Lítill áhugi á sjálfbærum fiskveiðum innan ESB

Skv. umhverfisfréttaritara BBC, Richard Black, hefur umræða um almenna sjávarútvegsstefnu ESB breyst töluvert varðandi útrýmingu brottkasts, minnkun fiskveiðiflotans og enduruppbyggingu fiskistofna. Upprunalega markmiðinu um enduruppbyggingu fiskistofna 2015 seinkar a.m.k. um fimm ár.

Umræðurnar hafa snúist um viðhorf norðurríkja eins og Svíþjóðar og Þýskalands sem eru hlynnt sjálfbærum veiðum á móti afstöðu ríkja eins og Spánverja, Portúgala og Frakka, sem vilja vernda skammtímasjónarmið útgerða.

Markus Knigge, ráðgefandi hjá Pew Environment Group, segir að "spurningin [sé] mjög grundvallandi: – Munu sjávarútvegsráðherrar aðildarríkja ESB hafa hugrekki til að hætta ofveiðum eða ekki?"

Tillaga Maríu Damanaki sjávarútvegsráðherra ESB s.l. ár var um þrjú meginatriði:

  1. Endurheimta hámarksstærð fiskistofna til sjálfbærra fiskveiða (MSY) árið 2015.
  2. Minnka og stjórna stærð fiskveiðiflota ESB með innri kvótaviðskiptum.
  3. Útrýma skaðlegu brottkasti fisks fyrir utan leyfilegan skipskvóta.

Ríkisstjórnirnar hafa ekki sýnt neinn áhuga á að semja um þessi atriði við Damanaki síðan hún lagði tillöguna fram.

Viðskiptamódel með flytjanlegum kvóta mætti mikilli andstöðu og nær ekki fram að ganga. Í stað þess er rætt, að hvert ríki beri ábyrgð á stærð eigin fiskveiðiflota. Talað er um að beita sektum til að refsa þeim löndum, sem brjóta gegn samþykktum um heildarstærð.

Þetta hefur hringt viðvörunarbjöllum hjá ýmsum umhverfissamtökum, sem bent hafa á, að margar þjóðir ESB hafi sannað óvilja sinn til að takmarka flotann á undanförnum árum. Ýmsir, sem fylgst hafa með viðræðum í bakherbergjum í Brussel, eru alveg gáttaðir á hrossakaupum Frakka og Breta, þar sem Frakkar lofa að styðja valddreifingu ákvarðanatöku í sjávarútvegi í skiptum fyrir stuðning Breta við að viðhalda skaðlegu brottkasti. Richard Benyon, sjávarútvegsmálaráðherra Bretlands, hefur andmælt því, að Bretar styðji Frakka í brottkasti fisks. Algjört bann við brottkasti verður tekið upp í Bretlandi ”mjög bráðlega.” Á meðan krefjast ýmis ríki, að brottkast verði gert að langtímamarkmiði bundnu ”endurnýjunaráætlun” fyrir einstaka fiskistofna eða svæði. Umhverfissinnar segja að með þessu verði upphaflega tillagan mjög svo útþynnt.

Megin-ágreiningurinn er að horfið verði frá endurheimt fiskstofna árið 2015.

MSY (Maximal sustainable yield) er mælikvarði á hámarksstærð fiskstofna, fyrir hámarksnýtingu án þess að gengið sé á sjálfa endurnýjunarhæfileika stofnsins til að viðhalda stærð sinni. Upprunalega tillagan var um að allir stofnar sem mögulegt væri að vernda myndu ná hámarksstærð 2015 og aðrir stofnar í síðasta lagi árið 2020. En ráðherrar aðildarríkja ESB telja að meiningin, ”sem mögulegt væri” þýði, sé að þeir þurfi ekki að flýta sér.

Það er því alls óljóst, hvort eða hvenær ESB getur byrjað að breyta þeirri sjávarútvegsstefnu sem framkvæmdastjórnin sjálf lýsir með orðinu "skaðleg."

Skv. ESB eru 75% af fiskstofnum ofveiddir og köstin skila nú aðeins broti af því, sem þau voru fyrir 15-20 árum. T.d. hefur þorskveiði dregist saman um 70% á s.l. tíu árum.

Íslendingar þurfa því ekki að gera sér neinar grillur um að geta haft áhrif á fiskveiðistefnu ESB. Útkoman við aðild að ESB yrði hins vegar sú, að kvóta Íslendinga yrði skipt á sama grundvelli og ESB deilir út makrílkvótanum og ekki liði langur tími, þar til fiskistofnar hinna gjöfulu íslensku fiskmiða yrðu í sama ásigkomulagi og aðrir fiskstofnar ESB vegna skaðlegrar sjávarútvegsstefnu ESB.

Stokkhólmi, 29. maí 2012,

Gústaf Adolf Skúlason.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband