Hættið annaðhvort að brosa eða yggla ykkur, ESB-menn!

Uppgerðarjákvæðnin í sendimönnum ESB hingað er engu lík nema öðru eins smjaðri af hálfu pólitískra frambjóðenda fyrir kosningar. Kurteisishjalið er grynnra en harðvítug andstaða þeirra við okkur og Færeyinga vegna fiskveiða í okkar eigin efnahagslögsögu, og þjóðinni má ekki líða úr minni liðveizla Evrópusambandsins við ríkisstjórnir Breta og Hollendinga í ófyrirleitinni, ólögvarinni og ólögmætri aðför þeirra að okkur í Icesave-málinu.

Og svo eru okkur sagðar fagnaðarsögur af Króötum af því tilefni, að land þeirra verður nú hið 28. í ESB, en hinu sleppt að nefna, að þjóðin er ekki einhuga um áhugann á að renna inn í Evrópusambandið. 66,27% greiddu atkvæði með því í þjóðaratkvæðagreiðslu snemma árs 2012, en 33,13% greiddu atkvæði á móti. Þetta var niðurstaðan eftir mikinn kosningaáróður, en frá maí 2011 höfðu skoðanakannanir sýnt 55 til 63% stuðning við "inngöngu í ESB". Þarna hefur miklu ráðið um endanlega útkomu, að bæði stjórnarflokkarnir króatísku og stjórnarandstaðan voru fylgjandi Evrópusambandsinntöku landsins, og fjárráðin voru þeim megin. 

"Þetta er subbulegt!" sagði þjóðhollur maður í símtali til undirritaðs, þegar hann sagði frá því, að nú boði Evrópustofa hátíðarhöld í Iðnó vegna inntöku Króatíu. Allt er nú notað til að auglýsa þetta gráðuga stórveldisbandalag gömlu nýlenduveldanna í Evrópu. "Nú held ég að það ætti að fara að skora á ríkisstjórnina að loka Evrópustofu," sagði sami maður, enda er þetta allt liður í áróðri með ESB-inntöku Íslands. Þeir einir fagna með 230 milljóna króna "Evrópustofu" sem vilja fullveldi Íslands feigt. Gegn þeim þarf baráttan að harðna og sízt að linast. Það er ekkert gagn að ESB-andstæðum atkvæðum fullveldissinna, sem greiddu götu núverandi stjórnarflokka til valdastólanna, ef þeir sömu flokkar hyggjast hafa þetta kvartmilljarðs áróðursapparat í gangi hér áfram.

En Íslendingar skulu einnig minnast þess, að gerólík er staða okkar og hinna fátæku Króata -- við höfum hér nánast ekkert að vinna, en gríðarlega miklu að tapa -- einkaréttindum okkar til fiskveiða í okkar lögsögu, sem yrði ESB-löndum að leiksoppi og féþúfu, ef gengið yrði inn í Evrópusambandið á þess járnhörðu skilmálum, sem kommissarar framkvæmdarstjórnar ESB hafa hver eftir annan ítrekað, að engin varanleg undanþága fáist frá.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Undirbúa hátíð vegna inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband