Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Evrópusambandið fær á snúðinn frá okkur Íslendingum í sinni eigin könnun

Ólíkt (öðrum) ESB-umsóknarlöndum eru langtum fleiri Íslendingar neikvæðir gagnvart inngöngu í Evrópusambandið heldur en hinir. 81% Íslendinga treysta Sameinuðu þjóðunum,* en aðeins 40% okkar treysta ESB, 52% treysta því ekki (12. spurning). Þótt traust okkar á því sé takmarkað, bera íbúar 19 af 33 ríkjum, sem könnunin náði til, minna traust til ESB en Íslendingar og þar af í 16 af 28 ríkjum ESB. (Mbl.is.)

57% Íslendinga telja að innganga í Evrópusambandið myndi ekki þjóna hagsmunum landsins samkvæmt niðurstöðum Eurobarometer-skoðanakönnunar fyrir sambandið sem birtar voru í vikunni en könnunin var gerð í maí síðastliðnum. Aðeins þriðjungur er á öndverðri skoðun. (Mbl.is.) Ef aðeins eru taldir þeir, sem taka afstöðu,........... Ólíkt umsóknarríkjum ESB (hin eru Serbía, Svartfjallaland, Makedónía og Tyrkland) hefur Ísland þá sérstöðu, að hér eru fleiri en í hinum löndunum þeirrar skoðunar, að innganga í ESB yrði landinu ekki í hag.

Í könnuninni kemur fram (í svörum við spurningu 15), að Íslendingar eru mjög á báðum áttum um það, hvort hugtakið lýðræði lýsi Evrópusambandinu vel eða illa; 47% telja það lýsa ESB, en 49% telja það ekki, og þeir okkar, sem telja, að 'lýðræði' lýsi ESB mjög vel, eru aðeins 7% aðspurðra, en 14% telja það lýsa Evrópusambandinu mjög illa. 

  • Einnig var spurt að því hvort innganga í ESB væri jákvæð eða neikvæð fyrir Ísland. 42% Íslendinga telja að innganga í sambandið væri neikvæð fyrir landið, 24% jákvæð og 29% hvorki neikvæð eða jákvæð. Fleiri eru hins vegar þeirrar skoðunar að innganga væri jákvæð en neikvæð í hinum umsóknarríkjunum. (Mbl.is.)

Þetta er í góðu samræmi við það, sem margir hér telja, að Íslendingar hafi lítið að vinna, en gætu haft gríðarlega miklu að tapa með inntöku í þetta stórveldabandalag.

Þá er það frásagnarvert, að meirihluti Breta í könnuninni (53% gegn 36%) er á þeirri skoðun, að landi þeirra myndi farnast betur utan Evrópusambandsins heldur en innan þess.

* 13% eru á öndverðri skoðun. Íslendingar bera mest traust til SÞ af þeim þjóðum sem könnunin nær til. Næstir koma Danir með 76% traust til samtakanna og þar á eftir Svíar með 70%. (Mbl.is.)

JVJ tók saman. 


mbl.is Telja ESB-aðild ekki Íslandi í hag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll Árnason, með fullveldisafsal í maganum, vill auðvelda stjórnarskrárbreytingu

Við þekkjum þessa stefnu evrókrata frá síðasta kjörtímabili. Stjórnlagaráðs-tilbúningurinn ólögmæti átti að þjóna því markmiði þeirra að koma Íslandi undir ESB. Billeg heimild til fullveldisafsals var þar, með própagandísku orðavali til að auðvelda leikinn í kosningu um málið.
 
Nú er Árni Páll, formaður Samfylkingarinnar, farinn í gang með greinaskrif í Fréttablaðið til að liðka fyrir stjórnarskrárbreytingu, með þetta markmið evrókrata innanstokks, eins og við munum vísast sjá í hans næstu grein. Það er svo látið hljóma teknókratískt trúverðugt að breyta stjórnarskránni með þessum billega hætti, þar sem naumasti meirihluti, jafnvel tiltölulega fárra kjósenda, geti tekið ákvörðun sem leitt geti til óviðbreytanlegs fullveldisafsals íslenzkra valdstofnana um ókomna tíð, Alþingis, forseta Íslands, ríkisstjórnar Íslands og Hæstaréttar Íslands, í hendurnar á Evrópusambandi gömlu stórveldanna í álfunni, í stofnunum þess í Brussel, Strassborg og Lúxemborg.
 
Nei takk, ekkert fullveldisafsal ! -- enga ódýra heimild til grundvallar-stjórnarskrárbreytingar í dulargervi blekkjandi áróðurs Þorvaldar Gylfasonar & Co. um að fullveldisafsal sé "í þágu friðar og efnahagssamvinnu"! Engar slíkar afsalsgreinar (111. gr. "stjórnlagaráðs") samhliða öðru ákvæði sama plaggs (67. gr.) þar sem innlimunarsinnar ganga tryggilega svo um hnútana, að ekki sé hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um að snúa til baka frá innlimun í Evrópusambandið!
 
