Bíðum eftir Godot

Stærsta blekking Íslandssögunnar eru lygar ríkisstjórnarinnar og ESB áróðursmanna um að til sé einhver pakki með einhverju óútskýranlegu innihaldi, sem bjarga muni íslensku þjóðinni frá vandamálum sínum og væntanlega heimsins í leiðinni. 

Hvað er í pakkanum?

Í þau þrjú ár sem þessari þvælu hefur verið haldið að landsmönnum hefur ríkisstjórninni ekki tekist að gefa neinar skýringar á hvaða pakka hún er að tala um, hvaðan hann kemur og hvernig hann er, né heldur gefa neinar skýringar á innihaldi pakkans, hvað það sé, hvernig það líti út né hvað það þýði. Krafist er, að þjóðin sýni þolinmæði og bíði eftir því sem ekki er hægt að lýsa og koma átti úr pakkanum árið 2010, 2011 og síðast 2012 og enn sést ekki frekar til en allra starfanna, sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur lofað eftir næstu helgi undanfarin ár. Er ástandið farið að minna illþyrmilega á senu úr Beðið eftir Godot og enginn veit né skilur um hvað er verið að ræða né hvenær það kemur. Einfaldlega vegna þess, að það finnst enginn pakki og þaðan af síður nokkurt innihald.

Fyrst aðlögun og síðan kosningar um þegar orðinn hlut

Ríkisstjórnin lýgur því blákalt að fólki, að um eitthvað annað sé að ræða heldur en kröfur Lissabonsáttmálans, sem Ísland þarf að aðlagast og er í fullum gangi að framkvæma með samanburði á stjórnarskrá/lögum Íslands við Lissabonsáttmálann/lög ESB. Málefnakaflar eru opnaðir og samanburður gerður. Við mismun er gerð áætlun um aðlögun og kaflanum lokað í bili. Þegar Samfylkingin og VinstriGrænir verða búin að aðlaga stjórn lýðveldisins að kröfum ESB og allt er klappað og klárt fyrir ræðuhöld við fullveldisafsal yfir sjávarlögsögu, auðlindum, orku, peningamálum, samningsrétti við önnur ríki o.s.frv., þá fyrst má fólk fá að segja sitt og kjósa um þegar orðinn hlut. Lygaáróðurinn hjá ESB-sinnum er eins og hjá sértrúarsöfnuði, sem á von á, að frelsarinn stígi til jarðar og lyfti upp Íslandi í eilífðarhásætið með hinum útvöldu hjá ESB og þá má lýðurinn syngja hallelúja af öllum krafti.

Utanríkisráðherra með rennilás 

En í samanburði við veruleikann, sem margir hinna útvöldu búa við í dag, framkallar áróðurinn bara ógleði. Mest í Grikklandi, þar sem nazisminn grasserar á ný og enginn veit, hvaða myrkraverk gerir í nánustu framtíð. Ríkisstjórn Íslands hefur enga aðra stefnu en éta upp það, sem jónerarnir í Brussel segja henni og svo kemur utanríkisráðherrann með rennilásinn, sem á að renna fyrir evrukreppuna og breyta skulda- og stjórnmálakreppu ESB í himnaríki. "Það er bara að renna upp rennilásnum eins og við Íslendingar gerum", segir þessi embættismaður, sem búinn er að selja föðurlandið fyrir hægindastól í Brussel. Enginn rennilás í heimi getur stöðvað það hrun, sem ríki ESB standa fyrir og Össur Skarphéðinsson sjálfur er fastur í með fáeinar evrur í vasanum.

Ekki minnimálaráðherrann 

Annar ekki minnimálaráðherra fer mikinn á alþjóðavettvangi og lýgur því, að neyðarlögin séu ríkisstjórninni að þakka á meðan þeir, sem björguðu Íslandi, eru settir af og dregnir fyrir Landsdóm. VinstriGrænir vilja fyrir engan mun, að almenningur skilji að verið er að aðlaga Ísland að kröfum ESB til að undirbúa afhendingu fullveldis lýðveldisins með húð og hári, því þá springur stjórnarsamstarfið og þeir missa titlana og völdin og eiga ekki eftir einu sinni brjóstahöldin. Hafa sumir lýst þessum óskapnaði sem tveimur mönnum í sama manninum, þar sem annar vill fara á klósettið en hinn hvergi. Slíkt endar með umhverfisbanvænni sprengju. En fyrst vinna Vinstri Grænir ötullega með Samspillingunni að berja niður alla mótstöðu við ESB og gagnrýninn hugsunarhátt þjóðarinnar í ríkiskerfinu sbr. brottvikningu Jóns Bjarnasonar ráðherra og Tómasar H. Heiðars úr makrílnefndinni. Einungis einstaklingar í veruleikaafneitun, heilaþvegnir og þægir í taumi, eru fengnir til verksins að innlima Ísland í ESB.

Guði sé lof, að Ísland er herlaust! 

Þessi loddaraleikur hefur gengið sér til húðar og gatslitna grammófónplatan hjakkar í sama farinu allan tímann. Sem betur fer sjá fleiri og fleiri landsmenn gegnum þennan blekkingarleik, sem líkja má við harðasta heilaþvott stalíntímabilsins. Afneitunin er svo mikil að varla má búast við að einhverjir úr stjórnarliðinu verði viðræðuhæfir fyrr en fnykurinn frá hruni evrunnar með tilheyrandi upplausn ESB og trylltu stjórnleysi á meginlandinu kæfir vitund hinna útvöldu á Íslandi. Á meðan tapar þjóðin sérhvert andartak, sérhverja mínútu og sérhvern dag. Við megum sjálfsagt öll þakka fyrir, að stjórnin ræður ekki yfir hervaldi, því yrði sjálfsagt beitt líka til að fjarlægja óþægilega einstaklinga eins og t.d. sjálfan forseta Íslands, sem nú síðast hefur gert sig sekan um að vilja taka í höndina á frú Sigurðardóttur. Slík embættisafglöp eru ógnun við hið nýja aðlagaða Ísland að ekki sé talað um sjálfan forsætisráðherrann, sem ekki þolir neina snertingu við bakteríur af neinu tagi, ekki einu sinni þeirra, sem okkur sem lífverum eru nauðsynlegar. Öruggast fyrir forsætisráðherrann til að komast undan slíkum mannraunum væri að flytjast búferlum í sótthreinsað tjald og einangara sig endanlega frá umheiminum. Hér er sjálfsagt skýringin komin á öllu því opna, gegnsæja ferli, sem enginn hefur séð fram að þessu.

Gott að klukkan nálgast kosningar svo þjóðin geti losað sig við þreytta lúðurinn, sem stöðugt spilar:

Bíðum eftir Godot

Gústaf Adolf Skúlason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband