9.9.2013 | 11:26
Veiðisókn okkar í makríl er miklu minni er nauðsyn ber til - "hands off", Brusselkarlar!
Við veiðum í raun ALLT OF LÍTIÐ af makrílnum, í 1. lagi miðað við hlutfallslega viðveru hans í okkar 200 mílna lögsögu, í 2. lagi miðað við þá staðreynd, að nýjar mælingar sýna, að stofninn er langtum stærri en talið var, og í 3. lagi miðað við, að afföllin af ýmsum ætistegundum hér við land eru ca. 15 sinnum meiri en markílafli okkar hér við land; slík ágengni þessa makrílstofns á ýsu-, ufsa- og þorskseiði og aðrar ætistegundir við Ísland er beinlínis hættuleg viðgangi þeirra fiskistofna við landið og kemur niður á öðrum sjávardýrum (og fuglum líka) sem þurfa á því að halda að komast í það æti.
Þeir sérhagsmunaseggir á Írlandi og Skotlandi, sem nota Evrópusambandið sem verkfæri sitt, skirrast einskis við að láta kné fylgja kviði gegn þjóðum, sem eru einfaldlega að veiða fisk í eigin lögsögu og jafnvel í miklu minna mæli en þær ættu að gera, vegna þess að makríllinn er trúlega þrefalt meiri að magni skv. nýjum mælingum en ESB-menn hafa gefið sér, og þessi fiskistofn fer eins og ryksuga um höfin og étur upp átu og seiði sem svipta aðra fiskstofna hér fæðu sinni -- sem og fugla við strendur landsins.
Færeyingar eiga óáreittir að fá að ráða sinni fiskveiðilögsögu, ekki ESB, sem er hvort sem er með allt niðrum sig í fiskverndarmálum. Lítið á hrun veiðanna í norðanverðu Miðjarðarhafi! ESB var einrátt um þá frábæru stjórnun! Meint varfærni ESB í málinu alger hræsnisdula yfir tvennt: þjónustulipurð þess við skozka og írska útgerðarmenn annars vegar og hins vegar ofveiði- og fiskveiðistjórnunarrugl þess sjálfs í sjávarútvegsmálum, eins og Jón Kristjánsson fiskifræðingur (fiski.blog.is) hefur iðulega bent á.
Svo er þetta lærdómsríkt: Danir hafa EKKI fullveldi í þessu máli, og það kemur til af ESB-"aðild" þeirra, sem er nú ekki beysin "aðild" þegar hún sviptir þetta ríki fullveldi, þannig að það getur ekki einu sinni staðið með sínu sambandslandi Færeyjum, heldur tekur fullan þátt í löndunarbanni á færeysk skip! Þetta gerist jafnvel þrátt fyrir, að Færeyingar hafi áður staðið með Dönum, þegar þeir síðarnefndu voru í hliðstæðum vanda. En svik eða vanþakklæti dönsku ríkisstjórnarinnar er hér í raun ekki aðalmálið, heldur ófrelsi Dana að beita sér gegn ákvörðunum yfirríkisins "ESB".
Við höfum hins vegar fullveldi yfir okkar fiskveiðilögsögu og eigum sjálfir að stjórna okkar makrílveiðum eins og öðrum veiðum. Það sakar þó ekki að senda launaða sveit fiskifræðinga á Evrópusambandið til að leiða því fyrir sjónir, að allt tal þess um "ofveiði" makríls er eins og léleg skrýtla.
En stuttar samningaviðræður hafa nú farið fram i Reykjavík um makrílmálið milli Íslendinga, Færeyinga og Evrópusambandsins:
- Fundað var um helgina og herma heimildir Morgunblaðsins að engin tilboð hafi verið lögð fram og að ekki hafi verið reynt að semja um prósentutölur í skiptingu aflans. (Mbl.is.)
Full nauðsyn er á, að íslenzkur almenningur haldi vöku sinni um framhald þessa máls.
Jón Valur Jensson.
Þrátefli í makríldeilunni að ljúka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.