Býr efnahags- og viðskipta-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fílabeinsturni?

Steingrímur er svo óupplýstur, frakkur eða huglaus að fullyrða, að ráðuneyti sínu sé "ekki kunnugt um tilvik þess að Evrópusambandið hafi með fjármunum og þátttöku sendiherra og sendiráðs blandað sér með beinum hætti í umræður um áhrif ESB-aðildar á þá málaflokka sem heyra undir það."

Heyr á endemi! Sömu dagana er í fréttum, að sendiherra Evrópusambandsins, Timo Summa, hafi enn lagt land undir fót í nýrri predikunarferð um ágæti "aðildar" Íslands að stórveldinu!

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði lagt fram fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra "um áhrif Evrópusambandsins á umræður um ESB-aðild", og ofangreind tilvitnun í ráðherrann kemur fram í skriflegu svari hans.

  • Meðal þess sem Ásmundur spurði um var hvernig Steingrímur hyggist tryggja að starfsemi Evrópustofu og þeir fjármunir sem ESB ver til hennar, ásamt beinni þátttöku sendiherra og sendiráðs ESB, skekki ekki lýðræðislega umræðu um þá málaflokka sem heyra undir ráðuneytið.
  • Steingrímur svarar því til, að hluti af því að efla umræðu og upplýsingamiðlun um Evrópusambandið meðan á aðildarferlinu stendur sé að fjármunir hafa verið veittir af Alþingi til þeirra hreyfinga og samtaka sem halda uppi mismunandi sjónarmiðum í umræðunni.

Hann á að vita það eins og allir, sem með fylgjast, að þeir tugir milljóna, sem þar eru treindir út -- og helmingurinn í þágu þeirra hreyfinga, sem vilja fullvalda stjórnarform lýðveldis okkar okkar feigt -- vega lítið hjá þeim á þriðja hundrað milljónum króna, sem Evrópusambandið dælir beint í "Evrópustofu" sína (þ.e. Evrópusambands-áróðursskrifstofu*).

Í svari sínu dirfist Steingrímur að líta framhjá öllu þessu fjárflæði frá Brussel, sem fylgir eftir áratugs langri viðleitni ESB til að koma sér í mjúkinn hjá völdum áhrifahópum hér á landi, með boðsferðum til Brussel í fríu uppihaldi og sérvöldum "kynningar"-prógrömmum fyrir hina mismunandi hópa, svo sem fulltrúa verkalýðsfélaga, embættismenn, háskólafólk, blaðamenn, fólk úr lista- og menningargeiranum, stjórnmálamenn o.s.frv. Og svo eru það IPA-styrkirnir, yfir 5 milljarðar króna, sem hanga yfir okkur eins og frekari ógn við getu margra til að standast freistingartilboð Evrópusambandsins um þátttöku í starfsemi þess hér á landi, en allt er þetta líklegt til að hafa áhrif á fjölskyldur og samstarfsmenn þeirra sem þiggja styrkina.

En Steingrímur virðist kjósa að ganga með bundið fyrir augun um þessi mál, jafnvel þegar augljós er orðinn hinn beini og ólögmæti fjáraustur Evrópusambandsins í áróðursstofuna og ráðagerðir þess um áframhald þeirrar og annarrar áróðurstarfsemi á vegum sendiráðsins.

Halda mætti að þetta svar ráðherrans, sem eitt sinn þóttist og jafnvel ennþá þóttist vera andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sé til orðið í þýðingarmiðstöð "Evrópustofu" eða á borðinu hjá Össuri eða Hrannari Arnarssyni:

  • "Með öflugri og upplýstri umræðu þar sem öllum er gefinn kostur á þátttöku verður endanleg niðurstaða um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu byggð á upplýstri ákvörðun," segir Steingrímur J. Sigfússon.

Þvílík ósvífni í raun! Hann vogar sér ekki svo mikið sem að anda á ólögmætt framferði Evrópusambandsins! enda liggur kannski ráðherrastóll hans að veði. Með þessum orðum sínum er hann að tala um, að öllum sé "gefinn kostur á þátttöku" í umræðunni í krafti takmarkaðra umræðustyrkja frá Alþingi og kallar það "öfluga og trausta umræðu", vitandi hitt, að hann er með máttvana aðgerðaleysi sínu beinlínis að gefa Evrópusambandinu "kost á því" að dæla margfalt meiri fjármunum í sína áróðursherferð hér á landi og þar með að skekkja öll skilyrði til traustrar ákvörðunartöku þjóðar sinnar.

Í einhverjum löndum væru uppi háværar kröfur um, að slíkur ráðherra segði af sér. Fyrrv. sendiherra Íslands í París hefur með fullnægjandi rökum sýnt fram á, að framferði ESB í þessu máli stríðir gegn Vínarsáttmálanum um skyldur sendiherra, auk brota á íslenzkum lögum. Steingrímur J. Sigfússon er hins vegar 100% meðvirkur með Evrópusambandinu í þessum efnum og lætur sér vel líka eða setur á sig sakleysislegan hlutleysissvipinn þegar hann leggur fram alls ótæk svör sín við réttmætri fyrirspurn þingmannsins.

Þetta kann að virka sem svo, að Steingrímur sitji einangraður í fílabeinsturni fáfræði sinnar, en hann er meiri refur í stjórnmálum en svo að vita ekki, hvað á seyði er hér -- og það er engu minni ásælni eftir yfirráðum yfir Íslandi en Hákon konungur gamli sýndi okkur á 13. öld með útsendurum sínum, þar á meðal með morði Snorra Sturlusonar og fleiri góðra manna.

Hið kolranga og hugdeiga svar Steingríms hér ofar boðar ekki gott um afstöðu hans til afgreiðslu Alþingis á fyrirliggjandi frumvarpi um IPA-styrkina upp á rúma 5 milljarða, en með þeim er ekki aðeins verið að dæla inn peningaflóði í þágu aðlögunar Íslands að ESB, heldur einnig brotið þvert gegn ákvæðum tolla- og skattalaga og sjálfri jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar! Mun Steingrímur einnig greiða atkvæði með þeirri forsmán? Væri það ekki til þess að bíta höfuðið af skömminni?

* ESB er ekki nema 42,5% af Evrópu, 43% með Króatíu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ráðuneyti ekki kunnugt um áhrif ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Steingrímur er haldin alvarlegu tilfelli af því sem kallast Cognitive Dissonance.  Þ.e. er að geta ekki viðurkennt að hafa rangt fyrir sér þvert á staðreyndir sem blasa við.  Hann reynir út í það óendanlega að breiða yfir vitleysuna með því að buna út úr sér enn fleiri fölskum fullyrðingum og/eða halda því fram að hann hafi aldrei haldið því fram sem hann er vís af, þó svo að það séu til myndbönd og upptökur af mistökunum.

Hann er gersamlega búinn að mála sig út í horn og skynjun hans á réttu og röngu er orðin svo afstæð að hann veit virkilega ekki lengur hvort er hvað.

Hann er eins og drukkinn bílstjóri sem þrætir fyrir brot sitt þótt hann sitji undir stýri og hamast við að halda því fram að hann sé í farþegasætinu samkvæmt breskum umferðalögum.

Ástandið er þekkt hjá fólki sem hefur spáð endurkomu frelsarans og jafnvel gefið allt sitt og farið nakið á fjöll til að mæta honum. Þegar ekkert verður af endurkomunni, þá brestur ekki trúin á leiðtogann sem spáði heldur er tekið til við að réttlæta reikninginn og fullyrðingarnar. "Þetta virðist ekki vera satt, en er það í raun. Þið munuð sjá það þegar yfir lýkur. Vegir hans eru órannsakanlegir."

(kannski ekki viðeigandi samlíking hjá þér nafni, en ég er þó nokkuð viss um að þú tekur undir hana.)

Þegar hann er farinn að höfða til hins "þögla meirihluta" þá er illa komið fyrir honum sem stjórnmálamanni.  Enginn hefur vogað sér þetta nema Nixon, þegar hann lofaði friði í Vietnam en vantaði í raun stuðning til frekari óhæfuverka, eins og sagan sýndi.

Þar er hann að höfða til þeirra sem ekki mæta í mótmæli né hafa sig frammi á bloggum. Þeirra sem ekki eru með í úrtökum skoðanakannana. Þann hóp telur hann geyma sína bandamenn, sem fyrir einhverja undarlega áráttu hafa kosið að hafa sig aldrei í frammi.

Þetta er skylt því þegar IGS sagði mótmælendum í háskólabíói að þeir væru ekki fólkið. Veruleikabrenglun Steingríms er þó öllu verri og dýpri og jafnvel klínískara vandamál.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.6.2012 kl. 09:59

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það þarf ekki að taka því fram að Jóhanna Sigurðardóttir er helsýkt af sama fyrirbrigði.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.6.2012 kl. 10:02

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það hlaut að vera eitthvað nafn á þessu fyrirbær sem þau eru illa haldin af bæði tvö.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.6.2012 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband