Bretar og ekki sízt íhaldsmenn gerast fráhverfari Evrópusambandinu - og af Stefani Füle

Bretar finna sárt til þess, að þeir þurfa "að endurheimta völd yfir mikilvægum málaflokkum sem framseld hafa verið til stofnana ESB," sjötti hver íhaldsmaður vill því "endursemja um skilmála aðildar," en um 70% vilja yfirgefa ESB með öllu! Við erum að ræða hér um meðlimi brezka Íhaldsflokksins, en um 5/6 þeirra, þ.e. "83% þeirra vilja að flokkurinn heiti því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í sambandinu í stefnuskrá sinn fyrir næstu þingkosningar samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birtar eru í dag" á vegum sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4.
  • Hins vegar vilja 23% félagsmanna Íhaldsflokksins vera áfram í ESB. (Mbl.is sagði frá.)

Nokkuð er jafnt á mununum á tiltrú íhaldsmannanna á því, hvort land þeirra verði þar eftir áratug: 26% telja það, þ.e. "að tengslin við ESB hald[i]st óbreytt," en "36%, að Bretland eigi eftir að segja skilið við ESB á næstu tíu árum, og "38% telja að Bretland verði áfram hluti af sambandinu, en með breyttum aðildarskilmálum."

Ekki bendir þetta til fullrar tiltrúar á Evrópusambandið, enda hefur ástandið þar undanfarið hálft ár og lengur lítt gefið tilefni til þess, og sízt er það friðarhöfn stöðugleika og eindrægni.

Hér má einnig minnast þessarar fréttar á liðnu ári: Aðeins fjórði hver Breti styður áframhaldandi veru í ESB - aðeins 8% vilja evru í stað punds!

Þá segir í þeirri frétt Mbl.is sem sagt var frá hér á undan:

  • Fram kemur á fréttavefnum Msn.com að niðurstöðurnar komi á sama tíma og kröfur um þjóðaratkvæði um veru Bretlands í ESB gerast æ háværari og segir að þær muni setja aukna pressu á forystu Íhaldsflokksins sem hafi lýst því yfir að hún styðji áframhaldandi veru Breta í sambandinu.

Valdastéttin í ESB-ríkjunum 27 styður yfirleitt "aðildina", almenningur miklu síður. Eins og víðar er lítt hlustað á grasrótina, og valdhöfunum hefur ekki þókknazt að bera ákvörðun stefnumála undir þjóðirnar - þjóðaratkvæðagreiðslur heyra þar til algerra undantekninga, jafnvel þegar verið var að þessu stórveldi var valin sú e.k. stjórnarskrá, sem fólgin er í Lissabonsáttmálanum, sem takmarkar mjög neitunarvald einstakra ríkja, en gefur þeim stærstu stóraukið atkvæðavægi.* Og nú er enn stefnt að valdþéttingu í brussel, með úrslitaáhrifum ESB á fjárlög ríkjanna og þar með efnahagsstjórn.**

Á sama tíma mætir gamli KGB-skóla-kommúnistinn Stefan Füle hér á Íslandi til að telja okkur trú um, að ekkert viti hann um það, hvernig Evrópusambandið myndi fara að því að ná stjórn á auðlindum hér (um auðlindirnar sagði hann í Spegli Rúvsins í kvöld, að hann vissi ekki einu sinni "how we would do it to take control of" them; en hann þarf bara að lesa Lissabonsáttmálann og veit auðvitað betur en hann lætur, enda e.k. ráðherra í e.k. ríkisstjórn þessa stórveldis).

Füle þóttist einnig geta vísað í vonda reynslu af kommúnismanum austan tjalds, en gekk þó sjálfur í Kommúnistaflokk Tékkóslóvakíu EFTIR innrás Sovétmanna og Varsjárbandalagsríkjanna 1968 og sagði sig ekki úr flokknum fyrr en EFTIR hrun kommúnismans! Menn eiga ekki að treysta og trúa slíkum sendimönnum, þótt áferðarfallegir virðist og kurteisir fram í fingurgóma.

* 1. nóv. 2014 eykst (skv. Lissabonsáttmálanum) atkvæðavægi 6 stærstu ríkjanna úr 49,3% í 70,4% í ráðherraráði og leiðtogaráði Evrópusambandsins. Ráðherraráðið ræður m.a. mestu um sjávarútvegsmálið. Þar og í leiðtogaráðinu fengjum við 0,06% atkvæðavægi! Það yrði heldur betur stoð í því gagnvart gömlu stórveldunum þar!

** Sbr. þessi orð í leiðara Morgunblaðsins í dag:

Ekki nokkur maður sem mark er takandi á telur að evran geti lifað af við óbreytt skilyrði. Jafnvel æðstu prestar búrókratanna í Brussel leyna ekki þeirri skoðun sinni. Síðast í gær lýsti Barroso, formaður framkvæmdastjórnar ESB, því yfir að ljóst væri orðið að myntbandalag eitt og sér fengi ekki staðist. Ríki evrunnar yrðu að lúta samræmdri efnahagslegri stjórn ætti myntsamstarfið að standast. Formaðurinn sagði að vísast yrðu ýmsir órólegir við að standa frammi fyrir þessari staðreynd og samræmdri efnahagsstjórn yrði ekki komið á eins og hendi væri veifað. En því fyrr sem menn gerðu sér grein fyrir nauðsyn hennar því betra.

Enginn getur velkst í vafa um að ríki sem fer ekki lengur með efnahagslega stjórn eigin mála er ekki lengur sjálfstætt ríki nema í orði kveðnu.

Undir þetta ber svo sannarlega að taka.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Mikill meirihluti íhaldsmanna vill úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband