Ríkisstjórnin er hluti af makrílvandanum - ekki lausninni

Með heimtufrekju ætlar ESB að þvinga Íslendinga að ganga einhliða að ósanngjörnum kröfum sínum og beitir makríldeilunni til að stöðva aðlögunarferli Íslendinga. Í raun hegðar ESB sér eins og að Ísland sé þegar orðið meðlimur, því ESB eitt hefur alræðisvald til ákvarðana um sjávarmál innan sambandsins. 

Þessi hegðun ESB er gerð í fullri meðvitund og samþykki ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það bendir til þess, að þegar sé búið að gera bráðabirgðasamkomulag um eftirgjöf Íslands á bak við tjöldin. Ríkisstjórnin mun þá að mestu eða öllu leyti samþykkja kvóta"úthlutun" ESB í stað þess að fylgja Hafró eða íslenskum vísindamönnum. Ný skýrsla sýnir, að yfir 5 miljónir tonna af makríl eru í Norðaustur-Atlantshafi á hafsvæði Færeyja, Íslands og Noregs, þar af um 1,5 miljónir tonna innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ábyrgar veiðar Íslendinga eru innan við 10 % af því magni og eins og komið hefur fram hjá talsmönnum sjávarútvegs er líklegt, að Íslendingar hafi verið helst til of varkárir í mati sínu. 

Þann 3. sept. fer Steingrímur J. Sigfússon fjöldaráðherra á fund Maríu Damanaki, sjávarútvegsráðherra ESB í London. Búast má við nýju samningaútspili í Icesave-stíl: Í stað peninga krefst ESB makríls af Íslandi og Steingrímur getur komið með "samning aldarinnar" til baka, þar sem gefið verður eftir af kröfu ESB eða komið með "lausn", þar sem ESB er tryggt lagalegt forræði til að taka yfirráðin í sjávarútvegsmálum Íslendinga. Utanríkisráðherrann Össur Skarphéðinsson hefur nefnt, að ESB geti keypt skuldabréf af Íslandi til að fá burtu "snjóhengju" þeirra, sem fastir eru með íslenskar krónur í landinu. Má jafnvel búast við einhverjum loðnum skilaboðum í þá veru, sem gæti verið hið "stórkostlega" gylliboð, sem koma á úr eilífðarpakkanum. Annars verður mjög fróðlegt að fylgjast með, hvaða bellibrögð þessi hjú koma með eftir 3. sept. nk.

Orsök makríldeilunnar er röng og stórskaðleg sjávarútvegsstefna ESB, sem er að eyðileggja lífríki sjávar með ofveiðum á 80% fiskistofna og útrýmingu 30% þeirra. Það eru öfugmæli aldarinnar að halda því fram, að ESB vinni í þágu verndunar á makrílstofninum. ESB hikar ekki við að fara í makrílstríð við smáríkin Ísland og Færeyjar til að banna þeim að stunda löglegar makrílveiðar í eigin sjávarlögsögu. Slík krafa jafnast á við stríðsyfirlýsingu á fullvalda ríki. ESB hótar löndunar- og hafnbanni á íslensk og færeysk skip og afnámi viðskiptafrelsis frá ESB til sjávarútvegs Íslands og Færeyja. Má búast við áróðri um "fiskiræningja" og "umhverfishryðjuverkamenn" Íslands og Færeyja til að réttlæta makrílstríð ESB.

Í stað þess að standa á rétti sjálfbærrar fiskveiðistefnu Íslendinga lúffar ríkisstjórnin vegna veruleikafirrts draums um pláss í hásæti við hlið búrókrata í Brussel. Hvorki krata í Samfylkingunni né Vinstri græn skiptir máli, þótt fullveldi íslenska lýðveldisins verði framselt til ESB. Annar fóturinn stappar og segir: Bíðið og sjáið hvað kemur úr pakkanum og hinn fóturinn stappar og segir: Göngum með í ESB vegna samstarfs vinstri manna á Íslandi. Þannig eru báðir flokkarnir sammála um afhendingu sjávarauðlinda Íslands til ESB fyrir eigin embættisstóla. Það er ógæfa Íslendinga að hafa svona fullveldissvikara í embættum íslenska ríkisins, sem meðvitað beita ríkisvaldinu til að bola burtu allri gagnrýnni hugsun varðandi ESB. Það sýndi sig skýrt, þegar Jón Björnsson ráðherra var rekinn og samningamaður í makrílnefnd líka, sem varði hagsmuni Íslendinga í samræðum við ESB.

Besta skref þjóðarinnar í átt að lausn makríldeilunnar er því að byrja á því að losa sig við þessa svikulu og fjandsamlegu ríkisstjórn, sem nú situr. Þá fyrst verður hægt að vinna í friði að málefnum landsmanna og standa á grundvelli aldagamallar hefðar smáþjóðar, sem lifað hefur á auðlind hafsins í sjálfbæru samspili við náttúruöflin. /gs


mbl.is Þrír kaflar stranda á makrílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Beittur og öflugur pistill, Gústaf -- heilar þakkir!

Jón Valur Jensson, 25.8.2012 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband