ESB í stríð við Ísland og Færeyjar

Með 659 já atkvæðum gegn einungis 11 nei samþykkti Evrópuþingið næstum einhliða að fara í refsiaðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum, sem ESB ásakar fyrir ofveiðar á makríl. Það er fullur þungi í ESB batteríinu að hlaða áróðursbyssurnar og skjóta þeim lygum um allar jarðir, að Íslendingar og Færeyingar séu ránfiskarar og umhverfishryðjuverkamenn, sem í engu skeyta um sjálfbærar, ábyrgar fiskveiðar né lífríki sjávar.

Í þessum áróðri verður þess ekki getið að ESB ofveiðir sjálft að eigin sögn yfir 80% af fiskistofnum í sjávarvötnum ESB með yfir 30% fiskistofna í beinni útrýmingarhættu. Enginn veit heldur fyrir víst enn þá, hvort breyttar göngur makrílsins til norðurs séu hreinlega vegna fæðuskorts í suðri en margir telja fyrir víst að breyting á hitastigi sjávar hafi áhrif á hegðun fisksins.

ESB hefur vöðva til að valda Íslendingum og Færeyingum þungum búsifjum, svo full ástæða er að taka mark á hótununum. Hins vegar eiga Íslendingar ekki að sitja við borðið með þeim, sem veifa vopnum til að komast að "samkomulagi." Það rétta er því í þessarri stöðu að skilja stólinn eftir auðan á næsta fundi í London í október. En það skiptir litlu máli, því eyra Damanaki heyrir bara orð þeirra, sem hæst hrópa í Brussel. 

Þrátt fyrir gríðarlegan vöðvamun hafa bæði Íslendingar og Færeyingar málstaðinn sínum megin. Þökk sé Hafrannsóknarstofnuninni hefur betri mynd af hegðun makrílsins fengist en menn vissu áður um. Kemur þá í ljós að hinar miklu "ofveiðar" eru töluvert innan við ramma sjálfbærra fiskiveiða og þess vegna óhætt að hækka kvóta Íslendinga þó nokkuð án þess að valda neinum usla. Tíminn mun vinna með málstað okkar í þeim málum. 

En þessar staðreyndir henta ekki útgerðarmönnum ESB landanna, sem stöðugt þurfa að ásælast lengra og dýpra til að geta fengið bröndu sjálfir vegna þess að fiskurinn er uppveiddur í eigin lögsögum. Eða eins og einn sagði, þegar bent var á, að ESB hefði engan rétt til ránveiða í lögsögu Vestur-Sahara: "Heldur þú virkilega að við getum sleppt því núna? Þá yrðu yfir 100 Spánartogarar að koma aftur inn á fiskimiðin okkar þar, sem engan fisk er lengur að fá."

Þegar fram í sækir mun það verða þrautin þyngri fyrir ESB að útskýra fyrir umheiminum, hvers vegna fjórfrelsi EES-samningsins, þ.e.a.s. frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns eigi ekki við um EES-aðilann Ísland. Hvers vegna ekki er hægt að treysta Hafrannsóknarstofu einnar bestu fiskveiðiþjóðar heims. Þá mun sannleikurinn síast fram um að ESB er að krefjast tolla af öðrum vegna eigin ofveiði í heiminum.

Íslendingar þurfa að fara að leita að nánari samstarfi við lönd utan ESB í öðrum heimsálfum. Við þurfum ekki að láta neina búrókrata í Brussel segja okkur fyrir verkum á sviði sjávarútvegsmála. Þar yrði það beinn ávinningur fyrir ESB að taka upp sjávarútvegsstefnu Íslendinga í staðinn. En þannig virka ekki málin hjá nýja stórríkinu, sem verður að verða eitt ríki, þótt Baróssóstjóranum vefjist tunga um tönn og afneiti súper til að reyna að vera eins og alþýðlegur fasisti, sem telur fólki trú um, að lífið sé eingöngu þess virði að lifa, að hægt sé að standa og sitja eins og stóra hendin veifar.

Því miður vinnur íslenska ríkisstjórnin að því að leggjast undir Brusselstígvélið enda er áráttan að fá að vera með í fína klúbbi svartsígvélanna æðri öllu öðru. Landsmenn þurfa að undirbúa sig undir nýja "Icesave" samningalotu, því búast má við, að Steingrímur og jafnvel Össur komi með "samning aldarinnar" frá ráðamönnum ESB.

 

Gústaf Adolf Skúlason 


mbl.is Samþykkja beitingu refsiaðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband