"Erum að taka rosalega áhættu" með innflutningi kjöts

„Frysting takmarkar smit meðan kjötið er frosið en bakt­er­íurnar lifna við þegar kjötið þiðnar í kjöt­borð­inu eða á heim­ilum lands­manna," segir Vilhjálmur Ari Arason, sérfr. í sýklalyfja­notkun barna og útbreiðslu sýkla­ónæmra baktería. Hann segir frystingu kjöts litlu breyta um raun­verulega smithættu á sýkla­lyfja­ónæmum bakteríum til landsins, í viðtals­greininni „Erum að taka rosalega áhættu“, í Bændablaðinu.

Þar fjallar hann m.a. um hræsni í rökum talsmanna óhefts innflutnings kjöts.

Vilhjálmur á sæti í sóttvarnarráði sem hefur áður sent frá sér ályktun þess efnis að það eigi að fara varlega í innflutning á hráum matvörum. Sérstaklega eggjum og kjöti vegna hugsan­legra matar­eitrunar­baktería og dýrasjúkdóma, en einnig algengrar náttúru­legrar flóru baktería sem erfitt er að forðast og meðhöndla sýkingar sem þær geta valdið og þegar þær eru orðnar sýklalyfja­ónæmar. (Sama grein.)

Upplýsandi er öll hans umræða:

"Talsmenn óhefts innflutnings á kjöti tala vísindin óhikað niður og tala einnig niður til heilbrigðisstarfsfólks sem glöggt þekkir til málsins. Sumir nefna að við komumst auðveldlega í snertingu við þessar bakteríur erlendis, sem er satt. En þar borðum við yfirleitt bakteríurnar og drepum þær þannig eða þvoum þær af okkur jafnóðum, þótt vissulega sé hætta í einhverjum tilvikum á að bakteríurnar berist með okkur eða erlendu ferðafólki til landsins.

Hrátt kjöt getur hins vegar borið mikið magn baktería á yfirborði sínu sem auðveldlega getur borist í líkamsflóruna okkar úr því.

Samkvæmt lýðheilsusjónarmiðum erum við að minnsta kosti að taka rosalega áhættu með því að flytja kjöt óhindrað til landsins. Kjöt sem gæti verið í allt að þriðjungi tilfella smitað af algengum sýklalyfjaónæmum bakteríustofnum eins og svokölluðum klasakokkum sem varla finnast enn þá hér á landi.“ (Leturbr. undirritaðs.)

Auk nefndra sérfræðistarfa Vilhjálms Ara er hann sérfræðingur í heimilis­lækningum.

JVJ.


Samþykkt Þriðja ESB-orkupakkans gæti haft landflótta-afleiðingar fyrir Ísland

Elías Elíasson verkfræðingur segir helzta löst ísl. stjórn­mála­manna að þeir þrá­ast við að láta rann­saka af­leið­ingar stórra ákvarð­ana sinna á land og þjóð þegar til lengri tíma sé litið, t.d. í orku­pakka­mál­inu, verði það sam­þykkt, og segir Elías afleið­ing­arnar geta orðið graf-alvarlegar: 

”Það er geysilega mikið í húfi. Þetta er spurning um hvort Ísland verði samkeppnis­hæft meðal þjóða; það sem ég á við er að fyrst fer virði­sauka­framleiðslan úr landi, síðan fer fjár­magnið úr landi og svo fara börnin úr landi“, segir Elías.

Ennfremur kom fram í máli hans, að með Þriðja orkupakkanum yrði "farið að höggva anzi gróflega í fullveldi okkar."

Um þögn ráðamanna um málið:  "Við getum ekkert dæmt um það, af hverju þessi þögn stafar. Hún gæti verið vísvitandi bara taktísk baráttuaðferð. Hún getur líka lýst víðáttu­mikilli vanþekk­ingu. Og hérna stendur maður og bara veit ekki hverju maður á að trúa. Maður trúir því ekki, að stjórnvöld búi yfir jafn-víðáttu­mikilli vanþekkingu og þessi þögn gefur til kynna."

Um afleiðingar af því, að við hefðum samþykkt 3. orku­pakkann: "Við megum [þá] ekki bjóða okkar iðnaði, hvað sem hann nefnist, upp á annað verð en sambærilegur iðnaður í Evrópu. ... Við skulum segja, að Landsvirkjun væri nú bara í eigu garð­yrkju­bænda, þá væri hægt að láta Landsvirkjun selja garð­yrkju­bændum orku eitthvað ódýrari, en af því að fyrirtækið er í opin­berri eigu, þá getur ESB sett um það reglur, að það megi ekki hygla hinum og þessum, og bera því við, að með því væri verið að stunda niðurgreiðslur." 

"Við erum að taka mikla viðskiptalega áhættu" með því að samþykkja Þriðja orkupakkann, svaraði hann aðspurður.

"Það er geysilega mikið í húfi. Það er bara spurning hvort þessi þjóð verður samkeppnishæf í samfélagi þjóðanna ..." 

Hlusta má viðtalið í spilara (hljóðrás) á vef Útvarps Sögu.

Hér er byggt á og þegið af frétt Jóhanns Kristjánssonar tækni­manns um málið á vef Útvarps Sögu, en viðtalið við Elías B. Elíasson hafði Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri. --jvj.


Bloggfærslur 27. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband