Stefán Haukur Jóhannesson agiterar fyrir gæðum "samningaviðræðnanna" og "ferlisins" og lokar augum fyrir blýþungum ástæðum andstöðu Íslendinga við ESB-innlimun

Um hvað þykist þessi Stefán Haukur Jóhannesson, "aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum um inngöngu Íslands í ESB", vera að "semja"? ESB hefur gert það kýrskýrt að rangt er að tala um "að semja" í aðildarviðræðum, sjá þess eigin yfirlýsingu um það hér.*

Stefán Haukur talar líkindalega við litháískan fréttavef um það að um mitt næsta kjörtímabil, vorið 2015, verði Ísland komið vel á veg í þeim efnum "að ganga í sambandið og hafa þannig bæði lokið viðræðunum og haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um málið," en ekkert umboð hefur hann til "bjartsýnna" yfirlýsinga af þessu tagi, og ekki er hann hlutlaus í málinu, nota bene, enda ekki líklegt af manni sem núverandi Icesave- og ESB-hundtrygg stjórnvöld hafa valið til starfa; hér er einnig tekið mið af andanum í útvarpsviðtölum sem heyrzt hafa við Stefán Hauk. Vel má vera, að hann eigi ágætan fyrri feril, en hér er hann í þjónustu stjórnvalda, ráðherra og þingmeirihlutans sem hangir raunar nú á horriminni, enda njóta stjórnarflokkarnir aðeins 24,8% fylgis meðal þjóðarinnar skv. síðustu skoðanakönnun! Það væru því öfugmæli eða í bezta falli skrýtla að segja þau hafa aktúelt umboð frá þjóðinni til þessara hluta, því að alla tíð frá umsókn Össurar & Co. 2009 hafa allar skoðanakannanir sýnt skýra meirihlutaandstöðu við að Ísland fari inn í Evrópusambandið.

  • "Stefán Haukur segist alltaf hafa viljað tala varlega í þessum efnum og ekki viljað gefa neinar dagsetningar hvenær umsóknarferlinu kynni að ljúka" en "vonist þó til þess að á síðari helmingi þessa árs, þegar Litháen fari með forsætið innan Evrópusambandsins, verði hægt að loka sem flestum af þeim viðræðuköflum sem hafi verið opnaðir en af 35 viðræðuköflum hefur 11 verið lokað og 16 aðrir opnaðir." (Mbl.is.) 

Menn  hafa haft á orði, að við eigum eftir að "gá í pakkann", en ef þetta væri raunverulegur samningapakki, þ.e. "kaflar" hans og það frágengnir, af hverju eru þeir ekki birtir? Staðeyndin er sú, að kaflavinnan öll snýst um að aðlaga Ísland að Evrópusambandinu og tryggja, að við inntöku landsins í þetta stórveldabandalag verði ekkert að vanbúnaði að innlimunin gangi hratt fyrir sig.

Þegar Stefán er spurður "um afstöðu almennings á Íslandi til inngöngu í Evrópusambandið, segir hann meirihluta þjóðarinnar vera á móti inngöngu eins og sakir standi." (Mbl.is-fréttin).

Eins og sakir standi? Nei, ALLTAF. Maðurinn á að segja satt. Er hann ekki á launum hjá íslenzkum skattgreiðendum?

  • Þá segist hann aðspurður telja að það sem valdið hafi andstöðu á Íslandi við inngöngu í sambandið hafi annars vegar verið Icesave-deilan og hins vegar efnahagsástandið á evrusvæðinu.

Hér skrökvar hann með þögninni rétt eins og staðhæfingum sínum. Efnahagskreppan á evrusvæðinu var ekki slík ástæða árið 2009, þegar verst horfði hér, enda þá ekki komin í algleyming. Þjösnagangur ESB í sambandi við Icesave-málið, sem hefur uppgötvazt bæði seint og snemma, hefur vissulega verið ástæða bæði tortryggni og andstöðu við ESB-"aðild" (eins og það er kallað svo léttúðugu nafni; innlimun væri réttara orð). En a.m.k. þrennt annað kemur hér líka til sem sterkar ástæður andstöðunnar við Evrópusambandið á Íslandi:

  1. Sú staðreynd, að fullveldið yrði tekið af þjóðinni í hennar mestu málum, um jafnvel æðsta og ráðandi löggjafarvald, framkvæmdavald, t.d. í fskveiðistjórnun, og dómsvald.
  2. Vitundin um það skriffinnskubákn og þá miklu forræðishyggju sem fylgt hefur þessu bákni.
  3. Makríldeilan, þar sem ESB hefur tekið afar harða afstöðu gegn rétti Íslendinga til sinnar eigin landhelgi og gegn þjóðarhagsmunum.

Hér blasir svo við disinformantzia Stefáns Hauks:

  • Stefán er einnig spurður út í sjávarútvegsmálin í tengslum við viðræðurnar við Evrópusambandið og segist hann telja að hægt verði að ná fram sérlausn vegna fiskveiða við Ísland sem rúmist innan sameiginlegrar fiskveiðistefnu sambandsins og án þess að gengið sé gegn grundvallarreglum þess. Hann segist telja sameiginlegu stefnuna nógu sveigjanlega til þess að hægt verði að koma til móts við hagsmuni Íslands. 

Þetta er allsendis fráleit yfirlýsing, og hvernig ætti hann að geta miðlað einhverjum slíkum upplýsingum (raunar um það, sem hann "telur"), þegar hann hefur haft nóg að gera allan tímann við að fást við alla hina "kaflana" og ekki snert við þessum um sjávarútvegsmálin?!

Sameiginlega stefnan í ESB felur í sér jafnan aðgang allra ESB-borgara að fiskimiðunum,** og það er ekki hægt að samrýma það með neinu móti varanlegum yfirráðum og einka-nytjarétti hinna einstöku þjóða að eigin miðum. "Reglan" um "hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða" hvers ESB-ríkis er einungis tímabundið fyrirkomulag, breytilegt og afleggjanlegt í sjálfu sér, og ráðherraráð ESB hefur allt vald í þeim löggjafarefnum; þar hefðum við 0,06% atkvæðavægi við slíka ákvörðun!

Neðanmálsgreinar:

* Kjarninn í þeirri samantekt er hér: Upplýsingarnar frá framkvæmdastjórn ESB:

  • Inntökuviðræður (e. Accession negotiations [oftast kallaðar hér aðildarviðræður])
  • Inntökuviðræður varða hæfni umsækjandans [umsóknarríkisins] til að taka á sig skyldurnar sem fylgja því að verða meðlimur [í Evrópusambandinu]. Hugtakið "viðræður" getur verið misvísandi. Inntökuviðræður beinast sérstaklega að (focus on) skilyrðum og tímasetningu á því, að umsóknarríkið taki upp, innfæri og taki í notkun reglur Evrópusambandsins, um 100.000 blaðsíður af þeim. Og þessar reglur (sem einnig eru þekktar sem acquis, franska orðið um "það sem samþykkt hefur verið") eru ekki umsemjanlegar (not negotiable). Fyrir umsóknarríkið er þetta í kjarna sínum mál sem snýst um að samþykkja hvernig og hvenær ESB-reglur og ferli verði tekin upp og innfærð. Fyrir ESB er [hér] mikilvægt að fá tryggingar fyrir dagsetningu og virkni hvers umsóknarríkis í því að innfæra reglurnar.
Þetta er úr plagginu Understanding Enlargement – The European Union’s enlargement policy , útgefnu af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 27.7. 2011.

** Dæmi úr textanum sem finna má gegnum tengilinn (miklu meira þar):

  • "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávarútvegsmál var samþykkt.
  • "Við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð."
  • "Rétturinn til að búa, starfa og fjárfesta hvar sem er í Evrópusambandinu er grundvöllur samstarfs aðildarríkjanna og því gefst lítið svigrúm til að banna einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum annarra aðildarríkja."

Jón Valur Jensson. 

 


mbl.is Komin langt á veg vorið 2015?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Burt með þessa þjóðníðinga.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2013 kl. 19:20

2 Smámynd: rhansen

hvað gefur mönnum leyfi að tala eins og þeir seu einir i heiminum með allt vitið ??

rhansen, 15.2.2013 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband