Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Nýtt hlutverk Evrópusambandsins - eða fylgt eftir stefnu þess að komast yfir Úkraínu?*

"Á síðasta ári fékk Euronews, sem sendir út fréttir á mörgum tungumálum, 25,5 milljóna evra styrk til þess að auka útsendingar á rússnesku og úkraínsku." (= um 3,3 milljarðar ísl. kr.) Þetta var lokasetningin í athyglisverðri grein Styrmis Gunnarssonar: ESB lýsir yfir upplýsingastríði á hendur Rússum.

* Herman van Rampuy, sjálfur forseti ráðherraráðs ESB, lýsti því yfir, að Úkraína ætti heima í Evrópusambandinu. Hann kom ekki með þessa yfirlýsingu sem prívatmaður, heldur sem forseti valdamestu stofnunar Evrópusambandsins. Þetta var því álit og vilji Evrópusambandsins sjálfs, enda hafa hvorki ráðherra­ráðið né framkvæmdastjórn (EC) sambandsins komið fram með neina leiðrétt­ingu á þessum orðum Rampuys.

Og orðum fylgja gerðir.

Jón Valur Jensson.


Ánægjufrétt síðustu viku: "Evrópustofu" verður lokað 1. september

Það styttist í lokun hennar: eftir 5 daga! Fréttin kom á vefsíðu áróð­urs­stof­unnar; rekstrar­samn­ingur henn­ar renn­ur út í lok ág­úst. Hún hefur nú spanderað hér hundruðum milljóna frá ársbyrjun 2012 ...

"í tengsl­um við um­sókn Íslands um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið. Rekst­ur henn­ar hafði áður verið boðinn út og í kjöl­farið samið við ís­lenska al­manna­tengsla­fyr­ir­tækið At­hygli og þýska al­manna­tengsla­fyr­ir­tækið Media Consulta. At­hygli sagði sig frá verk­efn­inu á síðasta ári og var öll­um starfs­mönn­um Evr­ópu­stofu sagt upp störf­um. Media Consulta hef­ur síðan eitt séð um rekst­ur­inn." (Mbl.is)

Hér skal tekið undir hvatningu um, að birtir verði reikningar um útgjöld þessarar rangnefndu "Evrópustofu" (Evrópusambands-áróðursstofa er hún). Til hverra fóru greiðslur, til hvaða samtaka og einstaklinga og til hvaða áróðurs­verkefna og auglýsinga? Krafan er eðlileg. Þetta er geipilegt fé í heildina talið:

Samn­ing­ur­inn um rekst­ur Evr­ópu­stofu var til tveggja ára með fjár­fram­lagi upp á allt að 1,4 millj­ón­ir evra eða rúm­lega 200 millj­ón­ir króna. Sam­kvæmt samn­ingn­um var heim­ilt að fram­lengja hann um tvö ár til viðbót­ar. Það er fram á þetta ár. (Mbl.is)

Íslenzk stjórnvöld höfðu lýst þeirri stefnu sinni, að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu, og þótt því hafi verið tekið seinlega og af ólund í Brussel (auk þess sem utanríkisráðherrann hefur ekki beitt sér af styrk í málinu), þá var "tek­in ... ákvörðun um það af hálfu Evr­ópu­sam­bands­ins að bjóða rekst­ur Evr­ópu­stofu ekki út á nýj­an leik" (Mbl.is). Vonandi verða það endalokin á ásælni þessa stórveldabandalags á hendur okkur.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrópustofu lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af yfirgangi valdfrekra

"Ég minnist þess einnig þegar Evrópusambandið tók sér lögregluvald  og rak fulltrúa okkar á dyr af sameiginlegum fundi strandríkja sem veiddu makríl."

Þetta er enn eitt dæmi um yfirgang Evrópusambandsins gagnvart Íslendingum. Jón Bjarnason fyrrv. sjávarútvgsáðherra, ritaði þssi orð í fróðlegri grein sem menn ættu að lesa og er hér: Svartur sjór af makríl í íslenskri lögsögu.

JVJ.


Gunn­ar Bragi bíður línunnar frá Brussel

Ut­an­rík­is­ráðherra seg­ir enn verið að "kort­leggja" hvernig bregðast eigi við viðskiptaþving­un­um Rúss­lands, klórar sér NÚ í hausnum yfir því, sem átti að liggja fyrir löngu áður!

Nú bíður hann og sam­ráðshóp­ur stjórn­valda og fulltrúa sjáv­ar­út­vegsins eft­ir því að starfs­menn Evr­ópu­sam­bands­ins komi úr sum­ar­fríi, svo að viðræður stjórn­valda og ESB um áhrif viðskiptaþving­ana geti haf­izt. Mbl.is sagði frá í dag.

Gunn­ar Bragi seg­ir að í viðræðunum verði farið fram á greiðan aðgang fyr­ir ís­lensk­ar sjáv­ar­af­urðir inn á Evr­ópu­markað. Hann býst við því að þess­ar viðræður hefj­ist fyrri hluta sept­em­ber­mánaðar. (Mbl.is)

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið! Viðræðunum gæti þá kannski með hrað­asta gangi lokið um 10.-15. september, þegar langt er liðið á makrílvertíðina. Ef ESB gefur sig að veita undanþágur frá 18% tolli sínum, geta menn þá stefnt skipum sínum úr höfn í von um hugsanlega seljanlegan afla. Þvílíkur snillingur, Gunnar Bragi, og afburða-tillitssamur um leið að láta segja sér, að á ýmsum skrifstofum þessa stórveldis sé enginn maður starfandi í 5-6 vikna sumarfríi!

Það verður ekki annað sagt en að þessi utanríkisráðherra sé einstaklega forsjáll og fyrirhyggjusamur!!!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Bíða eftir að ESB komi úr sumarfríi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unnur Brá lætur sem kjósendur sínir vilji viðskiptabannið! Landið óvarið án banns!

Unnur Brá ræddi flótta­manna­mál o.fl. í Vikulokunum í dag. Athygli vekur réttlæt­ing hennar á við­skipta­þving­unum við Rússa: 

"Við eigum allt okkar undir því, að aðrar þjóðir og við stöndum saman í þessari baráttu, þannig að ef á reynir, þá séum við ekki ein hér úti í Ballar­hafi með engar varnir, um það snýst þetta." (Leturbr. hér.)

Af þessum orðum þingkonunnar mætti ímynda sér, að íslenzk stjórnvöld hafi í máli þessu tekið sína ákvörðun undir hótunum NATO-ríkja um að Ísland yrði ekki varið gegn hugsanlegri innrás frá Rússlandi, nema við gerðum það þeim til þægðar að taka þátt í þessum aðgerðum ESB og Bandaríkjanna gegn Rússlandi! Ef þetta lá að baki ákvörðun stjórnvalda, þá ættu Unnur Brá og utanríkisráðherrann að skýra þjóðinni frá því.

Unnur áfram: "Og auðvitað er það stundum erfitt. Ef maður stendur ekki fast við sín princíp í pólitík, þá getur maður alveg eins sleppt þessu og farið bara heim að gera eitthvað annað." Áður hafði hún sagzt skilja áhyggjur sjávar­útvegsins, en bætti við: "En ég er algerlega ósammála því að við eigum að gefa eftir þessi princíp." (Framhaldið svo eins og hér efst.)

Helgi Seljan: "En þetta hlýtur að vera samt áhyggjuefni fyrir þessa staði, eins og Vestmannaeyjar, Hornafjörð, til dæmis?"

Svar Unnar Brár var mjög athyglisvert:

"Auðvitað er þessi staða áhyggjuefni fyrir þessa staði. En ég hef ekki heyrt fólkið þar heima gera þá kröfu að Ísland breyti sinni utanríkisstefnu, alls ekki, eins og sumir þingmenn eru að halda fram, að við eigum að gera, alls ekki, heldur að við eigum að reyna að takmarka tjónið og reyna að leita einhverra leiða til að koma verðmætunum í einhvern pening. En það var auðvitað erfitt að átta sig á því, hvað nákvæmlega Rússar myndu ... til hvaða aðgerða þeir myndu grípa, erfitt að áætla það, hvað það myndi kosta Ísland þegar var verið að taka þessa ákvörðun. Og ég spyr bara á móti: Hvaða verðmiða hefðum við átt að setja á það?"

Merkilegt viðhorf -- skipti þá "verðmiðinn" í sjálfu sér engu máli -- hefði hann t.d. mátt verða helmingi hærri, allt vegna "princípsins"?

Þar að auki er algerlega ljóst, að það var ekki bara "erfitt" að áætla þennan kostnað, heldur var einfaldlega ekki lagt út í það að áætla neitt um hann! Það sést t.d. ítrekað í viðtalinu stóra við Bjarna Benediktsson í Morgunblaðinu í fyrradag! Og þetta er m.a. forsenda hinnar snörpu gagnrýni Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur hdl. á utanríkisráðherra í Markaði Fréttablaðsins, sjá http://www.visir.is/politiskt-vodaskot-i-vidskiptathvingun--/article/2015150818987

En hvernig er annars með þetta princíp hennar Unnar Brár -- greiddi hún ekki atkvæði með því að gerður yrði fríverzlunarsamningur við Kína? Hvað varð þá af hinum dýrmætu princípum hennar og annarra þeirra þingmanna, sem styðja þessar aðgerðir ESB og Bandaríkjanna gegn Rússlandi? Eða hvernig skyldu þessir þingmenn vilja refsa Kínverjum fyrir hernám Tíbets? Og af því að þeir tala um mannréttindabrot Rússa í Úkraínu (iðulega án þess að benda á nein ákveðin eða konkret dæmi), þykja þeim 7-10.000 aftökur á ári í Kína (sumar jafnvel fyrir "efnahagslega glæpi") eðlilegar? Og hefur alræðisstjórnin í Peking látið af sínu grimmilega hernámi í Tíbet? Eru ekki fórnarlömbin þar orðin nógu mörghundruð þúsund í mannslífum talin, að ógleymdu öllu ófrelsinu, þvinguðum fósturdeyðingum, ethnískri hreinsun, massífum innflutingi Han-Kínverja, fangelsun allra andófsmanna (Falun Gong t.d.), pyntingum o.fl. ljótu? 

Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm, hvort eigum við þá að slíta viðskiptum við þessa einræðisstjórn í Peking eða draga til baka stuðning okkar við viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn Rússlandi? Getur Unnur Brá Konráðsdóttir svarað því?

Innlegg Unnar Brár um þetta mál í viðtali við Helga Seljan í Vikulokunum í morgun var endurtekið í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, HÉR geta menn hlustað á það (frá 8 mín. 26 sek. til 9 mín. 50 sek.).

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ísland vantar vinnandi hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utanríkisráðherra réttlætti refsiaðgerðir gegn Rússum með EES-samningnum!

Gunnar Bragi Sveinsson sagði 17. marz 2014: 

"Ísland getur á grundvelli EES-samningsins tekið þátt í aðgerðum ESB. Ég tel að Ísland eigi að taka þátt í slíkum aðgerðum og mun ég því eiga lögbundið samráð við utanríkismálanefnd á morgun." Þetta sagði hann í frétt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins -- og hóf þessa málsgrein með orðunum: "Alþjóðasamfélagið þarf að senda skýr skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi." (Fréttabl. í dag, s.8.)
 
Merkilegt: hann vísar til EES-samningsins sem forsendu aðgerðanna í takt við stefnu ESB! Ætli utanríkismálanefnd hafi verið sammála því, að eitthvað í EES-samningnum skuldbindi Ísland til slíks? -- Og hvernig er með þessa utanríkismálanefnd, vinnur hún nógu vel og djúptækt og skipulega að málum?

Það væri fróðlegt að fá afrit af fundargerð utanríkismálanefndar um þetta mál um 18. marz 2014 eða á næsta fundi á eftir, hvort t.d. einhver hafi gert aths. við þetta hjá ráðherranum – eða hvort þeir hafi ekki tekið eftir neinu!

Hefur þjóðin nokkurn tímann verið frædd um, að eitthvað (loðið eða hálf-leynilegt) í EES-samningnum geti lagt svona gífurlegar skyldur á Íslendinga? –– og það margfaldar skyldur, hlutfallslega, á við það sem ESB-þjóðir þurfa að þola!

Í fréttaskýringu Kolbeins Óttarssonar Proppé í Fréttabl. í dag, s.8, kemur fram, að Gunnar Bragi lýsti yfir stuðningi Íslands við þvingunaraðgerðirnar 17. marz 2014 með útgáfu reglugerðar, og sagt að sú ákvörðun byggðist á ákvörðun Evrópuráðsins frá 6. marz, og svo var bætt við þessu ofangreinda um að ákvörðun "Íslands" hafi verið "á grundvelli EES-samningsins".

Hvaða gögn styðja það? Hvað er það í EES-samningnum, sem skyldar okkur til þessara aðgerða? Ef svo íþyngjandi skyldur fylgja þeim samningi, sem geta jafnvel kostað okkur 35-40 milljarða gjaldeyristekjur á ári hverju, er það þá ekki viðbótar-röksemd með því, sem ýmsir telja, að okkur væri hagstæðast að segja upp EES-samningnum?

Við þetta má bæta undirtektum við orð Sig­urðar Inga Jó­hanns­sonar sjáv­ar­út­vegs­ráðherra (sem segist á Mbl.is vilja ræða nýja nálg­un við stjórn­un veiða á upp­sjáv­ar­teg­und­um), að 

"ákveðin ógn fel­st í því ef strand­ríki ná ekki samn­ingi og vax­andi þrýst­ing­ur er, ekki síst í Evr­ópu og þá um leið Evr­ópu­sam­band­inu, um að yfirþjóðlegt vald af ein­hverj­um toga taki jafn­vel yfir stjórn­un fisk­veiða."

