Það sem fólki dettur í hug! (ástæður til að tapa sjálfstæði)

Ýmsar hlálegar röksemdir fyrir því, að sumir vilja "ganga í Evrópusambandið", er að finna í blaðinu Unga Evrópa (þau meina: Evrópusamband!). Hér er t.d. svar Daða Rafnssonar, sem er þó ekkert verra en hvert annað þar:

  • Hver er helsta ástæðan fyrir því að þú viljir ganga í Evrópusambandið?
  • Helsta ástæðan fyrir því að ég vil sjá Ísland eiga aðild að Evrópusambandinu er sú að þar eru þjóðir Evrópu að vinna saman að sínum markmiðum í stað þess að vinna gegn hverri annarri [= hver gegn annarri]. Þetta stuðlar að velsæld, friði og öryggi. Með því að standa utan þessarar samvinnu óttast ég að íslensk þjóð sé að taka sér stöðu sem annars flokks Evrópubúar, með lítil völd og hverfandi áhrif á atburði sem varða eigin hagsmuni.
Eru Íslendingar að "vinna gegn" einhverri annarri þjóð? Fjarri fer því. Og þó að brezk og hollenzk stjórnvöld hafi unnið gegn okkur í Icesave-málinu og geri enn, auk makríl-málanna, er það engin ástæða til að ganga í eina flatsæng með þeim í sambandsríki, þar sem Hollendingar hefðu 55 sinnum meira atkvæðavægi (3,3%) heldur en við (0,06%) í bæði leiðtogaráði og ráðherraráði Evrópusambandsins og Bretar hefðu 205,5 sinnum meira atkvæðavægi en við (12,33%). - Og svo orkar hitt mjög tvímælis, hvort þjóðir Evrópu séu í reynd að vinna saman nú um stundir, og gætu þau mál þó farið á enn verri veg. Og það stuðlar sízt að velsæld, friði og öryggi, nema síður sé.
 
Daði þessi notar það gegn okkur, að ráðamenn hér skrifuðu upp á EES-samninginn, og vill þess vegna "aukna þátttöku" í Evrópusambandinu til að "vera þjóð meðal þjóða í okkar heimshluta". En vægi okkar yrði þar hverfandi lítið (já, bókstaflega hverfandi, gæti t.d. hrokkið úr 0,06% í 0,04%). Þar að auki myndu öll sjávarútvegsmálin o.fl. mál fara undir löggjafar- og valdsvið Evrópusambandsins við "inngöngu" í það. Og af hverju ættum við frekar en Svisslendingar eða Norðmenn að fara inn í valdsækinn stórveldisbræðing margra fyrrverandi nýlenduríkja? Og vorum við ekki þjóð meðal þjóða í Eurovision? Erum við það ekki á ótal sviðum, þegar að er gáð? Er eitthvað sem knýr okkur til að fela öðrum fullveldi okkar?
   
Annað dæmi úr viðtalinu: 
  • Hvers vegna ætti ungt fólk að vilja ganga í ESB?
  • Ungt fólk vill hafa velsæld, vinnu og öryggi næstu sextíu til áttatíu árin á meðan það lifir sínu lífi og lengur fyrir börnin sín. Heimurinn í dag er ekki heimurinn sem foreldrar okkar ólust upp í og heimurinn sem börnin okkar munu búa í verður ólíkur þeim sem við þekkjum í dag.

Þvílík vantrú á þróunargetu eigin lands og nánast ofsatrú á þróunargetu gömlu Evrópu!! Veit Daði ekki, að bara vegna fárra fæðinga þar undanfarna áratugi lendir álfan í nýjum hremmingum aldursmisskiptingar upp úr 2030, í ofanálag við allan óstöðugleikann?

Já, þessi vin stöðugleikans, sem átti að heita, er nú orðin suðupottur óstöðugleikans og evrusvæðið raunar hættu-fenjasvæði fyrir ekki bara Evrópu, heldur alla jarðkringluna!

Það er ekki að furða, að hvatvísir og bláeygir leiti í slíkt sæluríki!

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Nú þegar öll rök fyrir aðild eru að þverra, geta innlimunarsinnar alltaf bennt á veðurfarið. Í ESB löndum er meðalhiti yfir sumarið yfir 20 gráðum og mun heitara í sumum þeirra.

Því kæmi ekki á óvart þó innlimunarsinnar færu að halda því fram að veðrið hjá okkur muni batna verulega við aðild!

Það er að minnsta kosti ljóst að misvitrir stjórnmála- og embættismenn ESB geta ekkert gert til að stúta því, þó þeim sé að takast að koma heilli heimsálfu á kaldann klaka og mynda gjörningarveður fjármála um allan heim!!

Gunnar Heiðarsson, 28.5.2012 kl. 10:24

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir hressileg innlegg ykkar, Jón Steinar og Gunnar.

Þú segir mér meira en ég vissi, Jón Steinar, ég þakka þér fyrir þessar upplýsingar. Svo höldum við bara áfram að berjast fyrir landið okkar og sannleikann.

Jón Valur Jensson, 28.5.2012 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband