Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Ísland ekki lengur umsóknarríki að ESB, er haft eftir ráðherraráði sambandsins

Frétt barst nú um að Evrópu­sam­bandið hafi tekið Ísland af lista yfir umsóknarríki. Er haft eftir Klem­ens Ólaf­i Þrast­ar­syni, að sú ákvörðun hafi verið samþykkt á vett­vangi ráðherr­aráðs Evr­ópu­sam­bands­ins (en Klemens hinn ungi, fyrrverandi blaðamaður á ESB-Fréttablaðinu, er upp­lýs­inga­full­trúi sendi­nefnd­ar Evr­ópu­sam­bands­ins á Íslandi, hefur þá farið svipaða leið og Auðun Arnórsson, sem starfar fyrir sendiráð ESB).

Þetta eru ánægjulegar fréttir, ef treysta má þeim að fullu. Það er mikilvægt, að hér verði engum vélabrögðum verði beitt eins og þeim, að Össurarumsóknin sé með einhverjum hætti ennþá gild og brúkleg fyrir nógu ósvífna aðila síðar meir í stjórnarráði Íslands og höllunum í Brussel.

Við þurfum t.d. að fá að sjá formlega samþykkt ráðherraráðsins fyrir þessu. Fróðlegt væri einnig að sjá, hvernig atkvæði féllu um málið.

Ekki var Klemens Ólafur (sonur Þrastar Ólafssonar hagfræðings, mikils ESB-predikara) mjög áreiðanlegur í umfjöllun um málefni Evrópusambandsins, meðan hann var á ESB-Fréttablaðinu. Kom það fram í því að þegja um mikilvægar staðreyndir, eins og undirritaður upplýsti um í grein 27. júní 2011: Á Fréttablaðið að komast upp með að þegja í þágu ESB um meginstaðreynd um valdaleysi Íslands í ráðherraráðinu?

Nú er bara eftir að losa okkur við "Evrópustofu". Utanríkisráðherra þarf að fylgja því máli eftir af festu. Gleðilegt verður að sjá þau pakka niður og halda úr höfn með allt sitt hafurtask. Var talsvert um það mál fjallað nú í vikunni vegna fyrirspurnar Jóhönnu Maríu Sigmarsdóttur, alþm. og formanns Heimssýnar, til ráðherrans um málið: "Hvenær verður Evrópustofu, sem stækkunardeild ESB rekur hér, formlega lokað og starfsemi hennar lögð niður?" Sbr. einnig hér: Og þótt fyrr hefði verið! - Þar var reyndar talað um, að 400 milljónir króna hafi farið í rekstur "stofunnar", en þær reyndust vera 500 milljónir, þegar betur var að gáð. Og er mál að linni þessari áróðurs- og undirróðursstarfsemi gegn sjálfum tilvistargrunni fullveldis okkar.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ísland af lista yfir umsóknarríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær fimm sinnum fleiri andvígir framsali hluta íslenzks ríkisvalds en hlynntir!

Í nýbirtri skoðanakönnun MMR, þar sem spurt var, hvort kjósendur vildu láta breyta stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslenzks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana, varð niðurstaðan sú, að 14% voru því hlynntir, en 69% andvígir, þ.e.a.s. rétt tæplega fimm sinnum fleiri voru slíku framsali andvígir. Andríki kostaði þessa skoðanakönnun, sem birtist m.a. í Staksteinum Mbl. í dag, 22. maí 2015.

Af þessu er fullljóst, að tillaga Bjarna Benediktssonar, sem nýlega mælti með vissu framsali fullveldisheimilda, nýtur engrar almannahylli.

Jón Valur Jensson.


Bjarni Benediktsson mælir með vissu framsali fullveldisheimilda!

Bjarni Benediktsson fjármála­ráðherra, formaður Sjálfstæðis­flokksins, sækir að sjálfstæði landsins í aðsendri grein í Mbl. í dag, vill "takmarkað framsal" vald­heimilda (fullveldis), "sem bera mætti undir þjóðaratkvæði samhliða for­seta­kosningum á næsta ári.“

  • Segir hann þar, að standa verði vel að undirbúningi máls­ins og rekstri þess á Alþingi á kom­andi hausti. „Grund­völl­ur þess er gott sam­starf stjórn­ar og stjórn­ar­and­stöðu.“ (Mbl.is)

Þetta eru skuggaleg tíðindi af formanni flokks sem kennir sig við sjálfstæði! Þetta minnir á grein hans og Illuga Gunnarssonar í Mbl. fyrir allnokkrum árum, þar sem þeir gældu við þá hugmynd að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Nú er raunar stefnan tekin á að framselja vald til ESB "í þágu friðar og efnahags­samvinnu," eins og Bjarni segir í blaðinu -- orðrétt eins og ESB-sinnaða Þor­valdarnefndin Gylfasonar (stjórnlagaráðið ólögmæta) kallaði það í sinni 111. gr., en einmitt það ákvæði þar vakti athygli fyrir þann óvenjulega áróðurs­hljóm sem með þessum orðum var settur inn í þá grein.

  • "Skortur á slíku ákvæði [sem þessu um framsal valdheimilda ríkisins] hefur valdið nokkrum erfiðleikum fyrir þátttöku Íslands í alþjóða­samvinnu, einkum í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið þegar álitamál hafa risið um heimild til framsals samkvæmt núgildandi rétti,"

segir Bjarni, en bætir við:

  • "Ástæða er til að taka fram að slík heimild í stjórnarskrá tengist spurn­ingunni um umsókn Íslands að Evrópusambandinu ekki með neinum hætti -- aðild Íslands að ESB myndi ótvírætt þafnast sérstakrar stjórnskipu­legrar heimildar og aðlögunar."

Þetta segir hann, en "góð meining enga gerir stoð," segir hið fornkveðna, og mikið vill meira, og eins víst er, að slefandi aðdáendaklúbbur Evrópu­sam­bandsins í Samfylkingu og fleiri flokkum myndi nota sér þessar heimildir eftir sínu höfði. Þá dugar Bjarna ekki að standa hjá og þvo hendur sínar eins og Pílatus af ábyrgð, vegna einhverra orða í Morgunblaðinu árum fyrr.

En hann heldur áfram í blaðinu:

  • "Ef gengið er út frá þessu er engin ástæða til að ætla að alvarlegur ágreiningur sé um stjórnarskrárákvæði um þetta efni þótt auðvitað eigi eftir að taka afstöðu til ákveðinna útfærsluatriða." (!!)

Þessu er alls ekki hægt að vera sammála. Það er engin þörf á slíku ákvæði. Of mikið vald hefur þegar verið gefið EES eða í reynd Evrópusambandinu til áhrifa á löggjöf hér (bara eitt dæmi: EES-reglurnar eru að ganga af einkaflugvéla-eign og -notkun dauðri nema fyrir forríka einstaklinga og fyrirtæki). Æ fleiri sjá nauðsyn þess að segja upp EES-samningnum (og Schengen-samningnum sennilega í leiðinni). En Bjarni stefnir í reynd að meiri undirlægjuhætti við Evrópusambandið með tillögu sinni. Hættulegasta afleiðingin af tillögunni, í bili, gæti orðið sú, að hér yrðu teknar upp langtum meiri innistæðutryggingar heldur en var með gamla laginu og ábyrgðin beinlínis sett á ríkissjóð sjálfan, ekki á TIF (Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta).

Af öllum þessum ástæðum verður að berjast gegn þessari vanhugsuðu stjórnarskrártillögu hins illa áttaða formanns Sjálfstæðisflokksins.

Eftirmáli. Afstaða almennings hefur sýnt sig! Í nýbirtri skoðanakönnun MMR, þar sem spurt var, hvort kjósendur vildu láta breyta stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslenzks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Niðurstaðan varð, að 14% voru því hlynntir, en 69% andvígir, þ.e.a.s. rétt tæplega fimm sinnum fleiri voru slíku framsali andvígir. Andríki kostaði þessa skoðanakönnun, sem birtist m.a. í Staksteinum Mbl. í dag, 22. maí 2015.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaratkvæði samhliða kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Píratar orðnir ESB-viðhengi?

Píratar standa ekki undir nafni nema sem flokkur sem aðhyllist rán á hugverkum höfunda og á öryggis- og persónuupplýsingum frá leyniþjónustum. Rán eru ein­mitt ein iðja Sikileyjar-mafí­unn­ar, en hví vill þá Birgitta líkja Skagfirð­ing­um eða skagfirzkum framsóknarmönnum við lög­brjóta á Sikiley? Stunda Skagfirðingar glæpastarfsemi? Það er þá eitthvað nýtt eða bara í höfðinu á henni Birgittu.

Öllu alvarlegra en allt þetta er sú stefna Pírata, sem nú virðist uppi á borðum, að beita sér gegn því, að hætt verði umsóknarferlinu að Evrópusambandinu, og þar grípur Birgitta enn einu sinni til billegra meðala eins og þeirra að klína því á ríkisstjórnina, að hún sé bara að þjóna hagsmunum Skagfirðinga og Kaupfélags Skagfirðinga.

Lágt er risið á þessum málflutningi Birgittu. Og hvernig er með hana sjálfa: Vill hún ekki standa með sjálfstæði og fullveldi Íslands? Eru Píratar orðnir enn einn undirlægjuflokkurinn undir erlent vad?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Segir Skagafjörð „Sikiley Íslands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópumálaráðherra Þýzkalands með frekleg afskipti af íslenzkum innanríkismálum

Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands.

Gróf var ræða ráðherrans Michaels Roth í Sjónvarpinu kl. 19.* Greinilega kastaði hann boltanum til stjórnarandstöðunnar hér. En það er ekki hans að segja okkur fyrir verkum um hvort Alþingi eigi að taka afstöðu til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að hætta við Evrópusambands-umsóknina. Hann á hvergi nærri þessu að koma.

Roth: "Við verðum að virða það, að ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að halda ekki áfram aðildarviðræðum við ESB [hér var þýðingin í Sjónv. ónákvæm!]. Við hörmum þetta, ég hefði óskað mér, að Ísland gengi í Evrópusambandið, það þjónar sameiginlegum hagsmunum okkar allra [BEINN ÁRÓÐUR! -- innsk. jvj], og það hefði Ísland vel getað gert."

"En er Ísland enn í hópi umsóknarríkja?" spurði fréttamaður. Svar hans:

  • "Það þurfa Íslendingar sjálfir að skera úr um. Við höfum fengið skýr boð frá íslenzku ríkisstjórninni bréfleiðis, en þetta er mál sem Íslendingar þurfa að ræða innanlands. Ísland er lýðræðisríki og þarf að útkljá þetta. Þetta mál þarf líka að ræða í þinginu, [allt sýnir þetta afskiptasemi hans! -- jvj] og ég vil engu við það bæta."

Þá hafði fréttakonan þetta ennfremur eftir ráðherranum, í frásögn hennar:

  • "Michael Roth segir jafnframt að Íslendingar þurfi sjálfir að svara þeirri spurningu, hvort þingið þurfi að samþykkja það að aðildarumsókn sé dregin til baka. Hann segir að aðild Íslands að Evrópusambandinu væri fengur fyrir sambandið, stærð landsins skipti ekki öllu máli. Hann segist viss um, að þegar ESB komist fyrir tímabundna erfiðleika, muni umræðan um aðild vakna á ný hér á landi."

Ráðherrar annarra ríkja eiga ekki að misnota kurteisisheimsóknir hingað til að vera með puttana í innanríkismálum okkar. Slíkt er engin kurteisi, sízt þegar verið er gefa stjórnarandstöðu undir fótinn með að halda áfram að herja á ríkisstjórnina.

* http://ruv.is/sarpurinn/ruv/frettir/20150511 : frá 15:05 mín.; en frá 13.35 mín var umfjöllun þar um flóttamanna-vandamál Evrópusambandsins og nýjar tillögur um inntökukvóta landanna á flóttamönnum, og miðað verður þar við a) þjóðarframleiðslu, b) íbúafjölda, c) atvinnuleysis-hlutfall og d) fjölda flóttamanna sem fyrir eru í landinu; takið eftir, að ef reynt yrði að þvinga þessum flóttamannakvótum upp á Ísland sem EES-og Schengen-ríki, þá myndi íbúafjöldahlutfall (um 1/1580 af fólksfjölda alls EES-svæðisins) ekki eitt sér ráða, öll hin atriðin, a-, c- og d-liðir, myndu hækka fjöldann umtalsvert sem okkur yrði ætlað að taka við sem flóttamönnum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Virða afstöðu stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll Árnason fer með fleipur um stuðning verkalýðs við ESB-umsókn

Á sama tíma og Bretar færast nær því að ganga úr ESB, nái íhaldsstjórnin ekki hag­stæðari aðild­ar­skil­málum handa Bret­um, býður Árni Páll upp á lygimál í ESB-Fréttablaðinu í gær:

  • "ESB-umsóknin hefur ekki spillt fyrir samstarfi [Samfylkingarmanna] við verkalýðshreyfinguna, enda umsóknin átt mikið fylgi meðal verkalýðshreyfingarinnar."

Þetta er nú djörf skreytni! Margítrekað hefur komið fram í skoðanakönnunum, að meðal þess meirihluta Íslendinga, sem er andvígur Evrópusambands-inntöku landsins, eru verkalýðsstéttirnar og landbyggðarmenn mun öflugri í andstöðunni heldur en háskólagengnir og fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Að "verkalýðsrekendum" hafi tekizt að sölsa undir sig stéttarfélög og einkum ASÍ, auk lífeyrissjóðanna, með afar þunglamalegum, ólýðræðislegum framboðs- og kjörreglum, eru engin meðmæli með því, að menn taki mark á ESB-stuðningsyfirlýsingum Gylfa Arnbjörnssonar hagfræðings, forseta ASÍ, og fylginauta hans (t.d. Ólafs Darra hagfræðings) og á Evrópusambands-meðvirkni þessara verkalýðsforingja, sem fram hefur komið m.a. í því að hvetja meðlimi hreyfingarinnar til Brusselferða, þar sem matur og vín er borið í þá, í fínasta hótelplássi, ásamt áróðurs-innleiðslu þeirra í glæsihöllum valdsins; svo eru þeir leystir að auki úr hlaði með drjúgum "vasapeningum"! Hefur Jón Bjarnason, fv. ráðherra, fjallað á afhjúpandi hátt um þau síðastnefndu málefni, tókst jafnvel að þrýsta grein um það inn í sjálft Fréttablaðið (grein sem þó var að sjálfsögðu ekki slegið upp á leiðaraopnunni eins og greinum þeirra sem eru í "náðinni" hjá Jóni Ásgeiri).

Við skulum minnast þess, að sjálfur foringinn Gylfi Arnbjörnsson var einn þeirra sem studdu bæði Icesave II- og Icesave III-samningana, þvert gegn þjóðarhag, en þókknaðist vitaskuld með því Brussel-herrunum. Fyrrnefnda ömurlega samninginn, sem ekki sízt atvinnurekendur studdu, auk Gylfa, Margrétar Kristmannsdóttur, Vilhjálms Þorsteinssonar í CCP, Gylfa Magnússonar prófessors í hagfræði, Gylfa Zoëga hagfræðings, Þórólfs Matthíassonar hag­fræðings, Más Guðmundssonar, hagfræðings og seðlabankastjóra, og Ólafs Þ. Stephensen, felldi þjóðin með 98% atkvæða!* Ekki lét Gylfi sér það að kenn­ingu verða, heldur studdi líka Buchheit-samninginn (Icesave III),** sem nú væri búinn að kosta þjóðina um eða yfir 80 milljarða kóna og það í einbera vexti, óafturkræfa,*** hvað svo sem kemur út úr þrotabúi Landsbankans gamla! 

Guðmundur Gunnarsson, fv. form. Rafiðnaðarsambands Íslands, tók sérstaklega fram, að já við Icesave-samningnum væri "forsenda þess að hægt sé að vinna upp þann kaupmátt sem hefur tapast"!** Góður í öfugmælunum karlinn!! En hann var í Áfram-hópnum, sem beitti sér fyrir því máli með öflugri auglýsinga­herferð (hlálega myndskeyttri!)** og þáði til hennar 20 milljóna styrki, m.a. frá samtökum atvinnurekenda. (Áfram-hópinn getið þið séð hér á mynd þar sem það fólk leggur nöfn sín og æru við það, að við ættum að borga Icesave!**)

* http://thjodarheidur.blog.is/blog/thjodarheidur/entry/1290081/

** http://thjodarheidur.blog.is/blog/thjodarheidur/entry/1286385/

*** Sjá hér samantekt og útreikninga Daníels Sigurðssonar véltæknifræðings: http://samstadathjodar.123.is/

Jón Valur Jensson.


mbl.is Cameron leggur upp skákina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þótt fyrr hefði verið!

Væntanlega verður samningur um rekstur "Evrópustofu", sem rennur út 31. ágúst nk., ekki endurnýjaður að sögn talskonu stækkunartjóra Evrópusam­bandsins. Athygli, al­mannatengslafyrirtæki, og hið þýzka Media Consulta hafa fitað sig á þessum útbreiðsluverkefnum, þar til á síðasta ári, er Athygli sagði sig frá verk­efn­inu, "og var í kjöl­farið öll­um starfs­mönn­um Evr­ópu­stofu sagt upp störf­um. Media Consulta hef­ur síðan séð al­farið um rekst­ur­inn." (Mbl.is)

  • Samn­ing­ur­inn um rekst­ur Evr­ópu­stofu var til tveggja ára með fjár­fram­lagi upp á allt að 1,4 millj­ón­ir evra eða rúm­lega 200 millj­ón­ir króna. Sam­kvæmt samn­ingn­um var heim­ilt að fram­lengja hann til tveggja ára. Það er fram á þetta ár. Verði ákveðið að halda rekstri Evr­ópu­stofu áfram þarf því að bjóða verk­efnið út á nýj­an leik. (Mbl.is)

Evrópusambandið hefur stundað hráskinnaleik gagnvart okkur í sambandi við endalok Össurar-umsóknarinnar. Við skulum hafa gætur á þessu máli líka, að hin rangnefnda Evrópustofa haldist hér ekki áfram, enda var þetta fyrirbæri allan tímann í æpandi mótsögn við bann okkar við erlendum fjárstyrkjum til stjórnmálaflokka, sbr. einnig Vínarsáttmálann um skyldur sendiráða.

400 milljónir króna eru miklið fé og ólík aðstaða samherja stórveldisins í samanburði við félitla fullveldissinna. Engar upplýsingar hafa borizt um það, hvernig útgjöldum "Evrópustofu" hefur verið háttað og hverjir hafa fengið þaðan styrki eða laun til verkefna í þágu "kynningar" á meintum kostum "aðildar" að sambandinu. Það eru reyndar hálfgerð öfugmæli að tala um aðild að því fyrirbæri sem sogar til sín fullveldisrétt ríkja og krefst yfir þeim ráðandi stjórnvalds, löggjafar- og dómsvalds, nákvæmlega samkvæmt þeim aðildar­sáttmála, sem sumir halda ósaminn (jafnvel "ósamið um"!), en liggur þó þegar fyrir hendi í öllum aðalatriðum, og þau atriði eru óumsemjanleg, "not negotiable", eins og framkvæmdastjórn ESB hefur sjálf ítrekað hátíðlega.

En endalok ESB-umsóknarinnar og væntanlega einnig hinnar rangnefndu áróðursstofu koma á þeim tímaskilum þegar brestirnir í öryggismálum Evrópu og ekki sízt Evrópusambandsins hafa verið að birtast harla uggvænlega og ekki á þann hátt að laða ætti ríki til innlimunar í þetta stórveldi sem stendur að sumu leyti á brauðfótum.

Gagnvart Rússlandi og Úkraínu hefur Evrópusambandið haldið uppi vissum ögrunum, sem hvorki eru í takt við samkomulag stórveldanna í lok kalda stríðsins né ríkjasamkomulag sem gert var við fyrri forseta Úkraínu um lok valdatíðar hans, en blekið vart þornað á pappírunum þegar hann var hrakinn úr landi -- og var að sönnu með spilltari þjóðaleiðtogum, en sú upplausn, sem af þessu hlauzt, gaf Rússum yfirborðs-réttlætingu og sóknarfæri gagnvart þeim stjórnvöldum, sem við tóku í Kiev, og var hernám Krímskaga og mannskæðar væringar í Austur-Úkraínu beint framhald þessa. Hefur Evrópusambandið átt sinn þátt í að ögra Rússum þessi misserin, en afar hæpið, að það geri vel í því að stofna friði í álfunni í hættu. Að þessu sögðu er þó ekkert verið að draga hér úr ábyrgð Pútín-stjórnarinnar á hennar hlið málanna, sérstaklega í Úkraínu, en einnig gagnvart öryggismálum Norðurlanda og Austur-Evrópuríkja.

Á Miðjarðarhafi virðist Evrópusambandið hafa sýnt enn meiri vöntun á stjórnvizku, með því að stöðva ekki sífelldan flutning flóttafólks frá Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum. Stórveldinu ætti að vera í lófa lagið að beita hér áströlsku reglunni að stöðva siglingar báta og skipa sem ofhlaðin eru flóttafólki. Þar er ekki um fátækasta fólk Afríku að ræða, ef rétt er, að farið kosti um 2.000 evrur á manninn (um 300.000 kr.) eða jafnvel á milli $5000 og $7500, að sögn framkvæmdastjórnar ESB,* þ.e. um 650.000 til hátt í milljón krónur. Munu glæpafélög viðriðin bátaflutningana í mörgum tilvikum og jafnvel grunur um að þau tengist glæpum í Evrópu. En þessir miklu fólksflutningar, sem t.d. grísk stjórnvöld búast við að nái 100.000 manns um gríska landhelgi á þessu ári, veikja bersýnilega varnarviðbúnað Evrópusambandsins alls gagnvart hryðjuverkasveitum eins og al-Qaída, al-Shabaab og ISIS, sem geta auðveldlega smyglað liðsmönnum sínum innan um flóttamenn til Evrópu með þessu móti. Í Ástralíu hefur hins vegar flaumur flóttamanna þangað verið stöðvaður með strangri bannstefnu gegn slíkum innflutningi yfir hafið, því að menn vita það fyrir fram, að slík ferð er tapað fé og ber engan árangur. Er Evrópusambandinu um megn að taka upp sömu stefnu?

Ekkert af þessu má túlka þannig að lýsi kaldlyndi gagnvart flóttafólki sem leitar betri lífskjara og frelsis í Evrópu. Skipverjar varðskipsins Týs eru ennfremur á allan hátt augljóslega hrósverðir fyrir sitt mikla björgunarstarf, sem hrein nauðsyn verður að teljast miðað við ríkjandi aðstæður á Miðjarðarhafi.

* The European Commission; sjá hér: http://www.huffingtonpost.com/2015/04/24/mediterranean-migrants-greece_n_7128198.html

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrópustofu hugsanlega lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband