Færsluflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur

Utanstefna Árna Páls Árnasonar

Samfylkingin er handbendi ríkjasambands með höfuðstöðvar í Brussel, en á sér formann, Árna Pál Árnason. Hann hélt í gær til Strassborgar á fund "með ráðamönnum Evrópusambandsins í boði þingflokks jafnaðarmanna á Evrópu[sambands]þinginu. Í þingflokki jafnaðarmanna á Evrópuþinginu sitja 194 þingmenn frá öllum 28 aðildarríkjum ESB." (Mbl.is.)

Greinilega hyggst Árni Páll fara ýtarlega í saumana á því, hvað fór úrskeiðis í Össurar-umsókninni hjá evrókrötum á Íslandi, með samherjum sínum austan hafs. Stendur til að reyna að kokka upp nýja sóknarstrategíu stórveldisins með eftirgreindum fundahöldum?

  • Hann mun funda sérstaklega með Hannes Swoboda, formanni þingflokks jafnaðarmanna, og Christian Dan Preda, sem leitt hefur vinnu við aðildarumsókn Íslands. Þá mun hann eiga sérstakan fund með Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB, og Mariu Damanaki, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórninni. (Mbl.is.) 

Verður nú reynt að finna út einhver klækjabrögð til að leggja beitu fyrir Ísland, t.d. með því að "bjóða" eitthvað nýtt í makrílmálinu í ljósi þess, að fyrra veiðigetumat ESB-manna reyndist húmbúkk eitt og vitleysa, en mat íslenzkra og norskra fiskifræðinga fara nær sanni?

Engu er þó treystandi frá þessu Evrópusambandi um sjávarútvegssamninga og sízt ástæða til að hvika frá óskoruðum yfirráðum okkar sjálfra yfir fiskveiðum innan 200 mílnanna, auk þess sem samningar um veiðar úr síbreytilegum flökkustofni geta einfaldlega orðið okkur snara um háls.

  • Annað kvöld [þriðjudagskvöld] ávarpar formaður Samfylkingarinnar þingflokk jafnaðarmanna á sérstökum þingflokksfundi og fjallar um Evrópusamvinnuna frá sjónarhóli Samfylkingarinnar og stöðu aðildarumsóknar Íslands að ESB. (Mbl.is.)

Hann mun þá væntanlega gera samherjum sínum grein fyrir því, hverjum íslenzkra evrókrata er helzt um að "kenna", að þeirra heittelskaða Össurarumsókn fór í handaskolum – hvort aðalsökudólgurinn er Jóhanna Sigurðardóttir eða Össur Skarphéðinsson eða kannski Árni Páll sjálfur, sem hefði viljað vera verkstjóri yfir verkinu, en fekk það ekki fyrir Jóhönnu (var bara formaður að nafninu til) – eða hvort Evrópusambandið verði sjálft að taka á sig sökina, því að þaðan hafi íslenzkir þjónar þess tekið við "línunni" um stefnu og strategíu, sem hér hafi verið fylgt. Svo má vel vera og að jafnan hafi Brusselmenn talið þvert NEI Íslendinga gegn ESB-inntöku svo augljóslega vofa yfir þeim, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár, að Evrópusambandið hafi vísvitandi stuðlað að því, að viðræðurnar stæðu yfir í meira en tvöfaldan þann tíma, sem látið var í veðri vaka í upphafi, og þó fjarri því að vera lokið, enda erfiðustu "kaflarnir" eftir!

En íslenzkir stjórnmálamenn eiga ekki að sækja sér línu austur um haf, það hefur ekki kunnað góðri lukku að stýra hingað til !

Jón Valur Jensson.

Hér skal ennfremur minnt á eftirfarandi grein hér á Fullveldisvaktinni: Árni Páll Árnason minnir óvart á að ESB-umsókn Össurar og hans eigin flokks var ólögmæt!


mbl.is Fundar með ráðamönnum ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB, Ísland og Færeyjar

Hér er önnur athyglisverð grein eftir Bjarna Jónsson rafmagnsverkfræðing: Evrópusambandið og norðrið og hefst þannig:

  • Það þótti vera saga til næsta bæjar, þegar Danir ákváðu að meina skipum frá sambandsríkinu Færeyjum að landa makríl og síld í dönskum höfnum og að kaupa veiðarfæri í Danmörku til þessara veiða. Allir vita, að til slíks óyndisúrræðis grípa Danir ekki ótilneyddir ...

Það er margt gott í þessari grein, hér er t.d. gripið niður í einu atriði:

  • Makríllinn er talinn éta 3 milljónir tonna í íslenzkri lögsögu og a.m.k tvöfalda lífmassa sinn og verða 2 milljónir tonna. Miðað við góða reynslu af íslenzkri aflamarksreglu ættu veiðar upp á 300 þús tonn af makríl á Íslandsmiðum ekki að vera goðgá, en ESB ætlar okkur 5 % - 10 % af því.

Farið inn á vefslóðina hjá Bjarna og Evrópuvaktinni! Þótt greinin sé frá 6. ágúst, heldur hún alveg gildi sínu. Þar er einnig upplýsingar að finna um Bjarna sjálfan. -- Sjá einnig HÉR um fyrri grein hans, sem fekk hér mikið og verðskuldað lof.


Stórmerk grein eftir Bjarna Jónsson verkfræðing um ESB-mál

Í viðskiptastríði við Evrópusambandið, eins og kann að vera í uppsiglingu, er ómetanlegt að geta leitað til austurs og vesturs ...

Þannig ritar hann m.a. í grein sinni Sér grefur gröf, þótt grafi, og er hún óvenju snjöll og skörp greining á margvíslegu varðandi Evrópusambandið, hvert það stefnir, á aðlögunarferlinu og lítt beysinni pólitík Össurar Skarphéðinssonar og Steingríms J. Sigfússonar. Eftirfarandi glefsur eru einnig úr þessari ýtarlegu grein Bjarna (en bezt er að lesa hana alla í heild):

"Er líklegt, að óbilgirni ESB í garð Íslendinga mundi verða minni eftir inngöngu en á skeiði, þegar ESB reynir að lokka landsmenn til fylgilags við sig með ýmsum ráðum, þ.á.m. með því að bera á þá fé?  Samstarfi við Færeyjar og Grænland með ríku innihaldi lyki daginn, sem Ísland gengi í ESB.  Af sögulegum og hagsmunalegum ástæðum er innganga Íslands í ESB í sinni núverandi mynd ríkjasambands útilokað, hvað þá verði þróunin áfram í átt að sambandsríki, en vendipunktur í þeirri þróun kann að vera í nánd.   

Það var svínslegur leikur til að þreyta fiskinn að bíða með sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann þar til í lokin, svo að þjóðin stæði frammi fyrir "fait accompli", fullnaðaraðlögun á öllum öðrum sviðum, fjöldi fólks kominn á spena ESB undir merkjum IPU eða öðrum, og þess vegna yrði ekki talið við hæfi að neita ESB um lokahnykkinn, aðlögun að "Common Fishery Policy, CFP, og CAP, Common Agriculture Policy".  Aðildarumsókn og aðildarferli  voru þannig mörkuð blekkingum og svikum hins fláráða Össurar Skarphéðinssonar frá upphafi til enda. 

Réttast væri, að Alþingi fæli ríkisstjórninni haustið 2013 að falla frá umsókninni, sem kreist var út úr Alþingi  16. júlí 2009 með meiri harmkvælum en sögur fara af í samskiptum við erlend ríki síðan á Kópavogsfundinum 28. júlí 1662..." Lesið greinina í heild!


Hér sést fullveldi Dana í mikilvægu máli fokið út í veður og vind; Evrópusambandið hirti það

Fréttin af því, að Danir ætla sér að framfylgja refsiaðgerðum Evrópusambandsins með því að meina færeyskum fiskiskipum að landa í dönskum höfnum, er staðfest af Karen Hækkerup, matvælaráðherra Dana, á fundi í dag í þingnefnd um málefni Færeyja á vegum danska Þjóðþingsins, samkvæmt færeyska fréttavefnum Portal.fo, eins og Mbl.is segir frá.

  • „Við getum ekki gert annað en framfylgt ákvörðunum Evrópusambandsins þar sem Evrópudómstóllinn beitir sér að öðrum kosti gegn okkur. Við höfum ákveðnar skuldbindingar sem ESB-aðildarríki og þær hafa Færeyingar ekki og því munur á,“ sagði Hækkerup í samtali við fréttavefinn eftir fundinn. (Mbl.is.)

Hetjuleg framkoma eða hitt þó heldur! En járnhörð lögmál gilda hér um innan stórveldisins. Verndarhlutverk Dana gagnvart Færeyingum fellur dautt niður við svo búið, en hér gætum við hins vegar aðstoðað. Ekki verður þó mælt með því hér, að Færeyingar grípi nokkurn tíma til þess örþrifaráðs að sameinast okkur í einu lýðveldi – valdstéttin hér er fjarri því að vera svo traustverð, að aðrar þjóðir geti talið sér óhætt að sameinast okkur og fyrirgera síðan fullveldi beggja eða allra þriggja þjóðanna, eins og fjórða þjóðin við Norður-Atlantshaf, Nýsjálendingar, lentu í um miðja 20. öld.

  • Fram kemur að ráðherrann hafi þó ekki misst alla von enn þar sem danska utanríkisráðuneytið hafi óskað eftir því við Evrópusambandið að það falli frá boðuðum refsiaðgerðum á meðan deilan er til meðferðar hjá gerðardómi Sameinuðu þjóðanna. (Mbl.is.)

Mjög ólíklegt er, að Brusselvaldið fallist á slíka frestun, sem gæti orðið mjög löng, fram á næsta ár a.m.k., í þessu máli, og herskár hljómur Damanaki og annarra valdamanna bendir ekki til þess. Það styttist líka í, að við Íslendingar megum búast við svipuðu viðskiptastríði, en hraustlega verður reyndar tekið á móti, að mestu með lagaúrræðum.

Segja má, að hér sjáist fullveldi Dana í mikilvægu máli hafa fokið út í veður og vind; Evrópusambandið hirti það. Það gerðist í raun með inntöku Dana í ESB, því að inntökusáttmálar og Lissabon-sáttmálinn fela í sér fulla samþykkt á ráðandi löggjafarvaldi ríkjasambandsins.

Þeir Íslendingar, sem lengi hafa barið hausnum við steininn um þau grundvallarmál, komast kannski til fullrar meðvitundar, þegar þeir sjá til fulls, hvað hér hefur gerzt.

Já, nú er sitthvað rotnara en margur ætlaði í ríki Dana!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Danir verða að refsa Færeyingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klaufarnir Bjarni Már Magnússon, doktor í lögum, og Stefán Ólafsson prófessor

Þeir eiga innlegg í ESB-umræðu í Fréttablaðinu í dag, sá fyrri um fullveldi, hinn segir Norðmenn hafa skoðað tvisvar "í pakkann, með aðildarviðræðum". Villa beggja er að fylgja ekki eftir því, sem vitað er um framhald mála. Þannig stöðvar Bjarni Már Magnússon athugun sína árið 1923, en Stefán Ólafsson 1994.

Hvernig þá í ósköpunum? Jú, tökum fyrst hinn þekktari þeirra fyrir, Stefán, prófessor í félagsfræði. Hann segir það rangt hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, að ekki sé hægt að skoða í pakkann með aðildarviðræðum. Afsönnun þess liggi fyrir, því að tvívegis hafi Norðmenn gert það. Þar vísar hann til aðildarviðræðna þeirra og uppáskriftar norskra stjórnvalda á inngöngusáttmála (accession treaty heitir þetta) sem norska þjóðin hafnaði 1972 og 1994.

Hvar skjátlast þá Stefáni í þessum efnum? Á tvíþættan veg.

1. Hann gengur fram hjá því, að þegar þjóðirnar austan gamla járntjaldsins fóru að sækja um ESB-inngöngu, mörgum árum eftir 1994 , var fyrirkomulagi inntökuferlisins breytt. Það er EKKI lengur verið að "SEMJA" (negotiate) um nein varanleg kjör ESB-umsóknarríkjanna innan stórveldisins (sambandsins), það tekur t.d. framkvæmdastjórn ESB fram með skýrum orðum í yfirlýsingu sinni ágúst 2011 (sjá pistil hér fyrir neðan), heldur er einfaldlega verið að ræða um upptöku landsins á um 100.000 blaðsíðna lagaverki ESB, ekki hvort það verði allt tekið upp, heldur í mesta lagi á hve löngum tíma (fáeinum árum yfirleitt varðandi þær örfáu undanþágur sem gerðar eru frá því að taka upp lagaverkið samstundis og

2. Stefán neitar ennfremur að LÆRA (nokkuð sem háskólakennari ætti að kunna skil á) af niðurstöðu inngönguviðræðna Norðmanna 1993-4. Hvað átti hann að læra? Jú þetta: að þeim var með eitilhörðum samningskröfum gert að hlíta þeirri fiskveiðistefnu Evrópusambandsins út í æsar, að þeir fengju fiskveiðilögsöguna EKKI fyrir sjálfa sig, ekki einu sinni part hennar, norðan viss breiddarbaugs. Niðurstaða eða öllu heldur innihald "pakkans" sem þeir "fengu" í sjávarútvegsefnum var einmitt þessi : að þeir fengju ekki neitt! Af þessu neitar Stefán að læra. Hann lætur sem "pakki" handa Íslendingum gæti falið í sér óvæntan glaðning. Sennilega er hann að gefa mönnum í skyn, að ekki yrði um afturhvarf frá sigrum okkar í landhelgismálinu að ræða. En fyrir slíku eru engin rök. Hin sameiginlega sjávarútvegsstefna (CFP) Evrópusambandsins útilokar það, og það hafa forystumenn sambandsins staðfest ítrekað með orðum sínum. "Það er ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá lögum ESB,“ sagði til dæmis Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel þegar spurt var út í sjávarútvegsstefnu sambandsins, og í sama knérunn falla orð Emmu Bonino og Olli Rehn, sjá nánar hér: Margstaðfest staðreynd: Engar varanlegar undanþágur eru veittar frá lögum ESB!.

Er þá villulisti Stefáns prófessors upp talinn? Nei, jafnvel þótt aðeins sé miðað við 19 einsdálkslínur frá honum í ESB-Fréttablaðinu í dag, heldur hann þar einnig uppi sjónhverfingum um annað mál, þegar hann skrifar um "hinar síendurteknu rangfærslur um að ESB muni taka yfir náttúruauðlindir Íslands, ef við gerumst meðlimir í Evrópusambandinu." Stefán reynir hér að vísu fyrst að stilla þessu upp sem stærstum möguleika ("taka yfir [allar] náttúruauðlindir Íslands"), en það er aðeins málskrúðs- eða kappræðu- (rhetorísk) -aðferð hjá honum að láta þá líta svo út sem hér sé ekkert að óskast. Rökvillan er sú að gefa sér uppteiknaða forsendu, sem hægt sé að segja að eigi sér ekki beina og skýra tilvist í sáttmálum ESB sem opinská stefna þess, en horfa hins vegar fram hjá því, að í Lissabon-sáttmálanum eru einmitt valdheimildir gefnar til þess að fara með vissum hætti fram hjá eignaryfirráðum meðlimaríkjanna á auðlindum sínum. Þar er nefnilega tekið sérstaklega fram, að meðlimaríkin skuldbindi sig til að koma fram sem “samheldið afl í alþjóðasamskiptum” og m.a. geti þá ESB stýrt framboði (supply) á orku, þ.e.a.s. með því að "ensure security of energy supply in the Union"; það getur þá líka átt við um öflun orkunnar (sbr. í ensku máii: 'to supply us with this': að afla okkur þessa) og þá jafnvel allt að frumframleiðslustigi. Þá er þar með komin átylla fyrir ESB til að grípa inn í orkuöflun (t.d. olíu eða vatnsafls- eða jarðvarma-framleiddrar raforku) til að tryggja meðlimaríkjunum þá orku, t.d. í nýrri orkukreppu og til að koma í veg fyrir að t.d. Norðmenn eða Íslendingar selji olíu til annarra heimshluta. Eins gæti þetta jafnvel orðið undirstaða kröfu á hendur okkur að við útvegum mikið rafmagn gegnum rafstreng til Skotlands, jafnvel þótt það fæli í sér, vegna jafnræðisreglna ESB, að við yrðum að stórhækka rafmagnsverð til íslenzkra heimila. (Þetta er ekki á döfinni næstu árin eða kannski meira en áratug, vart áður en ESB tækist að narra Norðmenn inn, en til þess eru valdheimildir settar að nota þær; og það, sem getur gerzt vegna slíkra samþykktra grunnreglna, það gerist gjarnan og mun gera það, ef stórveldishagsmunir bjóða svo.

Af innslagi Bjarna Más Magnússonar

Hann vísar í grein ('Ytra fullveldi') á leiðarasíðu Esb-Fréttablaðsins í dag til úrskurðar Fasti-dómstólsins (fyrirrennara Alþjóðadómstólsins í Haag) um fullveldismál, þ.e. í svonefndu S.S. Wimbledon-máli. "Í stuttu máli komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ríki sem tekur á sig skuldbindingar með þjóðréttarsamningi væri ekki að skerða fullveldi sitt, heldur að nota það," ritar hann og álykar sjálfu: "Nú hefur sá skilningur legið fyrir í níutíu ár að þegar ríki tekur á sig skuldbindingar af þjóðréttarlegum toga sé ríkið að nota fullveldið en ekki afsala sér því."

En hér gerir Bjarni Már sig sekan um alvarlega yfirsjón. Þegar ríki framselur sjálf æðstu fullveldisréttindi sín í löggjafarmálum (auk framkvæmda- og dómsvalds) til annars ríkis eða ríkjabandalags, þá er það sannarlega að gera nokkuð, sem kemst nánast eins nærri því og unnt er að afsala sér fullveldi. 

En gerist þetta nokkuð við inntöku ríkis í Evrópusambandið? Já, svo sannarlega! Sjá hér: 'Réttinda-afsalið sem yfirlýst og staðfest yrði með aðildarsamningi (accession treaty) við Evrópubandalagið' = http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/878892/

Þar kemur m.a. fram (í þessu ESB-skjali: http://eur-lex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#0001010001 ) "that Community law takes precedence over any national provisions which might conflict with it, and that procedures exist for ensuring the uniform interpretation of Community law; whereas accession to the European Union implies recognition of the binding nature of these rules, observance of which is indispensable to guarantee the effectiveness and unity of Community law." Landslög víki sem sé alltaf fyrir ESB-lögum, og allt túlkunarvald sé lagt í hendur Evrópusambandinu!

Bjarni Már er strandaður á árinu 1923 og hefði getað gert betur en þetta! Tilætlun Evrópusambandsins er allt önnur og róttækari og sannarlega eðlisólík þeirri, sem felst t.d. í varnarsamningi Íslands við Bandaríkin, GATT-samningnum, undirskrift Mannréttindayfirlýsingar SÞ og fríverzlunarsamningnum við EFTA-ríkin. Bjarni Már þarf að bæta ráð sitt í sinni næstu grein.

Jón Valur Jensson.


Sendiherra Íslands stendur sig vel í makrílmálinu, en ESB þorir aðeins í smáþjóðir!

 

Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands í Bretlandi og Írlandi, hefur vakið athygli á því, sem hér er rétt að kalla tvöfeldni Evrópusambandsins í makrílmálinu, því að það hótar einungis Íslendingum og Færeyingum, en RÚSSA lætur það í friði, þótt þeir stundi miklar veiðar úr makrílstofninum í NA-Atlantshafi.

Benedikt Jónsson, sendiherra.
  • Sendiherrann bendir ennfremur á að allar þjóðirnar sem nýttu makrílstofninn væru sameiginlega að veiða meira en vísindamenn ráðlögðu. Íslendingar væru að veiða 22,7% ráðlagðrar veiði og Evrópusambandið og Norðmenn saman 90,3%. (Mbl.is, leturbr. hér.)

Það er gleðilegt, að sendiherra Íslands í þessum löndum haldi uppi vörn og sókn í mikilvægu hagsmunamáli okkar – gleðileg breyting frá því, sem virtist ástandið í utanríkisþjónustunni undir yfirstjórn Össurar Skarphéðinssonar, að því er Icesave-málið áhrærði; en þar sté þá forseti Íslands með eftirminnilegum hætti fram okkur til varnar, m.a. í brezkum fjölmiðlum.

Viðtalið við Benedikt birtist í Irish Times, og hann lét sér ekki nægja að benda á þessa ósamkvæmni í makríl-stefnu Evrópusambandsins, gagnvart smáþjóðum annars vegar og stórþjóð hins vegar, því að hér er annað dæmi um góðar áherzlur hans:

  • Þá ítrekar Benedikt við Irish Times að íslensk stjórnvöld telji að refsiaðgerðir myndu brjóta gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og 9. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Látum ekki semja okkur út í einhverja vitleysu – stöndum á réttinum yfir okkar lögsögu! Og það er fullkomlega rétt hjá forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að innan Evrópusambandsins "hefðum [við] ekki haft aðstöðu til að verja rétt okkar [í makrílmálinu]. Þetta er því ... áminning um mikilvægi þess að hafa yfirráð yfir eigin auðlindum – verja fullveldið til þess að geta varið hagsmuni þjóðarinnar út á við."

Myndin er af sendiherranum Benedikt Jónssyni. 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Hótunum ekki beint að Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótanavaldi hinna voldugu beitt gegn smáþjóðum

 

Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, hristir nú brandinn og boðar refsiaðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar fyrir lok þessa mánaðar.

Sigmundur Davíð ræðir við æðstu ESB-menn  þennan þriðjudagsmorgun, þ.e. Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB. Einnig fundar hann með Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins.

Yfirlýsing Damanaki kemur í kjölfar fundar sjávarútvegsráðherra ESB-ríkjanna sem

  • "ræddu meðal annars um makríldeiluna í dag, en Bretar og Írar höfðu fyrir fund þeirra hvatt til þess að gripið yrði til refsiaðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum."
  • „Við getum ekki beðið til næsta árs, við verðum að grípa til aðgerða núna. Hvað varðar til hvaða aðgerðum við grípum nákvæmlega þá munu frekari upplýsingar verða gefnar út fyrir lok þessa mánaðar,“ sagði Damanaki á blaðamannafundi í kvöld (Mbl.is).

Og þetta er haft eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðamanni forsætisráðherra:

  • „Sigmundur Davíð á fund með Herman van Rompuy í fyrramálið og ég geri ráð fyrir að þetta verði meðal annars rætt. Við munum gera Barroso grein fyrir afstöðu Íslendinga, sérstaklega þeirri afstöðu okkar að við teljum þessar refsiaðgerðir allt of víðtækar og að þær standist ekki EES-samninginn. Þær séu ólögmætar og við munum ekki sitja þegjandi undir því. Ég geri ráð fyrir að þetta komi fram á morgun“ (Mbl.is).

Hér hefur því greinilega dregið til tíðinda, og verður fróðlegt að sjá, hvort harkan sex verði látin ráða í samskiptum stórveldabandalagsins við þessar tvær norrænu smáþjóðir.

  • Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur "ekki trú á því að ESB grípi til einhverra aðgerða öðruvísi en að frekari viðræður eigi sér stað áður. Þar að auki hef ég miklar efasemdir um að refsiaðgerðir af því tagi sem menn hafa rætt um innan sambandsins fáist einfaldlega staðist. Ég held að það séu ekki lagaforsendur fyrir þeim,“ segir hann (Mbl.is),

en fer ekkert í grafgötur um, að hér er verið að beita hótunum fyrst og fremst með þessu tali um refsiaðgerðir.

Stórveldum fer það kannski vel að eigin áliti að hóta öllu illu, þar til í ljós kemur, að þau eru eins og hver önnur pappírstígrisdýr.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ákvörðun fyrir lok mánaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjandskapur ESB-ríkja við Ísland heldur áfram

Það fer fríverzlunarbandalagi og meðlimaríkjum þess illa að beita sér gegn frjálsri verzlun og flutningum. Gríman er fallin af Hollendingum og Þjóðverjum gagnvart Íslendingum um hvalamál. Löglegar veiðar okkar reyna þeir að bregða fæti fyrir með því að teppa flutninga með hvalkjöt til Japans. Þetta eru ekki meðmæli með Evrópska efnahagssvæðinu, né með ESB, ekki frekar en Icesave- og makríl-málin (sjá neðar).

  • Peter Altmeier, umhverfisráðherra Þýskalands, hefur sent yfirvöldum hafna við Norðursjó bréf þar sem hann mælist til þess að þau leyfi „sjálfviljug“ ekki flutning hvalkjöts.
  • „Þýskar hafnir ættu ekki að vera ákjósanlegur kostur til umskipunar hvalkjöts,“ sagði í bréfinu, sem Altmeier sendi á þriðjudag og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. (Mbl.is.)

Ekki talar ráðherrann þarna í krafti löggjafar. Hitt er reyndar málið, að hann lætur í 1. lagi eins og stuðpúði einber vegna þrýstings græningjaliðs, og í 2. lagi er þetta vilji og stefna Evrópusambandsins sjálfs að leyfa ekki meðlimaríkjunum hvalveiðar, selveiðar né hákarlaveiðar. Við ættum ekki að fara í neinar grafgötur með það, en haga okkur eftir því með því að halda okkur fjarri þessu bandalagi stórveldanna og illa upplýstum embættismönnum þeirra og lýðkjörnum fulltrúum í ESB-þinginu.

En það er ekki nýtt, að við verðum fyrir óverðskulduðum kárínum af hálfu þessa Evrópusambands. Það hótar okkur og Færeyingum með gróflegum hætti í síldar- og makrílmálum. Það beitti sér frá upphafi gegn okkur í Icesave-málinu, með því að tilnefnda þrjá fulltrúa í gerðardóm haustið 2008 sem (þrátt fyrir – sem betur fer – viljandi fjarveru íslenzks fulltrúa) dæmdi okkur greiðsluskyld í því máli. Áfram beitti ESB sér gegn okkur með þrýstingi á stjórnvöld og á alþjóðavettvangi stofnana, og allt fram undir endalokin – EFTA-dómstóls-úrskurðinn glæsilega – beitti ESB sér með frekjulegum, ógnandi hætti gegn okkur, með því að gerast í 1. skipti í sögunni meðaðili að kæru tveggja meðlimaríkja, Bretlands og Hollands, gegn Lýðveldinu Íslandi. Málflutningur Samfylkingar-forystumanna og ESB-innlimunarsinna hér á landi hljómar því sem innantóm hræsni, þegar reynt er að uppteikna fyrir okkur Evrópusambandið sem útópíu framtíðarinnar og heillalausn fyrir okkur Íslendinga. Því fer víðs fjarri, og ekki yrðum við frekar en önnur "smáríki" innanborðs látin njóta þar sannmælis, hvað þá að ráða eigin ráðum.

  • Haft var eftir Iris Menn, sérfræðingi samtakanna í málefnum hafsins, á vefsíðu blaðsins Die Welt að bréf ráðherrans væri fyrsta skrefið, en hygðist hann axla ábyrgðina til fulls þyrfti hann að beita sér fyrir því að flutningur hvalkjöts um þýskar hafnir yrði bannaður með lögum ... (Mbl.is.)

Já, alvaran er grá í viðskiptum við slíka aðila, hvort sem um makríl, Icesave eða hvali er að ræða. Bandamenn Evrópusambandsins hér á landi mættu fara að skoða sig í spegli þessara staðreynda.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tilmæli umhverfisráðherra gegn flutningi hvalkjöts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Króatar fá ENGAR undanþágur frá fiskveiðistefnu ESB sem gefur Ítölum o.fl. afnot af króatískri landhelgi upp að 12 mílum!

Það SAMA mun gerast hér, ef kvislingar okkar fá að ráða ferðinni ...

  • „Það fóru alls engar samningaviðræður fram, við náðum engum árangri í ferlinu. Við komumst aðeins að raun um að það var ekkert í boði annað en að samþykkja það sem boðið var upp á.“ Þetta er haft eftir króatíska sjómanninum Danilo Latin í frétt Reuters en fjölskylda hans hefur haft viðurværi sitt af sjósókn í fjóra ættliði. Króatía gekk formlega í Evrópusambandið á miðnætti í gær í kjölfar viðræðna við sambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu. (Mbl.is.)

Hér er ekki um lítið hagsmunamál að ræða fyrir hina 4,4 milljóna þjóð Króatíu. Þótt henni hafi boðizt tímabundin aðlögun í smávægilegum atriðum, fær hún enga undanþágu til frambúðar frá ESB-reglunni um sameiginlegan aðgang að fiskimiðunum og fullan rétt borgara í hvaða ESB-ríki sem er til að kaupa sig inn í fiskveiðileyfi, jafnvel innan 12 mílnanna! Sjá um það meðfylgjandi frétt (tengill hér neðar).

  • Fram kemur í fréttinni að flestir þarlendir sjómenn, sem séu um 3.700, óttist að inngangan kunni að hafa í för með sér endalok króatísks sjávarútvegar en í viðræðunum við Evrópusambandið var samið um nokkrar tímabundnar aðlaganir að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins, meðal annars varðandi notkun veiðarfæra og fiskveiðar til eigin neyslu. „Ég er hræddur um að margt eigi eftir að koma okkur óþægilega á óvart,“ segir Latin ennfremur og vísar þar meðal annars til aukinna takmarkana á sjósókn, minni niðurgreiðslna og kröfu um breytt veiðarfæri sem hafa muni í för með sér mikinn kostnað.
  • Hafa áhyggjur af ásókn ítalskra sjómanna
  • Fram kemur í fréttinni að flestir aðrir sjómenn í strandhéröðum Króatíu deili áhyggjum Latins. Þeir telji að króatísk stjórnvöld sem sömdu um inngöngu landsins í Evrópusambandið hafi ekkert gert til þess að standa vörð um hagsmuni þeirra. Þar segir ennfremur að inngangan muni hafa í för mér sér að fiskiskip frá öðrum ríkjum sambandsins muni fá aðgang að efnahagslögsögu Króatíu. Mestar áhyggjur heimamanna í þeim efnum snúa að ítalska fiskiskipaflotanum. (Mbl.is.)
Málið stendur raunar verr en þetta. Í 1. lagi (feitletrun jvj):
  • Haft er eftir Miro Kucic, aðstoðarlandbúnaðarráðherra Króatíu, að margfalt meiri fisk sé að finna í Króatíumegin í Adríahafinu en Ítalíumegin. Hagsmunir Ítala af því að komast í króatísk fiskimið væru því miklir og því mikilvægt að vinna að því með ítölskum stjórnvöldum að vernda fiskistofnana á svæðinu. Hins vegar sé gert ráð fyrir því að 12 mílna landhelgi Króatíu sé eingöngu fyrir króatíska sjómenn.

Í 2. lagi: Þessi einkaafnot Króata að 12 mílunum (einungis!) eru ekki einu sinni trygg! – sjá neðar!

Í 3. lagi: Ekki aðeins Ítalir, heldur hvaða ESB-þjóð sem er getur nú gengið að króatísku fiskveiðilögsögunni utan 12 mílna. Þar koma Frakkar og Spánverjar helzt til greina, með tugþúsundir atvinnulausra sjómanna og vannýtt fiskiskip. Spánverjum er ekkert að vanbúnaði að sækja innst í Adríahafið, þeir eru við austurströnd Norður-Ameríku, Grænland, Senegal í A-fríku og suður með allri vesturströnd Afríku með sinn mikla flota stórvirkra verksmiðjutogara.

  • En Latin segir að engin trygging sé fyrir því að Króatar sitji einir að 12 mílunum. Ítalskar útgerðir þurfi einungis að semja við króatískan sjómann sem sé reiðubúinn að selja veiðileyfi sitt og hætta sjálfur starfsemi og stofna síðan eigið fyrirtæki í Króatíu. (Mbl.is, áfram byggt á Reuters-fréttinni; leturbr. hér.)

Svo spá þessir vonsviknu menn í, að inn komnir í Evrópusambandið geti þeir reynt að hefja baráttu fyrir hagsmuni króatískra sjómanna á vettvangi þess, "í ljósi sérstakra aðstæðna í Adríahafi"! Og jafnvel þótt það ólíklega gerðist, að smáríkinu tækist að fá samþykkt frávik frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB (CFP), þá "kunni það að vera of seint" – skaðinn hafi þá þegar átt sér stað.

En Króatar eru líka raunsærri um sumt en ýmsir ESB-bjartsýnisglóparnir hér á landi:

  • „Það var ekki hægt að ætlast til þess að Evrópusambandið samþykkti okkar lög í viðræðunum,“ segir Kucic. 
Auðvitað ekki – í Evrópusambandinu ríkja nefnilega ESB-lög! Evrópusambandið var ekki að innlimast í Króatíu og lagaverk hennar, heldur öfugt!

 

Hin afleita reynsla af ESB-inntöku Slóveníu fyrir sjávarútveg þar

Slóvenía liggur milli Ítalíu og Króatíu. Á Istria-skaga sem skiptist milli þessara þriggja landa, var sjávarútvegur ábatasamur fyrir einum áratug, en hefur hnignað "vegna verri stöðu fiskistofna og aukinnar skriffinnsku" (Mbl.is.)
  • Hliðstæða sögu segir slóvenski sjómaðurinn Loredano Pugliese sem gerir út frá hafnarborginni Izola. Hann segir að staða sjávarútvegsmála í Slóveníu hafi sífellt orðið verri undanfarin ár en landið gekk í Evrópusambandið árið 2004. Þegar hafi orðið mikill samdráttur í greininni. Izola hafi áður verið þungamiðjan í slóvenskum sjávarútvegi en 30 fiskiskip séu nú gerð út frá borginni samanborið við 400 fyrir áratug. Pugliese segir fiskveiðistjórnun sambandsins einkum bera ábyrgð á þessari þróun. Ef fer sem horfir segir hann enga sjómenn verða eftir á svæðinu og hann óttist að það sama verði raunin í Króatíu. (Mbl.is.) 

Vilja nú ekki ESB-sinnarnir fagna þessum gríðarlegu framförum sem átt hafa sér stað í krafti hinnar hjálpræðislegu ESB-"aðildar" Slóveníu og óska Króötum annarrar eins blessunar?!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Króatískir sjómenn óttast framtíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættið annaðhvort að brosa eða yggla ykkur, ESB-menn!

Uppgerðarjákvæðnin í sendimönnum ESB hingað er engu lík nema öðru eins smjaðri af hálfu pólitískra frambjóðenda fyrir kosningar. Kurteisishjalið er grynnra en harðvítug andstaða þeirra við okkur og Færeyinga vegna fiskveiða í okkar eigin efnahagslögsögu, og þjóðinni má ekki líða úr minni liðveizla Evrópusambandsins við ríkisstjórnir Breta og Hollendinga í ófyrirleitinni, ólögvarinni og ólögmætri aðför þeirra að okkur í Icesave-málinu.

Og svo eru okkur sagðar fagnaðarsögur af Króötum af því tilefni, að land þeirra verður nú hið 28. í ESB, en hinu sleppt að nefna, að þjóðin er ekki einhuga um áhugann á að renna inn í Evrópusambandið. 66,27% greiddu atkvæði með því í þjóðaratkvæðagreiðslu snemma árs 2012, en 33,13% greiddu atkvæði á móti. Þetta var niðurstaðan eftir mikinn kosningaáróður, en frá maí 2011 höfðu skoðanakannanir sýnt 55 til 63% stuðning við "inngöngu í ESB". Þarna hefur miklu ráðið um endanlega útkomu, að bæði stjórnarflokkarnir króatísku og stjórnarandstaðan voru fylgjandi Evrópusambandsinntöku landsins, og fjárráðin voru þeim megin. 

"Þetta er subbulegt!" sagði þjóðhollur maður í símtali til undirritaðs, þegar hann sagði frá því, að nú boði Evrópustofa hátíðarhöld í Iðnó vegna inntöku Króatíu. Allt er nú notað til að auglýsa þetta gráðuga stórveldisbandalag gömlu nýlenduveldanna í Evrópu. "Nú held ég að það ætti að fara að skora á ríkisstjórnina að loka Evrópustofu," sagði sami maður, enda er þetta allt liður í áróðri með ESB-inntöku Íslands. Þeir einir fagna með 230 milljóna króna "Evrópustofu" sem vilja fullveldi Íslands feigt. Gegn þeim þarf baráttan að harðna og sízt að linast. Það er ekkert gagn að ESB-andstæðum atkvæðum fullveldissinna, sem greiddu götu núverandi stjórnarflokka til valdastólanna, ef þeir sömu flokkar hyggjast hafa þetta kvartmilljarðs áróðursapparat í gangi hér áfram.

En Íslendingar skulu einnig minnast þess, að gerólík er staða okkar og hinna fátæku Króata -- við höfum hér nánast ekkert að vinna, en gríðarlega miklu að tapa -- einkaréttindum okkar til fiskveiða í okkar lögsögu, sem yrði ESB-löndum að leiksoppi og féþúfu, ef gengið yrði inn í Evrópusambandið á þess járnhörðu skilmálum, sem kommissarar framkvæmdarstjórnar ESB hafa hver eftir annan ítrekað, að engin varanleg undanþága fáist frá.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Undirbúa hátíð vegna inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband