Helgispjöll í Safnahúsinu (Þjóðmenningarhúsi)

Utanríkisráðherra Eistlands er mættur í áróðursherferð fyrir Brusselbossa. Þetta eru ósvífnir tilburðir til að sannfæra Íslendinga um ágæti Evróputröllsins og sjálft Þjóðmenningarhúsið (Safnahúsið gamla) notað til þeirrar ósvinnu, til helgispjalla, vil ég segja, sem átti þar ófáa daga og ár við lestur og rannsóknir.

Nú er, eins og margir óttuðust, þegar stjórnvöld lögðu þetta hús undir sig, illa fyrir því komið margan daginn, með ýmissi misnotkun, en fáa hefði þó grunað það þá, að það yrði notað til að hýsa áróðursstarfsemi gegn Lýðveldinu Íslandi!

Safnahúsið er merkt að utan nöfnum ýmissa skörunga í mennta- og lærdómslífi Íslendinga, allt frá Ara fróða, Sæmundi fróða, Snorra Sturlusyni og Sturlu Þórðarsyni. Skyldi þá ekki bjóða við, því, ef þeir vissu, að nú er lærdómssetrið tekið undir áróðursfundi í þágu útþenslustefnu erlends stórveldis?

Litlu skárra en framangreint er hitt, að Sjónvarp þjóðarinnar var í kvöld notað til að koma þessum áróðursmanni á framfæri við allan almenning með blekkjandi "upplýsingum" sínum.

Lygimál fer þessi utanríkisráðherra með, þegar hann lætur sem afstaða Eistlendinga til Evrópusambandsins ætti að hafa áhrif á Íslendinga. Eistur, sem eru aðeins fjórum sinni fleiri en við, eru í gerólíkri stöðu. Það má segja, að þeir hafi fengið sjokk- og hryllingsmeðferð 20. aldar, meðan við fengum forréttinda- og framfara-meðferð. Við fengum hingað Breta og Bandaríkjamenn, sem virtu okkar stjórnskipan og stuðluðu að atvinnubyltingu, tækniframförum og lífskjarabyltingu. Eistlendingar fengu Sovétmenn, nazistíska Þjóðverja og svo aftur Sovétmenn, sem kúguðu þjóðina og fluttu ótalmarga í fangabúðir Gúlagsins.

Það er því vel hægt að skilja það, að Eistlendingar sóttust eftir aðild að NATO, eftir að þeir öðluðust aftur frelsi fyrir rúmum tveimur áratugum, og jafnvel að þeir sæktust eftir ESB-aðild í von um skjól frá sama volduga nágranna.

Að 80% Eista styðji nú "aðild" að ESB, verður að hluta til að skilja með hliðsjón af þessum myrka bakgrunni, sem og vegna bankakreppunnar, sem lék þá grátt, en að stórum hluta vita þeir þó ekki, við hverju þeir voru að taka í raun, því að Brusselbossar eiga eftir að draga ýmislegt ljótt upp úr sínum hatti, áður en yfir lýkur. Evrópusambandið á eftir að notfæra sér sínar margvíslegu valdheimildir í sáttmálunum og halda áfram, eins og ráðgert er, að fækka tilfellum neitunarvalds ríkjanna. Smáþjóð eins og Eistur mun ekkert hafa að segja til að stöðva Evrópusambandið í fyrirætlunum þess -- og þaðan af síður myndu Íslendingar fá tækifæri til slíks. Samrunaferlið mun halda áfram, það er lögmálið sem knýr ráðandi stórþjóðir sambandsins áfram.

Utanríkisráðherra Eistlands höfðar til landbúnaðarstyrkja ESB, en þegir kirfilega um þá staðreynd, að nú er rætt um að leggja þá af að verulegu leyti. Þótt Frakkar spyrni við fótum, breytir það því ekki, að styrkjakerfið, sem nýtzt hefur til að friða marga í Evrópusambandinu, er auðvelt að afleggja, þegar ESB-valdastéttin hyggur tíma til kominn að láta til skarar skríða. Það sama á við um sjávarútvegsstefnuna. Grunnstefna ESB er jafn aðgangur að fiskimiðunum, en "reglan um hlutfallslegan stöðugleika" fiskveiða hverrar þjóðar er TÍMABUNDIN ráðstöfun, jafn-auðhætt að nota hana eins og það var auðvelt fyrir ráðherraráð ESB að búa hana til.

Ísland hefur öllu að tapa í grundvallar-auðlindum sínum, en ekkert varanlegt að vinna, með því að "ganga í" Evrópusambandið, en hitt hentar Brusselbossum að senda hingað blekkingarmeistara (einn þegar innmúraðan í Brussel-elítuna, með tryggt ofurhálaunastarf þar eftir stjórnmálastarf í eigin landi) til að agitera fyrir afsali fullveldis Íslands í þágu hins sama Evrópusambands og áhrifaríkja þar, m.a. Bretlands og Spánar.

Réttast væri, að sett yrði á fót mótmæla-varðlið  sannra Íslendinga til að andmæla kröfuglega (á staðnum) þeirri misnotkun á þjóðargersemum eins og Safnahúsinu að gera það að ræðupalli ESB-útsendara í þágu útþenslustefnu stórveldisins.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Sáu kostina við aðildina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband