16.11.2012 | 05:09
Brotlendir SAS?
Óróleikinn varðandi flugfélagið SAS vex. T.d. undirbýr danska ríkisstjórnin sig undir gjaldþrot félagsins, sem mundi hafa alvarleg áhrif á Kastrup flugvöllinn og atvinnulíf í Kaupmannahöfn, ef af yrði.
Forsætisráðherra Dana, Helle Thorning-Schmidt sósíaldemokrat, hvatti starfsmenn SAS að samþykkja sparnaðaráætlun SAS, þrátt fyrir að um uppsagnir og launalækkanir væri að ræða.
"Síðasta kallið" frá forstjóra SAS, Rickard Gustafson, þýðir að flugfélagið verður gjaldþrota, ef starfsmennirnir samþykki ekki uppsagnir og launalækkanir. Í Svíþjóð vex óróinn á flugvöllum landsins, þar sem SAS heldur uppi daglegum samgöngum. Margir eru alfarið háðir flugsamgöngum við Stockhólm. T.d. ferðast árlega um 200 000 farþegar milli Kiruna og Stockhólms og lest tekur meira en 15 tíma í stað klukkutíma flugs. Svipaða sögu er að segja um Östersund og aðra bæi í Norður-Svíþjóð. Í Suður-Svíþjóð er ástandið betra með fleiri flugfélög, sem veita þjónustu.
Verkalýðsfélögin í Svíþjóð gagnrýna hugmyndir SAS um launalækkun starfsmanna allt niður í 80 sek á tímann, sem yrði meðal lægstu launa í landinu, ef gengi eftir. Formaður sænska Alþýðusambandsins LO sagði
"að stundum væri betra að fyrirtæki færu á hausinn í stað þess að vera haldið lifandi á skilmálum, sem brjóta alfarið í bága við gerða kjarasamninga."
Forstjóri SAS segir enga aðra lausn vera en gjaldþrot, ef starfsmenn samþykki ekki launalækkun eða uppsagnir.
Þetta er okkar "finall call."
Vandræði SAS koma með fullum þunga á sama tíma og fjöldi sænskra stórfyrirtækja eins og Husqvarna, Erixsson, Volvo, Stora Emso, SCA og Telia hafa lagt viðvaranir um uppsagnir starfsmanna. Bara í októbermánuði með 10 000 manns og 7 500 í september í Svíþjóð . Þunginn í uppsögnunum vex jafnt og þétt, 45 000 manns hefur verið sagt upp það sem af er ársins í Svíþjóð. Starfsmaður vinnumálastofnunar Svíþjóðar segir, að þótt uppsagnirnar hafi enn ekki náð sama hraða og 2008, þá sé enginn atvinnuuppgangur sjáanlegur fljótlega eins og gerðist þá.
"Við megum því búast við mjög löngum og köldum vetri."
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 05:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.