Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

"Sterkara Ísland" fær 5 milljónir úr vösum skattborgara til HERFERÐAR - að eigin sögn - gegn fullveldisréttindum lýðveldisins

Þetta kom í ljós við 2. úthlutun styrkja á vegum Alþingis "til já- og nei-hreyfinga". Þar er 1. liður (og stærsta fjárveitingin) þessi: "Sterkara Ísland, styrkur að fjárhæð kr. 5.000.000 til neðangreinds verkefnis: Kynningarherferð um helstu sjónarmið." Þeir velja sjálfir orðið "herferð", og herferð er þetta gegn sjálfum grunni lýðveldisins, enda vilja "ESB-sinnarnir" fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar FEIG.

Er þetta nú eðlilegt, góðir lesendur: að á sama tíma og meðvirk eða máttvana stjórnvöld okkar blaka ekki hendi við því, að Evrópusambandið brjóti hér landslög og Vínarsamninginn um skyldur sendiráða, m.a. með því að sendiherrann Timo Summa fari hér predikunarferðir um landið, þvert gegn skyldum sínum við gistilandið, og með 230 milljóna fjáraustri til áróðurs fyrir inntöku Íslands í þetta stórveldabandalag, -- á sama tíma veiti Alþingi þeim samtökum mestan styrk af okkar skattfé, sem hafa að markmiði sínu "kynningarherferð" í þágu hins sama Evrópusambands? Af stílbrögðunum má ráða, að um áróðursherferð verður að ræða.

Þau samtök, sem vilja EKKI að Ísland verði hluti Evrópusambandsins og styrki fengu í þetta sinn, voru eftirfarandi: 

Evrópuvaktin, styrkur að fjárhæð kr. 1.500.000 til neðangreindra verkefna 

  1. Málþing.
  2. Úttektir.

Heimssýn, styrkur að fjárhæð kr. 4.500.000 til neðangreindra verkefna:

  1. Sérblað um Evrópusambandið, umsókn Íslands og fullveldið.
  2. Stuttmyndaröð um Evrópusambandið og Ísland.

Ísafold - félag ungs fólks gegn ESB, styrkur að fjárhæð kr. 1.500.000 til neðangreindra verkefna:

  1. Kynningarherferð í fjölmiðlum og prentun bæklinga.
  2. Alþjóðleg ráðstefna um Evrópusamrunann.

Samstaða þjóðar, styrkur að fjárhæð kr. 1.000.000 til neðangreinds verkefnis:

  1. Vefsíðuhönnun og vefsíðugerð.

Samtök um rannsóknir á Evrópusambandinu (ESB) og tengslum þess við Ísland, styrkur að fjárhæð kr. 1.000.000 til neðangreindra verkefna:

  1. Undirbúningur, útgáfa og dreifing greinasafns í formi ritraðar um ESB-málefni.
  2. Vefsíðuhönnun og vefsíðugerð.

Síðastnefndu samtökin eru þau, sem standa að þessari bloggsíðu, Fullveldisvaktinni (fullveldi.blog.is). Nánari upplýsingar um þau er að finna á höfundarsíðunni og í 1. grein bloggs okkar.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Já- og nei-hreyfingar fá styrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strámaður Stefans Füle og það sem hann þagði um í Sjónvarpinu í gærkvöldi

Stefan Füle bjó sér til strámann: eins og umræða stæði um það, hvort ESB ætli sér að eignast auðlindir okkar í eignarréttar-merkingu, þannig að jarðorkulindir okkar yrðu t.d. þinglýstar eign ESB. Enginn hefur haldið því fram. En Füle valdi þessa merkingu, því að þar getur hann þó farið rétt með, en hann leyndi okkur hinu, að Evrópusambandið hefur þegar í Lissabon-sáttmálanum* gefið sér valdheimildir til íhlutunar um orku- og auðlindamál ríkjanna, t.d olíulinda, þ.e. til íhlutunar um stjórn þeirra, hvernig dreifingar- og sölumálum verði háttað, og það tengist líka álagningu, skattlagningu o.s.frv. Þannig getur Brussel-valdið í raun takmarkað umráðarétt ESB-ríkis yfir því t.d., hvert það megi selja olíu, og bannað beinlínis útflutning hennar út fyrir Evrópusambandið og þar með ekki leyft frjálsu markaðsverði að ráða; afleiðingin yrði lægra verð til eigenda auðlindanna: þjóðarinnar.

En með þessu væri Evrópusambandið að tryggja sér orku, rétt eins og Kínverjar reyna það með klækindalegum samningum við Afríkuríki.

Engin furða, að Füle talaði hikstalaust um, að Evrópusambandið hafi hagsmuni af því að ná Íslandi inn! En þetta hafa þó sumir ESB-talsmenn hér á landi þrætt endalaust fyrir og látið sem þeim í Brussel stæði slétt á sama, hvort Ísland færi inn eða ekki! Þetta er ekki í samræmi við umræðu um málið í Berlín, Madríd og í Bretlandi, og sjálft Evrópusambandsþingið í Strassborg og Brussel hefur beinlínis fagnað því að fá Ísland inn og jafnvel því, að íslenzkum ráðherra var vikið úr ríkisstjórninni eftir áramótin og þar með liðkað fyrir inntöku landsins í stórveldið.

Um margt annað þagði Füle og beitti raunar sjónhverfingum og blekkingum til að gera hlut Evrópusambandsins sem beztan og einkum sem jákvæðan valkost fyrir Íslendinga!!! Fekk hann mjög rúman tíma til slíks einhliða áróðurs. Ýmsar spurningar Boga Ágústssonar voru góðar og meitlaðar og fylgt nokkuð vel eftir og þó ekki í öllu, hann leyfði Füle að komast upp með undanbrögð í sumu, en um sitthvað annað var Bogi ekki nógu vakandi né einarður. Vafalaust er þetta þó erfitt hlutverk, sem hann var í, og Sjónvarpið ekki óháður fjölmiðill, en með góðri greiningu er þetta viðtal mikið efni til að vinna úr. Hætt er þó við hinu, að gagnrýnislausir hafi þar fengið áróðurinn beint í æð og látið blekkjast af vinsamlegu útliti sendimannsins, sem nú þjónar Evrópusambandinu, en áður austurevrópskum kommúnisma.

* Í íslenzkri útgáfu utanríkisráðuneytisins af honum eru þó þýðingarvillur, m.a. um þessi orkumál. Verður nánar fjallað um það hér síðar.

Jón Valur Jensson.


Bretar og ekki sízt íhaldsmenn gerast fráhverfari Evrópusambandinu - og af Stefani Füle

Bretar finna sárt til þess, að þeir þurfa "að endurheimta völd yfir mikilvægum málaflokkum sem framseld hafa verið til stofnana ESB," sjötti hver íhaldsmaður vill því "endursemja um skilmála aðildar," en um 70% vilja yfirgefa ESB með öllu! Við erum að ræða hér um meðlimi brezka Íhaldsflokksins, en um 5/6 þeirra, þ.e. "83% þeirra vilja að flokkurinn heiti því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í sambandinu í stefnuskrá sinn fyrir næstu þingkosningar samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birtar eru í dag" á vegum sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4.
  • Hins vegar vilja 23% félagsmanna Íhaldsflokksins vera áfram í ESB. (Mbl.is sagði frá.)

Nokkuð er jafnt á mununum á tiltrú íhaldsmannanna á því, hvort land þeirra verði þar eftir áratug: 26% telja það, þ.e. "að tengslin við ESB hald[i]st óbreytt," en "36%, að Bretland eigi eftir að segja skilið við ESB á næstu tíu árum, og "38% telja að Bretland verði áfram hluti af sambandinu, en með breyttum aðildarskilmálum."

Ekki bendir þetta til fullrar tiltrúar á Evrópusambandið, enda hefur ástandið þar undanfarið hálft ár og lengur lítt gefið tilefni til þess, og sízt er það friðarhöfn stöðugleika og eindrægni.

Hér má einnig minnast þessarar fréttar á liðnu ári: Aðeins fjórði hver Breti styður áframhaldandi veru í ESB - aðeins 8% vilja evru í stað punds!

Þá segir í þeirri frétt Mbl.is sem sagt var frá hér á undan:

  • Fram kemur á fréttavefnum Msn.com að niðurstöðurnar komi á sama tíma og kröfur um þjóðaratkvæði um veru Bretlands í ESB gerast æ háværari og segir að þær muni setja aukna pressu á forystu Íhaldsflokksins sem hafi lýst því yfir að hún styðji áframhaldandi veru Breta í sambandinu.

Valdastéttin í ESB-ríkjunum 27 styður yfirleitt "aðildina", almenningur miklu síður. Eins og víðar er lítt hlustað á grasrótina, og valdhöfunum hefur ekki þókknazt að bera ákvörðun stefnumála undir þjóðirnar - þjóðaratkvæðagreiðslur heyra þar til algerra undantekninga, jafnvel þegar verið var að þessu stórveldi var valin sú e.k. stjórnarskrá, sem fólgin er í Lissabonsáttmálanum, sem takmarkar mjög neitunarvald einstakra ríkja, en gefur þeim stærstu stóraukið atkvæðavægi.* Og nú er enn stefnt að valdþéttingu í brussel, með úrslitaáhrifum ESB á fjárlög ríkjanna og þar með efnahagsstjórn.**

Á sama tíma mætir gamli KGB-skóla-kommúnistinn Stefan Füle hér á Íslandi til að telja okkur trú um, að ekkert viti hann um það, hvernig Evrópusambandið myndi fara að því að ná stjórn á auðlindum hér (um auðlindirnar sagði hann í Spegli Rúvsins í kvöld, að hann vissi ekki einu sinni "how we would do it to take control of" them; en hann þarf bara að lesa Lissabonsáttmálann og veit auðvitað betur en hann lætur, enda e.k. ráðherra í e.k. ríkisstjórn þessa stórveldis).

Füle þóttist einnig geta vísað í vonda reynslu af kommúnismanum austan tjalds, en gekk þó sjálfur í Kommúnistaflokk Tékkóslóvakíu EFTIR innrás Sovétmanna og Varsjárbandalagsríkjanna 1968 og sagði sig ekki úr flokknum fyrr en EFTIR hrun kommúnismans! Menn eiga ekki að treysta og trúa slíkum sendimönnum, þótt áferðarfallegir virðist og kurteisir fram í fingurgóma.

* 1. nóv. 2014 eykst (skv. Lissabonsáttmálanum) atkvæðavægi 6 stærstu ríkjanna úr 49,3% í 70,4% í ráðherraráði og leiðtogaráði Evrópusambandsins. Ráðherraráðið ræður m.a. mestu um sjávarútvegsmálið. Þar og í leiðtogaráðinu fengjum við 0,06% atkvæðavægi! Það yrði heldur betur stoð í því gagnvart gömlu stórveldunum þar!

** Sbr. þessi orð í leiðara Morgunblaðsins í dag:

Ekki nokkur maður sem mark er takandi á telur að evran geti lifað af við óbreytt skilyrði. Jafnvel æðstu prestar búrókratanna í Brussel leyna ekki þeirri skoðun sinni. Síðast í gær lýsti Barroso, formaður framkvæmdastjórnar ESB, því yfir að ljóst væri orðið að myntbandalag eitt og sér fengi ekki staðist. Ríki evrunnar yrðu að lúta samræmdri efnahagslegri stjórn ætti myntsamstarfið að standast. Formaðurinn sagði að vísast yrðu ýmsir órólegir við að standa frammi fyrir þessari staðreynd og samræmdri efnahagsstjórn yrði ekki komið á eins og hendi væri veifað. En því fyrr sem menn gerðu sér grein fyrir nauðsyn hennar því betra.

Enginn getur velkst í vafa um að ríki sem fer ekki lengur með efnahagslega stjórn eigin mála er ekki lengur sjálfstætt ríki nema í orði kveðnu.

Undir þetta ber svo sannarlega að taka.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Mikill meirihluti íhaldsmanna vill úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Guðmundur Steingrímsson strúturinn sem stingur höfðinu í sandinn og talar um góða veðrið?

Ætlar Guðmundur Steingrímsson að verða stjörnupólitíkus þeirra sem nenna ekki að hugsa og vilja bara gott veður? Hann virðist færast undan því að takast á við vandamál* og reyna jafnvel að nota þau til að afvegaleiða menn.** Á þetta smyr hann súkkulaði, eins og sumir eru farnir að smyrja á brauðsneiðar.

Um flokk sinn, "Bjarta framtíð", segir hann:

  • "Okkur langar til þess að breyta pólitíkinni. Gera hana meira eins og lífið er annars staðar. Víða þarf fólk að taka ákvarðanir og tala saman. Og merkilegt nokk: Það gengur víða mjög vel.“

Ekki var Guðmundur á þeim buxunum að tala um ágæti síns heittelskaða Evrópusambands, þegar tillaga lá fyrir þinginu um að draga "aðildar"-umsóknina til baka. Þvert á móti tók hann þátt í því að reyna að binda enda á umræðurnar með því að þumbast við í þögn eins og stjórnarflokkarnir. Honum var vorkunn: Það var ekki viðlit að verjast röklega hinum vel ígrunduðu, alvarlegu gagnrýnisefnum þingmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á hina fyrirhuguðu þjóðaratkvæðagreiðslu með hennar fráleitlega loðnu, illa undirbúnu spurningum. Lakast af öllu var þó, að þær þjónuðu ágætlega því hlutverki Esb-sinna (með formann langtíma-umfjöllunar-þingnefndarinnar, Valgerði, vel upp alda í Brussel áratugum saman) að fela þá staðreynd, að stjórnarskrárdrögin innihalda stórhættulega 111. grein sem miðar að því að gera sem auðveldast og fljótvirkast að afsala landinu fullveldi á öllum þremur meginsviðum ríkisvalds.

Og telur Guðmundur ákvarðanir og samræður fulltrúa Esb-ríkjanna "ganga vel"? Hve marga "síðustu" neyðarfundi vegna Grikklands er búið að halda í Brussel og víðar? Og hvernig stendur á því, að vandamálafjallið stækkar, en minnkar ekki, eftir því sem meira er talað um það? Bretar eru farnir að gera ráð fyrir neyðarástandi í Grikklandi og dómínóáhrifum á önnur evruríki, í Austur-Evrópu og þá trúlega víðar; viðbragðsáætlun til að koma í veg fyrir alvöru-flóðbylgju atvinnulausra innflytjenda þaðan er þegar til orðin í Lundúnum og eins til að bjarga brezkum borgurum frá Grikklandi, vegna banka- og evruvanda (sjá þessa grein undirritaðs). Já, þetta gengur víst nokkuð vel hjá þeim.

* Dæmi:

  • Hann [Guðmundur] sagðist ekki upplifa þessa tíma sem óvissutíma.

Það er eins gott fyrir hann að taka sem minnst eftir því, sem fram fer utan þinghúss-veggjanna, svo að hann þurfi ekki að leiðrétta sig og það fyrr en varir. Hann kallar það ekki "óvissu" að fólk geti ekki treyst stjórnvöldum, haldi þó í vonina, þótt skuldastaðan versni vegna íbúðalánanna, unz sumir gefist upp, gefi frá sér að borga meira, missi húsnæðið og flytjist jafnvel til Noregs. Svo fær það að hlusta á Steingrím J. stæra sig af því á þessum eldhúsdegi, að hér sé bara 6% atvinnuleysi og jafnframt að stjórnvöld hér hafi náð árangri með miklum hagvexti, meiri en víðast hvar. En sá vöxtur kemur þó ekki úr Stjórnarráði Íslands né frá Alþingi, heldur að mestu leyti frá gjöfulum makríl- og loðnugöngum, sem fjármála-, efnahags- og viðskiptaráðherrar hafa ekkert vald yfir og þaðan af síður frú Jóhanna.

** Annað dæmi:

  • Guðmundur sagði skuldavanda heimilanna afsprengi þessa eilífa íslenska efnahagsvanda. "Við verðum að koma á efnahagslegu jafnvægi til þess að geta haft á Íslandi eðlilegan lánamarkað." (Mbl.is.)

Þarna smættar Guðmundur skuldavanda fólks, sem er að missa íbúðir sínar vegna bankakreppunnar og svika ríkisstjórnarflokkanna, niður í nánast ekki neitt, þetta sé bara "afsprengi þessa eilífa íslenska efnahagsvanda"!! Og strúts-vegferð Guðmundar er ekki lokið með þessu.

Hitt er alvarlegra: hin ísmeygilega tilvísan til "efnahagslegs jafnvægis" sem mönnum er ætlað að skilja á þann veg, að það sé að finna í Evrópusambandinu, gjarnan kallað "efnahagslegur stöðugleiki" fyrir þremur árum, en nú þorir Guðmundur ekki að segja þetta beint, enda vita allir, sem vita vilja, að Evrópusambandið er kraumandi suðupottur og hættulega klaufskar aðferðir við innleiðingu evrunnar í upphafi ein aðalrót þess, að Brusselvaldið ræður ekki við ástandið nema hugsanlega með því að krefjast fjárhagslegs valds yfir ríkjunum, eins og Barroso gerir nú skv. nýjustu fréttum og alllengi hefur raunar verið í pípunum þar. Afleiðingin verður fullveldismissir á fjárlagasviði ríkjanna.

  • Ennfremur sagði Guðmundur að flokkspólitískur æsingur eins og ríkir of oft á Íslandi skili engu. "Hann kemur okkur bara í vont skap. Og þegar það er gott veður er fáránlegt að vera í vondu skapi."

Guðmundur er hér með sæmdur Strútsorðunni fyrir góða viðleitni. 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Rík þjóð sem aldrei á pening
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítill áhugi á sjálfbærum fiskveiðum innan ESB

Skv. umhverfisfréttaritara BBC, Richard Black, hefur umræða um almenna sjávarútvegsstefnu ESB breyst töluvert varðandi útrýmingu brottkasts, minnkun fiskveiðiflotans og enduruppbyggingu fiskistofna. Upprunalega markmiðinu um enduruppbyggingu fiskistofna 2015 seinkar a.m.k. um fimm ár.

Umræðurnar hafa snúist um viðhorf norðurríkja eins og Svíþjóðar og Þýskalands sem eru hlynnt sjálfbærum veiðum á móti afstöðu ríkja eins og Spánverja, Portúgala og Frakka, sem vilja vernda skammtímasjónarmið útgerða.

Markus Knigge, ráðgefandi hjá Pew Environment Group, segir að "spurningin [sé] mjög grundvallandi: – Munu sjávarútvegsráðherrar aðildarríkja ESB hafa hugrekki til að hætta ofveiðum eða ekki?"

Tillaga Maríu Damanaki sjávarútvegsráðherra ESB s.l. ár var um þrjú meginatriði:

  1. Endurheimta hámarksstærð fiskistofna til sjálfbærra fiskveiða (MSY) árið 2015.
  2. Minnka og stjórna stærð fiskveiðiflota ESB með innri kvótaviðskiptum.
  3. Útrýma skaðlegu brottkasti fisks fyrir utan leyfilegan skipskvóta.

Ríkisstjórnirnar hafa ekki sýnt neinn áhuga á að semja um þessi atriði við Damanaki síðan hún lagði tillöguna fram.

Viðskiptamódel með flytjanlegum kvóta mætti mikilli andstöðu og nær ekki fram að ganga. Í stað þess er rætt, að hvert ríki beri ábyrgð á stærð eigin fiskveiðiflota. Talað er um að beita sektum til að refsa þeim löndum, sem brjóta gegn samþykktum um heildarstærð.

Þetta hefur hringt viðvörunarbjöllum hjá ýmsum umhverfissamtökum, sem bent hafa á, að margar þjóðir ESB hafi sannað óvilja sinn til að takmarka flotann á undanförnum árum. Ýmsir, sem fylgst hafa með viðræðum í bakherbergjum í Brussel, eru alveg gáttaðir á hrossakaupum Frakka og Breta, þar sem Frakkar lofa að styðja valddreifingu ákvarðanatöku í sjávarútvegi í skiptum fyrir stuðning Breta við að viðhalda skaðlegu brottkasti. Richard Benyon, sjávarútvegsmálaráðherra Bretlands, hefur andmælt því, að Bretar styðji Frakka í brottkasti fisks. Algjört bann við brottkasti verður tekið upp í Bretlandi ”mjög bráðlega.” Á meðan krefjast ýmis ríki, að brottkast verði gert að langtímamarkmiði bundnu ”endurnýjunaráætlun” fyrir einstaka fiskistofna eða svæði. Umhverfissinnar segja að með þessu verði upphaflega tillagan mjög svo útþynnt.

Megin-ágreiningurinn er að horfið verði frá endurheimt fiskstofna árið 2015.

MSY (Maximal sustainable yield) er mælikvarði á hámarksstærð fiskstofna, fyrir hámarksnýtingu án þess að gengið sé á sjálfa endurnýjunarhæfileika stofnsins til að viðhalda stærð sinni. Upprunalega tillagan var um að allir stofnar sem mögulegt væri að vernda myndu ná hámarksstærð 2015 og aðrir stofnar í síðasta lagi árið 2020. En ráðherrar aðildarríkja ESB telja að meiningin, ”sem mögulegt væri” þýði, sé að þeir þurfi ekki að flýta sér.

Það er því alls óljóst, hvort eða hvenær ESB getur byrjað að breyta þeirri sjávarútvegsstefnu sem framkvæmdastjórnin sjálf lýsir með orðinu "skaðleg."

Skv. ESB eru 75% af fiskstofnum ofveiddir og köstin skila nú aðeins broti af því, sem þau voru fyrir 15-20 árum. T.d. hefur þorskveiði dregist saman um 70% á s.l. tíu árum.

Íslendingar þurfa því ekki að gera sér neinar grillur um að geta haft áhrif á fiskveiðistefnu ESB. Útkoman við aðild að ESB yrði hins vegar sú, að kvóta Íslendinga yrði skipt á sama grundvelli og ESB deilir út makrílkvótanum og ekki liði langur tími, þar til fiskistofnar hinna gjöfulu íslensku fiskmiða yrðu í sama ásigkomulagi og aðrir fiskstofnar ESB vegna skaðlegrar sjávarútvegsstefnu ESB.

Stokkhólmi, 29. maí 2012,

Gústaf Adolf Skúlason.


Unga Evrópa - hvar er framtíð þín?

Svíar hafa verið meðlimir í ESB síðan 1995 eða í 17 ár. Berlínarmúrinn féll 1989. Á tæpum aldarfjórðungi hefur Þýskaland reist sig úr rústum seinni heimsstyrjaldarinnar. Stálgrár ægishjálmur Germaníu kastar enn á ný skugga yfir Evrópu. Í suðurhluta Evrópu eru mörg ríkin að falli komin.

Hvernig gat þetta gerst?

Megin-skýringuna er að finna í myntbandalagi ESB og hinni sameiginlegu evru. Með því fyrirkomulagi var peningastjórn landanna afnumin og sett í hendur miðstýrðs bákns, sem stjórnað er af búrókrötum, sem engir hafa kosið.

"Ég er kjörinn," segir forseti framkvæmdastjórnarinnar, Barrósó. Hann var valinn af meðlimum stjórnmálaklúbbsins, hinni nýju valdastétt álfunnar, þar sem almennir kjósendur fá ekki að vera með. Ekki er hægt að setja Barrósó af né neinn annan í framkvæmdastjórninni, þótt ákvarðanir þeirra svelti fólkið. Lýðræðishallinn breiðist út með ógnarhraða. 

Eina ríkið, sem grætt hefur á evrunni, er Þýskaland. Evran er gengislækkað deutsche Mark. Þýskar iðnaðarvörur eru fluttar út sem aldrei fyrr. Iðnaður annarra evruríkja lendir undir í samkeppninni. Alþjóðlegir þýskir þjóðarsósíalistar nugga hendurnar. Þeir sem klöppuðu fyrir Gordon Brown, þegar hann talaði á Evrópuþinginu um hið nýja hlutverk ESB að verða hið fullkomna ríki, sem stjórna mun heiminum. Þar trónir pólitíska valdastéttin og óreiðumennirnir á toppnum á meðan líf almúgans er afborgun með vöxtum. Draumurinn um ESB-stórveldið er Palli var einn í heiminum.

Icesave – eurosafe. Þjóðin reis upp og stóð af sér fyrstu árásina. Núna segist ríkisstjórn Íslands vera búin að "bjarga" öllu. Samt er talað um, að bankarnir fari aftur á hausinn. Margur sveltur, er án vinnu og framtíðarmöguleika. Búinn að missa aleiguna.

Sænskir skattgreiðendur borga daglega um 82 milljónir sænskra króna til ESB. Ca. helmingurinn er beinn óafturkræfur styrkur. Skrímslið stækkar og þarf sífellt meira og sænska krónan er matmeiri en útþynnt evran. Í Málmey hafa bara 42% af utanlands fæddum íbúum atvinnu en 74% af þeim innfæddu. Alþjóðlegu sænsku þjóðarsósíalistarnir, sem stjórnað hafa Málmey í fjöldamörg ár, kalla ríkisstjórn Svíþjóðar rasista fyrir að hafa gert sérstöðu utanlandsfæddra á atvinnumarkaðinum sýnilega.

Í sumum evrulöndum er atvinnuleysi ungmenna að nálgast 60%. Með sama áframhaldi deyr framtíð Evrópu. Unga fólkið mun spyrja, hvað þeir eldri hafa gert.

Unga Evrópa, fyrir peninga má segja hvað sem er. Pakka inn áróðri og fela staðreyndir á bak við tálbeitur. Komið með, það er svo gaman. Látið ykkur dreyma meðan tími gefst.

Í Aþenu búa þrjár kynslóðir í lítilli íbúð og lifa á ellilífeyri ömmu gömlu. 3000 Grikkir, margir ungir, hafa svipt sig lífinu.

Innihaldið í pakkanum á eftir að versna.

Stokkhólmi 29. maí 2012,

Gústaf Adolf Skúlason.


Það sem fólki dettur í hug! (ástæður til að tapa sjálfstæði)

Ýmsar hlálegar röksemdir fyrir því, að sumir vilja "ganga í Evrópusambandið", er að finna í blaðinu Unga Evrópa (þau meina: Evrópusamband!). Hér er t.d. svar Daða Rafnssonar, sem er þó ekkert verra en hvert annað þar:

  • Hver er helsta ástæðan fyrir því að þú viljir ganga í Evrópusambandið?
  • Helsta ástæðan fyrir því að ég vil sjá Ísland eiga aðild að Evrópusambandinu er sú að þar eru þjóðir Evrópu að vinna saman að sínum markmiðum í stað þess að vinna gegn hverri annarri [= hver gegn annarri]. Þetta stuðlar að velsæld, friði og öryggi. Með því að standa utan þessarar samvinnu óttast ég að íslensk þjóð sé að taka sér stöðu sem annars flokks Evrópubúar, með lítil völd og hverfandi áhrif á atburði sem varða eigin hagsmuni.
Eru Íslendingar að "vinna gegn" einhverri annarri þjóð? Fjarri fer því. Og þó að brezk og hollenzk stjórnvöld hafi unnið gegn okkur í Icesave-málinu og geri enn, auk makríl-málanna, er það engin ástæða til að ganga í eina flatsæng með þeim í sambandsríki, þar sem Hollendingar hefðu 55 sinnum meira atkvæðavægi (3,3%) heldur en við (0,06%) í bæði leiðtogaráði og ráðherraráði Evrópusambandsins og Bretar hefðu 205,5 sinnum meira atkvæðavægi en við (12,33%). - Og svo orkar hitt mjög tvímælis, hvort þjóðir Evrópu séu í reynd að vinna saman nú um stundir, og gætu þau mál þó farið á enn verri veg. Og það stuðlar sízt að velsæld, friði og öryggi, nema síður sé.
 
Daði þessi notar það gegn okkur, að ráðamenn hér skrifuðu upp á EES-samninginn, og vill þess vegna "aukna þátttöku" í Evrópusambandinu til að "vera þjóð meðal þjóða í okkar heimshluta". En vægi okkar yrði þar hverfandi lítið (já, bókstaflega hverfandi, gæti t.d. hrokkið úr 0,06% í 0,04%). Þar að auki myndu öll sjávarútvegsmálin o.fl. mál fara undir löggjafar- og valdsvið Evrópusambandsins við "inngöngu" í það. Og af hverju ættum við frekar en Svisslendingar eða Norðmenn að fara inn í valdsækinn stórveldisbræðing margra fyrrverandi nýlenduríkja? Og vorum við ekki þjóð meðal þjóða í Eurovision? Erum við það ekki á ótal sviðum, þegar að er gáð? Er eitthvað sem knýr okkur til að fela öðrum fullveldi okkar?
   
Annað dæmi úr viðtalinu: 
  • Hvers vegna ætti ungt fólk að vilja ganga í ESB?
  • Ungt fólk vill hafa velsæld, vinnu og öryggi næstu sextíu til áttatíu árin á meðan það lifir sínu lífi og lengur fyrir börnin sín. Heimurinn í dag er ekki heimurinn sem foreldrar okkar ólust upp í og heimurinn sem börnin okkar munu búa í verður ólíkur þeim sem við þekkjum í dag.

Þvílík vantrú á þróunargetu eigin lands og nánast ofsatrú á þróunargetu gömlu Evrópu!! Veit Daði ekki, að bara vegna fárra fæðinga þar undanfarna áratugi lendir álfan í nýjum hremmingum aldursmisskiptingar upp úr 2030, í ofanálag við allan óstöðugleikann?

Já, þessi vin stöðugleikans, sem átti að heita, er nú orðin suðupottur óstöðugleikans og evrusvæðið raunar hættu-fenjasvæði fyrir ekki bara Evrópu, heldur alla jarðkringluna!

Það er ekki að furða, að hvatvísir og bláeygir leiti í slíkt sæluríki!

Jón Valur Jensson.


Meirihluti alþingismanna kaus þvert gegn eindregnum þjóðarvilja 24. maí 2012

Athyglisverðar þessar skoðanakannanir 365 fjölmiðla síðustu daga! Hve margir vildu að tillaga Vigdísar Hauksdóttur yrði samþykkt? Nærri því jafnstór meirihluti og í "Icesave 3"! Hve margir vilja hætta ESB-viðræðum? Yfirgnæfandi meirihluti! Hér er þetta hvort tveggja nánar:

(Heimild: http://bylgjan.visir.is/kannanir/)

Þeir eru tvöfalt fleiri sem vilja hætta viðræðum en hinir sem vilja halda þeim áfram!

Og svo var það könnun Fréttablaðsins ESB-sinnaða, birt í gær. Á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu á næstunni til að ákveða hvort halda eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram? Já sögðu 57,9%, nei 42,1%.

Þeim er ekki alveg alls varnað á 365 fjölmiðlum að birta þó þessar staðreyndir!

Með ákvörðun sinni sl. fimmtudag, 24. maí, hefur meirihluti alþingismanna augljóslega gengið þvert gegn eindregnum vilja landsmanna. Hið sama gerðist raunar, þegar stofnað var til þessa óhæfuverks í júlí 2009. Í maí–júní það sama ár, þegar þingsályktunartillaga lá fyrir Alþingi um að sækja um "aðild" að ESB, var gerð Capacent-Gallup-könnun um afstöðu almennings og spurt: "Hversu miklu eða litlu máli finnst þér skipta að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu?" Þá reyndust heil 61,1% svara: "Mjög miklu máli", en 15,2%: "Frekar miklu máli" (alls 76,3%), en 4,9% sögðu: "Frekar litlu máli" og 13% "mjög litlu máli" (alls 17,9%); en "hvorki né" sögðu 5,8%. (Heimild hér.)

Gegn þessum almenna vilja gekk Alþingi árið 2009 (raunar með múlbundnum vinstri grænum þingmönnum, þvert gegn þeirra eigin yfirlýstum vilja). Það sama gerðist nú, eins og ljóst er af báðum þeim könnunum nýliðinnar viku, sem hér var sagt frá.

Það er því sama, hvernig þingmenn og óbreyttir fylgismenn Samfylkingarinnar hælast um vegna niðurstöðunnar 24. maí og umsnúa staðreyndum -- sannleikurinn er kominn í ljós og hverfur ekki, meðan Íslendingar hafa augun opin. Smile 

Gleðilegan hvítasunnudag! 

Jón Valur Jensson. 


Grænir eru vesalingar, sem gera aðlögunarferli Íslands að ESB mögulegt

Vesælum grænum, sem enn taka þingstólinn fram yfir hagsmuni þjóðarinnar, verður sífellt meiri fótaskortur á tungunni til að útskýra fyrir kjósendum, að þeir séu ekki sá aðili, sem gerir aðlögunarferli Íslands að ESB mögulegt. Án stuðnings VG við Samfylkinguna væri aðildarferli Íslands að ESB sjálfhætt.

Rök innanríkisráðherrans um að nauðsynlegt hafi verið að segja nei við tillögu Vigdísar Hauksdóttur um þjóðaratkvæði um aðlögunarferlið, vegna þess að brýn nauðsyn sé á að fá fljótt þjóðaratkvæði um aðlögunarferlið, minnir mig á áfengissjúklinginn, sem fékk sér í glas vegna þess, að það væri svo mikilvægt að hætta að drekka. 

Er kjósendum Vinstri grænna skemmt? Kjósendur munu refsa VG í næstu kosningum og Samstaða tekur broddinn af þeim atkvæðum.

Gamall sannleikur í viðskiptum: Ef þú afgreiðir ekki það sem þú hefur lofað þarft þú að greiða tólfföldu verði til baka til að endurvinna viðskiptatraustið.

Ég vona, að morgunbænin hjálpi.

Hér fyrir neðan er bréf mitt til Ögmundar Jónassonar á heimasíðu hans: 

LEIKUR TVEIMUR SKJÖLDUM


Sæll Ögmundur.

Hvernig líður þér í hlutverki stjórnmálamannsins, sem leikur tveimur skjöldum? 

"Það hefur aldrei verið vitlausara en nú að ganga í Evrópusambandið." 
Og: 
"Ég segi nei við að þjóðin megi fái að greiða atkvæði um aðildarferli ríkisstjórnarinnar að Evrópusambandinu." 

Til þess að komast úr þeim pólitíska skækjudal, sem þú ert búinn að koma þér í, verður þú að endurgreiða kjósendum þínum tólffalt högg á upplogið og uppáþvingað ESB-aðildarferli krataklíkunnar. Hér er smáhjálp. Morgunbæn: 

Góði Guð. Hjálpa þú mér í dag að verða betri maður til að framkvæma heit mitt að stöðva aðlögunarferli Íslands í ESB. Hjálpa þú mér að skilja kjósendur mína, svo ég valdi þeim ekki vonbrigðum og sársauka í einfeldni minni, að halda að ráðherrastóllin geri mig æðri öðrum.

Með kærri kveðju,
því lengi má manninn reyna. 
Gústaf Adolf Skúlason.

mbl.is ESB-viðræðurnar á fulla ferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stríðsaðgerð af hálfu ESB" (sagði hver?!)

  • "Þessa dagana er verið að dæma nokkra skipstjóra frá Hjaltlandseyjum í hæstarétti Skotlands í gífurlegar fjársektir fyrir að landa makríl og síld framhjá vigt. Slíkt framferði er álíka ábyrgt og að fleygja fiski í sjóinn í ótrúlegum mæli eins og hin sameiginlega fiskveiðistefna ESB hvetur til. Nú boðar ESB viðskiptahindranir gagnvart Færeyingum og Íslandi, sem standast hvorki samþykktir EES-samningsins né Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO. ESB og Noregur leggjast auk þess svo lágt að neita að endurnýja gagnkvæma fiskveiðisamninga við Færeyinga vegna þessara deilna. Stórmannlega að verki staðið."

Þannig skrifar Hjörtur Gíslason, ritstjóri Útvegsblaðsins, í 5. tölublað þessa 13. árgangs þess (maí 2012), og heldur áfram:

  • Steingrímur J.Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsir þessum aðferðum í viðtali við Útvegsblaðið sem stríðsaðgerð af hálfu ESB og slíkt verði ekki látið viðgangast. Vonandi stendur Steingrímur við stóru orðin. Íslendingar eiga ekkert erindi inn í ríkjasamband, sem hefur áratugum saman klúðrað fiskveiðistjórnun sinni með svo eftirminnilegum hætti að varla finnst fiskistofn innan lögsögu þess, sem ekki er ofveiddur eða í útrýmingarhættu og slíkt framferði að auki ríkisstyrkt. Ríkjasamband sem áratugum saman keypti sér veiðiheimildir innan lögsögu annarra þjóða eins og Marokkó og launaði greiðann með rányrkju. Ríkjasamband sem stundaði rányrkju á Miklabanka við Nýfundnaland, sem meðal annars leiddi til hruns eins stærsta þorskstofns veraldar og veiðibanns 1992. Þorskstofninn þar er enn í rúst.

Já, ekki er það fagurt og sízt nein hvatning til okkar að feta þessa slóð: að leyfa Evrópusambandinu og ríkjunum þar að fá hér úrslitavald yfir sjávarauðlind okkar, og eðlileg er þessi ályktun leiðarhöfundarins Hjartar Gíslasonar:

  • Afstaða ESB í makríldeilunni gegn Íslandi og Færeyjum staðfestir yfirgang og ábyrgðarleysi ESB í fiskveiðum. Vonandi verða það fleiri í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur en Steingrímur sem sjá hverju við eigum von á með inngöngu í ESB og gera meira en að spyrna við fótum. Segja hingað og ekki lengra. Að selja sjálfstæði sitt ríkjasambandi sem kann ekki fótum sínum forráð, kann ekki góðri lukku að stýra.

Sjá hér fyrri grein um þetta mál: Hingað og ekki lengra, Evrópusamband! Menn ættu að fylgjast vel með greinum í Útvegsblaðinu, það er vandað blað, 48 bls. að þessu sinni og er "dreift til allra áskrifenda Morgunblaðsins, útgerða, þjónustuaðila í sjávarútvegi og fiskvinnslustöðva - átta sinnum á ári" og er jafnframt hér á netinu! (Bændablaðið er líka á netinu.)

Allt er þetta hið merkilegasta mál, en eins og í tilfelli Ögmundar Jónassonar er undarlegt að bera orð ráðherrans um Evrópusambandið saman við gerðir þeirra beggja, þegar þeir greiddu atkvæði gegn tillögu Vigdísar Hauksdóttur á Alþingi nú í vikunni. Geta menn lengi furðað sig á vitsmunalegri akróbatík þessara ráðamanna okkar og þeim mun fremur sem þeir hafa talað hart gegn ESB.

En er þetta í alvöru rétt -- menn þurfa kannski að klípa sig í lærið, til að vera vissir um að þá sé ekki að dreyma -- talaði Steingrímur með þeim hætti, sem lýst var í leiðaraskrifum Útvegsblaðsins? -- Jú, heldur betur, lesið þau ummæli hans hér:

"Það er algjörlega fráleitt annað en að horfast í augu við það að makríllinn veiðist nú og dvelur hér innan lögsögunnar í marga mánuði á hverju ári og í miklu magni. Hann er hér á fóðrum hjá okkur, étur út úr okkar lífríki gríðarlegt magn. Hann þyngist kannski um 600.000 til 700.000 tonn meðan hann er hér „á beit“. Ég tel því að sú hlutdeild, sem við höfum verið að krefjast, sé fullkomlega réttmæt. Það er ennfremur ósanngjarnt að benda bara á okkur og Færeyinga og segja að við séum vandamálið. Hin ríkin verða líka að horfast í augu við sína ábyrgð í þessum efnum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra.

Það er líka mjög hvimleitt að vera að beita þeim aðgerðum sem ESB hótar. Ég tala nú ekki um ef þær fara út fyrir lög og reglur, út fyrir alþjóðlega samninga Alþjóða-viðskiptastofnunarinnar, EES-samninginn og fleira. Þá er það bara stríðsaðgerð af hálfu EEB í okkar garð að ætla að þvinga okkur til uppgjafar með slíkum aðferðum. Það munum við ekki láta bjóða okkur. Ég kann því líka mjög illa að því er oftast hnýtt með að við séum óábyrg og sýnum engan samningsvilja og verið að reyna að klína þeim stimpli á okkur, sem Íslendingar eiga ekki skilið. Við höfum oft staðið hart á okkar málum og varið okkar hagsmuni á sviði sjávarútvegsmála og landhelgismála og höfum ætíð haft góðan málstað í þessum efnum, enda byggist tilvera okkar á því nýta auðlindir hafsins á ábyrgan og sjálfbæran hátt. við erum ein af ábyrgustu þjóðum heims í þessum efnum.

Að fá slíkar einkunnir frá aðilum sem sjálfir henda fiski í sjóinn í gríðarlegum mæli og banna meira að segja að komið sé með hann að landi, finnst mér dálítið skrítið. Evrópusambandið ætti kannski að huga að sínum brottkastreglum og öðru slíku áður en það fer að skammast út í Íslendinga, segja að þeir séu óábyrgir í sínum fiskveiðimálum." {Feitletrun jvj; viðtalið er raunar forsíðugrein Útvegsblaðsins undir fyrirsögninni "Stríðsaðgerð af hálfu ESB".]

Slík voru orð hans, harla einörð að sjá og vel rökstudd, og menn horfa svo í forundran á þennan sama ráðherra, sem vildi ekki gefa þjóð sinni kost á því að taka undir þetta mat hans né að ráða einu né neinu til að stöðva hina þunghlöðnu "Evrópu[sambands]hraðlest Samfylkingarinnar með því að segja NEI við áframhaldi umsóknarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jón Valur Jensson.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband