæmi þessa sambands.  Því eru undarlegar bænir þjóða, ( sem nauðungarsamband þetta hefur hrakið á vonarvöl) um að fá frá þessu sambandi fleiri Evrur, sem eru eitur fyrir frjósemi Evrópu.

Evrópu sambandið er sjálfspilandi píano þar sem lag er pantað með því að seta Evrur í baukinn og baukurinn tæmist  sjálfkrafa til þýska lands. 

Sá Ríkisherra, sú drottning ríkis  sem afétur hjáleigur sínar, grefur þjóð sinni gröf sem hún sjálf þarf ekki að falla í, haldi hún völdum nógu lengi.

        

Hrólfur Þ Hraundal, 16.10.2013 kl. 20:31

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nákvæmlega Hrólfur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.10.2013 kl. 20:46

4 Smámynd: Kolbeinn Pálsson

Um leið og ESB leggur fram skriflega og óafturkallanlega staðfestingu á því að Ísland haldi um aldur og æfi fullum og óskoruðum yfirráðum um allt innan 200 mílana, ásamt fullum yfirráðum yfir landbúnaði ásamt því að við semjum eftir okkar höfði, sem fyrr beint og milliliðalaust við lönd eins og td. USA, Japan, Indland og Kína, þá getum við kannske kíkt á þetta.

Næstum allt klárt segir Rehn, en kaflarnir um Landbúnað og Fiskveiðar eru óræddir!

Það er afar ólíklegt og enn óheyrt af ásamt því að vera þvert á alla fyrri innlimunarsamninga ESB, að við einir allra þjóða sem samið hafa við ESB til þessa, muni Ísland sem einstök þjóð, fá algjört sjálfdæmi um samningsskilmálana.

Þykir frekar ólíklegt að sá dagur renni upp.

ESB langar rosalega í yfirráð yfir norðurslóðum og það vita allir sem hafa kynnt sér það sem er okkar einstæða "Geopolitical situation".

Spurningin er: (vill ESB gefa augntennurnar fyrir yfirráð á 200 - 12 mílur, sem þjóðhollir Íslendingar semja ekki um.)

Slíkur samningur yrði aðeins á færi afar óþjóðhollra og á fyrri tímum, réttdræpra landráðamanna.

Það er samt spurning hvað miklu smjöri ESB (sjáið hvað Olli Rehn er mikið í mun að láta Ísland ekki sleppa út kyrkineti ESB.

ESB. mun reyna sem aldrei fyrr að smyrja á spýtuna í von um að við föllum í gildru þeirra líkt og karlinn sem að lokum sagði þá frægu setningu:

"Sjaldan hef ég Flotinu neitað"

Íslendingar, ef svo illa fer að þjóðin gangi í egnda gildruna, munum enda á að bíta í margarín í stað smjörsins sem við töldum okkur fá!

Kolbeinn Pálsson, 16.10.2013 kl. 20:54

5 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Allar þær þjóir sem gangið hafa í ESB hafa náð samningum um VARANLEGAR breytingar á ESB reglum í samningum sínum við ESB. Þessi orð Fule eru því ekki nein mótsögn heldur aðeins staðfesting á því að það sama eigi við um Ísland.

ESB hefur aldrei yfirtekið neinar auðlindir aðildarþjóða hvorki fiskveiðiauðlindir né landbúnað. Hins vegar eru inna ESB ákveðnar reglur til að tryggja eðlilega samkeppni í landbúnaði sem banna ríkisstyrki umfram ákveðin mörk þó með undanþágum hvað varðar landbúnað á strjálbýlum svæðum sem eru einmitt undanþágur sem samið var um í aðildarsamningum þjóða með slíkan landbúnað innan sinna vébanda þar með talið Svía, Finna og Austurríkismanna.

Hvað sjávarútveg varðar þá halda ESB þjóðir að fulli sínum veiðiheimildum en ákvarðanir varðandi umhverfismál þar með talið heildarkvóta og ákveðnar ákvarðanir varðandi svæðislokanir fara yfir til ESB. Aðildrþjóðirnar halda hins vegar fullum yfirráðum yfir sínum kvóta og ráðstafa veiðiheimildum eins og þeim hentar. Það hafa því engar þjóðir þurft að láta frá sér veiðiheimildir vegan aðidar að ESB.

Sigurður M Grétarsson, 17.10.2013 kl. 12:28

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Sigurður, þú getur ekki stutt þessa fullyrðingu þína með neinum rökum.  Hvað varðar sjávarútveginn er það alveg skýrt í Rómarsáttmálanum að aðildarríkin eru með 12 sjómílna "einkalandhelgi" annað er sameiginlegt, ÞAÐ ER ÓFRÁVÍKJANLEGT.  Sigurður hættu svo að gera þig að fífli með einhverjum lygum um ESB sem standast svo enga skoðun..........

Jóhann Elíasson, 17.10.2013 kl. 19:15

7 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

SMG reynir hér enn einu sinni blekkingar, þegar hann ritar: "ESB hefur aldrei yfirtekið neinar auðlindir aðildarþjóða hvorki fiskveiðiauðlindir né landbúnað."

Því var ekki haldið fram, að ESB sem slíkt yfirtaki þetta -- nema yfirstjórnina á því og æðstu, ráðandi löggjöf um það! -- ekki eignarhaldið. En ESB gerir strax það, sem alvarlegt er: gefur öllum ESB-þjóðum jafnan aðgang að nýtingu þessara auðlinda, með litlum takmörkunum.

Því má vel taka undir með Jóhanni hér á undan.

Jón Valur Jensson.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 17.10.2013 kl. 21:29

8 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jón. Þetta er þvæla hjá þér. ESB hefur aldrei gegið neinni aðildarþjóð aðgang af auðlind annarrar. Hvað sjávarútveginn varðar þá eru flestir fiskiistofnar aðildrríkja ESB semeign fleiri en eins ríkis. Þau hafa því hvort eð er ekki eindsæmi um nýtingu þeirra óháð því hvort þau eru aðildarþjóðir ESB eða ekki. Þau þurfa því að semja um nýtingu við þau ríkis em eiga þá stofna með þeim. Áður en sjávarútvegssáttmáli ESB varð til þá var það mismunandi hvort ríkin heimiluðu hvort öðru að veiða sinn hluta kvótans í landhelgi hvors annars. En reglan í sjávarútvegsstefnu ESB er sú að öll ríki sem eiga hlut í veiðiheimildum í tilteknum fiskistofnum á tilteknu fiskveiðistjórnunarsvæði hafa heimild til að veiða sinn hluta hvar sem er á svæðinu. En þau fá ekki heimild til að veiða úr kvóta hins ríkisins.

Það er því rakin þvættingur að allar ESB þjóðir hafi jafnan aðgang að nýtingu tiltekinna auðlinda. Eignarhaldið á auðlindunum er óbreytt og er eiknaeign hvers ríkis fyrir sig.

Það er því ekki ég sem er með lygar einsog Jóhannn er að bera á brýn við mig heldur er það haugalygi að ríki missi auðlindir til annarra ríkja með því að ganga í ESB.

Og reglan um að yfirstjórnin sé hjá ESB er ekki ófrávíkjanlegri en það að nú þegar hefur verið samþykkt í nokkrum tilfellum að ríki sem ein eiga kvóta í tilteknum fiskistofnum fái ein að ákveða nýtingu þeirra. Í þeim tillögum sem nú liggja fyrir um breytingar á sjávarútvegsstefnu ESB er lagt til að þetta verði aðalreglan. Þar sem við Íslendingar eigum einir kvóta í öllum okkar staðbundnu stofnum sem eru 70% af fiskistofnum okkar þá mun þetta leiða til þess að við einir ákveðum nýtingu þeirra ef þetta verður samþykkt. En þó þetta verði ekki samþykkt þá munum við samt einir ákveða hverjir fá að veiða út okkar kvóta og höfum ekki nokkrar skyldur til að veita erlendum útgerðum heimildir til að veiða úr okkar fiskistofnum og getum meira að segja sett reglur sem taka á kvótahoppi.

Hvað varðar flökkustofnana sem eru 30% af okkar fiskistofnum þá þurfum við hvort eð er að semja um veiðar úr þeim við þau ríki sem eiga þá með okkur.

Það eru því ekkert annað en rangfærslur og blekkingar að halda því fram að við missum einhverjar auðlindir við það að ganga í ESB. Þetta eru hluti af þeim blekkingum sem er verið að breiða út til að fá fólk til að vera mótfallið aðild að ESB á upplognum forsendum.

Sigurður M Grétarsson, 17.10.2013 kl. 22:14

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góði Sigurður, reyndu að opna augun fyrir staðreyndum og hættu þessari bölvuðu ekkisens vitleysu

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.10.2013 kl. 22:58

10 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég vorkenni fjölskyldu Sigurðar, sem verður að umbera vitleysuna í honum alla daga.

Jóhann Elíasson, 17.10.2013 kl. 23:09

11 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

ESB gaf Spánverjum aðgang að landhelgi Breta, einnig Króatíu, rétt eins og Ítölum, sem einnig hafa fengið aðgang að landhelgi Svía.

Ég hef aðeins lesið upphafið að svari SMG, hins króníska ESB-réttlætara á ýmsum vefjum. Ég hef verið upptekinn seinni part kvölds, en kem brátt aftur.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 17.10.2013 kl. 23:25

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég endurbirti hér heila grein mína á Moggabloggi 13. marz 2012:

"Lagasetningarvald á sviði sjávarútvegs er fyrst og fremst hjá stofnunum ESB og aðildarríkin hafa framselt vald til stefnumótunar á sviði sjávarútvegs til sambandsins.244 Afleidd löggjöf á þessu sviði þarf aukinn meirihluta atkvæða í ráðherraráðinu til að hljóta samþykki, en Evrópuþingið hefur eingöngu ráðgefandi hlutverk á þessu sviði.245"

Hér er engin miskunn hjá Magnúsi, en ég var hér að vitna í opinberan texta:Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", forsætisráðuneytið, Rv. 2007, bls. 96 (allar feitletranir mínar, JVJ). Og áfram segir í textanum (og TAKIÐ VEL EFTIR FYRSTU SETNINGUNNI):

  • "Samkvæmt meginreglunni um jafnan aðgang hafa öll aðildarríki ESB ótvíræðan rétt fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna.246
  • Sá aðgangur er þó ekki ótakmarkaður því reglur sambandsins um ákvörðun hámarksafla og úthlutun aflaheimilda til aðildarríkjanna fela í sér „veigamikla takmörkun á meginreglunni um jafnan aðgang“ þar sem fiskiskipum er einungis heimilt að veiða á þeim svæðum og úr þeim stofnum sem aflaheimildirnar eru bundnar við.247
  • [Bls. 97:]
  • Aðildarríkjunum er einnig heimilt að takmarka veiðar á svæðinu út að 12 mílum við eigin skip,248 auk þess sem veiðar á nokkrum öðrum svæðum eru takmarkaðar vegna verndarsjónarmiða.249 Þá er aðildarríkjum heimilt að grípa til neyðarráðstafana og setja reglur til verndar fiskistofnunum þegar ákveðnir fiskistofnar eða fiskimið eru í verulegri hættu og talið er að tafir myndu leiða til tjóns.250 Loks ber að nefna að aðildarríkjum er heimilt að grípa til ráðstafana sem miða að verndun og stjórnun fiskistofna þegar um er að ræða fiskistofna sem eru staðbundnir og varða eingöngu skip frá viðkomandi aðildarríki. Þessar ráðstafanir verða þó að vera í samræmi við markmið sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar og mega ekki ganga lengra en löggjöf ESB segir til um."251

NEÐANMÁLSGREINAR við tilvitnaða textann hér fyrir ofan, í sama riti:

244 Sbr. m.a. 5. gr., 6. gr. og 7. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.

245 Sbr. 2. mgr. 37. gr. Rómarsáttmálans. Hingað til hafa eingöngu verið settar reglugerðir á sviði sjávarútvegs, en ekki tilskipanir. Það er meginregla að stofnanir ESB hafa valdheimildir til að setja reglur á sviði sjávarútvegs. Í dómi gegn Bretlandi nr. 804/79 kom fram að þótt ráðið hefði ekki sett reglur á því sviði sem valdframsal aðildarríkjanna tekur til hefðu aðildarríkin ekki heimild til að setja reglur á viðkomandi sviði. Því var einnig slegið föstu að vald til þess að setja reglur um verndarráðstafanir á hafinu féllu að öllu leyti undir valdsvið stofnana ESB en ekki undir valdsvið aðildarríkjanna.

246 Sbr. 17. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.

247 Óttar Pálsson og Stefán Már Stefánsson (2003), bls. 53-54.

248 Sbr. 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 17. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.

249 Sérstakar reglur gilda t.d. í kringum Hjaltlandseyjar og Orkneyjar og um veiðar í Miðjarðarhafi og Eystrasalti.

250 Sbr. 8. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002. Þessar ráðstafanir mega ekki vara lengur en 3 mánuði og þarf aðildarríki m.a. að tilkynna þær til framkvæmdastjórnarinnar, sem þarf að samþykkja verndaraðgerðirnar, breyta þeim eða hafna innan 15 vinnudaga frá tilkynningu.

251 Sbr. 10. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002." (Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", forsætisráðuneytið, Rv. 2007, bls. 96-97, allar feitletranir mínar, JVJ.)

Og hér er margt fyrir Esb-sinnana að læra og tileinka sér!

Svo mæta hér Esb-erindrekar frá Möltu sem reyna að "heilaþvo" fullveldis-sinnaðan alþingismann, Vigdísi Hauksdóttur, með þeim orðum, að "Íslendingar þyrftu ekki að óttast neitt; lausn myndi finnast á sjávarútvegsmálum"!!!

En það er í 1. lagi ljóst, að "samkvæmt meginreglunni um jafnan aðgang hafa öll aðildarríki ESB ótvíræðan rétt fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna," í 2. lagi, að sú hugmynd sumra, að fiskveiðilögsaga, sem snerti ekki lögsögu annarra Esb-ríkja, sé alveg sér á báti og falli ekki undir þessa meginreglu, er einfaldlega villuhugmynd, sem hvergi sér stað í lögum Esb., og í 3. lagi, að Malta fræðir okkur ekkert um að óhætt sé að sogast inn í Evrópusambandið.

VIÐAUKI:

Í þessu mikilvæga plaggi: FISKVEIÐISTEFNA ESB OG KVÓTAHOPP(utanríkisráðuneytið, ágúst 2008), kom m.a. þetta fram (auðk. hér, jvj):
  • "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávarútvegsmál var samþykkt, [Nmgr.1: Reglugerð 2141/70 um sameiginlega stefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins, 5. gr.] en hún kemur nú fram í 1. mgr. 17. gr. grunnreglugerðar 2371/2002. [Nmgr.2: 1. mgr. 17. gr. grunnreglugerðar 2371/2002 segir: Fiskveiðiskip sambandsins skulu hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum á öllum hafsvæðum sambandsins öðrum en þeim sem vísað er til í 2. mgr. (sérregla sem gildir innan 12 sjómílna lögsögu aðildarríkjanna) að virtum þeim reglum sem settar eru samkvæmt 2. kafla (hér er vísað til hvers konar verndarráðstafana).] Eftir 1983 hefur meginreglan um jafnan aðgang sætt verulegum takmörkunum en það ár var heildarstefna í sjávarútvegsmálum lögfest með þremur reglugerðum ..." [Bls. 2, nánar þar, en þessar reglugerðir myndu ekki veita okkur neinn einkarétt hér, þær horfa aðeins til stofnverndunar og fiskveiðitakmarkana Esb. (innsk. JVJ)]
  • "Við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð." (Bls. 9.)
  • Með brezkri löggjöf árið 1983 var í varnarskyni fyrir sjómenn þar kveðið á um, að a.m.k. 75% hverrar fiskiskips-áhafnar "skyldi vera búsett í Bretlandi. Á þetta reyndi í Agegate-málinu, og var farið með það í Evrópudómstólinn, sem taldi "að með þessu væri brotið gegn ESB-rétti því þetta færi gegn tilgangi og markmiðum landskvótakerfisins." (Bls.5.)
  • "Evrópudómstóllinn úrskurðaði í s.k. Factortame-máli að umrædd skilyrði bresku laganna [annarra brezkra laga, innsk. jvj] um búsetu eða ríkisfang væru andstæð lögum Evrópusambandsins, einkum 43. gr. Rs. (áður 52. gr.)[Rs. = Rómarsáttmálinn] um rétt þegns og fyrirtækja til að stofna og starfrækja sjálfstæðan atvinnurekstur í öðru aðildarríki og einnig 294. gr. Rs. (áður 221. gr.) sem varðar jafnan rétt til fjárfestinga í félögum. Dómstóllinn tók jafnframt fram að heimilt væri að setja reglur um fiskiskip sem gerð eru út frá aðildarríkjunum, en óheimilt væri að tengja þær á einhvern hátt lögheimili eða þjóðerni eigenda útgerðar." (Bls. 6.)
  • "Rétturinn til að búa, starfa og fjárfesta hvar sem er í Evrópusambandinu er grundvöllur samstarfs aðildarríkjanna og því gefst lítið svigrúm til að banna einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum annarra aðildarríkja." (Bls. 7.)

Um allt þetta má lesa mun nákvæmar og í fleiri atriðum í nefndri samantekt, sem er nú ekki nema tæplega 8 bls. texti + efnisyfirlit + heimildaskrá. Ég tel þó ekki nógu varlega ályktað þar sums staðar um áhættuna af því að Ísland láti sogast í Evrópusambandið.

Jón Valur Jensson, 18.10.2013 kl. 01:21

13 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Takk fyrir þetta Jón. Þarna sýnir þú fram á að ég fer með rétt mál. Það kemur skýrt fram í þessum hluta textans.

"Sá aðgangur er þó ekki ótakmarkaður því reglur sambandsins um ákvörðun hámarksafla og úthlutun aflaheimilda til aðildarríkjanna fela í sér „veigamikla takmörkun á meginreglunni um jafnan aðgang“ þar sem fiskiskipum er einungis heimilt að veiða á þeim svæðum og úr þeim stofnum sem aflaheimildirnar eru bundnar við.247"

Það hefur engin aðgang að fiskimiðum annarra nema hafa kvóta í þeim fiskistofnum sem þar eru og þá aðeins til að veiða úr eigin kvóta. Þar sem ekkert ESB ríki hefur veiðiheimildir í okkar staðbundnu stofnum þá mun ekkert þeirra hafa heimild til að koma inn í okkar landhelgi til að veiða úr þeim stofnum. Hvað flökkustofna varðar þá hafa allir okkar samningar hingað til í þeim verið með ákvæðum um jafnan rétt til að veiða úr þeim hvaða landhelgi sem er. Þar verður því heldur ekki breyting á.

Það er rangt að ESB hafi gefið Spánvermu heimild til að veiða í landhelgi Breta. Bretar sjáfir voru með of rúmar reglur á valdatíma Tatcher til að hægt væri að koma í veg fyrir kvótahopp. Þeir eru núna með reglur sem duga til þess og því er það ekki vandamál hjá þeim í dag. Það hefur ekkert annað ESB ríki lent í vanda með kvótahopp enda hafa þau öll verið með reglur sem taka á þeim vanda og er það að fulli heimilt samkvæmt ESB reglum. Það er endemis þvæla að ESB hafi tekið veiðiheimildir af Króatíu til að úthluta Spánverjum. Króatar hafa hins vegar nokkra fiskistofna sameiginlega með Ítölum og því mega Ítalskir sjómenn nú sækja sinn hluta kvótans úr þeim sameiginlegu stofnum inn í króatíska landhelgi en það virkar líka í hina áttina. Báðar þjóðir hafa óbreyttar veiðiheimidlir og geta því áfram veitt sama magn og áður en eru bara ekki bundnar eigin landhelgi til að ná í þann afla. Þetta tekur því ekki neinar veiðiheimildir frá Króötum frekar en það muni gera gagnvart okkur Íslendingum ef við göngum í ESB.

Fullyrðingar um að við munum missa veiðiheildir til annarra ríkja ef við göngum í ESB eru ekkert annað en rangrærslur sem bornar eru út til að fá kjósendur til að vera andsnúnir ESB aðild á upplognum forsendum.

Sigurður M Grétarsson, 18.10.2013 kl. 08:56

14 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

Enn ferðu með skuggalega vitlaust fleipur, Sigurður M Grétarsson.

Þessi undantekning, sem getið er um í texta innleggs míns hér ofar (texta sem er hjá Stefáni Má Stefánssyni og Óttari Pálssyni í ritsmíð þeirra frá 2003), gengur EKKI út á, að hin "veigamikla takmörkun á meginreglunni um jafnan aðgang" takmarkist af fyrir fram ákveðnum kvótum vissra útgerða (landsins, þar sem verið er að veiða) -- heldur er þarna verið að vísa til þess, að það yrði Evrópusambandið, sem almennt myndi veita heimildirnar til að veiða á ákveðnum svæðum og úr ákveðnum fiskistofnum; ESB fengi m.ö.o. æðsta vald til lokunar vissra veiðisvæða fyrir öllum fiskiskipum og til veiða úr vissum stofnum -- alveg óháð því, hverrar þjóðar (ESB-þjóðar) viðkomandi fiskiskip væru.

Og frakkur ertu að skrifa eins og þú gerir eftir framlagningu alls þessa texta (í síðasta innleggi mínu), sem mælir eindregið og skýrlega gegn þínum meginfullyrðingum hér.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 18.10.2013 kl. 13:24

15 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

JVJ ritaði.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 18.10.2013 kl. 13:25

16 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

Þar að auki: Eftir innlimun Íslands í Evrópusambandið -- sem aldrei verði! -- fengju fyrirtæki þar fulla heimild til að kaupa upp útgerðir hér.

Þótt um áframhaldandi kvótakerfi væri að ræða, mætti þannig eignast þann kvóta jafnhliða kaupum á þeim útgerðum/skipum. Stöndug spænsk, brezk, dönsk eða hollenzk fyrirtæki, írsk, skozk eða þýzk o.s.frv. gætu þannig eignazt veiðiréttindi hér.

Enginn ESB-sinni getur um aldur og ævi hindrað það, að þetta verði einhvern tímann að veruleika og þá sennilega tiltölulega fljótlega.

Þar að auki hefði ESB allt æðsta lagasetningarvaldið í sinni hendi og gæti t.d. (ráðherraráðið) afnumið í einu pennastriki "regluna" óstabílu um hlutfallslegt stabílitet fiskveiða hvers ríkis.

PS. Það eru "krakkadagar" hjá undirrituðum, sem því hefur ekki komizt til andsvara hér nema að takmörkuðu leyti, og væri liðsinni annarra þjóðhollra því vel þegið í viðlögum.

Jón Valur Jensson.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 18.10.2013 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband