Eftir harkalegar aðgerðir ESB gegn okkur í Icesave-málinu þurfum við sízt á fleiri hótunum að halda. Um 17. júní-ræðu forsætisráðherra

Hugmyndin um fullveldi byggist á því að menn trúi því raunverulega að íslensku þjóðinni farnist best þegar hún ræður sér sjálf og hefur full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í 17. júní-ræðu sinni í morgun.

Við mættum aldrei missa þá sannfæringu að trúa því að Ísland ætti að vera sjálfstætt land, sagði hann.

Hann gekk nokkuð til móts við ESB-sinnana með þeim orðum, að við þyrftum einnig að virða afstöðu þeirra, sem velta því fyrir sér, hvort aðild að Evrópusambandinu myndi styrkja stöðu Íslands (hvað er svona virðingarvert við þá röngu afstöðu? – annað má segja um samvizkufrelsi manna til að leita sannleikans, hver með sínum ófullkomna hætti), en hann bætti því við, að við gætum verið sammála um að nú þyrfti sambandið að sanna sig gagnvart Íslandi, og það eru orð að sönnu, því að svo hrapallega hefur þetta stórveldabandalag gamalla nýlenduvelda brugðizt okkur Íslendingum, eins og svo skýrt kom fram í ræðu Sigmundar:

„ESB tók þátt í tilraunum til að þvinga Íslendinga til að taka á sig gríðarlegar efnahagslegar byrðar í andstöðu við lög og braut svo blað í sögu sinni til að taka þátt í málaferlum gegn Íslandi. Nú þarf ESB að sýna að það sé samband sem byggi á lögum og jafnræði en ekki valdi í krafti stærðar og hagsmuna hinna stóru.“

Þar, eftir upprifjun Icesave-málsins, var hann að vísa til makrílmálsins, en eins og kunnugt er, hefur Evrópusambandið endurnýjað hótanir sínar í okkar garð og þolir ekki að Íslendingar veiði 16% af aflanum í NA-Atlantshafi, þótt sjálft ætli það sér og Norðmönnum margfalt meira!

Hann sagði að í ljósi umræðunnar um áhrif aðildar Íslands að ESB hlytu Íslendingar að líta til þess hvort Evrópusambandið myndi sýna Íslendingum aukna sanngirni í deilum um fiskveiðar í eigin lögsögu. „Það að beita smáþjóð ólögmætum refsiaðgerðum fyrir að veiða fisk samkvæmt vísindalegum viðmiðum í eigin lögsögu á sama tíma og stærri þjóðir veiða úr sama stofni óáreittar myndi varla boða gott um sameiginlega fiskveiðistefnu,“ sagði Sigmundur Davíð réttilega. Það er gott að hafa þennan einarða hug lykilmanns til varnar þjóðarhagsmunum á næstu mánuðum.

  • Eðlilegt að forseti Íslands tjái sig um fullveldið
  • Sigmundur Davíð vitnaði til ræðu forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, við setningu þingsins fyrr í þessum mánuði, þar sem hann ræddi stöðu Íslands gegn Evrópusambandinu.
  • „Það hefðu líklega fáir trúað því árið 1944 – eða 1994, að síðar yrði leitað til sérfræðinga til að spyrja hvort það heyrði undir viðeigandi umræðuefni fyrir forseta Íslands að tjá sig um fullveldi landsins. Sem betur fer var ekkert út á mat sérfræðinganna að setja en það kom þó ekki í veg fyrir að þeir sem eru viðkvæmir fyrir umræðuefninu túlkuðu það áfram á sinn hátt.“ (Mbl.is.)

„Íslendingar ... hafa löngum verið sjálfstæðir í hugsun og þolað illa yfirvald, hvað þá kúgun. Það sýndi sig vel í ICESAVE-deilunni þar sem þjóðin felldi samkomulag sem hún taldi ósanngjarnt. Alþjóðlegur dómstóll staðfesti síðan þessa niðurstöðu sem sýndi að réttlætistilfinning þjóðarinnar var góður vegvísir.“

  • Í ræðu sinni kom Sigmund Davíð inná aðgerðir fyrir íslensk heimili. Hann sagði að við myndum ekki láta alþjóðastofnun segja okkur að ekki sé hægt að gera meira fyrir íslensk heimili um leið og við værum minnt á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins. (Mbl.is.)

Í meginatriðum er þessi ræða forsætisráðherra verðug upprifjun á nauðsyn þjóðar til að ráða sér sjálf og hafa "full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum," eins og hann sjálfur kvað að orði.

Menn taka almennt vel og jafnvel fagnandi þessari hátíðarræðu ráðherrans.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrópusambandið þarf að sanna sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband