Gallagripurinn ESB - eftir Gústaf Adolf Skúlason

Gústaf Adolf Skúlason  Mörtu Andreasen, fyrrverandi yfirendurskoðanda ESB, var sparkað árið 2002 fyrir að vekja athygli á fjárdrætti vegna ímyndaðra sítrónutrjágarða og kúabúa ásamt vegum, sem aldrei voru lagðir. Þess var vænst, að hún snéri blinda auganu að reikningum, þar sem upphafstölur voru í engu samræmi við lokatölur undangengins árs. Marta neitaði að skrifa undir og var rekin fyrir að sýna ekki ESB nægilega hollustu. Tíu árum seinna skrifaði Marta: „Þetta var meira Guðfaðir en gott bókhald og þess vegna þarf engan að undra, að reikningar Evrópusambandsins hafa aldrei verið samþykktir. Átján ár og tíminn líður og enn segja endurskoðendur: Þið verðið að gera betur.“

Að sögn Mörtu talar ESB aldrei um fjársvik heldur einungis um „galla“. Einn af „göllunum“ er að reiknað er með að 1 evra af hverjum 5 hverfi í vasa spilltra embættismanna. Sex ríki standa fyrir tveim þriðju hlutum „gallanna“: Búlgaría, Rúmenía, Grikkland, Ítalía, Pólland og Spánn. Ítalía toppar listann með um 80 milljarða evra úr sjóðum ESB enda á ítalska mafían lengri Guðföðursögu en ESB og starfar eftir mottóinu: „Öllu er hægt að múta nema veðrinu.“

Í nýlegri skýrslu lögregluyfirvalda ESB, EUROPOL (www.europol.europa.eu), segir: „Ítalska mafían fjárfestir sífellt meira í endurnýjanlegri orku, sérstaklega vindrafstöðvum og græðir á rausnarlegum styrkjum ESB greiddum af aðildarríkjunum, sem gera mafíunni kleift að blanda saman óhreinu fé við löglegar efnahagslegar framkvæmdir.“ Andrea Gilardoni, hagfræðingur í Bocconi-háskólanum í Mílanó, segir að styrkirnir séu það háir, að alls kyns fólk laðist að þeim: „Jafnvel hundar og kettir geta grætt peninga við þessar aðstæður.“ Mitt í efnahagskreppunni byggir mafían fleiri vind- og sólarorkustöðvar en Ítalir hafa nokkru sinni áður kynnst með styrkjum ESB og notar fyrirtækin fyrir peningaþvott í stórum stíl. Yfirvöld Ítalíu hafa dælt yfir 75 milljörðum dollara í starfsemina á sex ára tímabili. Sameinuðu þjóðirnar telja ársveltu þriggja stærstu mafíuhringja Ítalíu vera yfir 116 milljarða evra, sem er meira en árleg sala stærsta fyrirtækis Ítalíu, olíurisans Eni.

Fyrr í ár gerðu ítölsk yfirvöld stærstu eignaupptöku á eigum mafíunnar í sögu Ítalíu. Á meðal eigna voru vindorkufyrirtæki að andvirði yfir 1,6 milljarða dollara. Vito Nicastri, 57 ára eigandi fyrirtækjanna, gekk undir nafninu Lord of the Wind. Hann notaði fyrirtækin til að þvo peninga frá eiturlyfjasölu, fjárkúgun og öðrum ólöglegum greinum fyrir hönd Matteo Messina Denaro, sem talinn er æðsti yfirmaður Cosa Nostra.

Það er auðvelt að vera sammála EUROPOL um að styrkjaveiting ESB til mafíunnar skekkir viðskiptagrundvöll allan og hrekur burtu heiðarlega einstaklinga frá fyrirtækjarekstri. Spurningin er hvort EUROPOL, sem vill fá aukin völd og fjárframlög til að berjast gegn „skýrri og yfirstandandi ógn við ESB“, verði meira ágengt en yfirvöldum San Luca, sem ætluðu að reisa „Lagahúsið“ til tákns um árangur í baráttunni við mafíuna en urðu að hætta við, þar sem mafían tók alla peningana. Sem eilíft tákn um spillingu ESB og ítölsku mafíunnar standa hálfkláraðar brýr hraðbrautarinnar A3 suður af Napólí, sem verið hafa í byggingu í áratugi. Alveg er sama, hversu miklum styrkjum er varið til framkvæmdanna, þeim mun ekki ljúka með núverandi mafíuskipulagi.

Íbúar aðildarríkja ESB búa við ofríkisstjórn Brussels, sem hirðir skattfé evrulandanna til að fjármagna múmíubanka ESB og fyrirskipar aukna skattheimtu og almennan niðurskurð. Í ofanálag er svæðastyrkjakerfi ESB, sem öllum er talin trú um að sé til heilbrigðra framkvæmda og nemur yfir einum þriðja af fjárlögum ESB, notað til að næra glæpastarfsemi á borð við ítölsku mafíuna. Það er því ekki við því að búast að ESB fái reikninga sína samþykkta af löggiltum endurskoðendum í nánustu framtíð frekar en hingað til.

Ég hvet þá aðila, sem vinna að skýrslu Alþingis um þróun ESB, að taka skýrslu EUROPOL með í reikninginn. Hún er víti til varnaðar um, hversu útbreidd spillingin er orðin og hvernig skattfé íbúa ESB er gróflega misnotað í glæpsamlegum tilgangi. Vandinn er ekki sá, að forráðamönnum ESB sé ekki kunnugt um ástandið. Innri eftirlitsnefnd ESB, OLOF, hefur ekki ákæruvald og þrátt fyrir ítarlegar skýrslur OLOF til aðildarríkjanna um ástandið enda 93% af skýrslunum í ruslafötunni. Það eru því aðrar ástæður fyrir því að forráðamenn ESB vilja ekki leysa vandamálin, sem sífellt stækka og verða verri með hverju ári sem líður.

Spilling, mikil eða lítil, er slæm og það er gæfa Íslands að sogast ekki með í spillingardæmi ESB. Enn er því möguleiki á að endurbyggja siðmenntað samfélag eftir þá útbreiddu fjármála- og stjórnmálaspillingu, sem ríkisstjórn aðildarsinna stóð fyrir sl. kjörtímabil.

Höfundur er fyrrv. ritari Smáfyrirtækjabandalags Evrópu.

Greinin, birt í Morgunblaðinu 23. júlí sl., er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband