28.4.2012 | 13:59
Evrópusambandið heldur áfram að auka tekjur sínar ár frá ári þótt ársreikningar séu ekki endurskoðaðir!
- "Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur óskað eftir því að fjárframlög til þess á árinu 2013 verði aukin um 6,8% frá því sem nú er á þeim forsendum að aukið fjármagn þurfi frá ríkjum sambandsins til þess að standa við ýmsar skuldbindingar sem framkvæmdastjórnin þurfi að standa við."
Svo segir hér í frétt á Mbl.is. Þetta er á ská og skjön við stefnu ESB um niðurskurð á fjárlögum meðlimaríkjanna. Og ekki eykur það tiltrúna, að ársreikningar ESB hafa ekki fengizt endurskoðaðir síðustu 14 árin.
- Ýmis ríki ESB hafa ítrekað hvatt framkvæmdastjórnina til þess að skera frekar niður í rekstri sínum í stað þess að óska sífellt eftir meiri fjármunum frá ríkjunum en framkvæmdastjórnin fór einnig fram á aukin framlög á síðasta ári. (Mbl.is.)
En á næsta ári hefði ESB, samkvæmt þessari fjárhagsáætlun sinni, að sögn BBC, "til ráðstöfunar samtals 138 milljarða evra eða sem nemur um 22.500 milljarða króna."
ESB-sinnar hafa samt talað um, að skattar til Evrópusambandsins séu lágt hlutfall þjóðartekna í ESB-ríkjunum. Það er á sinn hátt rétt, enda rekur ESB ekki skóla, sjúkrahús og samgöngukerfi landanna, svo að eitthvað sé nefnt. En tiltölulega lágt hlutfall, sem fer til Brussel-báknsins, líta forráðamenn þess vitaskuld á sem þeim mun meira sóknarfæri og halda því áfram að stórauka tekjupósta sína ár frá ári þrátt fyrir samdrátt í ríkisútgjöldum landanna.
Skattheimtan mun einnig stóraukast, ef ESB fer svo út í að nýta sér valdheimildirnar sem gefnar eru í Lissabon-sáttmálanum til íhlutunar á sviði orku- og auðlindamála og til eflingar öryggis- og hermálum á vettvangi Evrópusambandsins sjálfs.
Við Íslendingar höfum næsta lítinn áhuga á því sóknarfæri Evrópusambandsins, eins og ljóst er af nýjustu skoðanakönnun!
Jón Valur Jensson.
Vill aukin framlög frá aðildarríkjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.