30.5.2012 | 01:50
Er Guðmundur Steingrímsson strúturinn sem stingur höfðinu í sandinn og talar um góða veðrið?
Ætlar Guðmundur Steingrímsson að verða stjörnupólitíkus þeirra sem nenna ekki að hugsa og vilja bara gott veður? Hann virðist færast undan því að takast á við vandamál* og reyna jafnvel að nota þau til að afvegaleiða menn.** Á þetta smyr hann súkkulaði, eins og sumir eru farnir að smyrja á brauðsneiðar.
Um flokk sinn, "Bjarta framtíð", segir hann:
- "Okkur langar til þess að breyta pólitíkinni. Gera hana meira eins og lífið er annars staðar. Víða þarf fólk að taka ákvarðanir og tala saman. Og merkilegt nokk: Það gengur víða mjög vel.
Ekki var Guðmundur á þeim buxunum að tala um ágæti síns heittelskaða Evrópusambands, þegar tillaga lá fyrir þinginu um að draga "aðildar"-umsóknina til baka. Þvert á móti tók hann þátt í því að reyna að binda enda á umræðurnar með því að þumbast við í þögn eins og stjórnarflokkarnir. Honum var vorkunn: Það var ekki viðlit að verjast röklega hinum vel ígrunduðu, alvarlegu gagnrýnisefnum þingmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á hina fyrirhuguðu þjóðaratkvæðagreiðslu með hennar fráleitlega loðnu, illa undirbúnu spurningum. Lakast af öllu var þó, að þær þjónuðu ágætlega því hlutverki Esb-sinna (með formann langtíma-umfjöllunar-þingnefndarinnar, Valgerði, vel upp alda í Brussel áratugum saman) að fela þá staðreynd, að stjórnarskrárdrögin innihalda stórhættulega 111. grein sem miðar að því að gera sem auðveldast og fljótvirkast að afsala landinu fullveldi á öllum þremur meginsviðum ríkisvalds.
Og telur Guðmundur ákvarðanir og samræður fulltrúa Esb-ríkjanna "ganga vel"? Hve marga "síðustu" neyðarfundi vegna Grikklands er búið að halda í Brussel og víðar? Og hvernig stendur á því, að vandamálafjallið stækkar, en minnkar ekki, eftir því sem meira er talað um það? Bretar eru farnir að gera ráð fyrir neyðarástandi í Grikklandi og dómínóáhrifum á önnur evruríki, í Austur-Evrópu og þá trúlega víðar; viðbragðsáætlun til að koma í veg fyrir alvöru-flóðbylgju atvinnulausra innflytjenda þaðan er þegar til orðin í Lundúnum og eins til að bjarga brezkum borgurum frá Grikklandi, vegna banka- og evruvanda (sjá þessa grein undirritaðs). Já, þetta gengur víst nokkuð vel hjá þeim.
* Dæmi:
- Hann [Guðmundur] sagðist ekki upplifa þessa tíma sem óvissutíma.
Það er eins gott fyrir hann að taka sem minnst eftir því, sem fram fer utan þinghúss-veggjanna, svo að hann þurfi ekki að leiðrétta sig og það fyrr en varir. Hann kallar það ekki "óvissu" að fólk geti ekki treyst stjórnvöldum, haldi þó í vonina, þótt skuldastaðan versni vegna íbúðalánanna, unz sumir gefist upp, gefi frá sér að borga meira, missi húsnæðið og flytjist jafnvel til Noregs. Svo fær það að hlusta á Steingrím J. stæra sig af því á þessum eldhúsdegi, að hér sé bara 6% atvinnuleysi og jafnframt að stjórnvöld hér hafi náð árangri með miklum hagvexti, meiri en víðast hvar. En sá vöxtur kemur þó ekki úr Stjórnarráði Íslands né frá Alþingi, heldur að mestu leyti frá gjöfulum makríl- og loðnugöngum, sem fjármála-, efnahags- og viðskiptaráðherrar hafa ekkert vald yfir og þaðan af síður frú Jóhanna.
** Annað dæmi:
- Guðmundur sagði skuldavanda heimilanna afsprengi þessa eilífa íslenska efnahagsvanda. "Við verðum að koma á efnahagslegu jafnvægi til þess að geta haft á Íslandi eðlilegan lánamarkað." (Mbl.is.)
Þarna smættar Guðmundur skuldavanda fólks, sem er að missa íbúðir sínar vegna bankakreppunnar og svika ríkisstjórnarflokkanna, niður í nánast ekki neitt, þetta sé bara "afsprengi þessa eilífa íslenska efnahagsvanda"!! Og strúts-vegferð Guðmundar er ekki lokið með þessu.
Hitt er alvarlegra: hin ísmeygilega tilvísan til "efnahagslegs jafnvægis" sem mönnum er ætlað að skilja á þann veg, að það sé að finna í Evrópusambandinu, gjarnan kallað "efnahagslegur stöðugleiki" fyrir þremur árum, en nú þorir Guðmundur ekki að segja þetta beint, enda vita allir, sem vita vilja, að Evrópusambandið er kraumandi suðupottur og hættulega klaufskar aðferðir við innleiðingu evrunnar í upphafi ein aðalrót þess, að Brusselvaldið ræður ekki við ástandið nema hugsanlega með því að krefjast fjárhagslegs valds yfir ríkjunum, eins og Barroso gerir nú skv. nýjustu fréttum og alllengi hefur raunar verið í pípunum þar. Afleiðingin verður fullveldismissir á fjárlagasviði ríkjanna.
- Ennfremur sagði Guðmundur að flokkspólitískur æsingur eins og ríkir of oft á Íslandi skili engu. "Hann kemur okkur bara í vont skap. Og þegar það er gott veður er fáránlegt að vera í vondu skapi."
Guðmundur er hér með sæmdur Strútsorðunni fyrir góða viðleitni.
Jón Valur Jensson.
Rík þjóð sem aldrei á pening | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:34 | Facebook
Athugasemdir
Já ég held að hann ætti að fara út á tún og taka liðið sitt með sér hann virðist vera best geymdur þar...
Það var ekki laust við að það væri að sjá gnarr takta í honum...
Annars vildi hann ekki kannast við það að hann væri utan flokka þarna og sagðist vera í þessum flokki sem hefur ekki einu sinni gengið í gegnum kosningar...
Hvernig getur hann setið í nafni þess framboðs, framboðs sem Þjóðin hefur aldrei kosið um...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 30.5.2012 kl. 08:00
Vel athugað hjá þér, þetta síðastnefnda og fleira, Ingibjörg!
Jón Valur Jensson, 30.5.2012 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.