Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?

 

Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?  Gústaf Skúlason ritar:

Fiskveiðistefna ESB hefur leitt til ofveiði á 72 % og útrýmingarhættu 20 % fiskistofna í vötnum ESB. Á 14 ára tímabili hefur afli ESB minnkað um 30 % og dugir einungis fyrir helming fiskneyslu íbúanna. ESB verður sífellt háðara fisk annarra og innflutningi sjávarafurða. Fiskveiðistefna ESB hefur eyðilagt sjávarútveg í mörgum löndum og kostar skattgreiðendur milljarða evra árlega. T.d. er sjávarútvegur Bretlands ekki svipur hjá sjón með fækkun starfa um 70 - 80 %. Í sumum tilvikum er fimm sinnum magni þess afla kastað, sem komið er með að landi, sem vakið hefur gífurlega reiði almennings (sbr. fishfight.net). Á Norðursjó er helmingi aflans um einni milljón tonna af príma þorsk og ýsu fleygt dauðum í hafið vegna stefnu ESB. Áframhaldandi gegndarlaus ofveiði og útrýming á fiskistofnum heims mun að mati ýmissa vísindamanna leiða til hruns arðbærra fiskveiða fyrir árið 2048.

Ef ESB tæki upp fiskveiðistefnu Íslendinga og stundaði ábyrgar fiskveiðar í stað 72 % ofveiði og útrýmingar fiskistofna, myndi það skapa yfir 100 þúsund ný störf og aukatekjur, sem væru fimm sinnum hærri en núverandi fiskveiðistyrkir ESB. Ekkert bendir þó til þess, að ESB muni fylgja fordæmi Íslendinga í náinni framtíð. Íslenska ríkisstjórnin hefur nú kastað þeirri sprengju á best rekna sjávarútveg í heimi, að greinin aðlagi sig að fordæmalaust illa rekinni og ríkisstyrktri fiskveiðistefnu ESB. Gangi það eftir mun starfsmaður í íslenskum sjávarútvegi ekki lengur skapa tífaldar gjaldeyristekjur miðað við starfsmann annarra greina né sjávarútvegur um helming allra gjaldeyristekna þjóðarinnar.

En ríkisstjórnin heldur áfram að draga þjóðina á asnaeyrum með því að aðlaga Ísland að ESB á meðan þjóðinni er sagt að bíða og sjá, hvað kemur úr pakkanum. Með því að taka stóran hluta kvótans eignaupptöku og færa í hendur stjórnmálamanna til að koma á ”réttlátari” skiptingu gróðans, er ríkisstjórnin að hrifsa til sín farsæla stjórn greinarinnar frá útvegs- og sjómönnum. 70% skattur á hagnað útgerðarinnar kippir endanlega rekstrargrundvelli undan íslenskum sjávarútvegi og þá fær ríkisstjórnin vilja sínum framgengt að aðlaga atvinnugreinina að stjórnar- og styrkjakerfi ESB. Þar með gerir ríkisstjórnin ESB-heimavinnuna sína áður en kaflinn um sjávarútveginn verður opnaður og grundvöllurinn lagður að yfirtöku ESB á aðalauðlind Íslands fiskmiðunum. Innleiðing evrunnar mundi síðan útrýma því, sem eftir væri af sveigjanleika og samkeppnishæfni greinarinnar og dauðadómur yfir fjöreggi þjóðarinnar endanlega staðfestur.

Ég hef áður í greinum í MBL (Ásælni ESB í fisk annarra landa 1. sept. 2010 og Hver gefur ESB undanþágu frá ofveiði og útrýmingu fiskistofna 23. ágúst. 2011) gert grein fyrir rannsóknum og niðurstöðum NEF (New Economic Foundation, neweconomics.org), sem gefið hefur út skýrslur um ofveiðar ESB. Með því að reikna út ofveiðar í heiminum og bera saman við aflaverðmæti í ESB hefur NEF komist að þeirri niðurstöðu, að ESB gæti aukið afla sinn um 3,53 milljónir tonna árlega með því að hætta ofveiðum og taka upp ábyrgar fiskveiðar. Mundi aflinn þá duga fyrir ársþörf íbúanna og ESB verða sjálfu sér nógt í stað þess að verða sífellt háðara öðrum. Með því að rækta upp sjálfbæra fiskstofna með ábyrgum veiðum eins og gert er á Íslandi, gæti viðbótaraflinn aukið fiskveiðitekjur ESB mótsvarandi 3,19 milljörðum evra. Það er fimm sinnum hærri upphæð en árlegir styrkir ESB til greinarinnar. Færi ESB að ráðum íslenskra útvegsmanna gæti ESB því skapað yfir 32 þús. ný störf við veiðarnar og að auki 69 þús. störf við fiskvinnslustöðvar eða samtals yfir 100 þús. ný störf. Mundi ekki veita af því hjá ríkjasambandi með íbúafjölda mótsvarandi 75 Íslöndum opinberlega á atvinnuleysisskrá.

En þannig hugsa ekki óábyrgir stjórnmálamenn, sem ríghalda í stórveldadraum og misheppnaðan gjaldmiðil og láta sig raunveruleikann engu skipta. Þjóðin hefur áður leiðbeint ráðvilltum stjórnmálamönnum en nú þarf annað að koma til, því ríkisstjórnin er hreint ekkert ráðvillt í því markmiði sínu að eyðileggja lýðveldið Ísland og leggja fjöregg þjóðarinnar í líkkistuna í Brussel. Þar sem spádómurinn um Kúbu norðursins vill ekki rætast reynir íslenska ríkisstjórnin allt til að koma þjóðinni á þann stað. Vandamálið er hins vegar, að ástandið í mörgum evruríkjum er orðið það slæmt, að Kúba raunveruleikans verður að gósenlandi í samanburði. Núna þarf þjóðin að snúa bökum saman með þeim þingmönnum, sem sýnt hafa, að þeir standi við gefið drengskaparheit að fylgja stjórnarskránni en krefjast reikningsskila við hina. Þingmenn meirihlutans, sem í tvígang hafa fengið vottorð Hæstaréttar um stjórnarskrárbrot, eru búnir að fyrirgera rétti sínum til þingsetu með broti á þingskapareið sínum. 

ESB þarf á gjöfulum fiskimiðum Íslendinga að halda til að mæta sífellt minni fiskveiðum á eigin miðum. Fiskveiðistefna ESB leiðir að mati ýmissa haffræðinga til hruns arðbærra fiskveiða eftir u.þ.b. 30-40 ár. Hvaða þingmenn á Alþingi vilja leiða þetta brjálæðisskipbrot yfir þjóðina í nafni ESB draumsins? 

Gústaf Skúlason                                                                                                                
Greinin birtist í Morgunblaðinu í apríl

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband