24.7.2012 | 22:40
Spánn þarf um 550 miljarða evra fyrir afborganir af lánum, evran í sögulegu lágmarki
Fyrir utan fjármagn til gjaldþrota banka á Spáni, þarf Spánn að borga um 550 miljarða evra í vexti og afborganir á lánum næstu 2-3 árin. Vextir á ríkislán Spánar fóru yfir 7,6 % í dag og evran er nú í sögulegu lágmarki gagnvart flestum öðrum gjaldmiðlum heims (sjá fréttaskýringu Bloombergs).
Fer nú að þrengjast með "úrræði" stjórnmálaleiðtoga ESB, þegar markaðir taka dýfu við hvert nýtt "neyðarlánið" til ríkja ESB. Ný lán hækka skuldastöðu viðkomandi ríkis og ekkert óeðlilegt við það, að traust markaða sé víkjandi vegna óheyrilegrar skuldsetningar ríkja á borð við Spán, Ítalíu, Grikklands, Portúgals og fleiri ríkja. Reyndar eru aðeins fjögur ríki af 27, sem enn fullnægja "skilyrðum" Maastrichtssáttmálans um hámark skulda og hallareksturs ríkissjóðs og er þá til lítils að tala um "samband" eða "samkomulag" um að fylgja þeim reglum. Að því leytinu eru bæði myntbandalagið sem og Evrópusambandið fyrir löngu komið af braut og stefnan nú allt önnur en í upphafi var ákveðin.
Þar sem Þýzkaland hefur stærstu hagsmuna að gæta í evrusamstarfinu og "neyðar"lán ríkja ESB fer í afborganir af vöxtum og lánum, koma þeir peningar að mestum hluta til baka til stóru þýzku og frönsku bankanna. Stóru bankarnir setja greiðsluskilyrðin í samstarfi við stjórnmálamenn, sem fara fram á aðlögun ríkisfjármála skuldugustu ríkjanna. Þar með er verið að reyna að þvinga fram aukna samkeppnisgetu á sama tíma og fjárhagsgrundvöllur ríkja er reyrður niður. Þetta er sá ómöguleiki, sem evran býður upp á, þar sem ríki evrusvæðisins hafa engan gjaldmiðil eins og t.d. Íslendingar, sem þau geta lækkað til að aðlaga verð afurða að erlendum mörkuðum.
Samfara þessu skrúfstykki og dómínans þýzkra og franskra stórbanka, þrýsta stjórnmálamenn (aðallega Þýzkalands) á sköpun alríkis með sameiginlegri ríkisstjórn yfir löndum evrusvæðisins. Gangi það eftir verða lönd alríkisins að héruðum í nýju Stór-Þýzkalandi. Sjálfsagt verður heiti ESB notað áfram og breytir í raun ekki miklu miðað við ástandið í dag, að Þýzkaland ræður förinni hvort eð er.
gs
Áfram verðfall vestanhafs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:37 | Facebook
Athugasemdir
Samhliða aukinni skuldasöfnun er krafist samdráttar og niðurskurðar í ríkisrekstri. Í sjálfu sér er gott að draga saman seglin, á því sviði, hjá mörgum ríkjum evrunnar, enda sóun þar oft mikil. En það verður þó ekki dregið saman í ríkisrekstri nema einhverjir aðilar hafi bolmagn til að taka við þeim verkefnum sem ríkin hafa á sinni könnu.
Á Spáni er vandinn mestur í einkageiranum og hann því ófær um að taka yfir verkefni ríkisins. Þessi samdráttur og niðurskurður mun því virka beint út í hagkerfið og verg landsframleiðsla mun minnka mikið. Því munu skuldir Spánar aukast mikið af þeirri ástæðu einni, jafnvel þó engin lán yrðu tekin. Það er ljóst að þeir þurfa þó lán og það ekkert smáræði.
Það er því útilokað að Spánn muni ná sér á strik aftur, a.m.k. ekki með þeim aðferðum sem ESB ætlar. Þetta á einnig við um Grikkland, Írland, Portúgal og Ítalíu. Það mun svo draga önnur ríki evrunnar niður með sér.
Fellibylur evrunnar herjar sem aldrei fyrr í evrulandi. Eina landið sem enn er utanvið storminn er Finnland, en það mun einnig lenda í honum. Miðja fellibilsins hefur þegar farið yfir mörg lönd evunnar og er nú yfir Frakklandi og stefnir á Þýskaland. Það er nefnilega svo að það "stórveldi" stendur ekki síður tæpt en önnur ríki evrunnar.
Skuldastaða þess miðað við verga landsframleiðslu hefur verið nokkuð ofanvið markmið ESB um nokkuð langan tíma, reyndar mun hærri en t.d. Spánar. Þar hefur verið beytt markvissum samdrætti og aðhaldssemi um langa hríð. Því er Þýskaland gjörsamlega berskjaldað þegar miðja fellbylsins nær til þess. Það hefur engin ráð gegn honum, getur ekki dregið saman eða skorið niður og hefur ekki efni á frekari lántökum. Það sem er þó kannski skuggalegast er að í bönkum Þýskalands liggja flest þau skuldabréf sem munu verða verðalaus eftir ferð fellibylsins.
Evran er í raun fallin, einungis eftir að gefa út dánarvottorðið. Því fyrr sem ráðamenn viðurkenna þá staðreynd, því betra. Hver sá dagur sem líður án þess að farið verði að því að vinna skipulega að uppgjöri evrunnar, gerir vandann enn verri. Að ætla að láta hrun hennar koma stjórnlaust er það versta sem hægt er að hugsa sér.
Það er hugsanlegt að hægt hefði verið að bjarga evrunni ef gripið hefði verið til raunhæfra aðgerða strax þegar vandræðin gerðu vart við sig. Eina raunhæfa leiðin var að sameina evrulönd undir einn hatt, eitt stórríki. Það var þó róttækari lausn en ráðmenn evrulanda þorðu að framkvæma, enda ekki víst að þegnar þeirra landa hefðu verið tilbúnir til að ganga þá vegferð. Í raun átti aldrei að taka upp evruna fyrr en samstaða lá fyrir um slíka sameiningu.
Núna er orðið of seint að fara þá leið, allt of seint. Skaðinn er skeður og eina lausnin úr þessu að gera upp evruna. Það mun vissulega ekki verða sársaukalaust, en þó skárra en að láta hana hrynja stjórnlaust.
Stofnun stórríkis mun einungis leiða til algerrar upplausnar, sérstaklega ef stofnun þess væri undir merkjum einhvers annars en vilja þegnanna. Það er því óraunhæf lausn sem að auki kemur of seint.
Gunnar Heiðarsson, 25.7.2012 kl. 08:30
Góð athugasemd hjá þér Gunnar, ástandið er ekki glæsilegt og eina leiðin á borðinu í dag er stofnun stóríkis í stað dánarvottorðs evrunnar því miður. Þýzkir ráðamenn, ráðamenn ESB og fleiri þrýsta hart á þá leið og von á beinum tillögum í haust. Grikkir verða peningalausir í ágúst, Spánn í september og þú bendir réttilega á, að skaðinn er skeður.
Spurningin er, hversu mikið tilraunin með evruna á að kosta almenning og hvort útkoman verður nýtt Stór-Þýzkaland - fjórða ríkið og þá í hvaða mynd.
Íslendingar ættu tafarlaust að draga tilbaka aðildarumsóknina og snúa bökum saman fyrir komandi viðskiptabann ESB á Íslendinga. Í staðinn fyrir að beita hryðjuverkalögum býr ESB til "undanþágur" frá ríkjandi samningum til að hindra viðskipti Íslands við ESB. Áður kallaði Gordon Brown Íslendinga fyrir hryðjuverkamenn, nú kallar ESB okkur fyrir ræningjalýð, sem ofveiðir makríl og ræni lífríki sjávar. Skv. EES-samningnum er Ísland samstarfsaðili en í makríldeilunni setur ESB okkur niður á stall "þriðja ríkis", þannig að ekki er borin nein virðing gagnvart samningsaðilum EES.
Gústaf Adolf Skúlason
Samtök um rannsóknir á ESB ..., 25.7.2012 kl. 11:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.