Tillaga Vigdísar Hauksdóttur um að þjóðin verði spurð í haust, hvort draga eigi til baka Evrópusambands-umsóknina, var felld í dag með 34 atkvæðum gegn 25; fjórir voru fjarverandi.
Ógæfa þessarar þjóðar eftir kosningarnar 2009 er sú að hún ræður engu um sín mestu málefni ... nema með víðtæku, tíma- og orkufreku átaki eins og birtist í undirskriftasöfnun InDefence-hópsins og seinna Samstöðu þjóðar gegn Icesave (kjósum.is) og í þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur um Icesave-málið.
ALLAN TÍMANN FRÁ UMSÓKNINNI HEFUR ÞJÓÐIN VERIÐ ANDVÍG ÞVÍ AÐ GANGA Í EVRÓPUSAMBANDIÐ, samkvæmt hverri einustu skoðanakönnun.*
Nú hefur stjórnarmeirihlutinn (sem nýtur um 31-33% stuðnings í nýjustu skoðanakönnunum), með fullum stuðningi Hreyfingarinnar, þrátt fyrir allt hjal hennar um þjóðaratkvæðagreiðslur, tekið algera afstöðu gegn því að fólkið í landinu fái að úrskurða um það, hvort áfram skuli haldið í umsóknarferlinu eða umsóknin dregin til baka.
Upphrópunin "Hræsni!" heyrðist í þingsalnum, þegar einn þingmaður var að gera grein fyrir atkvæði sínu. Sá var Þór Saari, leiðtogi Hreyfingarinnar. Ástæðan var augljós þeim, sem fylgzt hafa með umræðum á Alþingi. Þór Saari sagði þar í ræðustól, að ekki ætti að "blanda saman óskyldum málum" í þjóðaratkvæðagreiðslunni í haust (þ.e. stjórnarskrár-umturnunarmálinu annars vegar og ESB-umsókn vinstri flokkanna hins vegar). En sjálfur hafði þessi sami Þór barizt fyrir því, að tveimur óskyldum málum yrði slengt saman í júlímánuði: forsetakosningunni og stjórnarskrármálinu! Hræsni hans með ofangreindum orðum sínum er því augljós, en svona rakalausar eru samt hans forsendur fyrir því að hafna valdi almennings í þessu máli!
Það voru orð að sönnu hjá Einar K. Guðfinnssyni alþm., þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sinu, að tala um "ESB-flokkana á Alþingi" og tiltók þrjá flokka: Samfylkingu, Vinstri græna og Hreyfinguna.
Því má spá hér, að þetta verði uppreisnarefni í grasrót Vinstri grænna og upphafið að endalokum Hreyfingarinnar. Við þetta ber þó að bæta, að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrrum þingflokksformaður VG, greiddi atkvæði með tillögu Vigdísar, og ennfemur Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra. Heiður sé þeim að standa með sannfæringu sinni og eigin kjósendum.
Eitt enn: Tveir þingmenn: Siv Friðleifsdóttir og Skúli Helgason, héldu því fram, að "forsendurbrestur [hefði] ekki orðið" í þessu máli, frá því að sótt var um ESB-inngöngu árið 2009, og réttlættu með því mótatkvæði sín gegn tillögu Vigdísar. Það var amalegt, að engir þingmenn tóku beinlínis á þessum fáfengilegu rökum þeirra. Hér eru nefnilega dæmi sem sýna jafnvel ýmsum ESB-hlynntum greinilega breyttar og brostnar forsendur fyrir umsókn:
- Makrílstríð ESB gegn Íslandi, með hótunum um viðskiptabann!
- Aðgerðir ESB gegn Íslandi í Icesave-málinu (sjá aðra grein hér í dag).
- "Umræðuferlið" reyndist rangmæli; engar samningaviðræður fóru fram í tvö ár, en aðlögunarferli hófst og stendur enn yfir. Þarna virðist því hafa verið logið að þingi og þjóð strax í upphafi, en ekkert tillit tekið til þeirra, sem gagnrýnt hafa þetta -- þvert á móti var helzta gagnrýnandanum kastað út úr ríkisstjórninni, Jóni Bjarnasyni, og því fagnaði ESB-þingið í sérstakri ályktun!
- Ekki var talað um það í upphafi, þegar Siv og Skúli kusu með ESB-umsókn, að Evrópusambandið fengi að eyða hér hundruðum milljóna króna í áróður, m.a. í formi rangnefndrar "Evrópustofu".** Þessi óeðilegu áhrif stórveldisins, sem stjórnarþingmenn sætta sig vel við, eru vitaskuld ógnun við lýðræðislegt vald og aðstöðu almennings til að að skoða málið í ljósi upplýsinga án tengsla við fjárhagslegt ofurvald.
- Fulltrúar Evrópusambandsins hafa ítrekað hlutazt til um íslenzk málefni með ólöglegum hætti, "stækkunarstjórinn" Olli Rehn, sendiherrann Timo Summa og einnig sendiherra voldugasta ríkisins innan ESB: Þýzkalands.
- Evrópusambandið sjálft hefur tekið miklum breytingum frá 2009, er nú enn síðri valkostur fyrir okkur, er sjálft í stórkostlegum efnahags- og skuldamála-vandræðum, umfram allt á evrusvæðinu, sem hafði verið helzta gulrótin fyrir ýmsa hér á landi: að "fá" evruna.
- Jafnframt þessu er komin upp mjög sterk hreyfing meðal ráðamanna Evrópusambandsins og stærstu ríkjanna þar að efla miðstjórnarvald þess, gefa því meiri valdheimildir um sjálf fjárlög meðlimaríkjanna o.fl. fjárhagsmál, að taka af ríkjunum veigamikinn hlut af fullveldisrétti þeirra og auka samlögunarferlið.
Er það svo í alvöru, að Siv Friðleifsdóttir hafi verið fyrir fram sátt við alla þessa hluti, sem komið hafa á daginn? Er hún kannski reiðubúin að láta þjóð sína taka við enn meiri smánun, lítillækkun og yfirgangi af hálfu Brusselvaldsins?
* Í öllum 13 (10) skoðanakönnunum eftir umsóknina, frá 4.8. 2009 og áfram, þar sem spurt hefur verið, hvort menn vilji, að Ísland gangi í Esb., hefur svarið verið eindregið NEI! - NEI gegn JÁI hefur verið í þessum hlutföllum (óákveðnir ekki taldir með), í tímaröð frá 4. ágúst 2009 til 27. apríl 2012: 48,5%/34,7% --- 50,2/32,7 --- 61,5/38,5 --- 54/29 (könnun á vegum Hásk. í Bifröst) --- 55,9/33,3 --- 60,0/24,4 --- 69,4/30,5 --- 60/26 --- 50,5/31,4 --- 61,1/38,9 --- 55,7/30 --- 50,1/37,3 --- 64,5/35,5 --- 63/37 --- 67,4/32,6 --- 66/34.
** Evrópusambandið er aðeins 42,5% af Evrópu (43% með Króatíu).
Jón Valur Jensson.
Tillaga Vigdísar felld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Skoðanakannanir, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.