Hvers vegna þegja ráðamenn ESB og ríkisstjórnar Íslands um kröfur Lissabonsáttmálans?

Gústaf Adolf Skúlason ritar:

Það er merkilegt að fylgjast með ráðamönnum Íslands krefjast þess, að þjóðin bíði eftir því, sem kemur "úr pakkanum". Enginn getur sagt, hvað það er né hvenær það verði sýnilegt. Sem sagt í stíl við bestu töframenn, sem töfra kanínur upp úr töfrahatti. Skýringin á þessum loddaraleik er sú, að ekkert annað getur komið upp úr pakkanum en samþykki ESB á aðlögunaráætlun Íslands að ESB samkvæmt kröfum Lissabonsáttmálans. Hinn stórkostlega "samning", sem á að slá ráðherra ríkisstjórnarinnar til riddara hvíta hestsins í huga þjóðarinnar, er hvergi að finna nema í höfðum ráðherranna sjálfra. Þeir þegja um hvaða störf þeir eru að vinna á bak við tjöldin, sem öll miða að því að veita aðildarferlinu brautargengi, þótt það þýði klafa á þjóðina á borð við Icesave, ólöglegt stjórnlagaráð, umturnun ráðuneyta og eyðileggingu sjávarútvegsins.

Aðlögunarferlið er fólgið í opnun svokallaðra málakafla og er þeim lokað, þegar áætlun umsóknarlandsins um breytingar till að fullnægja skilyrðum Lissabon-sáttmálans liggja fyrir. Það, sem tefur birtingu hinnar óskilgreindu tálsýnar, sem ríkisstjórnin veifar framan í landsmenn, er að fyrirfram þekktar kröfur Lissabonsáttmálans stangast á við umboð ríkisstjórnarinnar frá Alþingi um "að kíkja í pakkann". Það er ekkert slíkt ferli til hjá ESB, sem hægt er að líkja við "að kíkja í pakkann". Einungis aðlögunarferli umsækjenda að kröfum Lissabonsáttmálans. Öllum, sem eitthvað kynna sér málefni ESB, er þetta frá upphafi ljóst. Ríkisstjórn Íslands hefur farið eins mikið á svig við upprunalegt umboð Alþingis um að "kíkja í pakkann" og hægt er án þess að stjórnin klofni um málið og stjórnin fellur. Gagnvart þjóðinni hefur ríkisstjórnin farið eins langt út fyrir umboð kjósenda og hægt er, eins og í Icesave, án þess að þurfa að hrökklast frá völdum.

Ríkisstjórn Íslands er því með lygum sínum um einhvern stórkostlegan "samning", sem víkur frá Lissabonsáttmálanum, búin að króa sjálfa sig af úti í horni og getur sig hvergi hreyft. Skýringin á því, hvers vegna aðildarferlið dregst, er meðal annars að finna í sjávarútvegskaflanum en ESB fer með einhliða og alhliða vald yfir þeim málaflokki. Svið valdaheimilda ESB er skýrt skilgreint í Lissabonsáttmálanum í 1. Bálki um Flokka og svið valdheimilda Sambandsins 2.gr. (feitletur og undirstrikanir mínar/gas): 

"1. Þegar Sambandinu eru veittar fullar valdheimildir á tilteknu sviði í sáttmálunum er því einu heimilt að setja lög og samþykkja lagalega bindandi gerðir en aðildarríkjunum er því aðeins heimilt að gera slíkt að Sambandið veiti þeim umboð til þess eða í því skyni að koma gerðum Sambandsins til framkvæmda." 

Í 3.gr. eru hin tilteknu svið skilgreind:  

"1. Eftirtalin svið skulu falla undir fullar valdheimildir Sambandsins:

a) tollabandalag,

b) setning nauðsynlegra samkeppnisreglna vegna starfsemi innri markaðarins,

c) peningamálastefna fyrir þau aðildarríki sem hafa evru sem gjaldmiðil,

d) verndun lífrænna auðlinda hafsins innan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar,

e) sameiginleg viðskiptastefna.

2. Sambandið skal einnig hafa fullar valdheimildir þegar kemur að gerð milliríkjasamninga ef kveðið er á um gerð þeirra í lagagerð Sambandsins eða hún telst nauðsynleg til að gera Sambandinu kleift að beita valdheimildum sínum á vettvangi sínum eða að því marki sem gerð slíkra samninga er til þess fallin að hafa áhrif á sameiginlegar reglur eða breyta gildissviði þeirra."

Samkvæmt ofangreindum skilmálum er algjörlega ljóst, að Íslendingar afsala sér sjálfsákvörðunarrétti sínum varðandi stjórnun peningamála, 200 mílna lögsögu sjávar og auðlindum hafsins, milliríkjasamningum Íslendinga og sameiginlegri viðskiptastefnu.

Í heimsóknum Stefans Fúle til Íslands hefur hvorki hann né hafa aðrir ráðamenn ESB reynt að upplýsa landsmenn um kröfur Lissabonssáttmálans né þýðingu þeirra krafna fyrir framtíðar stjórnarhætti Íslands, gangi Ísland með í ESB. Þar sem hvorki ráðamenn ESB né Íslands upplýsa Íslendinga um hina raunverulegu lagaskilmála Lissabonsáttmálans, sem Ísland sem ríki beygir sig undir með aðild að ESB, er engu líkar en þeir geri sér grein fyrir því, að það séu einmitt þessar kröfur, sem séu stærstu hindranir fyrir inngöngu Íslendinga í ESB. Að Íslendingar afhendi ekki sjálfviljugir yffiráð sín á peningamálum, sjávarútvegsmálum, milliríkjasamningum og viðskiptastefnu til erlends stórveldis í umsjá andlitslausra búrókrata í Brussel. Þetta kemur heim og saman við þau vinnubrögð, sem í gangi hafa verið frá upphafi ESB, að ekki megi upplýsa um raunveruleg markmið ESB, sem er að stofna hið sameiginlega ríki, sem Gordon Brown lýsti svo vel sem hinu nýja ráðandi heimsveldi jarðar á fundi Evrópuþingsins vorið 2009.

Það er auðvelt fyrir forsætisráðherra einstakra ríkja í Evrópu að hittast á fundum og stofna ríkjasamband, sem síðan er staðfest af kjörnum meirihluta þjóðþinga, sem þeir hinir sömu ráðamenn eru í forsvari fyrir. Orsakir sívaxandi stjórnmálakreppu ESB er einmitt fólgin í því, að kjósendur geta aðeins í þingkosningum sagt álit sitt með því að fella sitjandi ríkisstjórnir, sem samþykkt hafa aðild að ESB og upptöku evrunnar oft gegn vilja almennings. Enda er nú svo komið, að skipt hefur verið um ríkisstjórnir í flestum aðildarríkjum ESB undanfarin ár, sem aukið hefur á óstöðugleika allan. 

Það besta fyrir hvern og einn er náttúrulega að kynna sér málin sjálf(ur) og lesa um hvað það fjallar. Skilgreiningu á valdsviðum ESB er að finna á síðum 50-53 í Lissabonsáttmálanum, sem hlaða má niður hér:

http://www.utanrikisraduneyti.is/media/esb/lissabon-sattmali/Lissabon-heildarskjal.pdf 

 

11. júní 2012,

Gústaf Adolf Skúlason 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta hefur legið lengi fyrir, en all reynt af stjórnvöldum sé í lagi Össurar og Jóhönnu að þegja yfir þessu.  Þetta eru aðlögunarviðræður en ekki samningar, við þurfum bara að taka upp samþykkt upp á yfir hundrað þúsund blaðsíður að krappi  þannig að við séum gjaldgeng inn í Halelejúja samkomuna,   Eins og veiðimenn standa þessir græðgispungar og bíða eftir að fá auðlindirnar okkar til sín á brunaútsölu, rétt eins og þeir eru búnir að klófesta Grikkland og Spán.

Ætlar íslensk þjóð virkilega að samþykkja það að við verðum þrælar til endiloka, bara til að geðjast kjánum eins og Össuri og Jóhönnu? Mitt svar er einfaldlega NEI!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.6.2012 kl. 19:18

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Stefan Fule lýsti þessu nokkuð vel eftir för sína til Íslands á dögunum. Þegar hann var kominn af landinu og til Brussel aftur, hélt hann blaðamannafund. Þar sagðist hann vonast til að TILBOÐ FRÁ ESB til Íslendinga um inngöngu í sambandið gæti legð fyrir eftir næstu Alþingiskosningar hjá okkur. Hann talaði ekki um neinn samning, enda slíkt orð ekki til í Lissabonsáttmálanum um aðildarumsókn ríkja inn í sambandið. Einungis er um að ræða tilboð um inngöngu, byggð á því hversu vel ríki hafa aðlagað sitt regluvek að því er gildir innan ESB. Þessi staðreynd hefur reyndar legið lengi fyrir, Lissabonsáttmálinn var kunnur þegar sótt var um aðild fyrir Ísland, þó hann tæki reyndar ekki gildi fyrr en síðar, eða 1. des. 2010.

En þó þetta hafi legið fyrir við aðildarumsóknina var þingmönnum talin trú um að hægt væri að skoða hvað í boði væri, með því að ganga til svokallaðra samninga. Því miður unnu margir þingmenn ekki sína vinnu, þ.e. að lesa yfir reglugerðir ESB og Lissabonsáttmálann. Þá hefðu þeir séð hvað í boði er og að einhverskonar samningar ekki í boði. Því hefðu þingmenn átt að geta áttað sig á því að umsókn í ESB er ekki eitthvað sem þjóðir gera nema ætlunin sé að gangast að öllum kröfum ESB. Það er því fyrst og fremst við þá þingmenn að sakast sem létu blekkjast og nenntu ekki að sinna sínu starfi. Þeim verður að úthýsa í næstu kosningum. Það er lágmark að þingmenn vinni þá vinnu sem þeir eru kosnir til og láti ekki einhverja óprúttna menn telja sér trú um eitthvað sem ekki stenst nein rök!

Gunnar Heiðarsson, 11.6.2012 kl. 20:24

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka góða grein. Það er á hreinu að þessi umsókn var lögbrot sem kallast Landráð. Í kafla X í hegningalögunum er skírt tekið fram að það megi ekki stofna til ríkja sambands við neitt ríki og hvað þá viðtöl í þá veru. Þetta er svo kýrskírt en ríkissaksóknari vildi ekki gera neitt þítt ríkislögregla hafi sent honum málið ásamt umboðsmanni Alþingis. Hér er ekki verið að tala um stjórnarskrárbrot en þar er hún marg brotin og hvað þá lög um ábyrgð ráðherra.

Valdimar Samúelsson, 11.6.2012 kl. 20:44

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég kæri þau fyrir landráð!!!! Eruð þið með?

Helga Kristjánsdóttir, 12.6.2012 kl. 01:42

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég er búinn að reyna í gegn um tvo ríksisaksóknara sem hafa stoppað málið. Það er hægt að kæra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð en er það næsta sem ég vil gera.

Þetta fólk má ekki ganga laust eins og það hafi ekki brotið nein lög. Landráð er mesta brot sem hægt er að fremja í hvaða þjóð sem er.

Valdimar Samúelsson, 12.6.2012 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband