Deila að rísa vegna fiskimiða og auðlinda á hafsbotni - Við megum ekki sofna á verðinum!

Landhelgi, fiskveiðilögsaga og efnahagslögsaga (EEZ) eru fyrirbæri sem skipta gríðarmiklu máli. Japanir leitast nú við að kaupa Senkaku-eyjar í A-Kínahafi af einkaeigendum, en landið átti tilkall til þeirra áður.

  • Gjöful fiskimið eru umhverfis eyjarnar og talið er að þar kunni að vera jarðefni sem hægt sé að nýta. Japanskir fiskimenn bjuggu á eyjunum fyrir seinni heimstyrjöldina. (Mbl.is.)

Gegn þessari viðleitni Japana bregðast nú Kínverjar harkalega. Vera má, að deilur, sem Kínverjar eiga í við Filippseyinga o.fl. vegna eyja í Suður-Kínahafi, sem og þessi deila geti leitt til vígvæðingar á þeim svæðum.

Ríkjum verður sífellt dýrmætara að halda fast í eignarrétt sinn á fiskimiðum og landgrunni og til hafsbotnsins og þess sem undir honum er, innan 200 mílna efnahagslögsögu. Þessu sækjast m.a. stórveldi eftir, og það sama á við hér við land. (Víðfeðm lögsaga okkar sést á þessari mynd (með grein hér), sem sýnir þriggja, fjögurra, 12, 50 og 200 mílna fiskveiðilögsöguna.)

Það fór illa, að Vestfirðingurinn frækni, sem hugðist nema land á Jan Mayen, fórst í ofviðri, áður en lagt skyldi upp í þá landvinningaferð. Hefði ferðin tekizt og búseta festst í sessi, ásamt nýtingu sjávargæða, og tilkalli lýst til Jan Mayen, eins og Norðmenn gerðu síðar, þá ættum við þar gríðarlega efnahagslögsögu til viðbótar við okkar u.þ.b. 750.000 ferkílómetra hafsvæði kringum landið.

Eftir efnahagslögsögu okkar sækist Evrópusambandið og ríki innan þess, þ.e. réttinum til nýtingar fiskistofna og jafnframt réttinum, sem sambandið hyggst taka sér í stjórn orkuauðlindamála. Nú þegar eru mjög víðtækar, en klóklega orðaðar valdheimildir einmitt í þá átt í Lissabon-sáttmálanum.

Undir Lissabon-sáttmálann yrðum við fortakslaust að segjast, ef við "gengjum í" Evrópusambandið, rétt eins og við yrðum þá að lúta lagasetningar- og stefnumótunarvaldi þess á sviði sjávarútvegs og m.a. þeirri meginreglu þar, að öll aðildarríki ESB hafi ótvíræðan rétt til jafns aðgangs fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna (sjá nánar hér: Esb. tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna!)

Ísland er og verður standandi dæmi um land, sem vegna þjóðarhagsmuna má aldrei og alls ekki "ganga í" Evrópusambandið. Við hefðum þar sáralítið að vinna, en nánast öllu að tapa og áhrifamáttur okkar svo til enginn.

Jón Valur Jensson


mbl.is Japan áforma að kaupa eyjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband