27.6.2012 | 01:11
Danir leggja á hilluna að nálgast ESB meira, fjarlægjast það frekar!
Danska ríkisstjórnin, ársgömul, er nú hætt að spá í að falla frá fyrirvörum sem Danir settu vegna aðildar sinnar að stefnumörkun ESB í mynt- og varnarmálum, lögreglu- og dómsmálum. "Þessi áform hafa nú verið lögð til hliðar vegna óróans innan ESB og vanda ríkisstjórnarinnar" (Mbl.is).
- Um er að ræða undanþágu frá þátttöku í myndbandalagi Evrópusambandsins og þar með evrunni, sameiginlegum ríkisborgararétti sambandsins, sameiginlegri varnarstefnu og samstarfi í dómsmálum.
Þetta snýst um þessar undanþágur frá Maastricht-sáttmálanum, sem evrókratar í Danmörku vilja losna við, þ.e. undanþágur sem veittar voru, eftir að Danir höfnuðu Maastricht-sáttmálanum hráum í þjóðaratkvæðagreiðslu 1992, en samþykktu hann síðan með fyrirvörunum 1993.
Málið er, að fari þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu nú, eins og heitið hafði verið, þegar ríkisstjórnin tók við völdum vorið 2011, þá er talið líklegast, að stjórnin muni tapa þeirri atkvæðagreiðslu, þ.e.a.s.: tillaga um að fella niður undanþágu-fyrirvarana yrði trúlega felld.
Helle, sláandi lík frúnni í Höllinni (Borgen).
"Ég held að Danir vilji helzt að meiri ró ríki í Evrópumálum áður en þeir ganga til atkvæða um þau," segir danski forsætisráðherrann Helle Thorning-Schmidt á dr.dk, vefsíðu danska ríkisútvarpsins, í viðleitni til að réttlæta sína nýju ákvörðun. Ekki minnir þetta tal hennar á gerólíkar hugmyndir Jóhönnu Sigurðardóttur um hina rósömu friðarhöfn Evrópusambandsins. En eitt með öðru er raunsæi Helle vitaskuld til marks um, hve ótryggt allt er talið þar ytra um framtíð Evrópusambands-"samstarfsins" margrómaða nú um stundir.
Um þetta er nánar fjallað í grein á hinum einkar góða vef Evropuvaktin.is: Danmörk: Áform um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-fyrirvara lögð til hliðar - spáð að Danir fjarlægist ESB enn frekar.
"Allt í eilífum vandræðum!" gætu þau verið að hugsa hér, Helle með langa nafnið og Martin með stutta nafnið Schulz, forseti ESB-þingsins í Strassborg og Brussel.
Jón Valur Jensson.
Ekki kosið í Danmörku næstu árin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 02:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.