Við fengum miklu meira en nóg af rotinni Samfylkingarpólitík á síðasta kjörtímabili. Nú skiptir máli, að þingmenn stjórnarflokkanna haldi vöku sinni og taki ekki þátt í lymskulegum tilburðum Samfylkingarinnar sem gætu allt eins átt sér sín upptök í teymi spinndoktora Brusselvaldsins og koma sér a.m.k. einkar vel fyrir hagsmuni þeirra og keppikefli.
 
Sýnum lýðveldinu hollustu! Tökum þátt í baráttu fyrir óskertu fullveldi lands og þjóðar. 
 
Jón Valur Jensson. 

Sendiherra Íslands stendur sig vel í makrílmálinu, en ESB þorir aðeins í smáþjóðir!

 

Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands í Bretlandi og Írlandi, hefur vakið athygli á því, sem hér er rétt að kalla tvöfeldni Evrópusambandsins í makrílmálinu, því að það hótar einungis Íslendingum og Færeyingum, en RÚSSA lætur það í friði, þótt þeir stundi miklar veiðar úr makrílstofninum í NA-Atlantshafi.

Benedikt Jónsson, sendiherra.
  • Sendiherrann bendir ennfremur á að allar þjóðirnar sem nýttu makrílstofninn væru sameiginlega að veiða meira en vísindamenn ráðlögðu. Íslendingar væru að veiða 22,7% ráðlagðrar veiði og Evrópusambandið og Norðmenn saman 90,3%. (Mbl.is, leturbr. hér.)

Það er gleðilegt, að sendiherra Íslands í þessum löndum haldi uppi vörn og sókn í mikilvægu hagsmunamáli okkar – gleðileg breyting frá því, sem virtist ástandið í utanríkisþjónustunni undir yfirstjórn Össurar Skarphéðinssonar, að því er Icesave-málið áhrærði; en þar sté þá forseti Íslands með eftirminnilegum hætti fram okkur til varnar, m.a. í brezkum fjölmiðlum.

Viðtalið við Benedikt birtist í Irish Times, og hann lét sér ekki nægja að benda á þessa ósamkvæmni í makríl-stefnu Evrópusambandsins, gagnvart smáþjóðum annars vegar og stórþjóð hins vegar, því að hér er annað dæmi um góðar áherzlur hans:

  • Þá ítrekar Benedikt við Irish Times að íslensk stjórnvöld telji að refsiaðgerðir myndu brjóta gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og 9. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Látum ekki semja okkur út í einhverja vitleysu – stöndum á réttinum yfir okkar lögsögu! Og það er fullkomlega rétt hjá forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að innan Evrópusambandsins "hefðum [við] ekki haft aðstöðu til að verja rétt okkar [í makrílmálinu]. Þetta er því ... áminning um mikilvægi þess að hafa yfirráð yfir eigin auðlindum – verja fullveldið til þess að geta varið hagsmuni þjóðarinnar út á við."

Myndin er af sendiherranum Benedikt Jónssyni. 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Hótunum ekki beint að Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótanavaldi hinna voldugu beitt gegn smáþjóðum

 

Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, hristir nú brandinn og boðar refsiaðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar fyrir lok þessa mánaðar.

Sigmundur Davíð ræðir við æðstu ESB-menn  þennan þriðjudagsmorgun, þ.e. Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB. Einnig fundar hann með Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins.

Yfirlýsing Damanaki kemur í kjölfar fundar sjávarútvegsráðherra ESB-ríkjanna sem

  • "ræddu meðal annars um makríldeiluna í dag, en Bretar og Írar höfðu fyrir fund þeirra hvatt til þess að gripið yrði til refsiaðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum."
  • „Við getum ekki beðið til næsta árs, við verðum að grípa til aðgerða núna. Hvað varðar til hvaða aðgerðum við grípum nákvæmlega þá munu frekari upplýsingar verða gefnar út fyrir lok þessa mánaðar,“ sagði Damanaki á blaðamannafundi í kvöld (Mbl.is).

Og þetta er haft eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðamanni forsætisráðherra:

  • „Sigmundur Davíð á fund með Herman van Rompuy í fyrramálið og ég geri ráð fyrir að þetta verði meðal annars rætt. Við munum gera Barroso grein fyrir afstöðu Íslendinga, sérstaklega þeirri afstöðu okkar að við teljum þessar refsiaðgerðir allt of víðtækar og að þær standist ekki EES-samninginn. Þær séu ólögmætar og við munum ekki sitja þegjandi undir því. Ég geri ráð fyrir að þetta komi fram á morgun“ (Mbl.is).

Hér hefur því greinilega dregið til tíðinda, og verður fróðlegt að sjá, hvort harkan sex verði látin ráða í samskiptum stórveldabandalagsins við þessar tvær norrænu smáþjóðir.

  • Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur "ekki trú á því að ESB grípi til einhverra aðgerða öðruvísi en að frekari viðræður eigi sér stað áður. Þar að auki hef ég miklar efasemdir um að refsiaðgerðir af því tagi sem menn hafa rætt um innan sambandsins fáist einfaldlega staðist. Ég held að það séu ekki lagaforsendur fyrir þeim,“ segir hann (Mbl.is),

en fer ekkert í grafgötur um, að hér er verið að beita hótunum fyrst og fremst með þessu tali um refsiaðgerðir.

Stórveldum fer það kannski vel að eigin áliti að hóta öllu illu, þar til í ljós kemur, að þau eru eins og hver önnur pappírstígrisdýr.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ákvörðun fyrir lok mánaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjandskapur ESB-ríkja við Ísland heldur áfram

Það fer fríverzlunarbandalagi og meðlimaríkjum þess illa að beita sér gegn frjálsri verzlun og flutningum. Gríman er fallin af Hollendingum og Þjóðverjum gagnvart Íslendingum um hvalamál. Löglegar veiðar okkar reyna þeir að bregða fæti fyrir með því að teppa flutninga með hvalkjöt til Japans. Þetta eru ekki meðmæli með Evrópska efnahagssvæðinu, né með ESB, ekki frekar en Icesave- og makríl-málin (sjá neðar).

  • Peter Altmeier, umhverfisráðherra Þýskalands, hefur sent yfirvöldum hafna við Norðursjó bréf þar sem hann mælist til þess að þau leyfi „sjálfviljug“ ekki flutning hvalkjöts.
  • „Þýskar hafnir ættu ekki að vera ákjósanlegur kostur til umskipunar hvalkjöts,“ sagði í bréfinu, sem Altmeier sendi á þriðjudag og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. (Mbl.is.)

Ekki talar ráðherrann þarna í krafti löggjafar. Hitt er reyndar málið, að hann lætur í 1. lagi eins og stuðpúði einber vegna þrýstings græningjaliðs, og í 2. lagi er þetta vilji og stefna Evrópusambandsins sjálfs að leyfa ekki meðlimaríkjunum hvalveiðar, selveiðar né hákarlaveiðar. Við ættum ekki að fara í neinar grafgötur með það, en haga okkur eftir því með því að halda okkur fjarri þessu bandalagi stórveldanna og illa upplýstum embættismönnum þeirra og lýðkjörnum fulltrúum í ESB-þinginu.

En það er ekki nýtt, að við verðum fyrir óverðskulduðum kárínum af hálfu þessa Evrópusambands. Það hótar okkur og Færeyingum með gróflegum hætti í síldar- og makrílmálum. Það beitti sér frá upphafi gegn okkur í Icesave-málinu, með því að tilnefnda þrjá fulltrúa í gerðardóm haustið 2008 sem (þrátt fyrir – sem betur fer – viljandi fjarveru íslenzks fulltrúa) dæmdi okkur greiðsluskyld í því máli. Áfram beitti ESB sér gegn okkur með þrýstingi á stjórnvöld og á alþjóðavettvangi stofnana, og allt fram undir endalokin – EFTA-dómstóls-úrskurðinn glæsilega – beitti ESB sér með frekjulegum, ógnandi hætti gegn okkur, með því að gerast í 1. skipti í sögunni meðaðili að kæru tveggja meðlimaríkja, Bretlands og Hollands, gegn Lýðveldinu Íslandi. Málflutningur Samfylkingar-forystumanna og ESB-innlimunarsinna hér á landi hljómar því sem innantóm hræsni, þegar reynt er að uppteikna fyrir okkur Evrópusambandið sem útópíu framtíðarinnar og heillalausn fyrir okkur Íslendinga. Því fer víðs fjarri, og ekki yrðum við frekar en önnur "smáríki" innanborðs látin njóta þar sannmælis, hvað þá að ráða eigin ráðum.

  • Haft var eftir Iris Menn, sérfræðingi samtakanna í málefnum hafsins, á vefsíðu blaðsins Die Welt að bréf ráðherrans væri fyrsta skrefið, en hygðist hann axla ábyrgðina til fulls þyrfti hann að beita sér fyrir því að flutningur hvalkjöts um þýskar hafnir yrði bannaður með lögum ... (Mbl.is.)

Já, alvaran er grá í viðskiptum við slíka aðila, hvort sem um makríl, Icesave eða hvali er að ræða. Bandamenn Evrópusambandsins hér á landi mættu fara að skoða sig í spegli þessara staðreynda.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tilmæli umhverfisráðherra gegn flutningi hvalkjöts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB stefnir að því að fá Tyrki inn, hvað sem finnskri alþýðu finnst

Finnar vilja Íslendinga með í ESB, en ekki Tyrki. 70% okkar eru hins vegar hreint ekki á þeim buxunum að eiga þangað neitt erindi.

En það er stefna Evrópusambandsins að fá Tyrki inn, jafnvel gælt við þá hugsun að fá Egypta, Túnisbúa og Lybíumenn inn í þetta ofurríki, sjá hér. Útþenslu-málaráðherrann Stefan Füle virðist a.m.k. á þeim buxunum. Og hvað Tyrki varðar, er það ekki spurning af hans hálfu og margra annarra Brusselbossa, sbr. þessa grein undiritaðs á Vísisboggi að gefnu tilefni fyrir nær þremur árum (jafnvel þótt ekki hafi allt rætzt, sem þar er talað um, kann sitthvað af því enn að vofa yfir):

Stækkunarstjóri ESB, gamall kommúnisti frá Tékkó, vill Tyrki í bandalagið!

Tvítugur (1982) gekk Stefan Füle í kommúnistaflokk Tékkóslóvakíu, en ekki úr honum fyrr en kommúnisminn féll árið 1989. Takið eftir: 14 árum eftir að Sovétríkin og 5 önnur Varsjárbandalagsríki réðust inn í Tékkó-Slóvakíu með hervaldi til að binda enda á vorið í Prag og tilraun til sósíalisma með mannlegu yfirbragði og gerðu Alexander Dubcek að götusópara, þá fannst Füle þessum tilvalið að gerast opinber kommúnisti.

Hann lærði heimspeki í Karlsháskóla í Prag og lagði stund á nám við MGIMO-diplómatastofnunina í Moskvu, “which was known for its tight links with the Soviet secret service, the KGB.” (Heimild hér.)

Å tefan Füle Þessi maður, Stefan Füle,  hefur nú aðalumsjón með “umsókn Íslands” (!!!) í Evrópubandalagið. Menn kalla hann hér “stækkunarstjóra”, en hann er kommissar í framkvæmdastjórninni, sem er hin eiginlega ríkisstjórn Esb. og hann því með ráðherrastöðu í reynd í Evrópu-sambandi síaukins miðstjórnarvalds, og útþensla er þar á dagskránni, ÖLL EVRÓPA, og hann því réttnefndur útþenslumálaráðherra Evrópusambandsins.

  • INNSKOT:  Reyndar er þetta ekki umsókn Íslands, heldur  Össurar nokkurs og Samfylkingarinnar – eða að vísu bara 60% af stuðningsmönnum Samfylkingarinnar og einungis 26% af Íslendingum almennt, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun, sem birt var í byrjun þessa mánaðar. (Sjá hér.)
  • Í maí–júní 2009, þegar þingsályktunartillaga lá fyrir Alþingi um að sækja um “aðild” að ESB, var gerð Capacent-Gallup-könnun um afstöðu almennings og spurt: “Hversu miklu eða litlu máli finnst þér skipta að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu?” Þá reyndust heil 61,1% svara: “Mjög miklu máli”, en 15,2%: “Frekar miklu máli” (alls 76,3%), en 4,9% sögðu: “Frekar litlu máli” og 13% “mjög litlu máli”; en “hvorki né” sögðu 5,8%. (Heimild hér.)  
  • En þessari áherzlu almennings á það að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um UMSÓKNINA HAFNAÐI Samfylkingin. Hún er ekkert fyrir lýðræði, þegar það er henni til trafala!
  • Engu breytti, þegar það kom í ljós í Gallupkönnun lok ágúst og byrjun september 2009, þar sem spurt var: “Ef aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) yrði borin undir þjóðaratkvæði í dag, hvernig telur þú líklegast að þú myndir greiða atkvæði?“, að þá svöruðu einungis 16,1%: Örugglega með aðild, en 22,4%: Sennilega með aðild, en hins vegar 22,9%: Sennilega á móti aðild, og 38,6% svöruðu: Örugglega á móti aðild. Alls voru þannig 61,5% sennilega eða örugglega “á móti aðild”, en 38,5% með henni. Nú hefur sú tala reyndar hrunið niður í 26% (sjá ofar)!

Ætli þessi Füle láti sig þetta nokkru varða? Er hann ekki hvort sem er með nóga peningasekki, sem bíða þess að verða dreift yfir Ísland í formi “kynningar” og áróðurs?

En þetta er sem sé nýi útþenslumálaráðherrann. Sennilega flestir búnir að gleyma því, hvað sá fyrri heitir; hann er orðinn kommissar á öðrum stað.

En hann Füle ætlar ekki bara að koma Íslandi í Brusselbandalagið. Hann er að fást við fleira, karlinn. Honum er mjög annt um að fá TYRKLAND líka í bandalagið. Lesið þessa frétt af rúmlega tveggja vikna gömlum ummælum hans:

  • This week (12 July) EU Enlargement Commissioner, Stefan Füle, assured Turkey that the EU was committed to the Muslim country becoming a full member, saying that ways of accelerating the process would be worked on. “There should be a zero doubt policy about our commitment,” Füle told a joint news conference with Turkish ministers in Istanbul. (Heimild hér.)

Þarna segir, að Füle hafi á fundi með tyrkneskum ráðherrum í Istanbúl fullvissað Tyrkland um að Evrópubandalagið teldi sig skuldbundið þessu múslimalandi, að það fengi að verða fullur meðlimur ESB og að til þess yrði beitt flýtimeðferð. Enginn vafi ætti að leika á þeirri skuldbindingu ESB.

Þetta eru fréttir til næsta bæjar. Tyrknesk stjórnvöld hafa beðið lengi eftir þessu. Nú fer þetta að gerast. Fyrst á þó að taka inn “litla Ísland” og kannski Króatíu. Þeim finnst eflaust áríðandi að fá þennan feita bita, Ísland, áður en yfirvofandi aðild Tyrklands kemst í hámæli, enda hefur ekkert heyrzt af henni hér á landi í ESB-vilhöllu fjölmiðunum þrátt fyrir yfirlýsingu stækkunarstjórans í Istanbúl.*

Ég ætla að skjóta inn í þetta sannri sögu. Það er ekki lengra síðan en í gærkvöldi að ég hitti kunningja sem upplýsti mig allt í einu um það, að hann hefði verið á ferð í Noregi, úti á landi, og komið þar inn í flóttamannastöð. Þar voru nokkrir Afganar, og hann þáði að drekka með þeim te. Þegar á leið spjallið, trúði einn þeirra honum fyrir því, að hann væri talibani.

Þetta fannst kunningja mínum í meira lagi merkilegt – talibani í Noregi! – þegar hann sagði mér og öðrum frá þessu. En ef róttæklingur frá Afganistan fær auðveldan aðgang að Noregi, hvernig verður þá með tyrkneska heittrúarmenn? Verði Tyrkir – eins og Stefan Füle boðar – ESB-borgarar (73 milljónir manna), munu þeir njóta þar allra borgararéttinda, ferða-, dvalar- og starfsleyfis innan hvaða ESB-lands sem er. Þeir munu geta leynzt hvar sem er, frá Gíbraltar til Finnlands og frá Grikklandi til Íslands, og beitt sér gegn sínu nýja heimaríki, jafnvel þótt það sé stórveldi; þjóðlöndin innan þess geta þeir svo reynt að kúga með hótunum í verki, t.d. að látið verði undan einhverjum óbilgjörnum kröfum þeirra. En á efnahags- og atvinnusviðinu geta hinir margfalt fleiri heiðarlegu menn meðal landsmanna þeirra auðveldlega undirboðið sig í gegnum verktaka og náð til sín störfum frá íbúum þess lands, þar sem þeir taka sér búsetu.

Skyldu “verkalýðssinnarnir” Össur og Árni Þór hafa hugsað út í þetta? Eða “friðarsinnarnir” Ingibjörg Sólrún og Þórunn Sveinbjarnardóttir?

Og hvernig lízt íslenzku þjóðinni á málið? Er það í alvöru svo, að vegna þess eins, að Evrópuþjóðirnar eru orðnar svo náttúrulausar, að þær tímgast varla – og alls ekki að nægu gagni – þurfum VIÐ að lúta því að ganga í yfirríkjabandalag, sem verður, sem afleiðing af innkomu Tyrklands, fjarri því að vera friðsamlegt vegna sinna innri mótsagna og hörðu þjóðernis- og trúarárekstra á næstu áratugum? Hræða ekki sporin, þegar horft er á 30.000 manna fórnir í átökum Tyrkja og Kúrda á síðustu áratugum eða þegar litið er til hjaðningavíga sjíta og súnníta í Írak og víðar, gjarnan við moskur þeirra?

Ætlum við að ganga með opinn faðminn á móti þessari nýju Evrópu, sem Brusselbandalag Stefans Füle býður okkur að láta innlimast í ?

* Hér verður nú – að loknum fréttatíma Rúv í hádeginu 27. júlí – að bæta því við, að minnzt var á það í fréttum þar, að brezki forsætisráðherrann Cameron styður inngöngu Tyrklands í ESB.  Þar segir m.a.:

  • Landið yrði eitt það fjölmennasta í ESB með um 72 milljónir íbúa, langflestir múslimar. Óttast er að fjöldi tyrkneskra verkamanna muni flæða inn til Evrópu þegar vinnumarkaður Evrópusambandsins opnast þeim og aðrir hafa áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum af aðild Tyrklands.

Bæta má við, að ýmsir ráðamenn ESB voru reyndar mjög andvígir inngöngu Tyrkja, ekki sízt Valéry Giscard d’Estaing, fyrrverandi Frakklandsforseti, en á slíka mun ekki lengur hlustað sem áður, enda er neyð bandalagsins mikil, að þurfa að horfa upp á stórfellda fækkun eigin vinnuafls-kynslóðar á næstu áratugum á sama tíma og öldruðum fjölgar gríðarlega, líftími lengist og byrðarnar STÓRAUKAST á herðum hinna vinnandi vegna eftirlauna, elliheimila-, heilbrigðis- og sjúkrahúsþjónustu gamla fólksins!

Og milljónirnar í Tyrklandi voru reyndar 72,5 árið 2009 (ekki 72 nú, eins og Rúv sagði), skv. Wikipediu, og fjölgunin um 1,272% á ári, vil ég bæta við! Fact Book CIA áætlar Tyrki reyndar 77.804.122 manns í júlí 2010 (heimild:hér).

Tyrkir draga þar hratt á fjölmennustu þjóð Evrópubandalagsins, Þjóðverja, sem voru taldir 81.757.600 1. janúar sl., en þar fæðast hins vegar einungis 1,38 börn á hverja konu, sem er eitt það minnsta í heiminum (heimild: hér), og þess vegna blasir þar við mannfækkun: niður í 65–70 milljónir manna árið 2060 (65 milljónir, ef gert er ráð fyrir innflutningi 100.000 eða fleiri nýbúa ár hvert; 70 milljónir, ef gert er ráð fyrir innflutningi 200.000 eða fleiri nýbúa ár hvert.[heimild]

Þarna eru sannarlega ærin umhugsunarefni fyrir þetta útópíska bandalag hans Össurar Skarphéðinssonar og vinar hans Stefan Füle stækkunarstjóra, engu síður en fyrir Angelu Merkel og David Cameron!

  • Viðauki 12.12. 20011:
  • Eins er það ærið umhugsunarefni fyrir Evrópusambandið að treysta sér til að vera með gamlan kommúnista úr rússneskum diplómataskóla tengdum KGB í áhrifastöðu í framkvæmdastjórninni. Þar er reyndar annar gamall kommúnisti fyrir, sjálfur forseti framkvæmdastjórnarinnar: Barroso!
  • Menn skyldu ekki láta koma sér á óvart, ef skyndilega verður tilkynnt um umsókn Rússlands í Esb., jafnvel einmitt nú, við tugþúsunda-mótmæli í Moskvuborg. Ekki yrðu stjórnarhættir Esb. lýðræðislegri við það – né við inntöku Tyrklands. Færu bæði ríki inn, myndi “væntanlegt” atkvæðavægi innlimaðs Íslands í ráðherraráði og leiðtogaráði Esb. lækka úr 0,06% niður í 0,04%!
Jón Valur Jensson.

mbl.is Vilja Ísland í ESB en ekki Tyrkland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við gjöldum fyrir reglugerðarfargan og viðskiptahindranir ESB, m.a. gegn bandarískum barnabílstólum!

Birgir Steingrímsson á þetta glögga innlegg á Eyju-vefsíðu í dag:

ESB leggur á tolla og er með margskonar viðskiptahindranir til að koma í veg fyrir samkeppni frá ríkjum utan sambandsins. Nýjasta dæmið er hvernig komið er í veg fyrir að almenningur á Íslandi geti keypt góða og ódýra barnabílstóla frá USA, en er þvingaður í staðinn til að kaupa barnabílstóla frá Evrópu á uppsprengdu verði. Staðreyndin er sú að lífskjör almennings í Evrópu eru að hrynja vegna reglugerðarfargans og ofurskattlagningar. Gott dæmi um hverskonar áhrif reglugerðarfarganið er að hafa á atvinnustarfsemi á Íslandi er sú staðreynd að einstaklingur hefur beðið eftir leyfi til að hefja kræklingaræktun í 5 ár og ekki enn fengið leyfið! Nýja byggingarreglugerðin er annað dæmi og svo má lengi telja.


Eins og Norðmenn gerðu

Frá Birni S. Stefánssyni

Björn S. Stefánsson
Björn S. Stefánsson
 

Við ættum að geta gert eins og Norðmenn gerðu, nefnilega að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig má heyra, þegar rætt er um Evrópusambandsmálið. En hvað gerðu Norðmenn?

Norðmenn bjuggu sig undir Efnahagsbandalagsmálið á sjöunda áratug síðustu aldar með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um framsal á valdi. Það var þannig, að framsal á valdi til bandalags ríkja, sem Noregur er aðili að, getur gerst með samþykki þriggja fjórðu þingmanna.

Aðild að Efnahagsbandalaginu var á dagskrá í Noregi fljótlega eftir þessa stjórnarskrárbreytingu. Mið-hægristjórn Bortens vann að henni, en málinu var hleypt upp. Stjórn Verkamannaflokksins, undir forystu Brattelis, hélt málinu áfram. Fyrirsjáanlegur var meirihluti á þingi fyrir aðild, en ekki þrír fjórðu. Samtök fyrir aðild lögðu þá til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún var ekki bindandi, því að engin ákvæði voru um slíkt í stjórnarskránni. Ef einhverjir þingmenn, sem voru andvígir aðild, mundu greiða atkvæði með aðild með vísan til þess, að meirihluti þjóðarinnar hefði reynst vera fylgjandi aðild, hefði meirihlutinn á þingi getað farið í þrjá fjórðu. Andstæðingar aðildar lýstu sig samþykka þjóðaratkvæðagreiðslu, og þingið ákvað, að hún skyldi fara fram. Þá varð heiftúðugt stríð meðal landsmanna. Fullur fjandskapur varð gjarna meðal vina og ættingja. Í Verkamannaflokknum var kröftugur minnihluti andvígur aðild. Bratteli lýsti því, að stjórn hans mundi segja af sér, ef þjóðin felldi aðild. Svo fór. Það var 1973, og Bratteli sagði af sér. Aðildarsamningurinn var ekki borinn undir þingið.

Árið eftir heyrði ég Einar Gerhardsen, fyrirrennara Brattelis, á málstofu um þjóðaratkvæðagreiðsluna í stjórnmálafræðideild Oslóarháskóla lýsa afsagnarhótun Brattelis sem býsnum. Ef enginn hefði komið fram í andstöðu við aðild í flokknum, sagði hann, hefði flokkurinn þurft að búa til slíka andstöðu í honum. 1994 var eins og 1973, að á þingi var meirihluti með aðild. Þjóðaratkvæðagreiðsla (ekki bindandi) fór fram, og aðild var hafnað. Samningur Noregs um aðild var ekki borinn undir þingið.

Síðar hefur það gerst fyrir þingkosningar, að andstæðingar aðildar hafa kannað skipulega meðal frambjóðenda, sem voru líklegir til að ná kjöri og höfðu lýst sig andstæða aðild, hvort þeir ætluðu að standa við það, enda þótt þjóðaratkvæðagreiðsla færi á annan veg. Þá hafa aðildarsinnar á þingi lagt til að breyta ákvæði stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta úr þremur fjórðu í tvo þriðju, en án árangurs.

BJÖRN S. STEFÁNSSON, dr. scient.

 

Frá Birni S. Stefánssyni.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 14. maí sl. Endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Geta má þess, að dr. Björn er mjög kunnugur málefnum Norðmanna, hefur sínar prófgráður þaðan og starfaði þar um árabil. 


Króatar fá ENGAR undanþágur frá fiskveiðistefnu ESB sem gefur Ítölum o.fl. afnot af króatískri landhelgi upp að 12 mílum!

Það SAMA mun gerast hér, ef kvislingar okkar fá að ráða ferðinni ...

  • „Það fóru alls engar samningaviðræður fram, við náðum engum árangri í ferlinu. Við komumst aðeins að raun um að það var ekkert í boði annað en að samþykkja það sem boðið var upp á.“ Þetta er haft eftir króatíska sjómanninum Danilo Latin í frétt Reuters en fjölskylda hans hefur haft viðurværi sitt af sjósókn í fjóra ættliði. Króatía gekk formlega í Evrópusambandið á miðnætti í gær í kjölfar viðræðna við sambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu. (Mbl.is.)

Hér er ekki um lítið hagsmunamál að ræða fyrir hina 4,4 milljóna þjóð Króatíu. Þótt henni hafi boðizt tímabundin aðlögun í smávægilegum atriðum, fær hún enga undanþágu til frambúðar frá ESB-reglunni um sameiginlegan aðgang að fiskimiðunum og fullan rétt borgara í hvaða ESB-ríki sem er til að kaupa sig inn í fiskveiðileyfi, jafnvel innan 12 mílnanna! Sjá um það meðfylgjandi frétt (tengill hér neðar).

  • Fram kemur í fréttinni að flestir þarlendir sjómenn, sem séu um 3.700, óttist að inngangan kunni að hafa í för með sér endalok króatísks sjávarútvegar en í viðræðunum við Evrópusambandið var samið um nokkrar tímabundnar aðlaganir að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins, meðal annars varðandi notkun veiðarfæra og fiskveiðar til eigin neyslu. „Ég er hræddur um að margt eigi eftir að koma okkur óþægilega á óvart,“ segir Latin ennfremur og vísar þar meðal annars til aukinna takmarkana á sjósókn, minni niðurgreiðslna og kröfu um breytt veiðarfæri sem hafa muni í för með sér mikinn kostnað.
  • Hafa áhyggjur af ásókn ítalskra sjómanna
  • Fram kemur í fréttinni að flestir aðrir sjómenn í strandhéröðum Króatíu deili áhyggjum Latins. Þeir telji að króatísk stjórnvöld sem sömdu um inngöngu landsins í Evrópusambandið hafi ekkert gert til þess að standa vörð um hagsmuni þeirra. Þar segir ennfremur að inngangan muni hafa í för mér sér að fiskiskip frá öðrum ríkjum sambandsins muni fá aðgang að efnahagslögsögu Króatíu. Mestar áhyggjur heimamanna í þeim efnum snúa að ítalska fiskiskipaflotanum. (Mbl.is.)
Málið stendur raunar verr en þetta. Í 1. lagi (feitletrun jvj):
  • Haft er eftir Miro Kucic, aðstoðarlandbúnaðarráðherra Króatíu, að margfalt meiri fisk sé að finna í Króatíumegin í Adríahafinu en Ítalíumegin. Hagsmunir Ítala af því að komast í króatísk fiskimið væru því miklir og því mikilvægt að vinna að því með ítölskum stjórnvöldum að vernda fiskistofnana á svæðinu. Hins vegar sé gert ráð fyrir því að 12 mílna landhelgi Króatíu sé eingöngu fyrir króatíska sjómenn.

Í 2. lagi: Þessi einkaafnot Króata að 12 mílunum (einungis!) eru ekki einu sinni trygg! – sjá neðar!

Í 3. lagi: Ekki aðeins Ítalir, heldur hvaða ESB-þjóð sem er getur nú gengið að króatísku fiskveiðilögsögunni utan 12 mílna. Þar koma Frakkar og Spánverjar helzt til greina, með tugþúsundir atvinnulausra sjómanna og vannýtt fiskiskip. Spánverjum er ekkert að vanbúnaði að sækja innst í Adríahafið, þeir eru við austurströnd Norður-Ameríku, Grænland, Senegal í A-fríku og suður með allri vesturströnd Afríku með sinn mikla flota stórvirkra verksmiðjutogara.

  • En Latin segir að engin trygging sé fyrir því að Króatar sitji einir að 12 mílunum. Ítalskar útgerðir þurfi einungis að semja við króatískan sjómann sem sé reiðubúinn að selja veiðileyfi sitt og hætta sjálfur starfsemi og stofna síðan eigið fyrirtæki í Króatíu. (Mbl.is, áfram byggt á Reuters-fréttinni; leturbr. hér.)

Svo spá þessir vonsviknu menn í, að inn komnir í Evrópusambandið geti þeir reynt að hefja baráttu fyrir hagsmuni króatískra sjómanna á vettvangi þess, "í ljósi sérstakra aðstæðna í Adríahafi"! Og jafnvel þótt það ólíklega gerðist, að smáríkinu tækist að fá samþykkt frávik frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB (CFP), þá "kunni það að vera of seint" – skaðinn hafi þá þegar átt sér stað.

En Króatar eru líka raunsærri um sumt en ýmsir ESB-bjartsýnisglóparnir hér á landi:

  • „Það var ekki hægt að ætlast til þess að Evrópusambandið samþykkti okkar lög í viðræðunum,“ segir Kucic. 
Auðvitað ekki – í Evrópusambandinu ríkja nefnilega ESB-lög! Evrópusambandið var ekki að innlimast í Króatíu og lagaverk hennar, heldur öfugt!

 

Hin afleita reynsla af ESB-inntöku Slóveníu fyrir sjávarútveg þar

Slóvenía liggur milli Ítalíu og Króatíu. Á Istria-skaga sem skiptist milli þessara þriggja landa, var sjávarútvegur ábatasamur fyrir einum áratug, en hefur hnignað "vegna verri stöðu fiskistofna og aukinnar skriffinnsku" (Mbl.is.)
  • Hliðstæða sögu segir slóvenski sjómaðurinn Loredano Pugliese sem gerir út frá hafnarborginni Izola. Hann segir að staða sjávarútvegsmála í Slóveníu hafi sífellt orðið verri undanfarin ár en landið gekk í Evrópusambandið árið 2004. Þegar hafi orðið mikill samdráttur í greininni. Izola hafi áður verið þungamiðjan í slóvenskum sjávarútvegi en 30 fiskiskip séu nú gerð út frá borginni samanborið við 400 fyrir áratug. Pugliese segir fiskveiðistjórnun sambandsins einkum bera ábyrgð á þessari þróun. Ef fer sem horfir segir hann enga sjómenn verða eftir á svæðinu og hann óttist að það sama verði raunin í Króatíu. (Mbl.is.) 

Vilja nú ekki ESB-sinnarnir fagna þessum gríðarlegu framförum sem átt hafa sér stað í krafti hinnar hjálpræðislegu ESB-"aðildar" Slóveníu og óska Króötum annarrar eins blessunar?!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Króatískir sjómenn óttast framtíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband