24.7.2013 | 10:05
Árni Páll Árnason, með fullveldisafsal í maganum, vill auðvelda stjórnarskrárbreytingu
Við þekkjum þessa stefnu evrókrata frá síðasta kjörtímabili. Stjórnlagaráðs-tilbúningurinn ólögmæti átti að þjóna því markmiði þeirra að koma Íslandi undir ESB. Billeg heimild til fullveldisafsals var þar, með própagandísku orðavali til að auðvelda leikinn í kosningu um málið.
Nú er Árni Páll, formaður Samfylkingarinnar, farinn í gang með greinaskrif í Fréttablaðið til að liðka fyrir stjórnarskrárbreytingu, með þetta markmið evrókrata innanstokks, eins og við munum vísast sjá í hans næstu grein. Það er svo látið hljóma teknókratískt trúverðugt að breyta stjórnarskránni með þessum billega hætti, þar sem naumasti meirihluti, jafnvel tiltölulega fárra kjósenda, geti tekið ákvörðun sem leitt geti til óviðbreytanlegs fullveldisafsals íslenzkra valdstofnana um ókomna tíð, Alþingis, forseta Íslands, ríkisstjórnar Íslands og Hæstaréttar Íslands, í hendurnar á Evrópusambandi gömlu stórveldanna í álfunni, í stofnunum þess í Brussel, Strassborg og Lúxemborg.
Nei takk, ekkert fullveldisafsal ! -- enga ódýra heimild til grundvallar-stjórnarskrárbreytingar í dulargervi blekkjandi áróðurs Þorvaldar Gylfasonar & Co. um að fullveldisafsal sé "í þágu friðar og efnahagssamvinnu"! Engar slíkar afsalsgreinar (111. gr. "stjórnlagaráðs") samhliða öðru ákvæði sama plaggs (67. gr.) þar sem innlimunarsinnar ganga tryggilega svo um hnútana, að ekki sé hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um að snúa til baka frá innlimun í Evrópusambandið!
Við fengum miklu meira en nóg af rotinni Samfylkingarpólitík á síðasta kjörtímabili. Nú skiptir máli, að þingmenn stjórnarflokkanna haldi vöku sinni og taki ekki þátt í lymskulegum tilburðum Samfylkingarinnar sem gætu allt eins átt sér sín upptök í teymi spinndoktora Brusselvaldsins og koma sér a.m.k. einkar vel fyrir hagsmuni þeirra og keppikefli.
Sýnum lýðveldinu hollustu! Tökum þátt í baráttu fyrir óskertu fullveldi lands og þjóðar.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 11:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.