19.3.2013 | 01:51
Úr sameiginlegu áliti Katrínar Jakobsdóttur, Ragnars Arnalds, Björns Bjarnasonar og Einars K. Guðfinnssonar
"Engar líkur eru á að samist geti um milli Íslands og ESB, að 200 mílna efnahagslögsagan umhverfis Ísland verði í heild sinni viðurkennd sem sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi undir stjórn Íslendinga enda samrýmist það ekki sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og á sér engin fordæmi nema hvað varðaði afmörkuð fiskverndarhólf. Veiðiheimildir kynnu að mestu að falla í hlut Íslendinga með hliðsjón af reglunni um hlutfallslegan stöðugleika sem byggist á sögulegri veiðireynslu. Sú regla á hins vegar eingöngu stoð í samþykktum ráðherraráðs ESB hverju sinni og ekkert er því til fyrirstöðu að henni verði breytt ef samstaða tekst um það." Og það hefur jafnvel verið rætt í fullri alvöru í Brussel að afnema hana! (innskot JVJ).
Og áfram þar segja þau:
"Íslenska efnahagslögsagan er 758.000 ferkílómetrar að stærð eða ríflega sjö sinnum stærri en landið sjálft. Íslendingar geta ekki framselt yfirráðin yfir þeim miklu auðæfum sem þar er að finna til Evrópusambandsins, án þess að hafa nokkra vissu fyrir hvaða reglum verði fylgt í sjávarútvegsmálum á komandi áratugum. Engin trygging er fyrir því, að Íslendingar geti varið hagsmuni sína í þessu efni til frambúðar sem aðilar að Evrópusambandinu, þar sem ráðherraráðið tekur úrslitaákvarðanir um hámarksafla og hvaða tegundir er leyfilegt að veiða svo og um veiðiaðferðir og veiðarfæri. Í ráðherraráðinu myndu Íslendingar aðeins ráða yfir 3 atkvæðum af 348 miðað við núverandi stærð ESB." (Úr skýrslu Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem gefin var út undir titlinum Tengsl Íslands og Evrópusambandsins (http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/SkyrslaEvropunefndar-.pdf), Rvík 2007, bls.123-4.
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fiskveiðar, sjávarútvegur, Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.