15.11.2012 | 09:39
Til hamingju með blaðið, Heimssýn! - og af hinum meðvirku (Samfylkingu og stjórnlagaráði) í yfirráðasókn ESB eftir íslenzkum fiskveiðiauðlindum
- "Evrópusambandið krefst þess að fjársterkum aðilum í ESB verði gert leyft að fjárfesta óhindrað í íslenzkum útgerðum. Íslenzk stjórnvöld mótmæla ekki kröfum ESB.
- Össur Skarphéðinsson og Samfylkingin ætla að fórna landhelginni fyrir aðild að Evrópusambandinu. Svo einfalt er það."
Þetta er meðal þess sem lesa má í nýútkomnu blaði, sem hefur væntanlega farið í aldreifingu, frá Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Myndarlegt er blaðið 16 bls., og ritstjóri þess Páll Vilhjálmssonblaðamaður, einn alvinsælasti Moggabloggarinn. Í blaðinu kennir fjölmargra grasa, og verður minnt á fleira í því hér á næstunni.
En augljós er sókn ESB-valdsins á hendur Íslandi, ekki einungis í makrílmálinu, þar sem óbilgirni þessa stórþjóðabandalags hefur verið deginum ljósari á síðari árum og umfram allt á þessu ári, með hreint ótrúlegum hætti gagnvart sjálfri "umsóknarþjóðinni" eins og þeir voga sér sumir ESB-sinnarnir að kalla okkur, sem aldrei höfum beðið um þá "aðild" (annað fagurmælið) að þessu stórveldabandalagi.
Grunnregla ESB, sem auðveldlega getur verið notuð til að feykja burt fallvaltri "reglu um hlutfallslegan stöðugleika" fiskveiða hvers ESB-ríkis, er jafn aðgangur að fiskimiðunum,* en þar til viðbótar er ekki hægt að komast fram hjá því, að við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð." (FISKVEIÐISTEFNA ESB OG KVÓTAHOPP (utanríkisráðuneytið, ágúst 2008, bls. 9.)**
Þó er í gildi stjórnarskrárregla, sem stendur jafn-skýrt GEGN frelsi útlendinga til uppkaupa á íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum eins og Samfylkingin er skýr á því að vilja láta undan kröfum ESB í þessa átt.
Hitt er öllu lakara, að fyrirbæri sem lætur eins og það sér að bjarga Íslandi, "stórnlagaráð" svo kallað, sýndi sinn rétta lit ekki aðeins með ósvífnu fullveldisframsals-heimildarákvæði í 111. grein tillögudraga sinna (þeirra sem nú hafa verið leiðrétt í 75 atriðum af ríkisskipuðum lögfræðihópi!), heldur og með því að fella niður þetta mikilvæga ákvæði í eignarréttargrein stjórnarskrárinnar (þeirrar raunverulegu!):
- Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignarréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.
Eins og þetta stjórnarskrárákvæði hefur verið helzta lagastoð Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra í vörnum hans í ásælni kínverskra fjárfesta í landsvæði á stærð við Möltu í uppsveitum Þingeyjarsýslu, þannig er það einnig grunnstoð varna okkar gegn ásælni erlendra útgerða í uppkaup á þeim íslenzku.
En þessu mikilvæga varnarákvæði vill fyrrnefnt, umboðslaust stjórnlagaráð*** feykja burt! Augljóst er það með öðru um skaðsemisáhrif hinna allt of mörgu ESB-innlimunarsinna í því ríkisskipaða ráði.
* Í tilvitnuðu riti: FISKVEIÐISTEFNA ESB OG KVÓTAHOPP (utanríkisráðuneytið, ágúst 2008), kom m.a. þetta fram (auðk. hér, jvj):
- "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávarútvegsmál var samþykkt, [Nmgr.1: Reglugerð 2141/70 um sameiginlega stefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins, 5. gr.] en hún kemur nú fram í 1. mgr. 17. gr. grunnreglugerðar 2371/2002. [Nmgr.2: 1. mgr. 17. gr. grunnreglugerðar 2371/2002 segir: Fiskveiðiskip sambandsins skulu hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum á öllum hafsvæðum sambandsins öðrum en þeim sem vísað er til í 2. mgr. (sérregla sem gildir innan 12 sjómílna lögsögu aðildarríkjanna) að virtum þeim reglum sem settar eru samkvæmt 2. kafla (hér er vísað til hvers konar verndarráðstafana).] Eftir 1983 hefur meginreglan um jafnan aðgang sætt verulegum takmörkunum en það ár var heildarstefna í sjávarútvegsmálum lögfest með þremur reglugerðum ..." [Bls. 2, nánar þar, en þessar reglugerðir myndu ekki veita okkur neinn einkarétt hér, þær horfa aðeins til stofnverndunar og fiskveiðitakmarkana Esb. (innsk. JVJ)]
** Sbr. einnig fyrrgreint rit, bls. 7: "Rétturinn til að búa, starfa og fjárfesta hvar sem er í Evrópusambandinu er grundvöllur samstarfs aðildarríkjanna og því gefst lítið svigrúm til að banna einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum annarra aðildarríkja."
*** Það hefur að vísu umboð frá 30 alþingismönnum, sem með því voru reyndar að brjóta þágildandi lög um stjórnlagaþing! (sjá nýja vefsíðu undirritaðs).
Jón Valur Jensson.