Sannarlega er það ekki óskastaða fyrir Ísland að verða sett undir yfirþjóðlegt vald Evrópusambandsins yfir stjórn­un fisk­veiða okkar!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ógn af umræðu um yfirþjóðlegt vald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra og prófessor í hagfræði ráðast á sjávarútveginn með hótunum og niðrandi tali!

Gunn­ar Bragi segir út­gerðar­menn, sem andvígir eru viðskiptastríðinu, taka "eigin­hags­muni fram yfir heild­ar­hags­muni" og að þá væri "rétt að velta því fyr­ir sér hvort þeir væru beztu menn­irn­ir til að fara með auðlind­ina"!!!

Þetta er ekkert minna en HÓTUN ráðherrans, í beinni útsendingu á Sprengisandi, og alls óhafandi af hálfu fulltrúa lýðveldisins.

Ennfremur vitnaði hann í grein eft­ir Pawel Bartoszek í Frétta­blaðinu í gær, las þar m.a.s. orðrétt upp ögrandi loka­orðin (sjá tengil neðar), en þar gerir Bartoszek því skóna, að ef Ísland hætti stuðningi við viðskiptabann á Rússa, þá sé fiskveiðilögsaga okkar ekki lengur örugg (eins og aðrir en Landhelgisgæzlan hafi gætt hennar!), aðrar þjóðir séu þá ekki reiðubúnar að tryggja, að við fáum áfram að eiga okk­ar fisk í friði, og Bartoszek endar á orðunum: "Við get­um ekki ætl­ast til að þær geri það um­hugs­un­ar­laust ef við sjálf erum ekki til í að færa nein­ar fórn­ir"! Og fórnirnar þær eru þó a.m.k. fimmfalt þungbærari en á nokkra aðra þjóð á Evrópska efnahagssvæðinu!!!

Einnig þessi ummæli skriffinnsins, sem ráðherrann vitnaði svo hrifinn til (sagði þetta "kjarna máls­ins"!), eru bein hótun um harðar refsiaðgerðir bannsinna, hér af hálfu ESB-ríkja, en í fyrri ummælum ráðherrans var um að ræða hótun af hálfu hans sjálfs eða ríkisstjórnarinnar gegn útgerðarmönnum.

Hefur ráðherrann ekki misst öll tök á málum? Er Sigmundi Davíð og samþingmönnum hans í alvöru óhætt að hafa svo óvarkáran ráðherra við stjórnartaum, með ómæld áhrif á atvinnu yfir þúsund sjómanna og reiðubúinn að fórna árum saman 35-40 milljarða gjaldeyristekjum landsins árlega eins og ekkert sé? Og af hvaða réttlætanlegum ástæðum?

En það vantar ekki, að utanríkisráðherrann fljótfæri líti stórt á sig:

Gunn­ar Bragi vék einnig orðum sín­um að Gunnþóri Ingvars­syni, for­stjóra Síld­ar­vinnsl­unn­ar, sem hef­ur gagn­rýnt ís­lensk stjórn­völd harðlega og bent á að þau eigi að gæta hlut­leys­is í mál­inu og ein­beita sér að því að gæta hags­muna ís­lenskra fyr­ir­tækja.

Ut­an­rík­is­ráðherra sakaði hann um óheiðarleg­an mál­flutn­ing og hvatti Síld­ar­vinnsl­una til þess að taka sér eng­an arð á aðal­fundi sín­um í næstu viku til að tak­ast á við þá al­var­legu stöðu sem er kom­in upp. (Mbl.is)

Hér ræðst Gunnar Bragi af hörku gegn andmælum Gunnþórs gegn hinu stór­skaðlega viðskiptabanni, snuprar hann og fer að segja honum fyrir verkum um hvernig fyrirtæki hans skuli haga aðalfundagjörðum sínum! Utanríkis­ráð­herrann gerði jafnframt lítið úr útflytj­end­um, sagði þá "fyrst og fremst að hugsa um næsta árs­reikn­ing. Hann bað þá um að sýna sam­fé­lags­lega ábyrgð í þessu máli"! En hvar er sam­fé­lags­leg ábyrgð ráðherrans sjálfs í málinu? Eiga atvinnusviptir sjómenn að sækja sárabætur í vasa hans?

Þórólfs þáttur Matthíassonar

Vinur undirritaðs hlýddi á framlag Þórólfs prófessors Matthíassonar á Stöð 2 í gærkvöldi, þar sem hann með lítilli virðingu talaði niður til sjávarútvegsins og nauðsynjar hans á makrílveiðum. "Guð minn góður, að þessi maður skuli vera hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands!" sagði vinurinn. Þórólfur hefði gert lítið úr viðskiptabanninu fyrir sjávarútveginn, og er hann þó sífellt kvartandi yfir margfalt minni útgjöldum þjóðarbúsins vegna landbúnaðarmála. "Og hann gleymir allri loðnunni!" kvað vinurinn, þ.e.a.s. loðnuútflutningi til Rússlands, og við má bæta síld, þorski o.fl. fisktegundum. En ekki taldi hann við miklu að búast af þessum hagfræðingi til að ráða okkur heilt, enda vildi það loða við hagfræðina að vera "eftirávísindi" fremur en að hún hafi komið okkur til hjálpar í stefnumörkun stórmála.

Sannarlega er undarlegt að skoða þetta viðtal við Þórólf á Stöð 2 (fyrsta viðmælanda þar í gærkvöldi), en þeim mun betra að hlusta þar á snjöll mótrök Jens Garðars Helgasonar, formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (hlustið!). Fjarri fari því, telur Jens, að atvinnugreinin geti bara tekið því að hverfa aftur til sama ástands og var fyrir okkar makrílveiðar, það væri sambærilegt og að ferðaþjónustan þyrfti að taka á sig fækkun ferðamanna til jafns við þann miklu minni ferðamannastraum, sem þá var hingað. (Reyndar mun lokast á ferðamenn hingað frá Rússlandi vegna bannsins, en þeir hafa eytt hér einna mestum gjaldeyri allra ferðamanna!). 

Mikla fjárfestingu segir Jens Garðar hafa verið lagða í tæknibúnað vegna makrílveiðanna og viðauki þeirra veiða frá 2009 hafi því langt frá því verið útlátalaus. Þá nefndi hann, að 80% af frystri loðnu fer á Rússlands­markaðinn. Þar verði mörg hundruð störf í hættu, því að mjög erfitt verði að finna aðra markaði fyrir þessar loðnuafurðir. Þetta verði mjög þungt högg á staði sem eru með uppsjávarfrystihús, fyrir Fáskrúðsfjörð, Vopnafjörð, Neskaupsstað, Vestmannaeyjar o.fl. útgerðarstaði, þar sem þau verði á litlum afköstum og ekki mikillar driftar að vænta þar á loðnuvertíðinni, ef loðnan fer mestöll í bræðslu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Útgerðin sýni samfélagslega ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Ben. tvístígandi gagnvart viðskipta­bann­inu, þó á skárri braut en hinir ráðherrarnir

Bjarni Ben. virðist vart vita í hvorn fótinn hann á að stíga, Íslend­ingar séu "varla eiginlegir þátttak­endur" í viðskiptastríði ESB gegn Rússum, samt tekur hann fullan þátt í því!

Það er auðvitað laukrétt athugað, að Íslendingar vilja ekki taka þátt í þessu, það sést í könnunum, en ríkisstjórnin er bara á öðru máli eða hefur verið hingað til.

Loksins rofar þó til, því að Bjarni Benediktsson virðist vera á því að endurskoða þessi mál frá grunni. Þáttur í því er að koma á fót sam­ráðshópi með t.d. það verk­efni að "fá ýt­ar­leg­ar upp­lýs­ing­ar um eðli inn­flutn­ings­banns Rússa og að eiga sam­skipti við hags­munaaðila."

Þessi frétt í hádeginu um samráðshóp með fulltrúum sjávarútvegsins kom mörgum eflaust ankannalega fyrir sjónir, því að þar er verið að gera það eftir á, sem átti að tilheyra sjálfri byrjun málsins fyrir nokkrum árum! Vitaskuld er þetta dæmi um lélegan undirbúning af hálfu stjórnvalda, sem létu svo Evrópusambandið og Bandaríkin ýta sér út í þetta.

Hér verður komið inn á ýmis atriði í þessu langa Mbl.is-viðtali við Bjarna. Fyrst skal þó notað tækifærið til að leiðrétta villu í málfutningi hans. Hann segir: „Við erum hér að tala um 5% af út­flutn­ings­verðmæt­um okk­ar í vör­um, og það er ákveðið áfall fyr­ir þjóðarbúið í heild sinni." En hlutfallstalan er í raun hærri, sennilega nálægt 7,3% af út­flutn­ings­verðmæt­um okk­ar í vör­um. Þetta virðist ljóst af upplýsingum Kolbeins Árnason, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, viðtali við Rúv í dag. Þar segir hann:

„Við áætlum að 80% af því sem fer í gegn Klaipéda í Litháen fari til Rússlands og um 40% af því sem fer í gegnum Rotterdam í Hollandi,“ segir Kolbeinn. Samkvæmt því fari því um 11 milljarðar [til Rússlands] í gegnum aðrar hafnir en rússneskar, en alls voru sjávarafurðir að andvirði 24 milljarða fluttar beint þangað á síðasta ári."

Heildarútflutningur sjávarafurða til Rússlands í fyrra hefur því verið um 35 milljarðar króna að verðmæti. Þeim mun þyngra áfall verður þetta viðskiptabann Rússa.

Spurður hvort Bjarna fynd­ist koma til greina, að for­set­inn nýtti sam­bönd sín við ráðamenn í Rússlandi til að greiða fyr­ir mál­um, sagðist fjár­málaráðherrann ekki vilja úti­loka neitt í þeim efn­um:

  • „For­sæt­is­ráðherra mun eiga sam­skipti, ut­an­rík­is­ráðherra mun eiga sam­skipti; við mun­um eft­ir öll­um leiðum reyna að koma okk­ar sjón­ar­miðum á fram­færi ..."

Ráðherrann á reyndar að vita, að það yrði ekkert gagn að Gunnari Braga í þessu efni. --Spurður hvort stjórn­völd gætu með ein­hverju móti komið til móts við út­vegs­fyr­ir­tæk­in, svarar Bjarni:

„Ég held að það sé lang­mik­il­væg­ast að við ger­um okk­ur grein fyr­ir um­fang­inu á þess­um tíma­punkti og sjá­um hvernig úr þessu spil­ast í fram­hald­inu, m.a. með mögu­leik­ann á að finna nýja markaði og koma þess­um afurðum í verð. Það er kannski svona fyrsta skrefið.“

En það er alveg ljóst,að hér er við mjög ramman reip að draga, þegar ekki aðeins Rússlands-, heldur og Nígeríu- og Úkraínumarkaðirnir fyrir makríl hafa hrunið. Ennfremur hefur heimsmarkaðsverð á makríl til manneldis lækkað verulega, jafnvel svo, að verð á lýsi og mjöli, sem úr makríl er hægt að vinna, hefur vegna verðhækkana nálgast þetta verð á nánast ferskum makríl. En ekki væri Evrópusambandið ginnkeypt fyrir því að leyfa útflutning á þessum úrvinnsluvörum til sinna aðildarríkja, því að það bannar í þröngsýni sinni kaup á þeim nema einungis á því möli sem unnið er úr afskorningum af makríl.

Réttilega mælir Bjarni hér:

„Í fyrsta lagi: það að lenda á bann­lista Rússa vegna inn­flutnings á mat­væl­um til Rúss­lands er miklu al­var­legra mál fyr­ir Íslend­inga en ein­stök aðild­ar­ríki Evr­ópu­sam­bands­ins eða Evr­ópu­sam­bandið í heild. Og þar mun­ar mjög miklu. Í öðru lagi; ef stjórn­völd á Íslandi myndu fara að reyna að lina erfiðleika þeirra sem hér eiga í hlut, þá væru það miklu þyngri byrðar, í fyrsta lagi útaf þessu sem ég nefndi, og í öðru lagi þá erum við bara ein­ir til að axla þær byrðar. Það er í sjálfu sér létt verk fyr­ir Evr­ópu­sam­bandið að deila úr þeim sjóðum sem þeir hafa til ráðstöf­un­ar, og ef við lít­um svo til annarra þeirra sem eru á list­an­um, t.d. Banda­ríkja­mann, þá skipt­ir það þá í sjálfu sér engu máli að vera á bann­lista Rússa, þannig að þeir þurfa svo sem ekki mikl­ar áhyggj­ur að hafa af því.“

Hér fer hann svo út í að benda með sínum hætti á afkáraleik þess, að Íslendingar séu að taka þátt í þessu viðskiptabanni, ekki með því að þrengja að stjórnvöldum Rússa hernaðarlega, heldur alþýðu manna þar:

„Viðskiptaþving­an­ir Evr­ópu­sam­bands­ins hafa af­skap­lega tak­markað raun­hæft gildi gagn­vart Íslandi. Eðli viðskiptaþving­an­anna er í raun og veru með þeim hætti að það er óraun­hæft að tala um að Ísland sé eig­in­leg­ur þátt­tak­andi. Segj­um t.d. í því að banna sölu her­gagna til Rúss­lands. Við erum ekki í því að miðla eða fram­leiða her­gögn. En hins veg­ar, á hinn bóg­inn, erum við að verða hlut­falls­lega verst úr þeim aðgerðum sem Rúss­ar beita til að bregðast við viðskiptaþving­un­um og þetta er sjón­ar­mið sem ég held að sé mik­il­vægt að heyr­ist.“

Með hliðsjón af þessum ábendingum Bjarna mætti spyrja, hvers vegna Evrópu­sambandinu sé akkur í því að fá Rússa til að drýgja þá gömlu, kapítalísku og oftlega fordæmdu stórsynd að eyðileggja matvæli í massavís -- áður var t.d. kornuppskera í Bandaríkjunum brennd, jafnvel á kreppuárunum, þegar sumt fólk svalt, en nú að keyra á rússneskum ýtum yfir ostasendingar frá Vestur-Evrópu!

Í eftirfarandi klausu slær Bjarni í og úr um stefnu sína:

Bjarni sagði fulla ástæðu til að staldra við og skoða það í stóra sam­heng­inu með hvaða hætti aðgerðir á borð við viðskiptaþving­an­irn­ar gegn Rúss­um væru tekn­ar upp og inn­leidd­ar. Hann sagði hins veg­ar mikla sam­stöðu á þingi um þær aðgerðir sem nú stæðu yfir gegn Rúss­um og að eng­inn þyrfti að ef­ast um stefnu Íslands hvað þær varðaði. (Mbl.is)

Þarna virtist fyrst sem Bjarni væri hlynntur allsherjar-endurskoðun og uppstokkun á þeirri viðskiptaþvinganastefnu, sem upp hafði verið tekin (og nýlega framlengd) hér á landi, en svo segir hann allt í einu í næsta orði, að mikil sam­staða sé á þingi um þær aðgerðir sem nú standa yfir gegn Rúss­um "og að eng­inn þyrfti að ef­ast um stefnu Íslands hvað þær varðaði"!! --Til lítils var því að gera sér vonir um endurbættan Bjarna Benediktsson í þessu máli!

Gunnar Bragi Sveinsson hafði rætt það, að Evrópusambandið væri með 18% toll á innflutning makríls frá Íslandi og gefið til kynna, að biðja mætti um niðurfellingu hans, en það hljómaði eins og þar talaði beiningamaður. Bjarni kemur inn á þetta í svari sínu við spurningu fréttamanns Mbl.is: "En kæmi til greina að semja við Evr­ópu­sam­bandið um t.d. tolla­lækk­an­ir fyr­ir þess­ar afurðir sem ekki fara inn á Rúss­lands­markað?" --Svar Bjarna er fróðlegt um afstöðu hans:

„Ja, eig­um við ekki að segja að það skjóti a.m.k. skökku við að við still­um okk­ur upp með banda­mönn­um okk­ar í þessu máli, sem á end­an­um hef­ur þær af­leiðing­ar að við fáum ekki markaði í Rússlandi eins og t.d. fyr­ir mak­ríl­inn. Og á sama tíma erum við með 18% toll inn í Evr­ópu­sam­bandið fyr­ir mak­ríl, og stönd­um reynd­ar í stríði við þá um rétt okk­ar til að stunda þær veiðar sem við telj­um eðli­leg­ar. Eitt­hvað verður und­an að láta þegar svona staða kem­ur upp.“

Vonandi verður það þátttakan í bannstefnu ESB, viðskiptastríði þess við Rússland, sem fær "undan að láta" í þessum efnum og það sem fyrst. Og þrátt fyrir nóg verkefni á viðskiptasviðinu ættu íslenzk stjórnvöld líka að ganga fast eftir því að fá frá þessu sama Evrópusambandi einhverjar sannanir fyrir því, að Rússaher hafi framið stríðsglæpi í Úkraínu, eitthvað sem réttlæti svona hörkulegar aðgerðir gegn Rússlandi. Naumast verður Evrópusambandinu stætt á því að halda uppi endalausu viðskiptabanni á Rússland vegna Krímskaga-málsins, því að vitaskuld munu stjórnvöld í Moskvu aldrei láta svínbeygjast til að "skila" Krímskaga til Úkraínu, þar sem hann á ekki í raun heima. Ágætur prestur tjáði sig um það mál á Facebók sinni í dag:
 
"Það að láta sér detta í hug að Rússar létu Krím af hendi eins og ekkert væri er pólitísk bilun."
 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Íslendingar varla eiginlegir þátttakendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beint flug til að fylgjast vel með nýjustu ESB-línunni; unnið þvert gegn þjóðarvilja með Rússaandstöðu

Nú líður þeim, sem eru með hjartað í Brussel, trúlega snöggtum betur að geta skroppið þangað í beinu flugi þrisvar í viku og náð sér í nýjustu línuna, t.d. um Úkraínu sem er efst á óskalista Evrópusambandsins um lönd sem það ágirnist.

Sannarlega lá sú fulla meining að baki ummælum forseta sjálfs ráðherraráðs Evrópusambandsins, Hermans van Rompuy, þegar hann sagði opinberlega: "Úkraína á heima í Evrópusambandinu!" En með því var tónninn gefinn um ásælni ESB við yfirstjórnina í Kænugarði og valdarán framið ekki löngu síðar, eftir vel borguð mótmæli á aðaltorginu þar.

Og svo er utanríkisráðherra Íslands farinn að þjóna þessu Evrópusambandi í ætlunarverki þess, þvert gegn vilja íslenzku þjóðarinnar! Og ekki aðeins hann, heldur öll utanríkismálanefnd með honum, þar með taldir áheyrnarfulltrúar "Bjartrar framtíðar" og PÍRATA, sem í þessu máli eru ekki aðeins að þókknast Brussel-mönnum, heldur einnig Bandaríkjastjórn. Sér er nú hvert sjálfstæðið í pólitík þessa yngsta flokks og umhugsun um að standa með þjóðarvilja!

Gjá hefur myndazt milli þjóðar og þings í þessu viðskiptabanns-máli. Einungis einn þingmaður hefur hingað til tekið opinberlega afstöðu gegn viðskipta­þvingunum við Rússland: Vestmannaeyingurinn Ásmundur Friðriksson (D).   En hvað vill nefndarmaðurinn Frosti Sigurjónsson (B) segja um málið? Sér hann ekki, að hér á Framsóknarflokkurinn að taka afstöðu með þjóðarviljanum, eins og hann gerði í Icesave-málinu?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Brussel árið um kring
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfuðfjandi þjóðarbúsins er ekki í Moskvu, heldur miklu fremur í Brussel

ESB beitti sér margfaldlega og af hörkulegri ófyrirleitni gegn okkur í Icesave-málinu. Frá upphafi reyndi það að hindra makrílveiðar okkar, lét strax eins og það hefði forræði yfir makríl í íslenzkri efnahagslögsögu! -- vildi bara "leyfa" okkur 2–3% veiðanna í N-Atlantshafi, en mætti fullri andstöðu Jóns Bjarnasonar ráðherra (sem ESB tókst kannski seinna að hrekja úr ráðherrastóli) og veifaði hótun um viðskipta- og löndunarbann gegn okkur (og beitti því gegn Færey­ingum)! -- en varð svo vegna staðfestu okkar að sætta sig við að "bjóða" okkur 7% og seinna rúml. 11% veiða stofnsins og loks að horfa upp á okkur veiða enn meira.

Nú er Evrópusambandið að reyna að ná makrílveiðum okkar niður í næstum ekki neitt á ný! -- og þetta kemur líka niður á annarri fisksölu héðan til Rússlands -- með stuðningi okkar undarlega illa áttuðu ríkisstjórnar og Sexflokksins alls! (Pírata og BF meðtalinna). Hvort er það hlutverk þessara stjórnmálaflokka að vinna fyrir þjóðarhagsmuni gegn þeim?

Friðsamleg hertaka Krímskagans er sízt alvarlegra mál en loftárásir Frakka á Líbýu. Það var stjórnarskrárbrot hjá Nikita Khrústsjëv, þegar hann "gaf" Úkraínu Krímskagann 1954 án þess að spyrja rússneska, yfirgnæfandi meirihlutann þar eins eða neins. Ætlar ESB-vinurinn Gunnar Bragi Sveinsson að styðja viðskiptabann á Rússland vegna þessa út sína þingmennskutíð?! Býst hann í alvöru við, að Rússar "skili" Krímskaganum, þótt mikill meirihluti íbúa þar vilji það ekki?!

Og þarf Gunnar Bragi í alvöru að þjóna óskum Bandaríkjanna og ESB með því að reyna að draga hér úr hvalveiðum? Hvað er hann að skipta sér af málaflokki Sigurðar Inga Jóhannssonar? Menn hafa skáldað það upp hér, að það sé enginn hagnaður af hvalveiðum, en ekki aðeins gefa þær af sér drjúga skatta (fyrirtækja og vel launaðra manna), heldur var tapið í fyrra á Hval hf. ekki nema 87 milljónir króna, en yfir tveggja milljarða króna verðmæti í birgðum fyrirtækisins, og þær birgðir eru nú í flutningaskipi á leið norðaustur fyrir Síberíu í sölu til Japans.

PS. Þótt gúglað sé eftir nýlegum fréttum af þessu máli á Mbl.is, kemur ekkert í ljós, þótt leitað sé að "Rúss", "makríl" eða "viðskipta", ekkert nema ýmist óviðkomandi efni eða 1) vefgrein Jóns Bjarnasonar, fv. ráðherra, um málið og 2) ensk frétt á Iceland Monitor, sem EKKI er hægt að blogga við! Er þetta mál svona mikið feimnis- og launungarmál fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Ekkert er minnzt á það í leiðurum Mbl. í dag. Af sjálfstæðismönnum veit undirritaður aðeins um andstöðu fjögurra manna við þetta viðskiptabann: Ásmundar Friðrikssonar alþm., Jóns Magnússonar hrl., fv. alþm., Ívars Pálssonar viðskiptafræðings og Gústafs Níelssonar -- og mæla má hér með tilvísuðum tenglum á greinar Jónanna tveggja og ekki sízt Ívars).

Jón Valur Jensson.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband