Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Evrópusambands-baráttujálkar snúa staðreyndum um stefnu ríkisstjórnarinnar á haus í nýrri sagnaritun!

Merkilegt er það, sem vakin er athygli á í leiðara Morgunblaðsins, hvernig Samfylkingin, m.a. Össur Skarphéðinsson, mistúlka stefnu Sjálfstæðisflokksins um aðildarviðræður við ESB og þjóðaratkvæðagreiðslu. Gróf fölsun blasir við í nýrri sagnaritun leiðandi evrókrata og tilgangurinn bersýnilega sá að setja pressu á stjórnvöld. Ófyrirleitið er það, þegar meðulin eru þau að snúa stefnu stjórnarflokkanna á haus.

Leiðari Mbl. í dag er undir fyrirsögninni Enn hefur ekki verið rétt lesið í kosningarnar og er mjög áhugaverður. Meðal helztu punkta þar eru verðug svör við ótrúverðugum málflutningi fyrrverandi ráðherrans Össurar í útvarpsviðtali í gær. Þar hélt hann því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði "lofað að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna," en rétta svarið við því er, að flokkurinn gaf út þá landsfundarályktun sína, að :

  • "Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu" (feitletrun hér, jvj).

Augljóst er þarna, hver vilji og stefna flokksins er, eins og hún var samþykkt þarna með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða landsfundarmanna 21.-24. febrúar sl. (sjá HÉR).

Með orðum leiðarahöfunda(r) Morgunblaðsins:

Þetta er auðvitað ekki loforð um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum kosningum, heldur þvert á móti loforð um að hætta viðræðunum. Um leið er því lofað að viðræður yrðu aldrei hafnar á ný nema þá að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvelt er að sjá hvers vegna slík setning er höfð með enda knúði vinstristjórnin í gegn aðildarumsókn án þess að spyrja þjóðina álits.

Það er alls ekki á dagskrá núverandi stjórnarflokka að stefna að inngöngu í Evrópusambandið, þvert á móti boðuðu þeir fyrir kosningar, að viðræðunum (sem eru þó ekki "samningaviðræður", eins og oft heyrist haldið fram, heldur þáttur í aðlögunarferli) skyldi HÆTT, enda væri hagsmunum þjóðarinnar betur borgið með því að standa utan Evrópusambandsins.

Þjóðaratkvæðagreiðsla kom í þessu sambandi einungis til greina, ef ákvörðun flokkanna og fyrst og fremst Alþingis myndi snúast í þessu máli, í það að vilja "taka upp" slíka umsókn um að ganga í Evrópusambandið. Gegn þeim hugsanlega möguleika settu flokkarnir samt það skilyrði, að það yrði þá einungis eftir að þjóðin yrði spurð álits á því í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta er EKKI loforð um að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu, enda er ekkert sem neyðir núverandi stjórnarflokka til að endurskoða andstöðu sína við Evrópusambands-inngöngu.

Hér var aðeins drepið á eitt stórt atriði í þessum athyglisverða leiðara Morgunblaðsins, og ættu áhugamenn um málið að lesa hann sjálfan, en þar kemur m.a. fram, hvernig Össur Skarphéðinsson reyndi með orðagjálfri að véla Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til að samsinna sér í umræðuþættinum, en hún lét ekki blekkjast og minnti m.a. á afhroð ESB-stefnu Samfylkingarinnar í kosningunum í vor.

Lokaorð leiðarans eru svo verðug áminning til leiðtoga stjórnarflokkanna. 

Jón Valur Jensson. 


Standið í lappirnar, ráðherrar, gagnvart hótandi Evrópusambandinu, það gera Færeyingar!

 

16-17% aflahlutdeild í makrílveiðum á NV-Atlantshafi var talin lágmarkskrafa okkar, en nú berast ítrekaðar fregnir um, að ríkisstjórnin hafi sett markið við 12% (50-60 þúsund tonna eftirgjöf!). SVIK eru það og ekkert annað, ef rétt reynist. Jón Bjarnason, fv. sjávarútvegsráðherra, hefur haldið uppi réttmætri, bráðnauðsynlegri gagnrýni á þetta framferði ráðamanna núverandi ríkisstjórnar, – "gagnrýnir Jón eftirmann sinn Sigurð Inga Jóhannsson og Framsóknarflokkinn harðlega fyrir að bogna undan hótunum Evrópusambandsins," segir í Mbl.is-frétt um málið.

Jón bendir einnig á, að Evrópusambandið hafi „beitt hótunum og ólögmætum yfirgangi“ í makríldeilunni bæði gagnvart Íslendingum og Færeyingum.

Færeyingar höfnuðu 11,9% tilboði hins valdfreka stórveldabandalags. Það sama eigum við að gera. Botninn er dottinn úr paník-yfirlýsingum Brussel-manna um að makrílstofninn sé í einhverri hættu – hann reynist langtum stærri en þeir höfðu reiknað með fyrir nokkrum mánuðum! Samt láta þeir eins og hér sé einhver þörf á þrengingu aflaheimilda Íslendinga og Færeyinga, þjóðanna sem eiga það landgrunn þar sem makríllinn kýs að halda sig og innbyrðir gífurlegt magn átu, m.a. á kostnað annarra fisktegunda og fuglalífs við löndin tvö.

Hroka og yfirgang hefur ESB sýnt þessum löndum og Grænlandi – sýnt sitt rétta andlit, alveg eins og í Icesave-málinu, þar sem Brusselvaldið réðst með beinum hætti á lagalegan rétt okkar og þjóðarhagsmuni. Og norska ríkisstjórnin reynist okkur sem fyrr verri en engin.

En hingað til hafa engir íslenzkir þingmenn eða ráðherrar riðið feitum hesti frá því að leggjast marflatir fyrir kröfum þessa hótunar- og kúgunarvalds.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Kannast ekki við 12% markmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refjar ESB með IPA-"styrkjunum"

Lúmsk var aðferð Evrópusambandsins, eins og raunar vita mátti fyrir fram: IPA-styrkirnir voru ekki aðeins ætlaðir til að liðka fyrir aðlögun lagaverks og stjórnkerfis Íslands að stórveldabandalaginu, heldur var þetta gert í gegnum íslenzk stjórnvöld (að vísu hækjustjórnvöld 2009-13, en Sigmundar- og Bjarnastjórnin situr í sömu súpu), þannig að þau þyrftu fyrst að ábyrgjast IPA-greiðslur fyrir þau samþykktu verk, sem unnin væru, en síðan fengi íslenzka ríkið þetta endurgreitt frá Evrópusambandinu. Nú er búið að vinna ýmis verkin og ætlazt til, að ríkissjóður borgi (þótt illa standi), unz ESB endurgreiði, en þá hefur Evrópusambandið þá skrúfu á stjórnvöld hér, að það vill ekki endurgreiða! Samt þjónuðu þessir styrkir fyrst og fremst Evrópusambandinu!

Allt er þetta eitt refjalið í Brussel. Það getur ekki beitt okkur hervaldi, en þar með er ekki sagt, að Brusselmenn beiti okkur ekki valdi, refjum og svikum. Þeir veittust gegn okkur í Icesave-málinu ítrekað; þeir gera það í makrílmálinu með smánartilboði, sem fæli í sér 13% minnkun veiða okkar, og reyna að sveigja Gunnar Braga til, af öllum mönnum, og þeir gera það einnig í IPA-málunum og kunna því einkar vel, ef núverandi ráðherrar komast í klandur.

Þetta Evrópusamband hefur ekki gefið okkur neitt. Athyglisverð er grein Vigdísar Hauksdóttur í Mbl. 5. nóv. 2010: 'Rúmir átta milljarðar ESB-ríkjanna'. Þar sést hvernig Jóhönnustjórnin vildi leggja átta milljarða kr. álögur á Íslendinga, til hagsbóta fyrir 15 ESB-ríki, til næstu fimm ára, þótt okkur bæri engin skylda til þess að lögum. Þannig vinna ESB-hækjur og Evrópusambandið sjálft gegn hagsmunum Íslands.

Jón Valur Jensson.


mbl.is ESB sjálft slitið viðræðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varlega, Gunnar Bragi Sveinsson, semdu ekki af þér við óvini okkar!

Ærin ástæða er til að veita stjórnvöldum hér -- og utanríkisráðherranum sérstaklega -- aðhald í makrílmálinu. Hættulegar tillögur gætu legið í loftinu og falið í sér, ef Evrópusambandið aðhyllist þær, undanhald af okkar hálfu og stórtjón landsins, m.a. ef svo færi, að makrílstofninn skryppi saman eftir nokkur ár og að við, þrátt fyrir áframhaldandi miklar göngur hans hingað, værum þá með allt of lítinn hlut úr honum miðað við þá viðveru hans hér og ágengni á fæðustofna hans hér.

Sjá einnig hér: Full ástæða er til að AUKA makrílhlut okkar, alls ekki að skerða hann!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vill leysa deiluna fyrir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1. desember - nauðsyn heitstrengingar við sjálfstæði okkar og vel heppnaður fullveldisfagnaður sjálfstæðishreyfinga

Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki fyrir 95 árum, 1. desember 1918. Að því stefndi þróun og þroski þjóðarinnar, sjálfsvitund, atorka og áræði. Úrtölumenn urðu undan að láta. En nú heyrast aftur hjáróma raddir þeirra sem efast um gagnsemi þess, að við stöndum áfram sjálfstæð og fullvalda, og eru þær eigindir þó öflugustu varnir smárra þjóða.

Sjálfstæðið hefur einnig reynzt okkur sívirk auðlind, veitt okkur fjögurra, tólf, fimmtíu og tvö hundruð mílna fiskveiðilögsögu og stutt að varðveizlu sérstöðu okkar meðal þjóða og eflt okkur í atvinnuefnum. Það er því fráleitt þegar nokkrir Íslendingar láta sér detta í hug að afhenda æðstu fullveldisréttindi yfir þessu elskaða landi okkar í hendur meginlandsmanna á ný.

Hjá Heimssýn, í nýrri miðstöð félagsins að Hafnarstræti 20 (steinhúsinu við Lækjartorg, 2. hæð), var í dag haldið upp á fullveldisdaginn, á fundi sem á 2. hundrað manns mun hafa sótt, en þar voru ekki aðeins félagsmenn úr Heimssýn, heldur einnig félaganna Ísafoldar, Herjans og Nei við ESB. Ræðumenn voru Jón Bjarnason, fv. ráðherra, Jóhanna María Sigmundsdóttir, yngsta alþingiskonan, og Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar. Inga Bachmann söng einsöng við harmonikkuleik, falleg íslenzk lög, Bjarki Karlsson, verðlaunahafinn úr ljóðakeppni kenndri við Tómas Guðmundsson flutti langan og góðan brag úr verðlaunabók sinni, Árleysi alda, og endað var með öflugum og áhrifamiklum fjöldasöng. 


mbl.is Mætti gera meira úr 1. desember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband