25.7.2013 | 23:25
Evrópusambandið fær á snúðinn frá okkur Íslendingum í sinni eigin könnun
Ólíkt (öðrum) ESB-umsóknarlöndum eru langtum fleiri Íslendingar neikvæðir gagnvart inngöngu í Evrópusambandið heldur en hinir. 81% Íslendinga treysta Sameinuðu þjóðunum,* en aðeins 40% okkar treysta ESB, 52% treysta því ekki (12. spurning). Þótt traust okkar á því sé takmarkað, bera íbúar 19 af 33 ríkjum, sem könnunin náði til, minna traust til ESB en Íslendingar og þar af í 16 af 28 ríkjum ESB. (Mbl.is.)
57% Íslendinga telja að innganga í Evrópusambandið myndi ekki þjóna hagsmunum landsins samkvæmt niðurstöðum Eurobarometer-skoðanakönnunar fyrir sambandið sem birtar voru í vikunni en könnunin var gerð í maí síðastliðnum. Aðeins þriðjungur er á öndverðri skoðun. (Mbl.is.) Ef aðeins eru taldir þeir, sem taka afstöðu,........... Ólíkt umsóknarríkjum ESB (hin eru Serbía, Svartfjallaland, Makedónía og Tyrkland) hefur Ísland þá sérstöðu, að hér eru fleiri en í hinum löndunum þeirrar skoðunar, að innganga í ESB yrði landinu ekki í hag.
Í könnuninni kemur fram (í svörum við spurningu 15), að Íslendingar eru mjög á báðum áttum um það, hvort hugtakið lýðræði lýsi Evrópusambandinu vel eða illa; 47% telja það lýsa ESB, en 49% telja það ekki, og þeir okkar, sem telja, að 'lýðræði' lýsi ESB mjög vel, eru aðeins 7% aðspurðra, en 14% telja það lýsa Evrópusambandinu mjög illa.
- Einnig var spurt að því hvort innganga í ESB væri jákvæð eða neikvæð fyrir Ísland. 42% Íslendinga telja að innganga í sambandið væri neikvæð fyrir landið, 24% jákvæð og 29% hvorki neikvæð eða jákvæð. Fleiri eru hins vegar þeirrar skoðunar að innganga væri jákvæð en neikvæð í hinum umsóknarríkjunum. (Mbl.is.)
Þetta er í góðu samræmi við það, sem margir hér telja, að Íslendingar hafi lítið að vinna, en gætu haft gríðarlega miklu að tapa með inntöku í þetta stórveldabandalag.
Þá er það frásagnarvert, að meirihluti Breta í könnuninni (53% gegn 36%) er á þeirri skoðun, að landi þeirra myndi farnast betur utan Evrópusambandsins heldur en innan þess.
* 13% eru á öndverðri skoðun. Íslendingar bera mest traust til SÞ af þeim þjóðum sem könnunin nær til. Næstir koma Danir með 76% traust til samtakanna og þar á eftir Svíar með 70%. (Mbl.is.)
JVJ tók saman.
Telja ESB-aðild ekki Íslandi í hag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 26.7.2013 kl. 00:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.